SunnudagsMogginn - 03.07.2011, Blaðsíða 10

SunnudagsMogginn - 03.07.2011, Blaðsíða 10
10 3. júlí 2011 Þ að eru engar ýkjur að segja að utanríkisráðherrann síkáti, Össur Skarphéðinsson, sem sömuleiðis fer svo purk- unarlaust með ósannindi, ég myndi segja lygi, ef ég væri ekki að skrifa í hið virðulega dagblað Morgunblaðið, lifi í einhvers konar vakúmpakkaðri sýndarveröld, þar sem hann snýr öllu á hvolf, og ákveður af stakri festu og sannfæringu að trúa eigin ósannindum, sama hversu stór lygin er, bara af því að hann er að tala opinberlega fyrir Íslands hönd, í eigin musteri, sjálfri Brussel. Svei mér þá, ég held að aldrei þessu vant ýki ég ekki um eitt einasta orð, í lýsingum mínum á ráðherranum síkáta. Hann rudd- ist þéttur fram á völlinn í Brussel, óskaborginni sinni, sl. mánudag, og lýsti því yfir að þetta væri „söguleg stund fyrir Ísland“. Össur sagði að Icesave-deilan hefði gert Íslendinga andsnúna aðild að Evrópusambandinu og var þar með að gefa til kynna að andstaðan væri lítil og aðeins tímabundin. Er það ekki með ólíkindum hvað ráðherrann leyf- ir sér að bera á borð í ræðuhöld- um í Brussel? Er veröldin sem hann lifir og hrærist í slíkt vak- úm, að hann haldi að hann geti látið eins og hann viti ekki hver afstaða meirihluta Íslendinga er gagnvart aðild að ESB? Meirihluti þjóðarinnar er og hefur verið and- vígur aðild Íslands að Evrópusambandinu, svo einfalt er það. Í frétt á mbl.is sl. mánudag sagði m.a. „Í ræðu sinni fagnaði utan- ríkisráðherra þessum áfanga, (sem sé því að efnislegar aðild- arviðræður Íslands við ESB væru hafnar – innskot AB) lýsti einbeitt- um stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar við viðræðurnar (svo!) og þeim skýra meirihlutavilja íslensku þjóðarinnar að fá að kjósa um að- ildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar viðræðum lýkur.“ Nú á fimmtudag var greint frá því að samkvæmt nýrri skoð- anakönnun sem Capacent framkvæmdi fyrir Heimssýn, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum, vill 51% aðspurðra draga umsókn Íslands um aðild að ESB til baka, en 38,5% eru því andvíg. Hvernig samræmist þessi niðurstaða fullyrðingu ráðherrans um „skýran meirihlutavilja íslensku þjóðarinnar að fá að kjósa um aðildarsamn- ing“?! Ætli utanríkisráðherrann síkáti hafi gleymt því að Samfylkingin er í samsteypustjórn með VG? Hefur hann eitthvert umboð frá samráð- herrum sínum úr VG, eins og þeim Jóni Bjarnasyni, Ögmundi Jón- assyni og Steingrími J. Sigfússyni, að lýsa yfir „einbeittum stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar við viðræðurnar“? Kannski hefur ráðherrann gleymt upphafinu að því feigðarflani sem hann og hans flokkur lögðu í fyrir tveimur og hálfu ári. Samfylk- ingin neyddi forystu VG til þess að samþykkja aðildarviðræður við ESB og svíkja þannig kosningaloforð sín og kjósendur sína. Þau svik voru aðgangseyrir VG að ríkisstjórnarsamstarfi við Samfylkinguna. Allar götur síðan hafa VG menn keppst við að sverja svikin af sér, með lítt sannfærandi hætti. Að vísu hefur Jón Bjarnason, sjávar- útvegs- og landbúnaðarráðherra, í ráðherratíð sinni sýnt að hann er með öllu andvígur aðild Íslands að ESB, enda hefur Samfylkingin róið að því öllum árum að bola honum út úr ríkisstjórn, enn án árangurs. Það er ekki nóg fyrir Össur að kippa inn í föruneyti sitt til Brussel Árna Þór Sigurðssyni, þingmanni VG, sem alltaf hefur rennt hýru auga til Brussel, enda ferðaglaður maður með afbrigðum, sérstaklega þegar hið opinbera borgar brúsann. Nei, það þarf meira til, miklu meira og því getur Össur einfaldlega ekki tjaldað og þess vegna velur hann ódýru og ómerkilegu leiðina – leið ósannindanna. Verst þykir mér að það verður aldrei hægt að senda utanrík- isráðherranum reikninginn fyrir þessu gönuhlaupi Samfylking- arinnar. Það verðum við, íslenska þjóðin, sem borgum reikninginn eins og vant er, ekki satt? Ráðherra ósanninda og síkæti Agnes segir Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is ’ Hefur hann eitthvert um- boð frá sam- ráðherrum sínum til að lýsa yfir „einbeitt- um stuðningi ís- lensku ríkisstjórn- arinnar við viðræðurnar“? Össur Skarphéðinsson í Brussel 7.45 Vakna og fer út með hundana og kisurnar. Á meðan þau sinna sínu stend ég og anda með gamla reynitrénu mínu í bakgarðinum og hlusta á auðnutittlingana syngja inn daginn. Huldukonan í klett- inum segir mér að þetta verði pakkfullur dagur en bjartur og góður. Við þessi orð hennar ákveð ég að borða vel útilátið af morgunmat (ég á það nefnilega til að gleyma að borða ef mikið er að gera). Fer inn og fæ mér lýsið og gef hundunum smá með mér. Og man eftir að borða morgun- matinn. 