Morgunblaðið - 20.07.2009, Síða 13
Daglegt líf 13
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 20. JÚLÍ 2009
Eftir Alfons Finnsson
Ólafsvík | Það er ávallt nóg að gera í bíl-
skúrnum hjá Daníel Jónssyni í Ólafsvík, en
hann hefur í vetur verið að gera upp gamlan
trébát, sem ber nafnið Lundi.
Daníel eignaðist bátinn í Stykkishólmi, en
þetta er einn af svokölluðum súðbyrðingum.
Þessi bátur sem er 2,6 tonn að stærð er frá
árinu 1979 og var smíðaður af Stjána slipp og
segir Daníel að þeir hafi verið þekktir sem
gæðabátar. Er þetta 18. báturinn sem Daníel
gerir upp.
Átta ára til sjós
Daníel byrjaði á sjó á Vestfjörðum með föð-
ur sínum átta ára gamall á handfærum.
Fyrsta bátinn eignaðist hann 13 ára gamall,
súðbyrðing sem faðir hans endurbyggði fyrir
hann. Daníel segir að hann hafi byrjað sína
sjómennsku fyrir alvöru 15 ára gamall á
togaranum Gylfa BA 16.
„Síðan fór ég á vertíðarbáta og var lengi á
Jóni Þórðarsyni BA á netum. Á þeim tíma
voru notaðar glerkúlur og grjót á netin og
vorum við með allt að 18 trossur í sjó. Fyrstu
vertíðina mína þarna um borð fengum við
1.800 tonn af þorski. Síðan stóð maður í þessu
bátabrasi í mörg ár fyrir vestan,“ segir Danni.
Sótti á Flákann
Árið 1971 hélt Daníel af stað til Ólafsvíkur á
þriggja tonna trillu með bensínvél. „Ég þurfti
að stoppa til þess að skella bensíni á vélina.
Ég vissi ekkert hvar ég var og um borð var
enginn dýptarmælir, talstöð né nokkuð annað.
Ég ákvað því bara að henda út færunum á
meðan ég setti bensín á vélina og svo bara
fylltist allt af fiski og ég fyllti bátinn af fiski á
mettíma. Síðan tók ég kúrsinn og mældi tím-
ann sem það tók mig að sigla til Ólafsvíkur,
það voru tveir og hálfur tími. Seinna komst ég
að því að svæðið sem ég fékk aflann á nefndist
Flákinn og reri ég mikið þangað eftir þetta.
Ég fékk alltaf góðan afla þar en var talinn
hálfvitlaus að róa svo langt á svona litlum bát.
Það kitlaði samt hina trillukarlana að róa
þangað, en það var ekkert um að vera á vík-
inni. Það var víst ekkert búið að reyna að
skaka þarna á Flákanum svo ég viti til áður.“
Daníel var mest á trillum og hefur átt þær
nokkrar á lífsleiðinni, líklega um 15 eða 16.
Mest hefur hann gert út á línu og handfæri en
einnig hefur hann róið á vertíðarbátum í
Ólafsvík. Meðal þeirra báta sem Daníel hefur
róið á er Sveinbjörn Jakobsson SH 10, trébát-
ur að sjálfsögðu, og á hann margar minningar
frá þeim tíma. „Einn morguninn hafði ég sofið
yfir mig, sem gerðist nú eiginlega aldrei. Ég
var vakinn við það að steinum var kastað í
gluggann og ég fór allur í stress og læti þar
sem ég var ekki vanur að sofa yfir mig. Ég
dreif mig í leppana og hljóp niður á bryggju í
einum hvelli. Nú, þar voru fyrir þeir Haukur
útgerðarmaður og Þráinn skipstjóri ásamt
fleirum og það fóru allir að hlæja að mér. Ég
spurði fokillur af hverju í andskotanum þeir
væru að hlæja að mér, það gætu nú allir sofið
yfir sig. Þeir komu varla upp orði fyrir hlátri
og bentu bara á mig. Mér var hins vegar ekki
skemmt yfir að vera eitthvert aðhlátursefni
þarna á bryggjunni, bara af því að ég svaf yfir
mig. Þá kom Haukur loks upp orði og sagði
við mig: „Danni minn, líttu niður.“ Og jú, ég
leit niður og roðnaði af skömm, því ég hafði
víst flýtt mér einum um of og gleymdi að fara
í brækurnar. Ég stóð þarna eins og hálfviti,
kappklæddur að ofan, og bara í stígvélum og á
nærbrókinni. Það er víst engin furða að þessir
heiðursmenn hafi hlegið að mér og enn þann
dag í dag skjóta þeir á mig út af þessu,“ segir
Daníel skellihlæjandi.
Ætlar að láta jarða sig í bátnum
Trébátar hafa átt allan hug Daníels frá því
að hann man eftir sér. „Ég ólst upp við tré-
báta. Pabbi var bátasmiður og ég ólst upp á
verkstæðinu hjá honum og þá fékk lítill strák-
urinn að vera úti í horni með hamar. Þarna
fylgdist ég með pabba í mörg ár og lærði af
honum.
