Lesbók Morgunblaðsins - 05.09.2009, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 05.09.2009, Blaðsíða 6
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 5. SEPTEMBER 2009 6 LesbókBókmenntahátíð Eftir Árna Matthíasson arnim@mbl.is P akistanski rithöfundurinn Tariq Ali er meðal gesta á bókmenntahátíð í Reykjavík og hyggst meðal annars lesa upp úr nýútkomnu greinasafni sínu. Hann hefur skrifað fjölda bóka, skáldsögur, sagnfræðirit og greinasöfn, og er þekktur sem einn beittasti penninn á vinstri vængnum í Bretlandi, en þar hefur hann búið síðastliðna fjóra áratugi. Tariq Ali var mjög áberandi í Bretlandi í bar- áttu gegn Víetnam-stríðinu á sjöunda áratugn- um, en varð síðan mjög gagnrýninn á utanrík- isstefnu Bandaríkjanna yfirleitt. Sagan segir að hann hafi verið fyrirmynd að Rolling Stones- laginu „Street Fighting Man“ og eins að John Lennon hafi samið lagið „Power to the People“ eftir viðtal sem Ali tók við hann. Ali gekk á sínum tíma í stjórnmálaflokk trotskista og bauð sig fram fyrir flokkinn, en þegar flokkurinn leystist upp gekk hann í Verkamannaflokkinn og var meðal helstu stuðningsmanna Tony Benn. Uppgjör hans við trotskismann var háðsádeilan Redemption sem greindi frá hugmyndakreppunni sem reið yfir flokkinn þegar löndin austan við járntjald gengu af trúnni eitt af öðru. Síonistar og samkynhneigðir Á lífsstarfi Tariq Ali má sjá að hann hefur velt mjög fyrir sér pólitík og bókmenntum og hann hyggst einmitt ræða um það á hátíðinni, auk- inheldur sem hann ætlar að lesa úr nýútkomnu greinasafni, The Protocols of the Elders of So- dom. Í því fjallar hann meðal annars um fjár- málakreppuna sem nú gengur yfir heiminn og kemur ekki á óvart að hann er mjög áhuga- samur um atburðina hér á landi. Honum þykir fróðlegt að ungt fólk hafi verið áberandi í mót- mælum vegna kreppunnar, enda má segja að pólitísk afskipti ungmenna hafi verið í algjöru lágmarki undanfarna áratugi – það er því líkast sem mönnum hafi þótt sem búið væri að leysa allan vanda og að það kerfi sem þá hafði lagt undir sig heiminn væri endanlegt svar við öllum spurningum. „Það hefur verið vandamál um Evrópu alla, bæði Bandaríkjunum og í stórum hluta Asíu; ungt fólk missti allan áhuga á pólitík og fannst hún ekki skipta máli lengur; það skipti engu þó eitthvað væri í ólagi því stjórnmál væru þess ekki umkomin að breyta neinu. Árásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 vöktu pólitískan áhuga að nýju og urðu til þess að fólk um allan heim fór aftur að ræða stjórn- mál. Í kjölfar þess komu síðan stríðin sem Bandaríkjamenn hrintu af stað í Afganistan og Írak sem komu ungu fólki aftur út á götu til að mótmæla, sérstaklega innrásin í Írak og her- námið.“ Ali segir að það hafi verið forvitnilegt að fylgjast með því þegar fólk sem aldrei hafði látið í sér heyra í pólitísku starfi þyrptist út á götur til að mótmæla í nokkra daga, en hvarf svo aftur heim og heyrðist ekki í því meir. Að hans mati var það þó ekki til marks um það að fólk hefði sætt sig við stríðsreksturinn, það hafi verið al- menn skoðun fólks í Bretlandi að stríðsaðgerð- inar væru óréttlætanlegar og ósanngjarnar. „Vandamálið var bara að þessi ungmenni, og líka eldra fólk sem tók þátt í mótmælum í fyrsta sinn, héldu að stríðsátökin væru afbrigðilegt fyrirbæri, eitthvað sem ætti ekki að geta gerst, einskonar slys. Þau voru nefnilega ekki að mót- mæla kerfinu sem lá að baki, þjóðfélagsskip- aninni sem bauð upp á slíkt og þvílíkt.