Ísfirðingur - 15.12.1986, Blaðsíða 21
ÍSFIRÐINGUR
21
spyr hvort ég heiti ekki Hall-
bjöm Sigurðsson. I ljósaskipt-
unum hengir hann upp auglýs-
ingu. En það koma samt eitt-
hvað 5 tugir manna og þ.á.m.
stúlkur, ég held eitthvað h.u.b.
10, og það verða umræður eftir
erindi mitt.
Fimmtudaginn vakna ég
snemma og skrifa rollu eina til
að sanna rækt mína við Tím-
ann, Jón Helgason og félags-
skap ungra Framsóknarmanna.
Svo fer ég af stað kl. 10. Tveir
ungir Ólsarar fylgja mér inn að
Brimilsvöllum.
Fossá heitir spræna rétt hjá
Ólafsvík. Einu sinni var ekkja,
sem bjó í Fossárdal, sem nú er
kúahagi Ólsara. Ekkja þessi átti
tvo syni, sem drukknuðu við
silungsveiði í Fossá. Þá lagði
ekkjan það á ána, að aldrei
framar skyldi koma í hana veiði
og aldrei skyldi þar maður far-
ast. Og þetta varð svo.
Ósarnir á Snæfellsnesi norð-
anverðu, — það eru ljótu fyrir-
bærin. Vegna þess, hvað vont er
í fjöllunum eru árnar og læk-
irnir mikilvirkari að rífa þau
niður og bera fram heldur en
þar sem þau hafa heiðarlegt
blágrýti við að eiga eins og hjá
okkur. En við ósana mæta þær
svo víða sjávargangi miklum og
eiga þá erfitt með að koma
framburði sínum af sér. Þá
hlaðast upp rif sem oft loka
mikils til fyrir stóra ósa. Við
skulum hugsa okkur rif úr Arn-
arbælinu okkar og upp í Bót og
svo að Mjóanesið næði næstum
því yfir í Tanna. Svo yrði allt
þurrt fyrir ofan og innan rifin
um fjörur að ganga mætti þurr-
um fótum með góða skó alls-
staðar nema rétt þar sem árnar
féllu. En um flæði yrðu ósarnir
skipgengir. Það er víst verið að
skapa undirlendi með þessu, en
það gengur seint.
Mér leist svo á að búskapar-
skilyrði myndu vera sæmileg í
Fróðársveit en þó er hún að
leggjast i eyði. Við komum í
matinn á Brimilsvöllum. Nú
kom ég degi seinna en til stóð,
en það gerði ekki neitt, því að
daginn áður var ófært veður.
Sími er hvergi í Fróðársveit og
Rögnvaldur Ólafsson á Brim-
ilsvöllum sagði að það væri
seinlegt að ná saman þessum 9
strákum, sem til væru. Um
kvenfólk var ekki að ræða.
Rögnvaldur og móðir hans voru
sömu skoðunar og oddvitinn
okkar að stúlkurnar nú á tímum
vilji ekki eiga sveitamenn.
Bjarni Ólafsson á Völlum
ætlaði að ganga með mér inn
fyrir höfðann og hann fékk með
sér strák á næsta bæ því að sá
átti klofstigvél en Bjarni var í
lágstígvélum, en hélt að ósinn
væri ekki nema bússutækur.
Búlandshöfði er sæbratt fjall
utan Grundarfjarðar. Gatan
liggur hátt uppi yfir grasteiga og
skriður. Tæpust er hún á
Þrælaskriðu þar sem þrælarnir
frá Mávahlíð hlupu í sjóinn, svo
sem segir í Eyrbyggju. Þar er
tekin myndin, sem er í Landi og
lýð. Ekki er leiðin þarna
glæfraleg þegar allt er þítt eins
og nú en hún getur orðið ófær af
svellum. En þá er hægt að
klöngrast undir hömrunum um
fjörur. Jóhannes Áskelsson seg-
ir að Búlandshöfði sé mjög
merkilegur. Hann leikur sér að
skeljum, sem hann finnur þar
uppi undir brún.
