Morgunblaðið - 11.02.2009, Qupperneq 26
26 Umræðan
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 11. FEBRÚAR 2009
KOMIÐ hefur fram að forsætis-
ráðherra er hálfdrættingur í laun-
um á við nýju stjórana í ríkisbönk-
unum. Þeir voru fyrir lækkun
aðeins lægri en forseti lýðveldisins
með tæpar tvær millur á mánuði.
Stjórarnir hjá VR toppa svo alla
þessa enda ábyrgðin mikil. Á fundi í
Háskólabíói sagði framkvæmda-
stjóri VR laun sín – sem voru þá
helmingi hærri en laun forsætisráðherra – eðlileg
miðað við ábyrgð. Ekki furða að maðurinn sitji sem
fastast, þrátt fyrir þátttöku í og yfirhylmingu á KB-
ósómanum. Stjórnarmenn VR fá allt að 100.000 kr.
fyrir að sitja einn stjórnarfund. Skyldi græðgi vera
ástæða þess að stjórn VR krefst ekki að fram-
kvæmdastjórinn axli ábyrgð og segi af sér eða jafnvel
öll stjórnin segi af sér?
Launin hér að ofan eru baunir í samanburði við þau
stjarnfræðilegu laun sem græðgisvæðingin hjá FBA
gat af sér með kaupréttar- og starfslokasamningum.
KB-stjórarnir voru svo gráðugir að forsætisráðherra
ofbauð og tók út sparifé sitt hjá Búnaðarbankanum.
Laun hjá bönkunum héldu áfram að hækka og til
urðu nýjar stéttir. Fjárfestar og fjármálaráðgjafar.
Fjármálaráðgjafar aðstoðuðu fjárfestana að fá sem
allra mesta ávöxtun og svo að sleppa við að greiða
skatta af gróðanum. Yrði manni á að gagnrýna of-
urlaun bankastjóranna við einhvern þessara braskara
var svarið. „Þetta er allt í lagi. Þeir vinna fyrir þessu.
Veistu hvað bréfin mín hafa hækkað?“ Seinna voru
ofurlaunin réttlætt með því að tekjurnar kæmu mest
erlendis frá og jafnvel hótað að bankarnir færu úr
landi.
Því miður varð svo ekki. Launaskriðið hélt áfram
frá fjármálafyrirtækjum til þingmanna og embættis-
manna. Eftirlaunaósóminn er ekkert annað en starfs-
lokasamningur. Græðgisvæðingin endaði svo á því að
ráðgjafarnir aðstoðuðu fjárfestana við að koma fjár-
magni úr landi fyrir hrunið um leið og þeir hringdu í
sparifjáreigendur, sem þeir ráðlögðu og hvöttu til að
flytja ævisparnaðinn á „betri“ ávöxtun.
Nú eru liðnir 3 mánuðir frá hruninu. Stjórnvöld
hafa sagt að allt skuli vera gagnsætt uppi á borðinu
og svo á að velta við einhverjum steinum. Hjá rík-
isbönkunum er sama liðið og áður hjá einkabönkunum
á sömu ofurlaununum.
Af hverju var ekki öllum sagt upp? Ráðið upp á
nýtt og kjörin miðuð við stöðuna eftir hrun. Vart hef-
ur lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verið tekið til
að halda sama ruglinu áfram. Gagnsæið er ekki meira
en það að nú er að koma fram að strax eftir hrunið
voru eignir „seldar“ í gegnum síma án þess að op-
inberlega væri óskað eftir tilboðum í þær. Þeir sem
gengu frá sölunni og þeir sem keyptu voru beintengd-
ir útrásargalgopunum.
Til hvers eru Ríkiskaup? Afleiðing 18% stýrivaxta
og vitlausrar mælingar á verðtryggingu er sú að
margir hafa misst vinnuna og jafnvel húsnæði sitt.
Aðrir hafa lækkað í launum til að halda vinnunni.
Þingmenn lækkuðu laun sín um 15% og forsetinn ósk-
aði ítrekað eftir lækkun til jafns við þá. Er einhver
fórn að lækka úr 2,1 í 1,7 millj. kr. á mánuði sam-
anborið við að missa vinnu og húsnæði? Hefði ekki
verið nær hjá forsetanum að gefa 2⁄3 af launum sínum
í sjóð til bágstaddra. Það þarf ekki að biðja um leyfi
til þess. Þá væru eftir 700 þús. kr. til að lifa á, sem
ætti að vera kappnóg miðað við fríðindi embættisins.
