Morgunblaðið - 14.07.2009, Blaðsíða 8
8 FréttirINNLENT
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. JÚLÍ 2009
Eftir Guðna Einarsson
gudni@mbl.is
BANKINN hefur alltaf verið eitt
stórt nei. Þau eru ofsalega hugguleg,
klappa mér á bakið og rétta mér
tissjú þegar ég hef fellt þar tár af
reiði eða angist,“ segir kona sem hef-
ur ekki fengið lausn sinna skuldamála
þrátt fyrir tíðar ferðir í bankann sinn
í vetur. „Það er ekkert hægt. Þau eru
ráðalaus. Það er alltaf talað um ein-
hverjar nefndir sem eru með öll svör-
in. Þaðan kemur alltaf nei og ekkert
er gert á meðan.“
Konan, sem vildi ekki láta nafns
síns getið, sagði Morgunblaðinu af
högum sínum. „Við erum ósköp
venjulegt fólk sem var að byggja.
Eigum hvorki fellihýsi, hesta né sum-
arbústað. Vorum ekki á neinu fjár-
festingafylliríi,“ sagði konan. Saga
hennar er ábyggilega ekki einsdæmi
og gefur innsýn í þá erfiðleika sem
margir kljást við. Konan og maður
hennar áttu fasteign í haust sem á
hvíldi húsnæðislán í íslenskum krón-
um frá Kaupþingi. Þau áttu aðra eign
og hvíldi á henni erlent lán. Sú fast-
eign seldist í september, tæpum
þremur vikum fyrir bankahrunið.
„Þá var okkur ráðlagt að færa er-
lenda lánið yfir á húsið okkar. Sem
sagt losa okkur við góða lánið sem við
vorum með á 4,15% vöxtum og taka
þetta yfir,“ sagði konan. Hún segir að
þau hafi leitað annarra leiða því þau
treystu því ekki að þetta væri ráðlegt.
„Það var ekkert annað hægt. Ef við
hefðum borgað upp erlenda lánið á
þessum tíma hefðum við tapað fjórum
milljónum á einu bretti. Það var verið
að reyna að koma í veg fyrir það.“
Konan sagði að maðurinn hennar
hefði verið daglegur gestur hjá úti-
bússtjóranum dögum saman. Þau
hefðu tekið erlenda lánið á húsið sitt
samkvæmt eindreginni ráðgjöf bank-
ans. Erlenda lánið hefur nú tvöfaldast
að verðgildi í íslenskum krónum frá í
haust og greiðslubyrðin á mánuði
meira en tvöfaldast.
Þungbært byggingarlán
Húsbóndinn á heimilinu er húsa-
smiður og byggði íbúðarhús í nýju
hverfi til að selja. Húsið varð fokhelt í
lok árs 2007. Það var reist fyrir bygg-
ingarlán, sem í raun var yfirdráttar-
lán. Húsið seldist ekki strax og hlóð
lánið á sig kostnaði. Loks tókst að
losna við húsið en með verulegu tapi
svo ekki var hægt að borga bygging-
arlánið upp. Eiginmaðurinn var
tekjulaus í marga mánuði í vetur. Var
fyrst svikinn um vinnulaun og síðan
atvinnulaus um tíma. Konan segir að
þau hjónin hafi mætt, ýmist saman
eða hvort í sínu lagi, til þjónustu-
stjóra og útibússtjóra einu sinni til
tvisvar í viku frá því í október sl. til að
ræða sín mál.
„Sérstaklega höfum við rætt um
þennan yfirdrátt [byggingarlánið]
sem einhvern veginn vex eins og æxli.
Hann bara vex og vex upp í það enda-
lausa. Við höfum hvorki fundið né
fengið neina lausn á því. Húsnæð-
islánið fór úr frystingu 1. maí og við
höfum ekki getað greitt af því síðan.
Ekki átt fyrir því. Það er komið í
milliinnheimtu og yfirdrátturinn
líka,“ sagði konan. Henni svíður úr-
ræðaleysið sem henni finnst ríkja í
bankanum. Hún kennir starfsfólkinu
þó ekki um.
Finnst ekkert vera að gerast
„Mér finnst þau öll af vilja gerð –
en það gerist ekki neitt. Akkúrat ekki
neitt,“ sagði konan. „Þau lögðu til að
setja yfirdráttarlánið í kúlulán, óverð-
tryggt lán með litlum vöxtum sem við
myndum ekkert finna fyrir. Það mátti
síðan ekki. Að uppástungu bankans
kom sú hugmynd að afskrifa hluta af
þeirri skuld þannig að við gætum ein-
hvern veginn farið að borga af henni.
