Embla - 01.01.1946, Blaðsíða 40
misskilningi? lJað eru oft undarlega smá atvik, sem verða til
þess að aðskilja.
Björg: Nei, ég lield ekki. Það var lieimska, að mér skyldi nokkru
sinni detta í hug, að hún myndi sætta sig við okkar siði. Og ég
er víst orðin of gömul til þess að læra.
Prestur: Skyldum við ekki þurfa alla eilífðina til að læra, Björg
mín, hvað þá þessa stuttu mannsævi? Mér finnst ég liafa lært
mikið þetta seinasta ár.
Björg: Af nýja prestinum?
Prestur: Já, einmitt af nýja prestinum. Það er svo margt, sem
minnir mig á það, þegar ég var ungur og þurfti allt að læra. Og
eitt er víst, að ef við lendum í andstöðu við æskuna, þá er ein-
hver sök hjá okkur, — eitthvað að verða að steingerfingi í okkar
eigin sálum.
Björg: Kuldinn og harkan bræðir ekki steininn.
Prestur: Nei, en regntárin móta hann, og eldurinn bræðir hann.
Björg: Guð stjórnar gróðrarskúrunum og eldinum, sem veldur
byltingum jarðarinnar og bræðir björgin, en ekki mennirnir.
Prestur: Og guð gefur mönnunum gróðurregn sorgarinnar og eld
kærleikans, svo að þeir eignist þroska fyrir nýjan gróður.
Sveinn (kemur í dyrnar).
Prestur: Jæja, Sveinn minn. Nú er víst búið að leggja á hestana
og tími kominn til að fara (stendur upp). Ég vona, að þér mis-
virðið ekki við mig, Björg mín, það, sent ég hef sagt við yður.
Það var af góðum huga gert.
Björg: (stendur upp) Það veit ég vel. Ég reiðist ekki göfugri hrein-
skilni. Ég skal liugsa um allt, sem þér hafið sagt. Ég hef nógan
tíma til þess. Þegar ég heyri yður tala, freistast ég til að sam-
sinna yður.
Prestur: Ég þakka yður traustið (réttir henni höndina). Verið
þér nú blessaðar og sælar.
Björg: Verið þér nú sælir. Og ég þakka yður fyrir allt, sem ég hef
lært og notið í viðræðum við yður.
38
EMBLA