Heima er bezt - 01.12.1986, Qupperneq 8
BOLLI GÚSTAVSSON, LAUFÁSI
Gagnrýnandinn
í fyrsta hefti Heimdallar. janúar 1884, eryfirlit um helstu
viðburði á árinu 1883. Þar segir m.a.: „3. sept. dó mesti
snillingur Rússa. Ivan Turgenjew, skáldið heimsfræga, í
Bugival við París. Lík hans var flutt til Rússlands. og má
nokkuð af því marka. hvernig yfirvöld Rússa eru, að þau
gjörðu allt, sem þau gátu til þess að bæla niður virðing-
armerki þau, sem þjóðin ætlaði að sýna honum liðnum.
Hann var allt of frjálslyndur. allt of göfuglyndur fyrir
rússnesk yfirvöld.“
t mánaðarblaðinu „Heimdalli", sem út kom árið 1884 í Kaup-
mannahöfn og ritstýrt var af Bimi Bjarnarsyni cand. jur., var lögð
áhersla á kynningu þess, sem þá var efst á baugi í listum og
menningarmálum. Sá háttur var þá m.a. hafður á, að segja frá
víðkunnum skáldum og rithöfundum og birta síðan þýðingar úr
verkum þeirra og gjarnan fylgdi með mynd af listamanninum. t
öðru hefti ritsins hefur Verðandimaðurinn, Bertel E. Ó. Þorleifs-
son, ritgerð, sem hann samdi um rússneska skáldið, Ivan Tur-
genjew, er þá var nýlega látinn. En Bertel virðist þó aldrei hafa
lokið því verki, a.m.k. birtist framhaldið ekki í Heimdalli. Þá
hefur Gísli stúdent Guðmundsson þýtt langan þátt úr „Dagbók
veiðimannsins" eftir Turgenjew og birtir hann í sama heftinu
ásamt örstuttu broti úr ,,Senilia“. Það var sú bók, sem Turgenjew
skrifaði seinast á ævi sinni. Bertel kveðst ekki fallast á að þýða
heiti hennar „Elliglöp", heldur vilji hann nefna hana „Öldungs-
mál“, því það sannast þar, sem oftar, „að oft er það gott, sem
gamlir kveða." Gísli nefndi þennan stutta kafla Aulann. Það
virðist mega ráða af honum, að einhvern tíma hafi skáldið orðið
að sæta gagnrýni, sem því var ekki að skapi. En Turgenjew var
bersögull í skáldskap, eins og Bertel bendir á í grein sinni „og nafn
hans hefur lengi verið nefnt, sem hins mesta og besta realista."
Hér birtist þýðing Gísla:
Það var einu sinni auli nokkur, sem ól aldur sinn í rósemi og
ánægju þangað til hann loks komst á snoðir um, að hann
væri álitinn allramesti nautshaus.
Þetta hafði mikil áhrif á hann og gjörðist hann mjög
áhyggjufullur; fór hann að velta því fyrir sjer, hvernig hann
gæti bælt niður orðróm þennan.
Skyndilega rann upp ljós í skynsemi hans, þótt vesöl
væri; honum datt ráð í hug, og hann beitti því tafarlaust.
Hann mætti kunningja sínum á götu; kunninginn hrós-
aði frægum málara, en þá hrópaði aulinn:
„Hvað er þetta; veiztu ekki að myndum hans hefur verið
fyrir löngu fleygt í ruslakistuna. Það ættirðu þó að vita;
hamingjan hjálpi okkur, hvað þú ert langt á eptir tíman-
um.“
Kunninginn skelfdist og varð þegar samþykkur aulan-
um.
„Jeg hef lesið afbragðs-bók í dag,“ mælti annar af
kunningjum hans.
„Nú er jeg hreint hissa; þú mátt sannarlega blygðast
þín,“ sagði aulinn, „það eru þó allir sammála um, að það
sje harla lítilfjörleg bók og það veiztu ekki. Svo þú ert þá
svei mjer líka langt á eptir tímanum."
Þessi maður varð einnig smeikur og ljet sannfærast.
„Það er þó sannur ágætismaður, hann Jón Jónsson, vinur
minn — það eru fáir hans líkar,“ sagði sá þriðji við aulann.
„Guð hjálpi þjer; það er þó alkunnugt, að hann er mesti
þorpari,“ mælti aulinn, „hann hefur komið öllum ættingj-
um sínum á húsganginn. Það vita bæði guð og menn.
Framhaldá blaðsíðu 437
Þarmig líiur forsíða HeimdaUar út í febrúar 1884. Myndin er af
rússneska skáldinu, Ivan Turgen/ew —
420 Heima er bezt