Fylgdarmenn mínir snúa við
fyrir innan höfðann en ég held
áfram inn að Bryggju. Á þeirri
leið er Stöðin og Kirkjufell og
Kirkjufell þó innar en Bryggja.
Þau eru einkennileg þessi fjöll,
sérstök og skilin frá öðrum.
Landnáma nefnir Grundar-
fjörð Kirkjufjörð. Sennilega er
það nafn þannig tilkomið:
Sumar gamlar kirkjur voru
byggðar þannig að turninn, sem
þá var kallaður stöpull var sér-
stakur og frálaus. Þannig er til
dæmis Jórvíkurkirkja í Eng-
landi, sem stendur enn þann
dag í dag meira en þúsund ára
gömul. Þegar hinir fornu far-
menn komu á Grundarfjörð
hafa þeir séð fjöllin eins og þau
eru enn. Þeir hafa séð að Stöðin
var eins og kirkja en Kirkjufell
eins og stöpullinn og eftir því
hafa þeir svo nefnt fjörðinn.
Margbýli er á Bryggju, en ég
fer þangað, sem ég sé að siminn
liggur inn og ber að dyrum. Út
kemur húsfreyjan. Eg heilsa
henni og segi nafn mitt. Hún
býður mér inn og ég fer að taka
ofan pokann og fara úr Móru í
fordyrinu. Inni sitja fjórir menn
við borð. Það er Ásgeir bóndi
Kristmundsson og húskarl hans
ungur, Oscar Clausen og Þor-
valdur á Skerðingsstöðum.
Óskar er að hjálpa bændun-
um með búnaðarfélagsreikn-
ingana. Húsfreyjan segir þeim
að maður sé kominn og nefnir
nafn mitt, þegar þeir spyrja
hver það sé. En nú vill svo illa til
að þarna í grenndinni er karl,
sem á samnefnt við mig og er
vitlaus og kemur svo sem hálfs-
mánaðarlega að Bryggju og
krefur Clausen jafnan um tvær
krónur. Nú halda þeir félagar
að karlinn sé kominn að inn-
heimta og Clausen segir að það
skuli enginn ansa honum. Ekki
heyrði ég þetta, en Clausen
sagði mér það þegar við vorum
orðnir vinir.
Ég kom inn og heilsaði og
fljótlega kom í ljós hvernig stóð
á ferðum mínum. Clausen
kannaðist vel við mig og mér
fannst hann taka mér sem
skáldi og rithöfundi og fljótlega
líta á mig sem fræðimann þar
að auki. En hann hélt í fyrstu
að ég væri Dýrfirðingur. Og
eftir að ég hafði leiðrétt hann á
því spurði hann hvort ekki væri
í Dýrafirðinum Guðmundur
Ingi skáld. Ég leiddi hann í all-
an sannleika enda skildist mér
strax að ég myndi ekki rýrna í
augum hans sökum frændsemi
við þann mann.
Reikningar voru nú búnir.
Þorvaldur á Skerðingsstöðum
strauk skeggið og sagði:
„Þetta er allt rétt. Við höfum
góðan kontórista þar sem
Clausen er.“
Svo fór hann en með fulltingi
og góðum ráðum Clausens og
Ásgeirs fékk ég að tala í síma
eins og ég þurfti. Svo spjölluð-
um við saman um kvöldið og
Clausen sagði mér margt, —
sumt var skemmtilegt, annað
merkilegt.
Clausen á annað heimili á
Bryggju. Hann kemur þar jafn-
an fyrir jólin og situr þar fram í
febrúar. En ég sleppi því hér að
skrifa um hann, ætt hans og
sögur en ég skal segja ykkur
eitthvað af því síðar.
Um morguninn rigndi drjúg-
um eins og oftar þessa viku.
Maturinn kom í fyrra lagi mín
vegna. Svo begar ég var á leið af
stað sagði Ásgeir að ég vöknaði
nú áður en ég kæmi að Gröf.