Fyrsti báturinn sem Daníel endurbyggði
var Óli Sveins sem var lítill björgunarbátur og
nú er sá 18. tilbúinn. „Í þessum bát er ég bú-
inn að skipta um 300 bolta og sjö borð og svo
er Vedus 75 hestafla vél í bátnum sem er stór
fyrir bát af þessari stærð, enda er góður
gangur í bátnum. Ég nota ekki annað en alas-
kafuru, það þýðir ekkert að bjóða mér annað
því hún er kvistlaus og gott að vinna hana.
Þessi bátur sem ég er með núna er með rún-
að stefni sem þótti voðalega fínt og flott á
þeim tíma.“ Daníel segir að nú sé hann
ákveðinn í að eiga þennan bát og láta jarða
sig í honum.
Ekkert plastdót
„Ég ætlaði að hætta að gera upp báta, en
svo ég fékk aðsvif úti á sjó og rétt komst í
land. Ég gaf sjómannadagsráði bátinn Ver
SH sem ég hafði gert upp, en hann er nú
staddur í sjómannagarðinum. Ég var ákveð-
inn í að hætta, en svo kom Pétur Jóhanns-
son, formaður sjómannadagsráðs, að máli
við mig og ég fékk áhugann aftur.“
Daníel segir að hann gæti aldrei verið á
plastbáti. „Það er nú ljóti hryllingurinn.
Þessi hraði og skellir voru að drepa mig
þegar ég prófaði þetta plastdót. Ég vil fara
rólega yfir en ekki eins og í flugvél og hrist-
ast allur í sundur. Trébátar hafa sál. Maður
getur talað við þá og finnur hvort bátnum
líður vel eða illa. Nú sér maður þessa báta
liggja og grotna niður hingað og þangað, en
þegar þeir eru teknir í gegn og hugsað vel
um þá fer þeim að líða vel. Það er góð til-
finning að finna traustabrakið í trébát-
unum,“ segir Daníel dreymandi á svip.
Sökkti bátunum á vorin
Daníel segir að það sé hryllingur að sjá
gamla góða trébáta grotna niður og síðan
brennda til að skemmta fólki um áramótin.
„Það er alveg ömurlegt að sjá þá verða eldi
að bráð. Þegar ég sé fallegan bát reyni ég
alltaf að gera allt sem ég get til að bjarga
honum, en því miður hefur það ekki tekist
nógu oft. Sérðu þennan bát sem ég er að
vinna að núna, það átti bara að henda þessu
djásni!“
Sólin er versti óvinur trébátanna, segir
Daníel. Þegar hann byrjaði að róa á vorin
tók hann ætíð vélar og tæki úr bátnum og
sökkti honum í viku tíma. Þegar hann var
tekinn upp aftur var hann eins og nýr. Daní-
el er ekki ánægður með Hafró og segir að
fiskveiðiráðgjöfin sé orðin tóm vitleysa.
„Það þarf að fá aðra aðila í þessi mál, það er
nóg af fiski hér og svo er þessi kvótaþvæla
sem er orðin algjör. En sem betur fer er ég
hættur þessu og sestur í helgan stein og fer
bara orðið á sjó til að ná mér í soðið,“ segir
Danni að lokum.
Trébátar eiga hug hans allan
Morgunblaðið/Alfons
Stoltur skipasmiður Daníel við bátinn Ver SH sem hann gerði upp og gaf sjómannadagsráði
Ólafsvíkur. Hann ætlaði að hætta að gera upp báta en svo vaknaði áhuginn aftur.
Ég stóð þarna eins og hálfviti,
kappklæddur að ofan, og bara í
stígvélum og á nærbrókinni.
Daníel Jónsson ólst upp við trébáta Hefur átt 15-16 trillur Gæti aldrei verið á plastbáti
Eftir Helga Bjarnason
helgi@mbl.is
É
g er alsæl, sérstaklega
eftir að Sigríður dóttir
mín kom heim. Hún
keypti gamla húsið
okkar og er búin að
gera heilmikið fyrir það,“ segir
Kristín Helgadóttir, 82 ára íbúi á
Sauðárkróki. Hún nýtur lífsins í
gömlu húsi við Aðalgötu í elsta hluta
bæjarins. Hún hefur upplifað margt
á ævi sinni. Meðal annars bjó hún
með fjölskyldu sinni í Ástralíu í
nítján ár.
Kristín flutti með Magnúsi Jóns-
syni, eiginmanni sínum, og fjórum af
fimm börnum þeirra til Ástralíu
1968, án mikils fyrirvara. „Magnús
var að tala um þetta en ég taldi ekki
að honum gæti verið alvara. Hann
var haldinn slæmu ofnæmi sem
læknarnir fundu engar skýringar á.
Einn morguninn gat hann til dæmis
ekki komið upp orði, tungan var svo
bólgin. Læknirinn sló því fram að
hann þyrfti kannski að skipta um
loftslag. Hann tók þetta hátíðlega en
ég hélt að þetta væri bara grín.