“ Verslunarheilkenni og sérgæska „Þetta fólk trúði því sem almennt hefur verið trúað; að kapítalisminn gæti gert það sem hann vildi, að markaðsfrelsi ætti við á öllum sviðum, það væri ekki lengur til neitt sem kalla mætti félagslegt, allt ætti að vera kostað af fyr- irtækjum, hvort sem það var menning, eða íþróttir, eða líf fólks almennt. Kerfið sagði síðan við ungt fólk – víst eigið þið ekki mikið af pen- ingum, en takið bara lán á lágum vöxtum og veitið ykkur það sem þið viljið. Allt lagðist á eitt: verslunarheilkenni, sér- gæska og kynlífsvæðing; njóttu lífsins, gerðu það sem þú vilt, horfðu á klámmyndir og farðu í búðir,“ segir Ali og bendi á að þó þetta skeið kapítalismans sé nú á enda sé það ákveðinn vandi að vinstrimenn hafi ekkert annað fram að færa, engar nýjar lausnir, enda séu vinstriflokk- ar og vinstrisinnaðir miðflokkar pólitískt gjald- þrota. „Vinstrimenn, aðallega sósíaldemókratar og kommúnistar á Ítalíu og Frakklandi urðu hluti af kerfinu, tóku markaðstrúna. Þeir hafa því engar lausnir á takteinum, hafa ekkert upp á að bjóða nú þegar Evrópa og heimurinn allur þarfnast nýrra hugmynda. Það er helst að eitt- hvað nýtt sé að gerast í Suður-Ameríku, þar sem ýmsar hreyfingar vinstrimanna og umbóta- sinna hafa lagst á eitt um að skapa nýja þjóð- félagsgerð. Í kjölfar hrunsins hafa kviknað spurningar á Vesturlöndum um það hvað ríkið geti og megi gera. Í Suður-Ameríku segja menn: Ríkið getur gert það sem það vill, við er- um kosnir til að breyta kerfinu og munum breyta því. Það var algengt viðhorf manna á Vesturlöndum að þær breytingar sem eiga sér stað í Suður-Ameríku væru tóm della, en það er komið annað hljóð í strokkinn.“ Kerfislæg kreppa Þegar ég held því fram að það séu lítil sem eng- in merki um það að nokkuð muni breytast í fjár- málakerfum Vesturlanda tekur Ali undir það og hamrar á því að það sé ekki síst vegna þess að stjórnmmálaflokkar vinstra megin við miðju hafi brugðist sögulegu hlutverki sínu. „Stjórn- völd í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa eytt gríðarlegum fjárupphæðum í að bjarga kapítal- ismanum og nú þegar bankarnir eru að komast á réttan kjöl þá halda þeir áfram að haga sér eins og þeir gerðu fyrir hrunið. Stjórn- málamennirnir krefjast ekki breytinga og því telja bankastjórnir ekki þörf á að breyta neinu. Hagfræðingar á við Paul Krugman og Joseph Stiglitz hafa allir lýst því yfir að þessar aðgerðir muni ekki skila tilætluðum árangri, að það sé verið að eyða svo miklu af fjármunum ríkisins að ríkið muni ekki rísa undir því og hér í Bret- landi hafa menn eins og Adair Turner, sem er hægrimaður, bent á að eins og bresku bank- arnir hafi verið reknir hafi þeir ekki gert þjóð- félaginu neitt gagn og það á örugglega við um íslensku bankana,“ segir Ali ákveðinn. „Það er auðvelt að kenna einstaklingum um allt saman og þannig hefur fólk gert hróp að stjórnendum banka og fjármálastofnana og fengið útrás fyrir reiði sína með því að ráðast á heimili þeirra og skemma eigur. Þó það sé viss skemmtan að fylgjast með því þá leysir það eng- an vanda, breytir engu í kerfinu. Það er er kerf- islæg kreppa í gangi og þjóðfélagsleg en það er ekkert að gerast í stjórnmálunum, það er eng- inn að bregðast við og það óttast ég. Fyrir vikið skapast pólitískt tómarúm og inn í það tómarúm stíga öfgamenn frá hægri og segja að allt sé þetta stjórnmálaelítunni að kenna og fjölmenn- ingunni og það þurfi að losna við farandverka- menn. Menn eru enn að leita að sökudólgum og það stafar hætta af þessum öfgamönnum og ekki síður af bóstafstrúarmönnum, hvort sem þeir eru kristinir eða múslimar.“ Aukið múslimahatur Eins og fram kemur hér að framan er Ali mjög gagnrýninn á framferði bandarískra stjórn- valda víða um heim, en hann hefur einnig gagn- rýnt Ísraelsmenn harkalega. Hann segir þó nauðsynlegt að berjast gegn bókstafstrú í íslam, ekki síður en í öðrum trúarbrögðum, en það skipti miklu hvernig þeirri baráttu sé háttað, sem sjáist einna best af því hve múslimahatur hafi aukist í Evrópu, fyrirbæri sem sé nákvæm- lega eins og gyðingahatur fyrri tíma, nema að nú beinist það að fylgjendum annarra trúar- bragða. „Í Bretlandi hefur múslimahatur til að mynda aukist talsvert, þó ekki sé það orðið eins mikið og í Hollandi, Danmörku og víðar. Hér hafa þó virtir rithöfundar eins og Martin Amis og Ian McEwan alið á múslimahatri. Margir sem mað- ur hittir í Frakklandi og Þýskalandi segjast líka ekki vilja