Aðrir mættu svo líta í eigin barm og bæta í sjóðinn.
Stjórnmálamenn virðast sumir alveg hafa tapað átt-
um og vilja halda áfram byggingu tónleikamusteris
við höfnina. Það yrði svo miklu dýrara seinna. Jafnvel
gætu komið skaðabótakröfur væri hætt við.
Eru Jón og Gunna líka í ábyrgð fyrir þessum
ósköpum? Í viðbót við Icesave og allt hitt. Okkur er
sagt að stýrivextir verði að vera svona háir til að
hamla á móti verðbólgunni. Undir það taka verklýðs-
foringjar sem vita að þeim mun hærri vextir þeim
mun meiri verðbólga og þeim mun hærri verðtrygg-
ing á lífeyrissjóðslánin. Með reynslutölum fyrri ára er
auðvelt að sýna fram á að verðbólgan eltir vextina.
Lækki vextir hopar verðbólgan. Ætli ástæðan fyrir
hækkun stýrivaxta úr 12 í 18% hafi ekki frekar verið
sú að halda krónubréfum í landinu? Með 18% stýri-
vöxtum borga Jón og Gunna eigendum krónubréfa
um 100 milljarða í vexti á ári sé rétt að þeir eigi um
500 miljarða í krónubréfum. Það er margfalt hærri
ávöxtun en þeir fá á nokkrum öðrum stað. Hvers
vegna eru stýrivextir ekki lækkaðir nú þegar komin
eru gjaldeyrishöft til hindrunar fjármagnsflutninga
úr landinu? Flestar þjóðir hafa lækkað stýrivexti nið-
ur undir 0% í þeim göfuga tilgangi að halda uppi at-
vinnu.
Í byrjun nóvember spurði ég í Morgunblaðsgrein
hvort ekki væri betra að lækka stýrivexti og leggja af
verðtryggingu strax en fjöldi heimila og fyrirtækja
yrðu gjaldþrota. Nú er spáð að 3.500 fyrirtæki í öllum
atvinnugreinum fari hausinn á árinu með tilheyrandi
atvinnuleysi og hörmungum. Krónubréfabraskararnir
tóku áhættu líkt og þeir sem keyptu hlutabréf t.d. í
Glitni? Er einhver ástæða til að bjarga þeim á undan
heimilum og fyrirtækjum? Svo virðist sem engin tak-
mörk séu fyrir því hvað hægt er að leggja á Jón og
Gunnu.
Ofurlaunaósóminn í boði Jóns og Gunnu
Sigurður Oddsson verkfræðingur.
KÆRU núverandi og verðandi stjórnmálamenn. Á
þessum miklu breytingartímum þar sem ný stjórn-
málaöfl eiga möguleika á að verða til og umbreytingar
eru væntanlegar í rótgrónum stjórnmálaflokkum í að-
draganda kosninga langar mig til að rita nokkur orð
um þrjá eiginleika sem ég tel að framtíðarleiðtogar Ís-
lendinga þurfi að tileinka sér. Þessi stutta samantekt
mín er byggð á lestri mínum og íhugun um hlutverk
leiðtoga almennt á síðustu árum. Eiginleikarnir sem ég
vil hvetja íslenska leiðtoga til að tileinka sér eru skýr
framtíðarsýn, þjónustulund og samstarfsvilji. Góður leiðtogi verður að
hafa skýra framtíðarsýn til að hrífa fólk með sér. Vissulega er hægt að
ná upp fylgi með því að rífa aðra niður en ekki þýðir að rífast stöðugt um
það sem liðið er. Mikilvægt er leiðtogar framtíðar nýti dómgreind sína til
að greina vandamál nútímans en til þess að hrífa fjölda fólks með sér
þarf leiðtoginn skýra framtíðarsýn sem byggist á lausnum og uppbygg-
ingu. Líkt og nýr forseti Bandaríkjanna sagði í innsetningarræðu sinni
hinn 20. janúar: „Leiðtoga verður minnst fyrir það sem þeir byggja upp,
ekki það sem þeir rífa niður.“ Annar eiginleiki góðra leiðtoga að mínu
mati er rík þjónustulund. Forystumenn eru alveg jafnt í almannaþjón-
ustu og aðrir sem starfa í umboði skattgreiðenda. Stjórnmálastarf ætti
að snúast um að þjóna þörfum sem flestra, ekki vera í eiginhags-
munapoti fyrir fjársterka stuðningsaðila. Í ljósi þess þurfa framtíð-
arleiðtogar landsins að berjast fyrir opnu bókhaldi flokka sinna og starfa
