Heima er bezt


Heima er bezt - 01.12.1986, Qupperneq 30

Heima er bezt - 01.12.1986, Qupperneq 30
innar hönd kvað hann nefndina hafa vald til þess að neita að greiða skattinn, þar sem hann væri ekki lög- skipaður. Frá þessu yrði gengið til fullnustu á fundi, sem nefndin héldi með sér innan fárra daga. Vestdælir töldu þörf á að senda mann á fundinn þess erindis, ef auðið væri, að fá nefndina til að falla frá þessari óhæfu. Ég varð fyrir valinu, og fór á fund þenna, en hreppsnefndin hélt fast við fyrirætlanir sínar, svo að ég fór fullkomna erindisleysu. Nú voru góð rqð dýr. Tiltækilegust þótti að boða hreppsbúa til almenns fundar, í von um, að bændur styddu okkur gegn hreppsnefndinni. Var nú boðað til fundar á þingstaðn- um með dags fyrirvara. Síðan voru sendisveinar látnir þeysa um sveitina, svo allir gætu vitað um fundinn í tæka tíð. Fundarboðið var stutt: aðeins skorað á menn að fjölmenna til þess að bjarga hreppsnefndinni frá að verða sjálfri sér, sveitarfélaginu og jafnvel allri sýslunni til skammar og skaða. Þetta vakti athygli og var fund- urinn vel sóttur. Öllum var forvitni á að vita, hvað á gengi. Þegar á fundinn kom, skýrðum við frá, hvað hreppsnefndin ætlaðist fyrir að gera, sveitarmönnum að forspurðum. Mörgum þótti nefndin ætla að gerast helzt til ráðrík og gömlu bændunum, sem þátt höfðu tekið í því, að stofna Brúarsjóðinn, var sárt um, að hann væri lagður niður. Enginn efaðist um, að ef eitt hreppsfélag hætti að styrkja sjóðinn, mundu aðrir hreppar gera hið sama.. . . ... Hreppsnefndin vildi ekki á annað fallast, en að hafa þyrfti vit fyrir mönnum, sem álpast ætluðu út í þetta augljósa glapræði, „eða eruð þið, aðrir hreppsbú- ar, viðbúnir að taka við þeim á sveitina, þegar þeir hafa gert sig félausa fyrir þessa endileysu, sem þeir hafa bitið sig fasta í?“ Þetta var borið fram með alvöruþunga af einum nefndarmanna, og vel stutt af meðnefndar- mönnum, og átti það auðsjáanlega að vera rothögg á málið. Þá stóð upp öldungurinn Ólafur í Litluhlíð. Hann var maður röskar þrjár álnir á hæð og þrekinn vel. Svo var hann raddsterkur, að sagt var, að svo væri sem hryndu hamrar, þegar hann söng. Það sópaði að Ólafi, þegar hann gekk fram á gólfið og hóf ræðu sína eitthvað á þessa leið: „Mér þykir skörin færast upp í bekkinn, þegar þið sveitarmenn hafið við orð, að gera okkur Vestdæli ómynduga. Þið skuluð ekki hugsa ykkur þá dul, að þið þurfið að gerast okkar fjárráðamenn. Það kemur fram í framtalinu og útsvarinu, að við kunnum að ráða yfir fé okkar engu miður en þið yfir ykkar. Þar sem talað er um sveitarlimi, þá hefur þeirra upphaf hingað til verið hér niður í sveitinni, en ekki hjá okkur, og svo mun enn verða. Það eru að vísu nokkrir sveitar- ómagar fram í dalnum, en þeir eru teknir í gustukaskyni héðan neðan að, og sýna þeir sig, hvernig með þá er farið. Bömin ykkar sveitarmanna eru ekki öll eins bragðleg og tökubörnin í Vesturdal. Það get ég fullyrt.“ Ólafur komst ekki mikið lengra fram með ræðu sína, því að tveir eða þrír Vestdælir spruttu upp, án þess að biðja um orðið, og reyndu hvorttveggja í senn: að sefa Ólaf og mýkja sárustu broddana í ræðu hans. Því það var öllum dalbúum ljóst, að mikið reið á að reita ekki hreppsmenn til reiði, enda tókst það vel. Sveitungarnir tóku létt á öllu. Sögðu þeir enga ástæðu til að fyrtast, því allt væri rétt sem Ólafur hefði sagt. Báðu þeir Dalamenn að ætla sig ekki þau vesalmenni, að þeir gætu ekki heyrt sagðan sannleikann. En Ólafur ætti virðingu skilið fyrir skörulega framkomu. Komst nú kyrrð á og gott skipulag á fundinn, en vinsemd og glaðværð varð ríkjandi. Þessu næst var leitað atkvæða um, hverjir greiða vildu áfram brúarskattinn. Allir greiddu því jáyrði, nema hrepps- nefndarmennirnir; þeir stóðu einir uppi með sín fimm nei. Var nú gengið frá fundargerðinni og afhent sýslu- nefndarmanninum og honum falið að framvísa henni á sýslufundi, ef ástæða yrði til. En það varð ekki. Hreppsnefndin lét mál okkar afskiptalaust upp frá þessu, og er hún úr sögunni“. Árið 1895 var hreppsnefnd Lýtingsstaðahrepps svo skipuð: Árni Eiríksson bóndi á Nautabúi oddviti, síðar bankagjaldkeri á Akureyri, séra Jón Magnússon á Mæli- felli, Sigmundur Andrésson bóndi á írafelli, síðar bóndi á Vindheimum, góður bóndi, hómopati, Björn Þorláksson bóndi á Kolgröf, mælskumaður sagður og Páll Ólafsson bóndi í Litladalskoti, kennari við Hólaskóla um skeið. Ég hef aldrei getað skilið, að séra Jón Magnússon skyldi vera á móti brúarsmíðinni, annar eins umbóta- og hug- sjónamaður, sem hann var. Andstaða Árna Eiríkssonar er líka undarleg. Foreldrar hans bjuggu aldarfjórðung á Skatastöðum í Austurdal og hann fæddur þar. Séra Vilhjálmur álítur, að andstaða hreppsnefndar hafi verið vegna þess, að Vestdælir snéru sér ekki til hennar í upphafi, heldur til sýslunefndarmanns og sýslunefndar. Um hreppsnefndarmenn þessa skrifar séra Vilhjálmur: „En fremstu mönnunum, sem í nefndinni voru, kynntist ég betur síðar og lærði að virða þá og meta. Þetta voru valinkunnir sómamenn, virtir og góðviljaðir, þó að þeir sæju ekki hið rétta í brúarmálinu....“ Brúarmálið kom fyrir sýslunefnd, tók hún því ágætlega og skipaði tvo menn til þess að ákveða brúarstærð og gera áætlun um kostnað. Það voru þeir Einar B. Guðmundsson á Hraunum í Fljótum og Þorsteinn Sigurðsson snikkari á Sauðárkróki. Þar sem brúin skyldi vera voru 34 álnir milli klappa. Brúin á Jökulsá-Vestari var byggð vorið og sumarið 1896. Bændurnir, sem buðu framlög til brúarinnar stóðu við öll sín heit. Þeir fluttu brúarviðinn frá Sauðárkróki, hlóðu stöpla, og unnu við smíði brúarinnar undir stjórn yfirsmiðs. Sement var keypt til að líma saman hleðslur í stöplum. Ekki sá á efnahag dalabænda eftir þessar framkvæmdir, enda voru þeir meðal efnuðustu og beztu bænda í hreppn- um. Það kann þó að vera, að bóndi á Þorljótsstöðum hafi verið fremur fátækur. Framhald á bls. 448. 442 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.