Það var sett fyrir afskriftanefnd sem
hafnaði umsókninni því það mátti
ekki afskrifa neitt!“ Síðasta hugmynd
bankans var að reikna út 80% af
fasteignamati hússins sem veðhæfi
og setja það sem út af stæði af skuld-
um hjónanna í óverðtryggt lán. Það
yrði fryst og geymt í tvö til þrjú ár.
Þá yrði skoðað hvað ætti að gera.
„Þessu fylgir sú kvöð að erlenda
láninu verði breytt í íslenskar krónur
á gengi dagsins í dag. Manni svelgist
á við þá tilhugsun,“ sagði konan. Hún
kvaðst hafa vonast eftir betri lausn.
Konan spurðist fyrir um það í bank-
anum hvort hægt yrði að leiðrétta
lánið, ef betri lausn kæmi fram. T.d.
ef ríkisstjórnin kæmi með einhverjar
lausnir fyrir almenning. Hún fékk
þau svör hjá stjórnanda útibúsins að
það yrði hægt.
„Frábært, sagði ég, vildir þú senda
mér það í tölvupósti, sagði ég. Ég
treysti einhvern veginn engum núna
og vildi hafa þetta skriflegt. Nei,
hann vildi ekki senda þetta í tölvu-
pósti. Það kom ekki til greina,“ sagði
konan.
Á fasteign hjónanna hvílir lítið líf-
eyrissjóðslán á 2. veðrétti, næst á eft-
ir erlenda húsnæðisláninu. Þar fyrir
aftan er tryggingarvíxill vegna bygg-
ingarlánsins. Konan segir bankann
setja það sem skilyrði fyrir því að
skuldbreyta lánunum að lífeyrissjóðs-
lánið verði fjarlægt af fasteigninni.
Til að það sé hægt verður að leita til
ættingja eða annarra með veðleyfi, að
sögn konunnar. Konan segir lífeyr-
issjóðinn skiljanlega ekki vera tilbú-
inn til að fara neðar á veðbókarvott-
orðinu.
Hún kvaðst vera ráðþrota og hafa
sótt um ráðgjöf hjá Ráðgjafarstofu
heimilanna fyrir um sex vikum. Um-
sóknin er enn í bunkanum. Þar er
henni sagt að enn þurfi að bíða ein-
hverjar vikur í viðbót eftir viðtali.
„Við erum venjulegt fólk
sem var að byggja“
Kona segir ráðleysið vera ríkjandi í viðskiptabanka sínum og hún hafi ekki fengið raunhæfa lausn
Í HNOTSKURN
»Hjón voru hvött í sept-ember til að greiða upp
hagstætt húsnæðislán í krónum
og setja erlent húsnæðislán á
húsið sitt.
»Lánið hefur tvöfaldast oggreiðslubyrðin meira en
tvöfaldast í vetur.
»Ítrekaðar ferðir í bankannhafa ekki skilað neinni var-
anlegri lausn að mati kon-
unnar.
»Nýja Kaupþing skoðar leiðfyrir skuldsetta ein-
staklinga. Í henni felst m.a. um-
breyting erlendra lána í íslensk
og niðurfelling skulda að hluta.
Morgunblaðið/Ómar
Skuld vegna byggingarstarfsemi húsbóndans og húsnæðislán í erlendri
mynt er að sliga hjónin. Myndin tengist ekki efni greinarinnar beint.
Eftir Bergþóru Njálu Guðmundsdóttur
ben@mbl.is
„HELSTA vandamálið er að útlendingarnir
treysta því ekki alveg að þetta sé ókeypis og halda
að þetta sé eitthvert svindl,“ segir Páll Zophanías
Pálsson, sem í sumar starfar við að ferja Íslend-
inga og erlenda ferðamenn um miðborgina á sér-
útbúnu reiðhjóli.
Verkefnið kallast Crymoguide og er skapandi
sumarstarf á vegum Hins hússins, en meðan á
hjólatúrnum stendur leiðsegir Páll farþegum sín-
um og sýnir þeim borgina í nýju ljósi. Páll er ann-
ar tveggja sem hafa þetta óvenjulega starf með
höndum, en hjólin fá þau að láni frá símafyrirtæk-
inu NOVA. „Þeir fá að koma sínum skilaboðum á
framfæri, fólk fær ókeypis túra, ég fæ að gleðja
fólk og laun frá borginni og allir eru sáttir,“ segir
hann en verkefnið varir út júlí.