Ég tók á Móru og strauk hana.
og sagði að hún þyldi nokkuð
þessi. Hann spurði hvar þetta
fengist en ég sagðist hafa ofið
það sjálfur en móðir mín saum-
að. Þá fór húsfreyja að skoða
mig en Clausen fór að segja
kjólasögur um vit og óvit.
Ekki gerði Clausen enda-
sleppt við mig. Hann fylgdi mér
inn að Mýri. Þaðan hélt hann að
ég myndi fá samfylgd með syst-
kinunum, en það brást, því að
þeim þótti ekki gefa. Clausen
spurði þá hvort Jón litli gæti
ekki gengið með mér inn fyrir
ósinn og það gerði Jón litli. Og
svo kom ég að Gröf, þar sem
Bjöm Lárusson kom út og bauð
mér í bæinn.
Ég hafði dálitla viðdvöl í
Gröf. Mér féll vel að spjalla við
húsfreyjuna móður Björns
meðan ég naut góðgerðanna.
Hún sagði að kerlingarnar væru
nú að finna það þar í sveit, að
það gæti komið sér vel að hafa
stúlku heima. Ég spurði hvort
þær væru þá blindar fyrir því að
stúlkumar þyrftu að hafa aura-
ráð, svo að þær gætu klætt sig.
Hún hélt að yrði eitthvað um að
klæða þær, sem heima væru og
þó að hinar hefðu e.t.v. eignast
kjól og skó meðan þær voru í
burtu þá væru það yfirleitt ekki
vinnuklæði og hægt að starfa,
skemmta sér og njóta lífsins án
þess.
Við Bjöm urðum samferða í
fundarhúsið á Grund. Tvær ár
eru á leiðinni þó að stutt sé og
báðar brúarlausar. Fundarhús-
ið er jafnframt skólahús, því að
Eyrarsveit er í því frábrugðin
öðrum sveitum, sem ég hef sagt
frá hér að þar eru hús, sem eru
ætluð til barnafræðslu. Það á
sér ekki stað sunnanfjalla. Það
var orðið heitt í húsinu á
Grund, því að Fríða, systir
Björns, hafði farið áður að
kveikja upp í ofninum. Mér datt
í hug samtalið við móður henn-
ar um fatnaðinn, því að Fríða
var í ullarsokkum. Mér er það
nefnilega nýlunda, hvað sem
sagt er vestra um ullarsokka-
götutísku í Reykjavík, að sjá
stúlku klædda í ull um kálfana.
Ullin nær venjulega ekki nema
á mjóalegg. Ég fór að hugsa um
það hvort Fríða væri að nokkru
leyti ósélegri en hinar o.þ.h.
Innan skamms var komið 10
manns og nokkru siðar bættust
6 við. Þar af voru 7 stúlkur.
Þetta fannst mér gott, að hægt
var að safna slíku liði í helli-
rigningu án þess að harmonika
ætti hlut að máli. Þetta fólk kom
aðeins til að heyra mig og sjá.
Ég reyndi líka að vera
skemmtilegur og talaði og las og
talaði og sagði frá fulla tvo tíma.
En eftir fund var ekki til set-
unnar boðið, því að ég átti að
vera kominn að Skildi í Helga-
fellssveit, sem er dagleið í burtu,
upp úr hádegi daginn eftir. Þrír
ungir menn bundust nú sam-
tökum um að fylgja mér áleiðis
um kvöldið. Það var Björn í
Gröf og Ásmundur Ásmunds-
son á Hömrum og einn sem ég
nefni ekki. Hamrar eru næsti
bær við Gröf og þar kom ég við
og drakk mikið af mjólk, sem
rjóminn flaut i spildum ofan á
og át brauð og kökur.
Svo var þrammað út í
myrkrið kl. ó'á inn að Kolgraf-
arfirði og kringum hann og út
með Kolgrafarmúla. Fylgdarlið
mitt snýr aftur og ég held áfram
að Berserkseyri. Það nafn er
stundum borið fram Bessess-
eyri. Þar er tvíbýli og eru bæir
þeir ærið afskekktir, því að þótt
ekki sé nema hálftíma gangur
að Kolgröfum er þó þriggja
tíma leið þaðan til næstu bæja.