sjá múslima vegna þess að þeirra menning sé öðruvísi, en það er nákvæmlega það sama og sagt var um gyðinga á sínum tíma. Langstærstur hluti múslima í Evrópu hefur fallið að þjóðfélagi þeirra landa þar sem þeir búa, en það eru til öfgamenn í öllum trúar- brögðum. Þegar menn ráðast síðan gegn íslam sem heild til að klekkja á öfgamönnunum þá fjölgar þeim, en fækkar ekki. Þannig er til að mynda algengt að konur fari að ganga með slæðu vegna þess að veist sé að trúsystrum þeirra fyrir að ganga með slæðu og þannig verður slæðan notuð sem tákn um baráttu gegn múslimahatri, en ekki sem trúartákn. Baráttan gegn múslimskum öfgamönnum hefur fjölgað múslimskum öfgamönnum um alla Evrópu, enda er þeim sagt að þeir geti ekki verið hluti af vestrænu samfélagi nema þeir hafni uppruna sínum og trú og hver vill gera það?“ Enginn -isti Á Wikipedia-síðu sem helguð er Tariq Ali og á fleiri síðum þar sem fjallað er um hann kemur iðulega fram að hann sé fyrrverandi marxisti, en hann tekur því heldur illa þegar ég ber það upp við hann. „Ég er sósíalisti, trúr þeirri hug- sjón að sósíalisminn feli í sér lausn fyrir heiminn og að á meðan kapítalismi sé til þá sé þörf fyrir sósíalisma. Marx hefur margt að kenna okkur, ég afskrifa hann alls ekki, en ég kann ekki við merkimiða, vill ekki að menn noti -isti um mig hvort sem það varðar Marx, Troskíj eða Lenín. Við getum lært af þeim öllum en við verðum að forðast að gera sömu mistök og gerð voru á tuttugustu öldinni í nafni þessara manna.“ Í lok spjallsins nefni ég það við Ali að ekki sé annað að sjá en hann sé frekar að herðast í bar- áttu sinni fyrir sólalískum heimi, en að linast, en ekki sé árangurinn mikill, í það minnsta ekki sem stendur. Hann tekur því þó létt, segir að víst gangi seint að breyta heiminum og stund- um sé eins og það gangi ekkert, „en maður má ekki gefast upp, það verður að halda áfram að tala fyrir breytingum, að skrifa um þær og taka þátt í baráttunni. Á síðustu þúsund árum hafa komið tímabil þegar hvorki gekk eða rak í mannkynssögunni, framþróun mannkyns hefur beðið ósigur og jafnvel miðað aftur á bak, svo það er ekkert nýtt í sögunni að illa gangi að miða okkur áfram og við höldum áfram þrátt fyrir það.“ Maður má ekki gefast upp Baráttumaður Tariq Ali hefur verið áberandi í pólitískri umræðu í Bretlandi síðastliðna fjóra áratugi sem blaða- maður, stjórnmálamaður og rithöfundur og berst enn fyrir breyttu þjóðskipulagi. TARIQ ALI | Viðtal, Norræna húsið 9. sept. kl. 17. Upplestur, Iðnó 11. sept. kl. 20. Vinstrimenn hafa engar lausnir á takteinum, hafa ekkert upp á að bjóða nú þegar heimurinn þarfnast nýrra hugmynda. E ins og fram kemur hér til hliðar hyggst Tariq Ali lesa upp úr ritgerðasafni sínu The Protocols of the Elders of Sodom á bókmenntahá- tíðinni, en í því eru grein- ar og ritgerðir frá liðnum árum, auk þess sem nokk- uð er ritgerðum sem skrifað er sérstaklega fyr- ir útgáfuna. Heiti bókarinnar hljóm- ar óneitanlega sérkennilega en í því er Ali að vísa til alræmds falsrits: The Protocols of the Elders of Zion, sem greinir frá meintu samsæri leynilegs öldungaráðs gyðinga um það hvernig þeir gætu náð heimsyfirráðum. Þetta lygarit var skrifað um miðja nítjándu öld og hefur reynst lífseigt; til að mynda gaf Jónas Guðmundsson alþingismaður það út á íslensku 1951 undir heitinu Samsærisáætl- unin mikla – Siðareglur Zíonsöldunga. Ali snýr aftur á móti listilega út úr öllu saman: „Að mínu viti er Gamla testamentið sambærilegt við Siðareglur Zíonsöldunga í því hvernig veist er að samkynhneigðum í því. Ein greinin í safninu, sem var reyndar skrifuð í hálfkæringi, fjallar einmitt um það að fyrst síonistar hafa notað Gamla testa- mentið til að rökstyðja það að þeir eigi rétt á landi í Palestínu, þá hljóta samkynhneigðir að geta krafist þess að fá landið sem Sód- óma og Gómorra stóðu á.“ Siðareglur Sódómuöldunga Fyrsta útgáfa falsritsins á þýsku.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.