Muninn

Árgangur

Muninn - 01.01.1950, Blaðsíða 7

Muninn - 01.01.1950, Blaðsíða 7
MUNINN 31 Samferðamaður Ég var einn á ferð. Þetta var síðla kvölds snemma í október. Sólin var fyrir löngu horfin á bak við fjöllin í vestri. Þó vottaði ennþá fyrir rauð- um bjarma á himninum. Dökk og drungaleg óveðursskýin sigldu hrað- byri í suðurátt og stigu trylltan dans á himinhvolfinu. Fjallið gnæfði hátt og hrikalegt yfir dalinn. Tindar þess og eggjar komu greinilega í ljós, þegar þau bar við dumbrauðan himininn. Mér fannst ég sjá alls konar tröll og forynjur standa á fjallsbrúninni og senda dalnum og dalbúum hæðnis- legt, ögrandi tillit. Óljóst mátti heyra stormhvininn þaðan að ofan, en niðri í dalnum, við rætur þess, var ennþá logn. — Það var óveður í aðsigi. — Ég greikkaði sporið. Ennþá var löng ieið fyrir höndum, því að ferðinni var heitið út að Gili. Þar ætlaði ég að dveljast nokkra daga, áður en ég færi í skólann. Enn var ekki kominn veg- ur þarna úteftir, og það var rösklega tveggja tíma gangur þangað frá veg- arendanum. Það dimmdi ennþá. Bjarminn var horfinn af himninum, og uppi yfir grúfði kolsvart myrkrið. Mér veittist erfitt að þræða götuslóðana án þess að hnjóta hvað eftir annað. Leiðin var víst tæplega hálfnuð. — En hvað var þetta? Ég leit ósjálf- rátt upp, og mér brá ofurlítið, því að ég sá nokkuð, sem kom mér á óvart. Það gekk ókunnugur maður rétt á undan mér. Hann bar við himin þarna uppi á brekkubrúninni, annars sá ég hann ekki glöggt. Mér kom þó göngulag hans alleinkennilega fyrir stjónir. Hann virtist ganga mjög álút- ur, og yfirleitt var eins og hann dræg- ist áfram með erfiðismunum. Kann- ske hafði hann svo þunga byrði að bera? Oftast hefir mér fundizt það frem- ur ömurlegt að vera aleinn á ferð í niðamyrkri á lítt kunnum slóðum. Oft hefi ég óskað þess, að einhver yrði mér samferða. Samt fann ég núna, að ég vildi miklu heldur vera einn, en samferða þessum manni. Ég gat ekki skilið, hvernig á þessu stóð, en ein- hvern veginn var mér ekki um það gefið. „Þú skalt ekki... hægðu á þér ... Leyfðu honum að fara á undan.“ Orð- in komu ósjálfrátt fram í huga mér. Ég hlýddi þessu og hægði ofurlítið á göngunni. Maðurinn hélt áfram. Þá settist ég niður stundarkorn og beið til þess að lengja bilið á milli okkar. Að nokkurri stundu liðinni stóð ég svo upp og hélt áfram ferðinni. En brátt varð ég þess vísari, að það hafði síður en svo dregið sundur með okkur. Nú var hann aðeins örfáum skrefum á undan mér. Satt að segja fór mér ekki að lítast á blikuna. Ég reyndi allt hvað ég gat, ég streittist við að lengja bilið milli okkar, en allt kom fyrir ekki. Þá var ekki um annað að gera en að láta undan; því hlaut að fara sem fór. Brátt var ég kominn á hæla hans. Hann leit ekki einu sinni við, þegar ég bauð honum gott kvöld, en tók undir kveðju mína undarlega dimmri og hásri röddu. Það var eins og hann styndi upp úr sér orðunum með mestu erfiðismunum, líkt og hann væri móð- ur af hlaupum. Samt virtist hann ekki vera mjög þreyttur, því að hann gekk hratt og rösklega. Nú fyrst greikkaði hann sporið. Hann hlaut að hafa gengið löturhægt áður, úr því að aldrei hafði dregið sundur með okk- ur. Ég hugsaði málið. Hann hlaut að hafa vitað af mér áður og beðið þess, að ég næði honum. En hvers vegna það? Hann leit út fyrir að vera í minna lagi skrafhreifinn, því að hann yrti ekki á mig einu orði. Ég hafði líka litla löngun til þess. — Eg sá samferðamann minn óljóst fyrir mér í myrkrinu. Hann virtist vera mikið klæddur, óþarflega mikið, að mér fannst. Mér sýndist hann hafa prjónahettu á höfðinu og þykka ull- arvettlinga á höndunum, stóran trefil um háls og vera í síðri stormtreyju yzt fata. Á bakinu bar hann stóran, hvítan poka. Ég sá ekki framan í hann, því að hann gekk svo álútur. Hann bar fyrir sér stóran broddstaf. „Undarlegt, að manninum. skuli ekki vera allt of heitt svona klædd- um,“ hugsaði ég með sjálfum mér. Sjálfur var ég berhöfðaður og fremur léttklæddur, samt var mér heitt, og það því fremur, sem ég þurfti að hafa mig allan við til að fylgja honum eft- ir. Ég skildi heldur ekkert í, hve mjög hann hraðaði ferðinni fyrst núna. Þessi maður hlaut að vera eitthvað undarlegur, öðruvísi en allir áðrir. Kannske var þetta einhver geggjaður flækingur, kannske ... Nei, það stoð- aði ekki að brjóta heilann um það. Af hverju yrti hann ekki á mig, frek- ar en að ég væri ekki til? Mér fannst þögnin óbærileg og reyndi því að hefja samræður. Ég hóf máls með því að minnast á veðrið, sennilega færi nú að hvessa norðan bráðum, og lík- lega færi hann í krapahríð, þegar liði á nóttina. Það var eins og ég væri að tala við sjálfan mig, því að ég fékk ekkert svar. Ég ákvað samt að gefast ekki alveg upp og spurði því förunaut minn, hvort hann væri langt að halda. „Yfir hálsinn, ætla að komast austur að Gljúfurá í kvöld.“ Það var líkt og að heyra talað gegnum þykkt ullarteppi. Austur að Gljúfurá... Þangað var minnst fimm tíma ferð. Maðurinn hlaut að eiga þangað brýnt erindi, en ég hafði sífellt einhvern ímugust á einhverju í fari hans, svo að ég kom mér ekki að því að spyrja hann spjörunum úr. Ég átti í stríði við forvitnina í sjálfum mér, en þó var sem einhver innri rödd hvíslaði að mér: „Láttu hann eiga sig, alveg eiga sig... Láttu hann segja þér án þess að spyrja hann.“ — Ég þagði. — Langa, langa stund gengum við þannig þegjandi í myrkrinu. Mér leið illa, mér var skapi næst að taka til fótanna og hlaupa heim að Gili, eins hratt og fætur toguðu. Mér fannst ég ætla að tryllast. — Loksins, eftir óralangan tíma, kom- um við að túngarðinum. Það var far- ið að hvessa, og brátt tóku krapa- flygsurnar að falla. Nú heyrðist stormhvinurinn greinilega ofan frá fjallinu. Það hlaut að gera ófært veð- ur uppi á hálsinum. Ég hafði heyrt kunnuga segja, að það væri verst að fara yfir hálsinn, þegar hann stæði af þessari átt. Ég leit heim að bæn- um; það var ljós í eldhúsglugganum. Síðan sneri ég mér að samferða- manni mínum: „Þú ættir að ...“ Ég lauk aldrei við setninguna. Hann var horfinn. —

x

Muninn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Muninn
https://timarit.is/publication/429

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.