Muninn

Árgangur

Muninn - 01.11.1967, Blaðsíða 43

Muninn - 01.11.1967, Blaðsíða 43
Enn er gatan ekki þornuð eftir rigning- una í morgun. Hún liggur í ótal krókum á milli gamalla húsa, pollur við poll, og á milli skín í sjálft vegarefnið, sand og drullu, ásamt ýmis konar úrgangi, leifum mannlífs- ins í hundrað ár. Það er enginn á ferli nema einstæðingslegur köttur, sem þræðir á milli pollanna og flýtir sér yfir götuna, eins og hann sé hræddur við að láta sjá sig þarna. Allt í einu stendur maður á götunni. Hann er ábyggilega nýkominn út úr ein- hverju húsinu, þegjandi og hljóðalaust, og nú stendur hann þarna á götunni, eins og hann sé að hugsa sig um. Bráðum hlýtur hann að ákveða sig og fara þangað sem hann ætlar, hvert sem það nú er. En það gerir hann ekki. Hann bara stend- ur þarna í sömu sporum, hreyfingarlaus eins og líkneski. Tvístígur ekki einu sinni. Hendurnar eru á kafi í vösunum. Þetta er miðaldra maður, í grárri peysu. Það líður drykklöng stund. Maðurinn hreyfir sig ekki. Það getur varla hjá því far- ið, að einhver fari að taka eftir þessu undar- lega háttalagi. Samt virðist ætla að verða einhver bið á, að maðurinn veki á sér almenna athygli. Fólk er svo lengi að taka við sér. Þó að hús- móðir h'ti snöggvast upp úr verkunum, og horfi út um gluggann, þá getur henni ekki dottið annað í hug, en að maðurinn sé ný- kominn út, stoppi þarna örstutta stund, og haldi mjög bráðlega leiðar sinnar. Tíminn líður. Það má nú fyrr vera, hvað maðurinn ætlar að hanga þarna lengi. Þó er hann ábyggilega rétt hjá sínu eigin húsi. Það ætti þó ekki að vera langt fyrir hann að fara inn aftur og setjast, í staðinn fyrir að standa þarna eins og bjáni á miðri götu. Og nt'i sést kona koma út úr einu húsinu og hverfa inn um dyrnar á næsta húsi. í leiðinni lítur hún flóttalega til mannsins, eins og hún hafi gert eitthvað af sér. En maðurinn lítur ekki einu sinni við henni, heldur horfir út í bláinn, köldu og rólegu augnaráði. Andlitin birtast í gluggunum, hvert af öðru. Þau líta snöggt til mannsins, líta svo af honum aftur, eins og þau hafi bara litið út um gluggann af tilviljun. Það er hljótt á götunni. Hvergi sést nein hreyfing, nema gárarnir á pollinum. Það berst ekkert hljóð frá húsunum. En maður hefur á tilfinningunni, að einhvers staðar sé verið að tala í síma. Það er farið að dimma. Spennan í glugg- unum eykst í sífellu. Sennilega er einhver að gera það upp við sig, livort ætti heldur að hringja í lækninn eða lögregluna. Samt er enginn kominn á það stig, að framkvæma nokkuð þvílíkt. Fólk lætur sér nægja að ræða um fyrirbærið sín á milli. Það þýtur í símalínunum yfir höfði mannsins. Loks kemur einhver eftir götunni. Það er verkamaður á heimleið frá vinnu. Hann staðnæmist hjá þeim kyrrstæða, kastar á hann kveðju og tekur hann tali. Þeir standa þarna um stund. Gluggarnir engjast sundur og saman af forvitni. Við hlustum. „Hvern andskotann ertu eiginlega að gera, hérna úti á miðri götu?“ „Nú, ég veit ekki betur, en að ég megi standa hérna eins og hver annar. Ég er bú- inn að borga útsvarið mitt, og mér finnst það bara gustuk að nota helvítis troðning- inn svolítið, svo dýr sem hann er.“ Verkamaðurinn heldur heimleiðis. Það er eins og spennan í umhverfinu minnki og hverfi smátt og smátt. Allt er hljótt. Maður á grárri peysu stendur á miðri götu og horfir vit í bláinn. Gr. E. MUNINN 43

x

Muninn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Muninn
https://timarit.is/publication/429

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.