Ísfirðingur - 15.12.1986, Side 9
ÍSFIRÐINGUR
9
Einn atburður sem átti sér
stað, meðan ég var enn í
bernsku, er mér minnisstæðari
en flestir aðrir. Það var
„jarðarför,“ ef svo mætti að orði
komast, þótt ekki færi hún fram
með hefðbundnum hætti. Svo
hrein og fölskvalaus var hlut-
tekning mín og sorg, að ég held
að stundin hafi nálgast það að
vera heilög.
Allar frásagnir hafa sinn að-
draganda. Þegar ég var um það
bil 9 ára, hreinlundað og sak-
laust sveitabarn, með lítt víð-
sýnan eða þroskaðan sjóndeild-
arhring, urðu þau tíðindi heima
hjá mér, að bræður mínir, sem
flestir voru allmiklu eldri en ég,
þrír komnir yfir tvítugt, tóku sér
það fyrir hendur, að hefja kan-
ínuræktun á heimilinu til þess
að auka við skotsilfur sitt, sem
eflaust var lítið fyrir. Það stóð
mikið til og einhverskonar
kanínubúi úr vírneti með smá-
um möskvum, var komið fyrir í
skjólsælu horni milli geymslu-
skúrsins og fjóssins. Þar í voru
látnir trékassar með heyi og
hálmi, svo og vatnsílát í hvert
horn, svo að ekki skyldi þennan
nýja búsmala skorta matar- eða
drykkjarföng. Sáð var næpu-
fræjum um vorið í stórt flag, en
á þeim skyldu kanínurnar fóðr-
aðar ásamt einhverju fleira sem
ég nú man ekki lengur, en eitt af
því var grænkál.
Ekki veit ég hvaðan kanín-
urnar komu, en eftir eina kaup-
staðarferð um sumarið, var
borinn heim strigapoki og farið
varlega með. Það var hvolft úr
pokanum í „kanínubúið“ og nú
gafst á að líta. Úr pokanum ultu
tvær kanínur, karldýr og kven-
dýr. Kvendýrið var brúngrátt,
en karldýrið hvít- og svart-
flekkótt. Mér þóttu þetta mikil
tíðindi og horfði hugfangin á
litlu dýrin sem auðvitað hurfu
von bráðar dauðskelfd inn í
einn kassann í búinu.
Þetta sumar, eins og raunar
öll sumur á þessum árum, var
frændi minn í sveit hjá okkur.
Hann var næstum tveim árum
eldri en ég og okkur kom afar
vel saman og lékum okkur alla
daga.
Þessi frændi minn, en hann
heitir Vikar, varð fyrir þeim ör-
lagadómi, er hann var á öðru
aldursári, að fá lömunarveiki og
hefur verið algjörlega fatlaður á
fótum síðan. Að öðru leyti var
hann afar efnilegt barn og hinn
mesti mannkostamaður síðar á
ævinni.
Við Vikar sátum öllum
stundum úti við kanínubúið og
fylgdumst með hátterni þeirra.
Þær urðu brátt spakar og gæfar
og nörtuðu í mat úr lófa okkar.
Mikið þóttu okkur þær fallegar.
Eftir ótrúlega skamman tíma
stækkaði kanínufjölskyldan.
Magdalena Thoroddsen:
„Jarðarför“
Kanínumamma hvarf í nokkra
daga og hélt sig í einum kass-
anum og svo kom hún einn
góðvirðisdag út aftur og nú
fylgdu henni fjórir brúnir og
svarthvítir hnoðrar. Það voru
komin kanínubörn.
Gleði okkar Vikars var ólýs-
anleg. Við tókum litlu ungana í
lófana og lögðum þá undir
vanga okkar og gáfum þeim kál
að borða. Kanínumamman
virtiust ekkert óttast okkur. Við
fengum líka að strjúka henni,
án þess hún reyndi að bíta okk-
ur. Það fóru yndislegir sumar-
dagar í hönd og okkur grunaði
ekki að óhamingjan væri á
næsta leiti.
Þótt allir á heimilinu hefði
yndi af kanínunum, var þó einn
agnúi á. Það var hún Bubba
gamla, hundurinn okkar. Hún
var heimarík og tortryggin
gagnvart þessum nýju vinum
okkar. Hún reyndi hvað eftir
annað að komast inn í kanínu-
búið með þeim ásetningi að
tortíma því sem þar var. Hún
hafði líka sýnt sig í því að ráðast
á hænuungana og einnig and-
arunga úti í mýrinni fyrir innan
bæinn. Það voru hafðar sterkar
gætur á henni. En það dugði
ekki til.