Hann viðurkennir að í fyrstu hafi honum þótt
nokkurt puð að stíga hjólið með jafn þungan farm
og raun ber vitni en hægt er að hafa tvo fullorðna
„í skottinu“ í einu. „Við hönnuðum hins vegar
ferðina þannig að við byrjum uppi á Skólavörðu-
holti og svo leyfi ég þyngdaraflinu að hjálpa mér
niður eftir og í gegnum miðbæinn. Svo fer ég bara
einn uppeftir aftur.“
Spurn eftir túrunum hefur verið góð segir Páll
sem er nýútskrifaður úr leiðsögumannaskólanum.
„Ég tala um Guðjón Samúelsson, Einar Jónsson
og svo það sem fólk spyr mig út í um Ísland. Það
er aðeins erfiðara ef Íslendingar eru farþegar –
þeir vita meira og þá þýðir ekkert að bulla. Það er
samt bara gott að þurfa að vera aðeins á tánum.“
Þýðir ekkert að bulla við Íslendingana
Morgunblaðið/Jakob Fannar
Leiðsegir Páll Zophanías Pálsson lætur sig lítið muna um að hjóla með tvo farþega.
Páll Zophanías Pálsson ferjar mann og annan um
miðborgina á reiðhjóli og segir frá landinu um leið
NÝJA Kaup-
þing undirbýr
nú lausn fyrir
skuldsetta
einstaklinga
og lítil og
meðalstór fyr-
irtæki. Hún
mun væntanlega fela í sér afskrift
veðskulda umfram virði fasteigna.
Helgi Bragason, lánastjóri við-
skiptabankasviðs Nýja Kaupþings,
vonast til þess að hægt verði að
kynna þessa leið innan tíðar.
Helgi segir bankann ekki vera
að knýja á fólk um að breyta hús-
næðislánum í erlendri mynt í lán í
íslenskum krónum. Vilji fólk hins
vegar fara hina nýju leið með
bankanum þá vilji bankinn breyta
lánunum í íslenskar krónur.
Hugmyndin er að skuldbreyta
eldri lánum og búa til verðtryggt
lán sem nái upp í 80% af markaðs-
virði eignar. Það sem eftir standi
af skuldum viðkomandi verði sett í
óverðtryggt „biðlán“ til 2-3 ára.
Það verði tryggt með þinglýstu
tryggingabréfi upp í sem nemi
110% af virði eignarinnar. Biðlánið
gæti þó verið hærra og því að hluta
án veðs.
Helgi telur að það þurfi að
ganga enn lengra. „Það þarf í raun
að segja við fólk: Við getum af-
skrifað það sem er umfram virði
eignarinnar.“ Hann segir að um-
hverfið hafi ekki leyft slíkar af-
skriftir hingað til. „Þessa dagana
erum við að vinna í því að þessi að-
ferðafræði gangi þannig upp á
endanum að við náum að afskrifa
allt sem stendur umfram 110%
verðmætis eignar viðkomandi.“
Beðið eftir Gamla Kaupþingi
Það hefur tafið að ekki hefur
enn verið skilið á milli eignarhalds
gömlu og nýju bankanna. Helgi
segir lánasöfnin sem um ræðir
vera í eigu og umsjón Gamla Kaup-
þings en þau verði ekki í efnahag
Nýja Kaupþings, a.m.k. ekki í byrj-
un. Hann sagði málið komið svo
langt að einungis sé eftir að fá
samþykki Gamla Kaupþings.
„Þetta er nokkurs konar flýtileið
að því að fólk þurfi ekki að fara í
greiðsluaðlögunina sem tekur þrjú
ár. Það er of langur tími og þung
leið fyrir fólk,“ sagði Helgi.
Helgi sagði að allir sem þessi
nýja leið hafi verið kynnt fyrir hafi
verið hrifnir af henni. Í þeim hópi
eru m.a. ráðherrar. Hann telur að
þetta sé hin óumflýjanlega leiðrétt-
ing hjá of skuldsettu fólki.
„Það er ekki bönkunum í hag að
sitja uppi með húsnæði í stórum
stíl sem þeir hafa eignast við nauð-
ungarsölu,“ sagði Helgi. gudni@m-
bl.is
Afskriftir
skulda til
skoðunar