Það er a.m.k. svo langt um
flæði. Berserkseyri er innsti bær
í Eyrarsveit. Þar býr hreppstjóri
Grundfirðinga. Það er eitt af
því sérkennilega við þetta nes
að hreppstjórarnir búa á af-
skekktustu bæjunum. Hrepp-
stjóri Breiðvíkinga er á Saxhóli,
hreppstjóri Staðarsveitar á
Búðum.
Ég sit á Berserkseyri í besta
yfirlæti um nóttina. Svo um
morguninn, — það er laugar-
dagsmorgunn, — flytja heima-
menn migyfir Hraunsfjörð. Það
er örstutt. Svo geng ég um
holtasund milli tveggja lágra
ása og síðan beint í Berserkja-
hraun. Fyrst er hólóttur hraun-
sandur, rauðbrúnn á lit með
grænum mosaskellum hér og
hvar. En þegar því sleppir tekur
við hið grettasta apalhraun með
gjám og sprungum. Það er víða
talsverður lynggróður í gjánum
og þar vex sortulyng og einir.
Mér þykir gaman að ferðast
þama og fer nú að leika mér að
því að skoða náttúru hraunsins.
Hraunið er mjótt og þegar því
sleppir taka við mýraflóar og
aurholt. Færð er vond á aurinn,
því að klaki er nú sem óðast að
fara úr jörðu. En veður er nú
gott og ég ösla áfram beint af
augum með þeim góða árangri
að ég kem beint að Gríshóli.
Hallur bóndi kemur út og býður
mér í bæinn, — þennan líka
litla bæ. Ég veit ekki hvort ég
hef komið í stærri sveitabæ.
Þetta er hvitt steinhús, þriggja
hæða. Ég er búinn að vera á
göngu í meira en þrjá tíma i
erfiðri færð og því kemur það
mér vel að fá mat á Gríshóli. Að
því loknu fer ég með þeim
feðgum niður að Skildi. Þar er
gott samkomuhús. Leiksviðið er
skólastofa, þiljuð frá aðalhús-
inu. En nú tekst illa til. Fátt fólk
hafði komið og farið jafnskjótt
aftur. Það er allt frá næstu bæj-
unum. Það ályktaði að ég
myndi ekki standa áætlun mína
og koma þarna þennan dag.
Það vissi að ég var í Grundar-
firði daginn áður. Það verður
nú að ráði að ég komi til þeirra á
fund á mánudag. Og svo geng
ég niður í Stykkishólm. Það er
tveggja stunda gangur eftir
krókóttum bílvegi. Þetta er ó-
slétt land til beggja handa, sund
á milli klettahóla og hæða.
Sennilega er landið alveg eins
og Breiðafjarðarbotn nema
bara að hér eru lautirnar milli
eyjanna þurrar.
Ég kem í Stykkishólm og hitti
Magnús Sigurðsson, formann
ungmennafélagsins þar. Hann
fylgir mér á gistihúsið þar sem
ég bý og skrifa þetta.
Hér með læt ég þá sögu minni
lokið. Þegar ég kem heim fæ ég
e.t.v. tækifæri til þess að minn-
ast á eitthvað, sem við ber
þangað til. En það get ég sagt
með sanni um Snæfellinga að á
mörgum þeirra heimila sem ég
kom á hefði ég viljað vera leng-
ur.
Með kveðju til ykkar allra.
Halldór Kristjánsson.
Óskum starfsfólki okkar og viðskiptavinum
gleðilegra jóla, árs og friðar.
Þökkum samstarf og viðskipti
á líðandi ári.
Bílaverkstæði Sigurðar og Stefáns
Óskum starfsfólki okkar og við-
skiptavinum gleðilegra jóla, árs og
friðar, og þökkum jafnframt sam-
starf og viðskipti á líðandi ári.
Fiskverkun Vilhjálms Sveinssonar
Strandgötu — Hafnarfirði