8.30 Svara tölvupósti um álfagöngupantanir. Fer yfir minnislista dagsins og bæti á hann. Panta inn meira af líf- rænum hollustubitum fyrir nestissöluna. Tek lautarferðar- teppin af snúrunni og brýt saman, þá eru þau tilbúin aftur til útláns í Hellisgerði. Blanda og pakka álfatei í grisjur og poka. 12.00 Opna Álfagarðinn í litla Oddrúnarbæ í Hellisgerði. Anda að mér ljúfu andrúmslofti hússins og býð hugrænt góðan daginn, geri allt klárt og helli upp á huldufólkskaffi. Fer svo aðeins út að heilsa upp á álfana og fuglana við húsið. Maríuerla er á vappi í kring, stoppar og horfir á mig og dillar sínu fjör- lega stéli, ég svara henni bros- andi og býð góðan daginn. Í því kemur fyrsti gesturinn og er þyrstur í ilmandi lífrænt huldu- fólkskaffi og álfaspjall, sá gestur lumar á spennandi álfasögu sem fer beint í sögusafnið okkar. 13.00 Tveir af þeim fimm listamönnum sem sýna í Álfa- garðinum í sumar, Þóra Breið- fjörð keramíklistakona og Krist- bergur Pétursson myndlistar- maður líta inn. Gestir njóta þess að ræða við þau um verk þeirra, keramíkhuldukonukaffibollana og málverk á striga og gler- flöskur ásamt fjörugum um- ræðum um sögu gamla hússins sem við erum í og breytingu á kröfum mannfólksins um lífs- hætti. Kristbergur er barnabarn síðasta íbúa þessa hundrað ára gamla húss. Kristbergur og Oddrún systir hans hafa útbúið albúm með gömlum myndum sem er mjög vinsælt að skoða og rifja upp gamla tíma. 14.00 Stór hópur 7-9 ára krakka frá Íþrótta- og tóm- stundaráði kemur í heimsókn. Ég segi þeim frá nokkrum álfum og þau hlusta af athygli og spyrja og ræða málin af innsæi og visku og fara síðan sjálf að hlusta eftir álfum. Áframhaldandi móttaka áhugasamra gesta og gamalla kunningja úr hverfinu, sum hver harðákveðin í að mæta í álfagönguna á laugardaginn klukkan eitt. Hringi fyrir einn gestinn í Guðrúnu gullsmið í Gullsmiðjunni og spyr hvort álfahálsmenið Díó sé til með grænum steini, það er auðvitað til svo við reddum því í hvelli. Sel nokkra stokka af álfaspá- spilum og tek við pöntun í álfa- spilaspá. Reyni að útskýra álfa- ljósmynd fyrir Þjóðverjum á undarlegu samblandi leikræns fingramáls og „Derrick-þýsku“. Allt skilst þó vel og við höfum öll mikið gaman af. Tek við pöntun fyrir „álfaúttekt“. Hjón langar að fá mig til að kíkja í klettinn í garðinum þeirra og fá mynd og sögu hugsanlegra álfaíbúa. 16.15 Eiginmaðurinn Lárus og elsti sonurinn Ragnar ásamt Önnu, kasóléttri tengdadóttur minni, koma og hjálpa til við að loka, tína upp rusl, þrífa og ganga frá. 17.00 Sótt til að kíkja á álfastein sem stendur til að færa. Ferðin er skemmtileg, álf- arnir ljúfir og jákvæðir og samningar ganga vel um til- færslu steinsins. Kvöldmatur í seinna lagi. Netspjall við dótturina Sirrý Margréti og fjölskyldu í Þýska- landi. Þau eru spurð mikil- vægra spurninga um uppsetn- inguna á litlu álfabókinni sem er að komast í prentun. 22.00 Yngsti sonurinn Ást- ráður keyrður út á flugvöll svo hann nái flugvél til Billund að hitta ástina sína. Við „gömlu“ hjónin fáum okkur ís í Keflavík og keyrum heim í gegnum lifandi hraunið í kvöldsólinni. 23.30 Hundarnir fagna okkur að venju og við förum út að segja góða nótt við reynitréð og huldukonuna og höfum tals- vert fyrir því að telja kisurnar á að koma inn úr bjartri sumar- nóttinni. Steinsofna á koddann minn góða og ferðast um dularveröld draumanna þar til nýr ævin- týradagur bíður mín næsta morgun. Dagur í lífi Ragnhildar Jónsdóttur í Álfagarðinum í Hellisgerði „Opna Álfagarðinn í litla Oddrúnarbæ í Hellisgerði. Anda að mér ljúfu andrúmslofti hússins og býð hugrænt góð- an daginn, geri allt klárt og helli upp á huldufólkskaffi,“ segir Ragnhildur Jónsdóttir. Morgunblaðið/Golli Bjartur og góður álfadagur

x

SunnudagsMogginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.