Monitor - 20.01.2011, Blaðsíða 10

Monitor - 20.01.2011, Blaðsíða 10
10 Einhvers staðar heyrði ég að það hafi verið gefin út bók um þá keppendur sem fengu 0 stig og þú hafir verið einn af fáum sem mættu í viðtal við höfund- inn með bros á vör. Það kom svolítið flatt upp á höfund bókarinnar að finna mig í kastala í Brussel með síki í kringum og iðandi dýralíf. Þetta var þegar ég var að vinna í fyrstu sólóplötunni minni (Swallowed A Star) og ég var með alveg fáránlega flotta umgjörð í kringum mig. Það kom honum skemmtilega á óvart hvað ég var í góðum gír þrátt fyrir að hafa fengið 0 stig í Eurovision einhverjum áratugum áður. Sumir hafa tekið því mjög illa að hafa farið illa út úr Eurovision. Fyrir mig skipti það engu máli. Ég var rosalega feginn að vinna ekki. Mig langaði alls ekki til þess því mig langaði til að sinna mínum ferli. Ef ég hefði unnið þessa keppni hefði ég væntanlega farið allt aðra leið. Þá hefði ég farið að syngja meira lög eftir aðra og í einhverju samhengi sem ég réði takmarkað við. Þú og Krummi í Mínus fóruð af stað með hljóm- sveitina Esju fyrir fáeinum árum. Er eitthvað að gerast hjá Esju núna? Við Krummi megum ekki hittast þá verður til lag. Við verðum að fara að hætta að hittast svona! Jú, við erum með slatta af lögum og svo er bara tímaspurs- mál hvenær við verðum búnir að klára það mörg lög sem við erum ánægðir með að við förum að telja í upptökur á næstu plötu. Það gerist örugglega á næsta ári. Hann er náttúrulega í Mínus og Legend og að gera bíómyndatónlist þannig að þetta er mjög annasamt ár hjá okkur báðum. En við munum taka nokkrar sumarbústaðarferðir og semja. Þú sagðir eitt sinn að Rod Stewart væri einn besti söngvari allra tíma og að það væri hneisa að hann væri ekki spilaður í útvarpi allan daginn. Sagði ég það? Ég er ekkert hissa á að ég hafi sagt það. Röddin í þessum manni er auðvitað yfirnáttúru- leg, hún er bara svo flott. Þessi tegund af sandpappír sem er í raddböndunum á honum, áferðin er svo hrjúf og mjúk í senn. Hann er mikill listamaður. Er þetta álit þitt ekki litað af því að þú varst ungur og móttækilegri þegar þú byrjaðir að hlusta á Rod Stewart? Myndir þú fíla hann svona mikið ef þú heyrðir fyrst í honum í dag? Veistu það ég hlustaði ekkert gagngert á Rod Stewart þegar ég var yngri. Ég var meira að hlusta á Stones og Bítlana og eitthvað annað stöff. Auðvitað heyrði maður Rod í útvarpinu en það er ekki fyrr en á síðustu fimm árum sem ég hef virkilega kynnt mér hann og hans verk. Ég var alveg gagntekinn á tíma- bili. Mig hefur aldrei langað til að vera einhver annar, en mig hefði langað mikið til að vera Rod Stewart í einn dag. Í góðri upptökulotu eða á góðum tónleikum eða bara í góðu partíi. Hann var náttúrulega alltaf í partíi. Í góðu partíi með Ronnie Wood. Þú virðist ófeiminn við að klæðast öðruvísi en flestir. Góður maður sagðist til dæmis hafa séð þig einhvern tímann í bíó með vængi á bakinu. Hann er örugglega að tala um jakkann sem stelpurnar í Aftur saumuðu á mig. Þetta voru nú ekki einhverjir útþandir hvítir erkienglavængir, þetta var bara svona gagnsætt efni sem var búið að sauma aftan á svona fallega vængjalögun og kögur. Þetta var bara flottur jakki. Er eitthvað hægt að skilgreina klæðaburðinn þinn? Þetta er síðmódernískur rokkókóstíll. Gott svar við lélegri spurningu! Einhvern veginn verður maður að krafsa sig út úr þessu. Ég er þó með aðra tískuspurningu. Sagan segir að í kringum útgáfu plötunnar Hunang árið 1993 hafir þú verið duglegur að ganga í brúnum æfingagalla sem hinir meðlimir Nýdanskrar hafi haft megna viðurstyggð á. Tveimur árum síðar hafi þessir gallar verið komnir í tísku og allir byrjað að ganga í þeim. Ertu svona mikill trendsetter eða er þetta allt tilviljanakennt? Þetta er náttúrulega bara alveg óvart. Ætli ég hafi ekki bara keypt þetta í Spúútnik á útsölu og svo var bara til nóg af þessu. Svo hafa einhverjir séð hvað þetta voru svalir gallar. Þetta hefur æxlast einhvern veginn þannig. Það