Lesbók Morgunblaðsins - 24.01.2009, Blaðsíða 9
og borgað í evrum, helst. Kannski á strípistað?
Þá heldur maður sér óhjákvæmilega í formi um
leið.“
X
Ég loka á bláskjáinn. Ég hef verið sunnan
við mig í meira en viku og verð að reyna að
finna mér eitthvað annað að gera í tóm-
stundum en bíða eftir stórfréttum á emmbéell.
Ég á vin sem heitir Hermann, hann hermir mér
frá Facebook, ég skuli koma þangað, þar sé allt
að gerast, en ég er efins. Ég sendi honum póst:
„Hermann, mér finnst eins og ég sé Ísland en
þessi Facebook sé Vestmannaeyjar þar sem allir
eru á endalausri þjóðhátíð sem mér finnst bjána-
legt költ og hef aldrei sótt en kannski er ég að
missa af sleik eða rótsterkum landa, S.“
Þetta er náttúrlega bölvuð vitleysa, ég er ekk-
ert Ísland.
Annars finnst mér grunsamlegt að fólk hangi á
einhverjum sósíal-vef þegar öldin er úr liði.
Grunsemdirnar vaxa eftir því sem dagarnir líða,
ég er með martraðir í útlöndum en í pósthólfið
mitt snarhætta að berast bankabrandarar, nú er
eins og ekkert hafi í skorist, ég fæ ekkert nema
boð um skemmtanahald og flótta; viltu koma á
Frostrósir, Sigur Rós er með tónleika, forsala
hafin, við erum búin að panta jólahlaðborð, ertu
með, það er auglýsingahátíð, allir að mæta, þér
er boðið á frumsýningu í bíó, tveir leikhúsmiðar
um helgina, kæri vinur, við fórum á ABBA-sjó í
gær, það var mikið fjör, taktu frá 16. desember
því þá eru litlu jólin, komdu með salat, aðsókn að
Smáralind er meiri en á sama tíma í fyrra sem
samt var metár … Hvað er þetta fólk að gera, á
það ekki að vera yfir sláturkeppunum að berja
lóminn? Ég er farin að efast um þessa kreppu, ég
held hún sé bara á mbl.is. Allt er uppspuni. Ég
nenni ekki heim.
XI
Mig dreymir enn undarlega. Einn draum
man ég sérlega skýrt, hann er svona:
Ég er stödd í húsi. Þröstur stjóri Les-
bókar er að hengja upp diskókúlu á efri hæðinni,
Bergsveinn Birgisson situr yfir skáldsagnahand-
riti við skrifborð með rauðan penna á lofti, yfir
honum situr kona með þykkt, rauðbrúnt hár og
segir að sumt megi vissulega vera skrýtið, en
annað þurfi að laga. Hann lagar. Á neðri hæðinni
er Einar Már að smíða yfirlýsingu ljóðsins, það
er plagg upp á tæpa síðu og efst er eitthvert lógó,
sennilega skjaldarmerkið. Ég sit við ritvél með
Atla Heimi Sveinssyni, að hreinrita fyrir hann
nótur, eða eitthvað, svo kemur dragsúgur og
skyndilega erum við öll komin út á tún að bjarga
pappírum í ausandi rigningu. Við komum inn aft-
ur og þegar við erum komin upp stigann mætum
við einhverjum sem er kannski Bill Clinton,
kannski Óttar Guðmundsson, geðlæknir.
Ég yppi öxlum, tek ekki mark á draumum,
giska á að þetta snúist helst um átök milli forlaga
en svo fatta ég að þetta er miklu einfaldara: Þessi
draumur fjallar um leifarnar af íslenskri menn-
ingu; hún kemst fyrir í tvílyftu, gömlu húsi.
XII
Í gær gleymdi ég að segja að Fanta-ð
sem selt er á Café del Carmen ská á
móti stóra, gamla þinghúsinu í Buenos
Aires er sterkappelsínugult eins og Fanta-ð var í
gamla daga. Og jafn frábært á bragðið. Kannski
var eitísið bara best.
XIII
Á kaffihúsi með sólina í augunum og
hátískubúðirnar allt í kring segi ég
nýjum vini mínum að allt sé í kalda
koli heima. Það sé búið að núllstilla Ísland.
