Nýjar kvöldvökur - 01.07.1938, Qupperneq 5

Nýjar kvöldvökur - 01.07.1938, Qupperneq 5
PENIN GAKÚLUR VITFIRRINGSINS 99 um leið og hún gekk inn í herbergið og lokaði hurðinni. — Ha-a. — Varði glápti orðlaus á gestinn. Svo stóð hann á fætur og gekk fast að stúlkunni, rak nefið næstum því í andlit hennar og rýndi heimskulega á hana nærsýnum augunum. Ég skipta tíu krónum? — sagði hann — tíu krónum! endurtók hann og gaut óhýru hornauga til margþvælda seðilsins, sem hún hélt hirðuleysislega með tveim fingrum vinstri handar. — Já, ef þér vilduð vera svo vænn, — sagði hún í bænarróm og tók sigarettuna, brosandi, út úr sér. Varði sneri sér undan þessu töfrabrosi og hóstaði, hann notaði ekk- ert tóbak og var óvanur reyk. Svo leit hann við og starði atalt á stúlkuna. —- Ég á peninga, — sagði hann svo, án þess að hreyfa sig. — Auðvitað eigið þér pen- inga. Allir herrar eiga peninga. Allir fínir herrar eiga peninga —, sagði stúlk- an og brosti ögrandi. —- Fínir, já — komdu. Ég skipti. — Bara núna —, sagði hann og gekk að borðinu og tók tuttugu- ogfimmeyringakúluna. Stúlkan gekk til hans og settist á dívaninn. —■ Nei, guð! Aldrei hefi ég séð svona agalega fyndið! Full glerkúla af pening- um. — Vinir — bara vinir, — sagði hann með þýðingarmikilli rödd. Svo fóru þau að bjástra við að ná aurunum úr kúlunni. Það gekk illa, en um síðir tókst það og stúlkan fór brosandi með fullan lófann af gljáandi silfurpeningum, en Varði sat eft- ir með skítugan tíukrónaseðil í höndun- um og tóm í augnaráðinu. — Farnir — fjörutíu, — muldraði hann og læsti kúl- urnar niður. Svo sló hann bylmingshögg í koffortslokið og bölvaði í hljóði. — Ríó- bamba, ég vil dansa----------, söng fögur kvenrödd í hinu herberginu. Það kom oftar fyrir að hún þurfti að fá skipt, og hún sat stundum hjá honum á kvöldin, alveg þangað til hann fór til vinnu sinnar, söng og reykti sínar sigar- ettur. Hún var kát og lífsglöð stúlka, og Varða fanst sjer líða betur í návist henn- ar. Enginn hafði sýnt honum vináttu fyrr en hún og að því kom að hann fór að kaupa sælgæti og sigarettur, til þess að bjóða henni, þegar hún kæmi. Hún gerði honum líka ýmsan greiða; burstaði fötin hans og pressaði, hitaði fyrir hann rak- vatn o. s. frv. Þetta hafði enginn boðið honum áður og þakklæti hans sigraði söfnunar-ástríðuna, og hann gaf henni peninga, til þess að fara í bíó eða eitthvað annað, sjálfan langaði hann aldrei til að fara út með henni, og hún bað hann held- ur aldrei um það. Honum var nóg gleði í því að hún skemmti sér. Fyrir jólin tæmdi hann eina glerkúl- una og gaf henni úr. Það var stór fórn, en hann fékk hana endurgoldna með mörgum kossum, hann varð hálf utan við sig undir öllu kossaregninu, sem dundi alls staðar á andliti hans eins og léttar, þvalar dúnfjaðrir, og hann heyrði varla að hún sagði að hann væri agalega fínn og sætur. Það var eins og þessir kossar þurkuðu burt úr huga hans alla eigin- girni, sjálfselsku og söfnunarfýsn. Nú var honum það ómótsæðileg ástríða að gefa, gefa sem mest og flest. Það rigndi yfir hana gjöfum allan veturinn: Hattur, kápa, skór, armbönd, kjólar og margt, margt fleira. Fyrir hverja gjöf fékk hann koss og stundum marga, ef gjöfin var stór. Það lækkaði óneitanlega í peningakúlun- um og sumar tæmdust alveg. En hvað gerði það til? Varði elskaði ekki lengur silfurpeninga í grænum glerkúlum. Hann elskaði bara stúlkuna, sem söng alla daga Rióbamba í herberginu við hliðina á hon- um. Einn dag um vorið kom hún inn til hans. Hún var ferðbúin og hélt á böggli undir hendinni. — Ég er — er að kveðja, — sagði hún vandræðalega. Hann leit á hana án þess að skilja hvað hún meinti. 13*

x

Nýjar kvöldvökur

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Nýjar kvöldvökur
https://timarit.is/publication/511

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.