var ekki ég sem fór að kaupa birgðir af brúnum æfingagöllum til að selja. Í framhaldi af þessum spurningum verð ég að spyrja út í hárið þitt. Þú átt að baki margar svaka- legar hárgreiðslur. Hvernig ræðst það hvernig þú lætur klippa þig? Er einhver vitfirringur að stílisera þig? Stundum er það þannig að hárið bara vex og þá bara vex það einhvern veginn og út um allt. Stundum er það allt í lagi og stundum fæ ég leið á því. Þá fer ég og hitti Jón Atla klipparann minn, Hairdoctorinn. Við höfum oft hist á föstudögum á því sem hann kallar Freaky Fridays. Þá verður til einhver klipping sem tekur u-beygju á það sem þætti eðlilegast að gera. Þá fer maður í einhverja átt sem manni finnst fyndin og skemmtileg. Stundirnar sem ég hef átt í stólnum hjá honum eru bara gull. Monitor FIMMTUDAGUR 20. JANÚAR 2011 Hvað gerir þú þegar þú ert ekki að vinna og pæla í tónlist? Hvernig „chillar“ Daníel Ágúst? Mér finnst voða gott að fara í vatnsgufu, þá er ég alveg slakur. Mér finnst gott að drekka gott rauðvín. Ég hef líka gaman af stangveiði í ám og vötnum. Það róar hugann og setur hann á góðan stað. Veiði kemur adrenalíni og spennu í líkamann, en útiveran og náttúran hefur róandi áhrif. Einhver sagði mér að þú læsir ekki blöð og horfðir ekki á sjónvarp. Það eina sem ég horfi á í sjónvarpstækinu er barna- efni. Það er svo margt annað skemmtilegt hægt að fást við. Stundum ef ég er alveg úrvinda og hef ekki orku í að gera neitt af viti þá kveiki ég á imbakass- anum.. En ég reyni að missa af öllum fréttum. Það er algjört prinsipp. Af hverju reynir þú að missa af fréttum? Þær hafa bara neikvæð áhrif á mig. Mér finnst svo neikvæð orka í fréttum. Allar þær upplýsingar sem ég fæ þar nýtast mér illa eða verða að gremju eða pirringi. Staðurinn sem ég fer á andlega verður þungur og dökkur. Það er það sem ég reyni að forðast. Ekki það að fréttirnar séu ekki merkilegar, en ég reyni að sneiða hjá þeim því þær hafa ekki góð áhrif á mig. Nýdönsk, GusGus, Esja og sólóefnið þitt eru fremur ólík verkefni. Hvar fílar þú þig best og er eitthvað sem þú átt eftir að gera í tónlist? Ég vona að það sé eitthvað sem ég á eftir að gera. Ég á náttúrulega eftir að stofna þungarokksband og blúgrassband. Svo á maður eftir að gera eins og sumir frægir erlendir tónlistarmenn að leita sér fanga í alls konar heimsálfum. Það er eitthvað sem ég sé alveg fyrir mér að gera. Ég myndi vilja fara í einhvern könnunarleiðangur og mér er alveg sama hvert það er. Það er alltaf gaman að feta nýjar slóðir og finna nýjar nálganir á viðfangsefninu tónlist. Sagan á bakvið nöfnin Nýdönsk „Nýdönsk-nafnið varð til þegar Björn Jörundur beið eftir strætó í Lækjargötu og sá í glugga á bókabúð að verið var að auglýsa ný dönsk tímarit. Allar bókabúðir lands- ins stilltu því út í glugga þegar nýju dönsku tímaritin bárust og eins þegar nýju ensku og þýsku tímaritin bárust og svo framvegis. Þannig að við gætum í raun alveg eins heitið Nýþýsk. En honum fannst sniðugt að fá þessa ókeypis auglýsingu í hverri viku.“ GusGus „GusGus er tekið úr listrænni þýskri kvikmynd, Óttinn nagar sálina eða Angst essen Seele auf, í leikstjórn Rainer Werner Fassbind- er. Nafnið er tekið úr munni konu sem vinnur á veitingastað og býður einum gestinum heim til sín að borða kúskús. Þá þýðir það ekki bara að þau séu að fara að snæða og eiga huggulega kvöldmatarstund heldur hefur það ýmis nánari kynni í för með sér. Nafnið kemur sem sagt frá þessum þýska framburði á þessari matartegund.“ Esja „Esjan er bara fyrir augunum á okkur sem búum í þessari borg á hverjum degi. Esjan er falleg, hún er tignarleg og hún er hluti af tilverunni og landslaginu og umhverfinu í kringum mann. Hún er manni ofarlega í huga. Okkur vantaði nafn á hljómsveitina okkar og fannst sniðugt að bera það nafn við þennan stórkostlega fjallahring.“ Það kom honum skemmtilega á óvart hvað ég var í góðum gír þrátt fyrir að hafa fengið 0 stig í Eurovision.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.