„Iss,“ segir hann, „þetta er alltaf að gerast
hér.“
„Já, en samt…“ Ég litast um, skammast mín í
smástund, var búin að gleyma leigubílstjórunum
sem eiga ekki fyrir vökvastýrum og verð-
bréfasölum sem ólust upp við herforingjastjórn-
ir, mig langar hálfvegis að þjónninn Jorge komi
aftur og spyrji um krónuna. En auðvitað er hann
ekkert á vakt.
„Þetta hrun er innbyggt í kapítalismann,“ seg-
ir vinur minn og yppir öxlum. „Á sjö ára fresti fer
allt til fjárans, ef ekki einhvers staðar, þá alls
staðar.“
„Sjö ár – meinarðu biblísku sjö árin?“
„Já.“
„Ertu að segja að þetta sé Guð?“
„Auðvitað ekki, en ef þetta væri hann, væri
það líka rökrétt,“ segir vinur minn og hallar sér
fram. „Guð horfir upp á firringuna, sér að mann-
skepnan er komin langt fram úr öllu hófi, nærist
á lúxus og gjöreyðingu og neyslu og fjarlægð frá
allri nánd, og hann hugsar, nú skal ég kenna
þessu liði lexíu. Hann lætur allt hrynja og sjá, all-
ir eru farnir að huga að lífinu aftur.“
„Nei, hættu nú.“
„Djók.“
XIV
Ég stend á gamla þinghústorginu á
leiðinni heim, með Fanta-flösku úr
þykku gleri, þetta þinghús er stór-
fenglega lífvana, það var heldur ekki hér sem
argentínska öryggislögreglan banaði fimm
manns í uppþotinu vegna síðustu efnahags-
kreppu, það var niðurfrá, við bleika stjórn-
arráðið, pottasláttur og húsbrot fóru úr bönd-
unum, viðbrögð fóru úr böndunum, tuttugu og
þrír mótmælendur til viðbótar týndu lífinu á
landsvísu, það var rétt fyrir jólin 2001, nákvæm-
lega fyrir sjö árum.
Ég teyga fantagóða Fanta-ð á torginu, óstoln-
ar styttur stara á mig, flugfélagið góða fer bráð-
um á hausinn, mikið rétt, ég mun þurfa að kaupa
nýjan miða fyrir morð fjár, mikið rétt, þannig
mun ég loks komast heim um jólin og þar er ver-
ið að grýta gullkálfa, þar er verið að rassskella
auðmenn, þar er verið að þráspyrja um næstu
skref eða þyrpast á útsölur, þar eru vörubíl-
stjórar að stofna stjórnmálaflokka, í framhjá-
hlaupi sé ég glitta í Bjarna Ármannsson að end-
urgreiða gjaldþrota banka meira fé en mér mun
takast að hitta fyrir um ævina, hann var óska-
barn sveitarfélagsins míns, alinn upp í sveit sem
nú er komin inn í miðjan bæ útaf þenslunni, það
er skrýtið, ég á þar leið um á jóladag, það verða
mín næstu skref og sirka svona er þetta: Í nýj-
asta hverfinu á Akranesi glóa á götuskiltum
blómleg nöfn eins og Skógarlundur og Blóm-
akrar eða eitthvað, gott ef ekki Ódáinsvellir, þar
eru ljósastaurar, brunahanar og strætóstöðvar
en bara tvö hús. Öllum hinum lóðunum hefur
verið skilað. Í bakgrunni rís mikilfenglegt fjallið
og í svartamyrkursskímunni er ómögulegt að
vita hvort maður eigi að afgreiða myndina sem
hrikafegurð brostinna drauma eða kraftbirtingu
helbers svekkelsis.
We’ve got Geir Haarde,
No Cash and No Hope, er
pönsið í einum brandara
þar sem Ameríkani mont-
ar sig af George Bush, Jo-
hnny Cash og Bob Hope.
Við skellihlæjum. Ísland
er til sölu á Ebay, það er
annar. Við hlæjum.
Höfundur er rithöfundur.
Skaftpottaaðferðin
Í efnahags- og stjórnarkreppunni í
Argentínu 2001 birtust andmælial-
mennings meðal annars í cacerola-
zos,kröftugum áslætti skaftpotta og
lauslegra muna á götum og torgum,
aðferð semhafði náðútbreiðslu á 8.
áratugnum í Chile og þótti einkenna
ákvörðun millistéttarinnar um að
taka þátt í pólitískum mótmælum.
Morgunblaðið/Golli
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 24. JANÚAR 2009 Lesbók 9