í eins gegnsæju umhverfi og unnt er hverju sinni. Þjónustuhlutverk eru
mörg og mismunandi og stundum þarf að taka ákvarðanir sem ekki allir
geta verið sáttir við, en leiðtogi sem starfar í anda þjónustu verður að
öllum líkindum farsælli en sá sem starfar í krafti valdsins sem hann tel-
ur sig hafa öðlast. Þriðji eiginleikinn sem ég tel mikilvægan er sam-
starfsvilji og sáttfýsi. Eftir kosningar í vor má alls ekki skella á stjórn-
arkreppa og því þurfa þeir sem stefna að leiðtogahlutverki að gæta
„aðgátar“ í nærveru þeirra sála sem þeir munu keppast við. Minnumst
aðila eins og Nelsons Mandela sem starfaði með þeim sömu aðilum og
hnepptu hann í varðhald. Minnumst líka orða Mahatma Gandhi sem rétti
fram sáttarhendur í allar áttir til að ná því marki að sameina indversku
þjóðina og sagði meðal annars að hugmyndin um auga fyrir auga mundi
gera allan heiminn blindan. Vissulega þurfa framtíðarleiðtogar einnig að
tileinka sér fleiri eiginleika eigi þeir að stjórna farsællega en ég tel að
leiðtogi sem setur fram skýra framtíðarsýn, starfar í anda þjónustu og
leitar sátta og samstarfs, sé búinn að taka mikilvæg skref í átt að því að
byrja að byggja upp það sem hefur verið kallað „hið nýja Ísland.“ Ég
vonast sannarlega til að sjá ofangreinda eiginleika rísa upp úr ösku-
stónni sem fylgt hefur niðurrifsskrafi, slagorðastjórnmálum og „rétt-
látri“ reiði síðustu mánaða.
Opið bréf til
framtíðarleiðtoga landsins
Guðjón Bergmann rithöfundur, fyrirlesari, jógakennari og
áhugamaður um hlutverk leiðtoga í nútímasamfélagi.
HVERJUM hefði dottið það í hug fyrir hálfu ári að
mótmæli ættu eftir að skipta sköpum fyrir framtíð
samfélagsins. Nokkur hundruð hræður með skilti að
mótmæla Íraksstríðinu þar sem einstaka hópóp heyrð-
ust – í mesta lagi 30 sekúndur í senn – hafa hingað til
þótt vera öflug og vel heppnuð mótmæli á Íslandi.
Ekki lengur. Síðastliðin tvö ár hafa umhverfisvernd-
arsinnar verið sagðir beita ofsafengnum aðgerðum í
baráttu sinni gegn Kárahnjúkavirkjun og þeir upp-
nefndir „atvinnumótmælendur“. Það þóttu vera öflug
og róttæk mótmæli. Ekki lengur.
Í desember og janúar höfum við séð alvöru mótmæli. Við höfum séð
hvernig mótmæli hafa breytt hinu pólitíska umhverfi landsins. Þúsundir
hafa komið saman, sýnt samstöðu, hugrekki og virkjað reiði sína í þágu
betra samfélags. Stjórnvöld hafa ekki getað annað en óttast. Eins og
oft hefur verið sagt: Fólkið á ekki að hræðast ríkisstjórn sína, rík-
isstjórnin á að óttast fólkið sitt.
Valdastéttin hefur bælt alþýðuna og reynt að halda í völd sín með öll-
um tiltækum ráðum. Krafa fólksins hefur verið einföld; réttlæti, lýð-
ræði og gegnsæi. Ríkisstjórnin hefur reynt að afvegaleiða baráttu fólks-
ins með hræðsluáróðri, en sigurinn er okkar. Sigur sem kostaði okkur
blóð, svita og tár. Því miður þurftu mótmælendur og lögreglumenn að
hljóta áverka og beinbrot, en mótmælin virðast hafa þurft að ganga svo
langt. Nú er ljóst hversu mikill eldmóður fólksins í landinu er og
hversu langt almúginn er reiðubúinn að ganga til að berjast fyrir rétt-
indum sínum. Það má ekki óttast þessa reiði, þetta afl sem leystist úr
læðingi aðfaranótt 22. janúar þótt ekkert okkar vilji upplifa þá stöðu á
ný. Stjórnmálamenn íhaldsins sem sögðu fáeinum dögum áður að kosn-
ingar væru ómögulegar eru nú á því að maí gæti jafnvel hentað vel til
kosninga.
