Sameiningin - 01.12.1956, Blaðsíða 20
66
Sameiningin
heldur dagur væri á lofti eða nótt, hvort heldur væri sumar
eða vetur, nístingskuldi eða glóðarhiti, eða hvort nokkur
væri hagnaðarvon í þeirri heimsókn sem fyrir lá, eða þeirri
þjónustu sem veita skyldi. Hinir snauðu og vinafáu, sem
löngum hafa dvalizt í kjallaraíbúðum og í rishæðum
íbúðanna hér í vesturbænum, þekktu fótatakið hans. Þeir
vissu að þeim var óhætt að biðja hann að koma, eins fyrir
því, þó að buddan væri tóm. Hann skildi kjör þessa fólks.
Sjálfur var hann alinn upp í sárri fátækt, og fátæktin var
jafnan hans fylgikona. En samt var hann svo óendanlega
ríkur; hann gat miðlað öðrum af auðlegð anda síns, ausið
af brunnum reynslu sinnar, hann var hið mikla ljúfmenni
og frábæri mannvinur. Er vér lesum ævisögur manna eins
og hans, koma orð meistarans mikla í hugann: „hungraður
var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér
hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig; sjúkur var ég og
þér vitjuðu mín.“ Og þeir sögðu: Hvenær, herra? Og hann
sagði: Svo framarlega sem þér hafið gjört það einum þessara
minnstu bræðra minna, þá hafið þér gjört mér það.“ „Sælir
eru þeir, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu, því að þeir
munu saddir verða. Sælir eru miskunnsamir, því að þeim
mun miskunnað verða. Sælir eru hjartahreinir, því að þeir
munu Guð sjá.“
Eins og ósjálfrátt setjum vér þessi orð Drottins í sam-
band við ævistarf og ævilok „læknisins elskaða.“
☆ ☆ ☆
En Sigurður var ekki aðeins læknir. Hann var óvenju-
lega fjölbreyttur og margbrotinn persónuleiki. Það var
engu líkara en að forsjónin hefði lagt honum til nógan
efnivið fyrir marga menn, og hvern þeirra með meira en
meðal hæfileikum. Ævisaga hans er ævintýri líkust; það
er saga um sunnlenzkan bóndason, sem klífur þrítugan
hamarinn frá örbyrgð og allsleysi, unz hann gerist embættis-
maður og mikilvirkur leiðtogi þjóðbræðra sinna í fjarlægri
heimsálfu, og jafnframt þjóðkunnur í heimalandinu og í
hávegum hafður, einnig þar. Á þessari þroskabraut leggur
hann á margt gjörva hönd: Vér sjáum honum bregða fyrir
á ýmsum tímum þar sem hann stundar sjómennsku, vinnur
að vegabótum og járnbrautarlagningu, leggur fyrir sig tjald-
sauma; hann er skáld, rithöfundur, ritstjóri blaða bæði á