Morgunblaðið - 03.01.2009, Side 23
Morgunblaðið |23
Eftir Maríu Ólafsdóttur
maria@mbl.is
Mörgum finnst erfiðara að vakna ámorgnana þegar myrkrið grúfirsig yfir landið. Júlíus K. Björns-son, sálfræðingur og sérfræð-
ingur í svefnvenjum, segist þó ekki þora að
fullyrða að fólk eigi erfiðara með að vakna á
veturna.
Niðurstöður komu á óvart
„Stór rannsókn sem gerð var á svefnvenjum
Íslendinga, reyndar fyrir talsverðu síðan,
sýndi að það var afar lítill munur á svefnvenj-
um um vetur og sumar og það kom á óvart á
sínum tíma. Niðurstöður könnunarinnar voru
bornar saman við sams konar niðurstöður frá
hinum Norðurlöndunum og það kom í ljós að
þær voru svolítið öðruvísi hér. Íslendingar
virtust fara um klukkutíma seinna að sofa og
klukkutíma seinna á fætur en Skandinavar.
Þetta má skýra á marga vegu, til dæmis með
því að fólk þarf að jafnaði lengri tíma til að
komast í vinnuna í nágrannalöndnunum en
einnig er freistandi að benda á að klukkan hér
er vitlaus. Það er að segja hádegi er ekki á há-
degi heldur klukkan eitt. Við vitum að svefn-
venjur og vökusvefntakturinn hjá fólki stýrist
fyrst og fremst af breytingum á birtu og það
segir okkur fyrst og fremst það að þó við höf-
um klukkuna vitlausa er fólkið rétt,“ segir Júl-
íus.
Nátthrafnar og morgunhanar
Hann segir ljóst að myrkur geti haft áhrif
en þekking á því hvernig það eigi sér stað og
hver áhrifin séu er takmörkuð. Þó sé ljóst að
ekki sé til eitt einfalt svar við þessu því fólk sé
svo mismunandi. Þannig skiptist fólk til að
mynda í nátthrafna og morgunhana, en sú
skipting er ekki klippt og skorin. Þá tengist
svefn okkar innbyggða sólarhringnum sem
hjá allflestum er aðeins lengri en 24 tímar, eða
nálægt klukkustund lengri. Þetta er talsvert
hentugt því það gerir fólki kleift að sofa leng-
ur ef það hefur tækifæri til og vaka lengur ef
það þarf. Þó eru alltaf nokkrir með hugs-
anlega styttri sólarhring og eiga þar af leið-
andi í vandræðum þar sem þeir vakna og
sofna of snemma. Þetta breytist síðan þegar
fólk eldist, nátthrafnarnir eru orðnir nokkurn
veginn eðlilegir þegar komið er yfir miðjan
aldur en hinir lenda í meiri vandræðum.
Reglulegar svefnvenjur
„Nokkur lykilatriði er gott að hafa í huga
hvað varðar svefn almennt. Í fyrsta lagi er
mikilvægt að hafa svefnvenjurnar eins reglu-
legar og maður getur vegna þess að sjaldnast
eða aldrei er hægt að stýra því hvenær maður
sofnar. Það stýrist annars vegar af líkams-
klukkunni og hins vegar hversu mikið maður
svaf nóttina áður. Það þarf því að vera taktur
og regla í hlutunum til þess að svefnmynstur
verði fyrirsjáanlegt. Það er ekki endilega það
versta að missa svefn öðru hverju, það kemur
fyrir alla og er eðlilegt. Óþægilegast og verst
fyrir fólk sem lendir í slíku er þegar það veit
ekki hvað muni gerast. Síðan eru það gömlu
húsráðin, passa sig á öllu óhófi í mat og drykk
og muna eftir því að það að sofna á kvöldin
krefst smá undirbúningstíma. Í okkar hraða
samfélagi gerum við stundum ráð fyrir því að
geta farið úr skjannabirtu, hávaða og látum og
sofnað en við þurfum smá tíma til að gíra okk-
ur niður nema við séum svo aðframkomin af
þreytu að við dettum út af,“ segir Júlíus.
Óbein áhrif
Vitað er að hitastig líkamans er einna besti
mælikvarðinn á hvernig líkamsklukkan geng-
ur en um miðjan daginn er líkamshitinn hæst-
ur og fellur síðan seinnipart nætur. Um það
bil þegar fólk er að sofna fylgir því snöggt
hitafall, en sjaldnast gerir það neitt gagn að
kæla niður svefnherbergið því yfirleitt verður
það til þess að líkaminn brennir meira. Engu
að síður er vitað að snöggt hitafall geti hjálpað
manni að sofna og það er að öllum líkindum
skýringin á því hvers vegna gott er að fara í
heitt bað fyrir svefninn. Þannig hækkar lík-
amshitinn verulega og fellur í kjölfarið sem oft
fylgir syfja. Það sama gerist ef drukkin er heit
mjólk eða vatn og segist Júlíus telja að litlu
skipti hvað fólk drekki svo lengi sem drykk-
urinn sé heitur.
Bæta á bensínið
„Þegar lífið er erfitt eða mikið stress í
kringum mann er ekkert óeðlilegt að svefninn
truflist á einhvern hátt. Slíkt ber að líta á sem
blikkandi, rautt ljós í mælaborðinu. Merki um
að við þurfum að bæta á bensíni eða hægja á.
Oftast lagast ástandið en stundum fer því mið-
ur í gang vítahringur sem þarf þá að vinda of-
an af, en oftast er slíkt tiltölulega einfalt. Best
er að kanna kringumstæðurnar og athuga
venjur fólks í kringum það að sofa. Fólk verð-
ur oft mjög stressað yfir þessu og byrjar að
fara fyrr og fyrr í rúmið en það er það versta
sem maður gerir því þá er maður að fara of
snemma í rúmið og liggur þar vakandi. Oft
virkar ljómandi vel að seinka því frekar svolít-
ið að fara að sofa ásamt því að halda fótaferð-
artímanum föstum eins og áður. Tímabundin
lausn er að taka svefntöflur sem er allt í lagi
en fólk getur gert margt annað líka,“ segir
Júlíus.
Taktur og regla
mikilvægust
Góður blundur Svefnvenjur fólks breytast með aldrinum.
Gömlu húsráðin Júlíus K. Björnsson segir
gilda að passa sig á öllu óhófi í mat og drykk
fyrir svefninn.