Heima er bezt - 01.10.1993, Síða 30
hafði ekki minna að segja, að allt sem hann sagði
var sett fram svo skýrt og greinilega að jafnvel
barn hlaut að skilja hvað hann átti við. Það var eitt-
hvað það við manninn sem skar sig úr öllum fjöld-
anum. Manni fannst hann stórbrotinn. Það mátti og
öllum vera ljóst að hér mælti sá sem var sannur fé-
lagshyggjumaður. Ég kynntist Steinþóri þó nokkuð
síðar. Þau kynni breyttu furðulítið þeirri heildar-
mynd sem ég fékk af honum við fyrstu kynni.
Þetta voru sem sagt fyrstu kynni mín af félagsmál-
um kennarastéttarinnar. Síðar átti ég eftir að kynnast
þeim nánar og um tíma að taka nokkurn þátt í þeim
sjálfur.
Það hafði verið venja að kennarar á Vestfjörðum
héldu fund á Isafirði í páskavikunni. Þeir komu
með Djúpbátnum sem þá fór alla leið til Patreks-
fjarðar. Var dvalið á Isafirði fimm til sex daga. Var
furða hvað þessir fundir voru vel sóttir. Þetta gátu
verið allerfið ferðalög, þó ferðin væri ekki lengri
en þetta, frá Patreksfirði til Isafjarðar eða norður á
Strandir. Fyrsta veturinn sem ég var fyrir vestan fór
ég auðvitað á þennan fund, enda stutt hjá okkur að
fara sem bjuggum í Bolungarvík.
Fundirnir voru haldnir í barnaskólanum. Mér varð
mjög starsýnt á þennan hóp sem þarna mætti og
fannst strax að þarna væri margt sérkennilegra og
eftirtektarverðra manna. Ég veitti því strax athygli
hvað margir höfðu tamið sér settlegt og virðulegt
fas, einkum hinir eldri skólastjórarnir. Björn H.
Jónsson, skólastjóri á Isafirði, setti fundinn. Hann
var ákaflega settlegur og virðulegur í allri fram-
komu. Gat hann þess er hann setti fundinn að
honum fyndist rétt að kjósa einhverja af yngri
mönnunum til að gegna fundarstjórastarfi og stakk
upp á mér sem fundarstjóra. Mér meira en brá.
Þessu starfi hafði ég aldrei gegnt áður og vissi í raun
og veru ekki neitt sem laut að fundarstjórn, í hvaða
röð skyldi bera upp tillögur o.fl. Svona fávís var ég
og fákunnandi í félagsmálum. Þetta er nú kannski
ótrúlegt en vinnumennska í fámennri og strjálbýlli
sveit bauð ekki upp á mikla þjálfun í félagsmálum.
En hér þýddi ekki að mögla. Starfann varð ég að
taka að mér og láta sem minnst bera á vankunnáttu
minni og minnimáttarkennd. Einhvern veginn tókst
þetta stórslysalaust.
Enn eru mér í fersku minni flestir þeir sem mættir
voru á þessum kennarafundi á Isafirði það herrans ár
1934. Fjölmargir þeirra eru nú horfnir yfir móðuna
miklu.
Það sem mér fannst mest áberandi í fari þeirra
margra, einkum hinna eldri og þá sérstaklega skóla-
stjóranna, var virðulegt fas og að hafa tamið sér fág-
aða framkomu. Það þótti heldur ekki svo lítilfjörleg
staða í þá daga að vera skólastjóri. Þá var það einnig
annað sem var áberandi, það var hvað þeir voru
flestir vel máli farnir. Ekki eingöngu að þeir voru
vel mælskir, hitt var ekki síður eftirtektarvert hvað
allt var skýrt og greinilegt sem þeir létu frá sér fara.
Flest bar þess merki að þeir hefðu stundað mælsku-
list árum saman.
Þetta er gjörólíkt því sem maður heyrir nú á þing-
um samtakanna. Mér finnst fáir kunna að taka til
máls eða þeir leggja sáralítið upp úr þeirri þjálfun.
Þarna var Sveinn Gunnlaugsson skólastjóri frá
Flateyri, þrautþjálfaður mælskumaður, orðfimur í
besta lagi og átti auðvelt með að krydda mál sitt
skáldlegum tilvitnunum, enda skáldmæltur í besta
lagi. Þarna var einnig nafni hans, Sveinn Halldórs-
son skólastjóri frá Bolungarvík, einnig ágætlega vel
máli farinn og skáldmæltur. Það sem einkenndi hann
mest var hinn ótrúlegi kraftur og gneistandi lífsfjör.
Húmoristi var hann svo af bar.
Þarna sá ég líka í fyrsta sinn Friðbert Friðbertsson
skólastjóra frá Suðureyri í Súgandafirði. Hann var
tæplega meðalmaður á hæð, yfirlætislaus en bauð af
sér góðan þokka. Það var ekki eins mikill gustur af
honum og þeim nöfnunum sem ég nefndi hér að
framan. Þó fannst mér næstum því að hann bæri af
flestum sem þarna voru. Mér fannst Friðbert kunna
svo vel að fá aðra til að veita því athygli sem hann
sagði. Hann hækkaði og lækkaði róminn eftir því
sem honum þótti við eiga og þagnaði skyndilega,
þegar hann vildi leggja áherslu á það sem hann
sagði. Jafnvel þögnin getur haft áhrif.
Þá voru það tveir ungir menn sem vöktu sérstaka
athygli rnína, þeir Helgi Hannesson kennari í ísa-
firði, stórglæsilegur maður, vel máli farinn og
vörpulegur svo af bar. Hinn var Þórleifur Bjarnason,
þá kennari á ísaftrði, síðar námsstjóri og kunnur rit-
höfundur. Mig undraði hið glæsilega og skáldlega
orðaval hans.
Ég hugsaði með sjálfum mér að gaman væri að
vera orðinn svona vel máli farinn. Skyldi ég
nokkurn tíma geta náð þessum skörungum?
350 Heima er bezt