Ríkisstjórnin hefur verið veruleikafirrt – áttaði sig ekki á þeim veru-
leika sem var ríkjandi í samfélaginu á meðan alþýðan upplifði kreppuna
– hún lifði í raunveruleikanum. Eins og Hegel sagði mótar vinnan
manninn en sönnun þess sést bersýnilega í vanhæfni og þroskaleysi
ráðamanna. Valdamenn voru það ótengdir að þeir leyfðu sér að segja
að mótmælendurnir væru ekki þjóðin, en með þrautseigju tókst okkur
að afsanna þessi frægu orð. Með rauðum fánum, svörtum klútum, frið-
samlegum aðgerðum, beinum aðgerðum og samstöðu tókst okkur að
vinna sigur á valdaklíkunni og berjast fyrir því sem rétt er.
Sigurinn er okkar – fólksins í landinu. Nú geta stjórnvöld ekki neitað
okkur um lýðræðislega úrvinnslu á málinu. Nú geta stjórnvöld ekki
neitað okkur um þann möguleika að stokka upp í ríkisstjórninni. Nú
getum við afhjúpað og upprætt þá spillingu sem hefur arðrænt okkur
síðastliðin sautján ár. Nú tekur við uppbygging á nýju lýðveldi byggðu
á sanngirni, gegnsæi, réttlæti og jafnrétti. Það kostaði okkur blóð, það
kostaði okkur tár en það hafðist. Mótmælin hafa breytt hugsunarhætti
fólksins – vakið það loks af neytendablundinum, úr letihamnum og
komið því á skrið. Baráttunni er ekki lokið, við gefumst ekki upp fyrr
en vorið er komið og kosningar afstaðnar, en sigurinn er þjóðarinnar að
sinni.
Blóði drifinn sigur
Tómas Gabríel Benjamin, heimspekinemi og meðstjórnandi
í stjórn Ungra vinstri grænna.
NÚ ERU aðstæður í alþjóðlegri
ferðaþjónustu að nokkru leyti hlið-
stæðar og þær voru í ársbyrjun 2002.
Þá voru ferðamarkaðir í ákveðinni bið-
stöðu í kjölfar hryðjuverkanna haustið
2001. Þá ákváðu stjórnvöld í samstarfi
við fyrirtækin í atvinnugreininni að
auka kynningar- og markaðsvinnu er-
lendis til að freista þess að halda
markaðshlutdeild okkar í þeirri heild
sem fyrirsjáanlegt var að myndi dragast verulega saman.
Það tókst og Íslendingar juku sinn hlut og fylgdu því eftir
árið 2003 þegar áfram var notuð sama aðferðafræði en
verkefnið sem slíkt náði yfir 18 mánuði. Þannig að þessi ár
náðu Íslendingar að auka gjaldeyristekjur af þessari at-
vinnugrein við erfiðar aðstæður í kjölfar almenns sam-
dráttar í ferðaþjónustu í heiminum. Hverju var til kostað
til að verja okkar markaðshlutdeild eins og lagt var upp
með þó niðurstaðan yrði betri eða aukin hlutdeild? Stjórn-
völd lögðu fram í beinar markaðsaðgerðir ferðaþjónust-
unnar auk alls hefðbundins innlends og erlends reksturs
og fjölmargra annarra þátta á þessum 18 mánuðum um
640 milljónir. Fjármunirnir voru nýttir til kaupa á auglýs-
ingum og annarra markaðsaðgerða á markaðssvæðunum
og eðlilega ræðst kaupgeta okkar og þungi aðgerðanna af
gengi á hverjum tíma. Í samræmi við verðlag í dag þá
þyrfti samsvarandi upphæð að vera nálægt 1300 millj-
ónum ísl. króna svo hægt væri að fjárfesta hliðstætt á
markaðssvæðunum og gert var á þessu tímabili 2002-2003.
