Heima er bezt - 01.03.1985, Blaðsíða 28
RAFN JÓNSSON:
PERLUR í MOLD
4. HLUTI
Á mánudaginn kom Fanney og var talsvert niðri fyrir.
„Ég hef frétt, að stelpuskjátan sé farin að vinna hér,“ hóf
hún máls. Hún gaf sér ekki tíma til að heilsa eða bjóða
góðan dag, hvað þá meira.
„Vinna? Ég get alls ekki kallað það að vinna, þó hún geri
smásnúninga hér innan bæjar,“ ansaði Ranka, „enda er
hún enginn bógur til þess, — ekki ennþá. En vonandi lagast
þetta með timanum,“ bætti hún við.
„Henni er alveg óhætt að fara að drauja sér heim. Búin
að hvíla sig nóg, held ég, enda ekki að sjá, að mikið sé að
henni. Feit og pattaraleg af iðjuleysinu," svaraði Fanney.
Ragnheiður horfði hissa á nágrannakonu sína um stund
og svaraði ekki strax.
„Þú gerir þér vonandi ljóst, að hún hefur legið hér slös-
>uð,“ sagði hún. „Ég þarf ábyggilega ekki að kynna þann,
sem valdur er að verknaðinum, því sjálfsagt veiztu manna
bezt deili á honum. Einhverjum hefði nú dottið í hug að
hringja og spyrjast fyrir um líðan hennar eða þá að skreppa
hingað. Ekki er svo langt milli bæjanna. Nei. Ekki svo
mikið sem hósti eða stuna hefur heyrst frá Hól þennan
tíma. Það sannar best, að samviskan er ekki sem hreinust.“
„Ég kom ekki hingað í dag til þess að munnhöggvast við
geðbilað fólk, því það ertu, að halda því fram, að mínir
krakkar hafi slasað þetta fífl. Hún getur bara komið heim,
því þar á hún að vera. Henni var komið fyrir hjá okkur, en
ekki hér. Hún getur tekið snúninga af fólkinu. Þórður hefur
orðið að sækja kýrnar og svoleiðis, síðan hún fór hingað.“
„Hissa er ég á bíræfni þinni. Heldur þú virkilega, að
einhver trúi þessari vitleysu?“ spurði Ranka. „Það sáu líka
allir, er viðstaddir voru, að Þórður réðist á hana og mis-
þyrmdi henni.“
Rétt í þessu renndi læknirinn heim að dyrunum og gekk
inn að vanda. Honum brá sýnilega, er hann sá, hver kom-
inn var.
„Er hún komin til að sækja Sóley?“ hvíslaði hann að
Rönku.
„Það skilst mér,“ svaraði hún, „en ég fæ ekki séð, að hún
eigi nokkurt erindi þangað strax.“
Hann var óvanalega lengi að athuga sjúklinginn í þetta
sinn. Ranka heyrði, að þau töluðu eitthvað saman, en
greindi ekki orðaskil. Hún hellti upp á könnuna að nýju og
lagði þrenn bollapör á borðið.
„Nei, takk. Ég ætla ekki að drekka kaffi hér,“ sagði
Fanney og setti upp merkissvip.
„Þér er það velkomið, ef þú vilt, en hins vegar var enginn
farinn að bjóða þér það. Ég ætlaði honum Bensa þennan
bolla,“ ansaði Ranka tómlátlega.
„Jæja. Hvar er stelpan? Ég er að fara. Hún kemur með
mér,“ og Fanney stóð á fætur. Hún sneri sér næst að
lækninum, sem kominn var fram, og spurði smjaðurslega,
hvort Sóley væri ekki vinnufær.
„Vinnufær? Hvað eigið þér við?“ spurði hann.
„Ég á við svona venjulega snúninga innan bæjar,“ svar-
aði Hólsfrúin og kveikti sér í sigarettu.
Bjarni læknir svaraði henni ekki strax og virtist vera að
hugsa málið, en svo fór hann að hlæja.
„Já, því ekki það? Svona létta smásnúninga. Já, já. Við
skulum reyna. Ekkert gerir það til. En hún verður að vera
tilbúin að fara í rannsókn eftir tvo daga. Ég hef ekki að-
stöðu eða tæki til að framkvæma myndatökur,“ sagði hann.
Sóley kallaði Rönku á eintal, áður en hún fór.
„Ég verð ekki nema þrjá daga enn á Hól, enda er það
mér nóg — og reyndar fyrir alla. Ég hefði helzt ekki viljað
fara þangað aftur, en ég kemst ekki hjá því. Fanney er slæm
manneskja og Þórður líka. Þau eru fantar. Það verður Jón
gamli, sem bjargar mér.“
Svo féll hún grátandi í faðm Rönku.
„Sóley mín. Ég veit, að þú ert gædd hæfileikum, sem
fáum eru gefnir, og sérð fyrir það, sem á eftir að koma fram.
Slíku verður ekki afstýrt — það geri ég mér ljóst —, en fólk
lítur á þig sem eitthvert viðundur og álítur, að þú sér bara
að ljúga þessu til að vekja á þér athygli, — segir þig
heimskingja og allt þar fram eftirgötunum. Það áttar sig
ekki á, að hér er um raunveruleika að ræða. Það er gert gys
með svona lagað og hlegið að þeim einstaklingum, er hafa
eitthvað fram yfir fjöldann.
104 Heima er bezl