Þótt útvarpið kæmi til okkar
1930, þá var þegar hér var
komið sögu, haldið þeim góða
sið, að lesa húslestra á heimil-
inu. Að vetrinum var lesið á
hverjum degi og allir Passíu-
sálmarnir vitanlega sungnir á
föstunni, en að sumrinu var að-
eins dregið úr guðrækninni,
svona um hábjargræðistímann
og sláttinn og látið duga að lesa
á sunnudögum. En þá var líka
sunginn sálmur fyrir og eftir
hugvekjuna.
Nú var sunnudagur og hús-
lestur lesinn. Einhvernveginn
fór svo, að Bubba slapp út undir
lestrinum og var þá auðvitað
enginn á ferli útivið. Allir voru
viðstaddir guðsorðið. Undir
seinni sálminum fóru að berast
torkennileg hljóð inn um
gluggann. Það voru hænsnin
sem urðu vitni að harmleiknum
sem nú fór fram, og urðu tryllt
af hræðslu og flögruðu um og
skræktu ákaflega. Einhver leit
út. Helv... hundurinn, kallaði sá
hinn sami, upp úr miðjum
sálmasöngnum, spratt á fætur,
þeytti frá sér sálmabókinni og
ruddist út.
Allir hættu að syngja. Hvað
gengur á? hváði faðir minn óá-
nægður á svip yfir þessari ó-
væntu truflun á svo guðræknis-
legri stund. En svarið lét ekki á
sér standa. Takiði hundfjand-
ann, hann er orðinn vitlaus, var
kallað að utan. Allir þustu út.
Sálmasöngnum lauk í miðju
versi.
En hve hryggileg sjón blasti
þar ekki við. Bubba hafði kom-
ist inn í búið til kanínanna og
var búin að drepa alla ungana
fjóra og hlaða þeim í köst. Nú
var hún að reyna að ná í stóru
dýrin sem kúrðu titrandi af
hræðslu inni í einum kassanum.
Hún var orðin svo æst af dráps-
fýsn að það var varla hægt að
halda henni.
Allt fólkið öskraði á hundinn.
Hann var skammaður og
sneyptur af öllum. Og að lok-
um, til þess að gera henni eftir-
minnilegt, að hún hefði hagað
sér illa var hún hirt með því að
kasta henni út í bæjarlækinn og
látin skríða hjálparlaust upp úr.
Þá loks rann af henni æðið og
hún skreið í skotið sitt afar
sneypuleg..
Fólkið fór að smátínast í bæ-
inn og margir enn í æstu skapi.
Ennþá heyrðist hundinum svei-
að.
Við Vikar urðum tvö eftir úti
á hlaðinu. Sorg okkar var stærri
en tárum tæki. Við tókum litlu
vesalings vinina okkar upp og
lögðum þá í síðasta sinn undir
vanga okkar. Síðan tókum við
þeim gröf undir fjósveggnum
og þökktum veggina með sól-
eyjum, fíflum og hrafnaklukk-
um. Þarna lögðum við blessaða
ungana okkar hlið við hlið og
hvolfdum brotinni netakúlu yf-
ir þá svo að moldin skyldi ekki
óhreinka mjúku feldina þeirra.
Þá var gröfin moldu orpin og
kross gerður yfir. Að sjálfsögðu
kunnum við ekki, svo ung sem
við vorum, viðeigandi útfarar-
sálma. En okkur fannst hæfa
stundinni að syngja eitthvað um
dauðann og við brugðum á það
ráð af hjartans einlægni að syn-
gja: „Hann Árni er látinn í
Leiru.“ Það kunnum við bæði.
Við kyrjuðum bæði erindin
þarna í kvöldblíðunni, hágrát-
andi og af barnslegri einlægni.
Síðan fórum við með blessun-
arorðin upphátt.
Ég hefi aldrei komist nær
Guði mínum en á þessari
stundu, þegar ég bað fyrir dánu
kanínuungunum, sáluhjálp
þeirra og himnaríkisvist. Og ég
trúi því, að hann hafi sent engil
sinn til að hugga hrelld hjörtu
okkar frændsystkinanna þetta
kvöld og þerra tár okkar. Svo
mjög hægðist okkur í sinni eftir
athöfnina.
Það er af kanínuræktun
bræðra minna að segja, að hún
fór fljótlega út um þúfur og eft-
irtekjurnar urðu minni en efni
stóðu til. En þar af er önnur
saga.
M.Th.
HRAÐFRYSTIHUS
PA TREKSFJARÐAR HF.
PATREKSFIRÐI
Óskum starfsfólki okkar
og viðskiptamönnum
gleðilegra jóla, árs og friðar,
og þökkum jafnframt
samstarf og viðskipti
á líðandi ári.
HRAÐFRYSTIHUS PATREKSFJARÐAR HF.