Aðferðafræðin sem notuð var 2002-2003 byggðist á því að
fyrirtækin lögðu a.m.k. jafnt til átaksins og stjórnvöld, en
eðlilega lögðu þau svo þar að auki fjármuni til eigin kynn-
ingar. Alls voru því nýttar 1200-1300 milljónir í bein aukin
almenn kynningar- og markaðsverkefni. Til að kaupmátt-
urinn væri hliðstæður á markaðssvæðunum og var 2002
þá þyrfti nú um 2,6 milljarða á næstu 18 mánuðum og þar
af kæmu 1,3 milljarðar frá ríkinu. Þá er eingöngu verið að
tala um þennan afmarkaða þátt; markaðs- og kynn-
ingarátak. Allur innlendur og erlendur rekstur, upplýs-
ingamiðstöðvar, úrbætur á ferðamannastöðum, rann-
sóknir o.fl. kæmi eðlilega þessu til viðbótar. Oft hefur
komið upp í umræðunni í gegnum tíðina hvort ekki væri
eðlilegra fyrir alla vegna gengissveiflna og stöðuleika í
vinnunni að stjórnvöld gerðu samning við greinina um að
framlag þeirra til þessa kynningarsamstarfs væri ákveðið
hlutfall af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins af ferðaþjónustu
árið á undan. Slíkur samningur hefði á þessu ári skilað um
650 milljónum frá stjórnvöldum fyrir hvert 1% af gjald-
eyristekjum sem skiluðu sér á síðasta ári. Það er ljóst að
það sem gert var 2002-2003 skipti sköpum.
Um það voru allir sammála sem að komu og einnig
vöktu viðbrögð stjórnvalda athygli og voru öðrum fyr-
irmynd. Það þekki ég persónulega. Ekki aðeins tókst að
halda markaðshlutdeild heldur að auka hana og í kjölfarið
varð aukning tekna hlutfallslega meiri hér en í flestum
samkeppnislöndum okkar. Enn njótum við þessa átaks, en
nauðsynlegt er að leita allra leiða til að viðhalda og vekja
áhuga, tryggja áfram okkar samkeppnishæfni og helst
aukna hlutdeild í þeirri lægð sem er í ferðaþjónustu á
heimsvísu og er ávísun á aukna samkeppni um athygli. Öll
fjárfesting í þessum þætti skilar sér margfalt ef rétt er að
staðið. Það sýnir sagan. Við höfum byggt upp ákveðna
ímynd af Íslandi sem ferðamannalandi. Sú ímynd stendur
óhögguð þrátt fyrir allt, enda byggð á trúverðugum og
traustum grunni;l andinu sjálfu, menningu okkar og sögu
auk fólksins í landinu. Mér brá nokkuð við að sjá í haust að
opinber aðili kaus að bjóða gesti velkomna til landsins með
auglýsingaspjöldum sem á stóð: „Welcome to HALFPRI-
CELAND“. Þessi orðaleikur þótti mér lágkúra en sem
betur fer hafa þessi spjöld nú horfið. Ísland hefur aldrei
verið og verður vart ódýr áfangastaður fyrir erlenda gesti
þó hann hafi stundum vegna gengissveiflna orðið tíma-
bundið ódýrari. Forsendur til þess eru einfaldlega ekki til
staðar og hef ég oft rakið þær opinberlega. Við eigum því
ekki að byggja almenna kynningu og ímyndarsköpun á
tímabundinni gengisþróun heldur halda okkar striki, sem
hefur skilað okkur hlutfallslega meiru en flestum. Enda er
það svo, þegar komur erlendra gesta eru skoðaðar og
bornar saman við stöðu gengis á hverjum tíma, að ekki er
hægt að sjá beint samhengi þar á milli. Þar sem við höfum
ekki forsendur til að keppa á forsendum verðlags hefur
áherslan í almennum kynningum verið á annað eins og að
ofan var nefnt.
Við eigum ekkert val; við verðum einfaldlega að vera
betri en samkeppnisaðilarnir.
Hér eru flestar forsendur til að vera betri, en það kostar
mikla og stöðuga vinnu að nýta þær. Það er enginn metn-
aður í því markmiði sem stundum er nefnt að standa jafn-
fætis þeim sem við eigum í samkeppni við. Markmiðin eru
að vera betri en samkeppnisaðilarnir. Því er það grunn-
atriði að vinna áfram af krafti að frekari vöruþróun og
gæðamálum vöru og þjónustu til að vera samkeppnishæf-
ari og vara okkar, þjónusta og upplifun, sé í samræmi við
verðlag. Annars er kynning og ímyndarsköpun unnin fyrir
gýg.
Aukin samkeppni krefst enn frekari vinnu
Magnús Oddsson er fyrrverandi ferðamálastjóri
og hefur unnið að ferðamálum í áratugi.