Hann las eitthvað gott um Ástralíu
og sá svo auglýsingu um að ástralsk-
ur erindreki frá Svíþjóð yrði á ferð-
inni í Reykjavík til að kynna landið,
gylla það fyrir iðnaðarmönnum sem
þeir vildu fá,“ segir Kristín þegar
hún rifjaði upp aðdragandann að
Ástralíuævintýrinu.
Samtalið við eldhúsborðið var ein-
hvern veginn þannig:
Magnús: „Skrifaðu til þeirra.“
Kristín: „Er þér alvara, maður?“
Magnús: „Já, mér er alltaf al-
vara.“
„Ég fékk hálfgert áfall, fannst
þetta svo undarlegt. Hann var
heimakærasti maður sem ég hef
þekkt. Fæddur og uppalinn í sama
húsinu og við bjuggum í næsta húsi
þar við. Hann fór helst aldrei úr
bænum,“ segir Kristín.
„Ég ætla heim“
Þau fluttu til Perth í Ástralíu með
fjögur börn á aldrinum 5 til 18 ára en
elsti sonurinn varð eftir heima.
Þetta var eins og að koma í aðra ver-
öld. Það er fátt í Vestur-Ástralíu
sem minnir á Sauðárkrók og hvað þá
eyðidalinn sem nú er, Laxárdal í
Vestur-Húnavatnssýslu þar sem
Kristín fæddist og sleit barns-
skónum.
Þau skuldbundu sig til að vera í
tvö ár og Kristín var í upphafi ákveð-
in í að snúa heim að þeim tíma liðn-
um. „Fyrsta árið var erfitt. Ég var
einmana og tárfelldi af heimþrá þeg-
ar ég opnaði bréf frá Íslandi. Svo var
óyndi í stelpunum,“ segir Kristín.
Þetta jafnaði sig, þau aðlöguðust lífi
á nýjum stað og eignuðust vini. Þau
voru ekki búin að vera nema fáeinar
vikur í landinu þegar þau keyptu sér
hús og vegnaði yfirleitt vel. Yngsta
barnið, Sigríður sem var fimm ára
þegar þau fluttu, var þó alltaf ákveð-
in í því hvað hún ætlaði að gera.
„Talið íslensku við mig. Ég ætla
heim“, sagði hún. Það var svo sem
ekki mikil hætta á að þau færu að
tala ensku á heimilinu því Magnús
kunni ekki málið en Kristín gat
bjargað sér aðeins á grunni þess
sem hún hafði lært einn vetur í
Námsflokkum Reykjavíkur.
Magnús hafði loforð um vinnu
þegar þau fóru til Ástralíu og það
var forsenda þess að þau fengu að
flytja beint til Vestur-Ástralíu.
Hann hafði unnið í trésmiðju á Sauð-
árkróki og vann við trésmíðar og
ýmis önnur störf í Ástralíu og skorti
aldrei vinnu.
Eins og að skreppa frá
Kristín og Magnús fluttu heim
aftur eftir nítján ár, 1987. „Mað-
urinn minn var farinn að finna til las-
leika og vildi vita hvernig heima-
landið tæki við honum. Það var
yndslegt að koma heim. Hér voru
svo margir gamlir vinir okkar og öll
systkini mín voru á lífi. Það var eins
og við hefðum skroppið frá í stuttan
tíma,“ segir Kristín.
Þannig stóð á að hús tengdafor-
eldra hennar var laust og þau festu
kaup á því. Húsið er rúmlega 120 ára
gamalt og nú er búið að gera mikið
við það. „Húsið beið eftir okkur. Það
var eins og að koma í heimsókn til
tengdamömmu þegar við fluttum
inn, allt dótið hennar var hér
ennþá.“ Miklar tilfinningar eru
bundnar við þetta hús enda fæddist
Magnús þar og ólst upp og foreldrar
hans bjuggu þar í sextíu ár. Magnús
kvartaði raunar undan því hvað bíla-
umferðin væri orðin mikil en Kristín
spurði á móti við hverju hann hefði
búist, hvort hann héldi að Sauð-
árkrókur væri ennþá eins og þegar
hann var að alast upp.
Magnús lést 1993. Kristín heldur
tryggð við æskuheimili hans.
Börin voru öll fullorðin þegar þau
fluttu heim og urðu eftir úti. Sigríð-
ur yngsta dóttir þeirra stóð þó við
loforðið sem hún gaf sjálfri sér og
öðrum þegar hún flutti út fimm ára,
hún flutti heim fyrir fjórum árum.
Hún hefur keypt íbúðarhús rétt hjá
móður sinni, en það er einmitt húsið
sem Magnús og Kristín bjuggu í áð-
ur en þau fluttu út. Kristín er af-
skaplega ánægð með það og að sjá
húsið sem var í niðurníðslu færast
smám saman til betri vegar.
Alsæl við Aðalgötu
Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Heima Kristín Helgadóttir nýtur lífsins í garðinum við hús sitt í gamla
miðbænum á Sauðárkróki. Hún vill hvergi annars staðar vera.
Kristín Helgadóttir nýtur lífsins í 120 ára gömlu húsi
á Sauðárkróki Hún rifjar upp Ástralíuævintýrið
Aðalgata Heimili Kristínar.