Heima er bezt


Heima er bezt - 01.12.1986, Blaðsíða 29

Heima er bezt - 01.12.1986, Blaðsíða 29
alltaf aflið á bak og þær hvöttu menn sína að láta ekki sitt eftir liggja um framlög til brúarinnar, ef til kæmi: „En þá kom hitt til álita: hvernig var þetta mögulegt? Enginn okkar dalbúa hafði komið þar nálægt, sem brú- arsmíð hafði fram gengið", skrifar séra Vilhjálmur. „Við hugðum það allmikið mannvirki að brúa læk, hvað þá aðra eins elfu og Jökulsá var. Raunar vissum við, að nokkrar ár höfðu verið brúaðar í sýslunni, en það var fyrir fé úr Brúarsjóði. Þann sjóð höfðu sýslubúar stofnað árið 1874, að ráðum föður míns, Eggerts Briem sýslu- manns, til minningar um 1000 ára byggð í landinu, en þær brýr voru hver um sig minni mannvirki en þessi brú mundi verða, og svo voru þær á fjölfarnari leiðum, allar á sýsluvegum. Við gerðum okkur því enga von um, að sýslunefnd mundi fallast á, að koma upp stórbrú inni í afdal, þar sem fáir hefðu hennar not. En áhuginn var vaknaður og mannúðartilfinningin gagnvart skepnun- um rak vel á eftir“. Á sunnudögum eftir messu var mikið rætt um brúar- málið í baðstofunni í Goðdölum. Þetta var mál Vestdæla, 7 bæja austan ár, og svo prestsins í Goðdölum, sem þurfti yfir ána að sækja vegna prestsþjónustu á Ábæ, auk bæjanna í Vesturdal. Brúin var þeirra mál, en ekki Svartdæla né sveitarmanna, en þeir voru málinu vinveittir. Niðurstaðan af allri umræðunni varð sú að biðja um framlag úr Brúarsjóði fyrir efni í brúna og kaupi yfirsmiðs. Allt annað vildu Vestdælir leggja til og kosta, alla flutninga, byggingu brúarstöpla, og smíði brúarinnar með yfirsmið. Margir lagtækir menn og smiðir voru í sókninni, eins og Þórður Pálsson bóndi í Breiðargerði. Afráðið var að séra Vilhjálmur færi á fund sýslunefndarmanns Ólafs Briem á Álfgeirsvöllum. Ólafur Briem tók vel málaleitun bróður síns. Hann sagði hiklaust, að málið mundi fá góðan byr í sýslunefndinni. „En,“ sagði hann, „eruð þið Vestdælir ekki að reisa ykkur hurðarás um öxl, með því að ráðast í þetta, svo fámennir sem þið eruð?“ Séra Vilhjálmur svaraði: „Ég sagði honum aftur á móti, að nú hefðum við talað hver í annan þann áhuga og kjark, að ekki væri unnt að telja okkur hughvarf. Næsta sunnudag gerði ég í mið- baðstofunni heyrinkunn erindislok mín. Varð þá fögn- uður mikill, því allir vissu, að í sýslunefndinni var því máli borgið, sem Ólafur veitti lið. Fagnaðaraldan náði fljótlega inn í austurhúsið og kom mörg konan fram til þess að lýsa yfir gleði sinni. Enda var brúarmálið kon- unum ekki síður hjartfólgið en mönnum þeirra....“ Á síðasta fjórðungi 19. aldar voru margar brýr byggðar í Skagafjarðarsýslu og voru Skagfirðingar á undan öðrum héruðum í þeim efnum. Árið 1875 var byggð brú á Gönguskarðsá, 1880 á Kolbeinsdalsá, 1881 á Valagilsá, 1883 á Hjaltadalsá. 1887 á Grafará og 1890 á Hofsá hjá Hofsósi. Þessar brýr voru ekki stórar, 20 til 30 álnir á miíli stöpla, og kostnaður frá 600 upp í 1400 kr. á hverja brú og líklega er það sá kostnaður, sem greiddur var úr opinberum sjóðum en ekki gjafavinna heimamanna, sem alltaf var nokkur. Næst var ráðist í það stórræði að brúa Héraðsvötn austan Hegraness. Það stóð yfir 1894 og 1895. Þetta var timburbrú. Hún var smíðuð með nýju fyrirkomulagi, að brúin, sem er alls 130 álnir á lengd, hvílir á tréstólpúm, sem reknir eru niður í Vatnafarveginn. Þetta fyrirkomulag hef- ur þótt vel gefast og þykir einkum hentugt á lygnum vötn- um, er renna á breiðum söndum, eins og Héraðsvötn, eftir að þau kvíslast um Hegranesið. Lokið var byggingu brúarinnar 8. mars 1895 og kostaði þá tæpar 8 þúsund krónur. Þar af voru 5 þús. kr. greiddar úr Landssjóði. Árið 1896 var brúin byggð á Jökulsá-Vestari og sama árið brú á Fljótaá í Austur-Fljótum og byggðu heimamenn hana eftir loforði um greiðslu kostnaðar eftir fjögur ár. Árið 1897 var byggð brú á Ytri-Kotaá og á sama ári eða því næsta á Norðurá, en sú brú hrundi árið 1900. Við flestar þessar brýr var gjafavinna, frá sveitarfélögum og einstök- um mönnum. Greiðslum til Brúarsjóðs var jafnað niður á hreppana. mismunandi háum, eftir því, hve mikið gagn þessi eða hinn hreppurinn hafði af þeirri brú, sem byggð var. Gjaldið til Brúarsjóðs var stundum 3 aurar á hvert jarðarhundrað og lausafjárhundrað og stundum hærra. Að greiða þetta gjald í Brúarsjóð var ekki lögskylda og gátu hreppsnefndir því neitað að greiða það. Þá verður aftur vikið að því, er séra Vilhjálmur skrifar um brúarmálið: „Þegar víst þótti, að sýslunefndin yrði við beiðni okkar og allt virtist í bezta gengi, komu örðugleikar til sög- unnar. Hreppsnefndin vann sem einn maður að því, að ónýta öll okkar ráð í þessu máli. Hún reyndi með háð- glósum og spotti að gera okkur hlægilega fyrir þessar vonlausu brúargrillur. Við vorum nefndir skýjaglópar og annað þvílíkt. En við létum þetta ekkert á okkur fá. Eitt sinn kom oddvitinn inn í dalinn. Aðalerindið reyndist vera það, að telja mönnum hughvarf frá því að ráðast í þessa vitleysu. Meðal annars sagði hann: „Þegar þið eruð komnir á höfuðið, hvað hafið þið þá við brú að gera?“ En Vestdælir svöruðu: „Þegar við erum orðnir allslausir og hver dróg undan okkur tekin, þurfum við hvað helzt á brúnni að halda, svo við getum leitað til hreppsnefndarinnar að biðja hana ásjár.“ Þegar vel- meintar leiðbeiningar oddvitans höfðu engin áhrif, gaf hann að lokum þær upplýsingar, að öllum leiðum yrði lokað fyrir okkur að hafa fram okkar mál, því hrepps- nefndin hefði ákveðið, að skrifa sýslumanni og segja honum að spara sér það ómak, að reikna út brúarskatt á hreppsbúa, því hann yrði ekki greiddur. Fyrir sveitar- Heimaerbez! 441

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.