Monitor - 05.05.2011, Blaðsíða 13

Monitor - 05.05.2011, Blaðsíða 13
13FIMMTUDAGUR 5. MAÍ 2011 Monitor „Það hefur verið gaman fyrir okkur að finna hversu djúpt í hjörtum margra Quarashi er enn,“ segir Sölvi Blöndal sem oft er kenndur við hljómsveitina Quarashi sem hefur selt um 500 þúsund plötur um allan heim. Nýlega var tilkynnt um endurkomu sveitarinnar sem hefur ekki spilað öll saman í mörg ár. „Þetta er náttúrulega mjög skrítið því mér hefur persónulega alltaf þótt svona endurkomur vera klén fyrirbæri,“ segir Sölvi sem er engu að síður mjög spenntur fyrir tónleikunum sem Quarashi mun halda 9. júlí á Bestu útihátíðinni. Það hefur einhver ólýsanlegur sjarmi verið yfir Quarashi alveg frá því að þeir gáfu út fyrstu smáskífuna sína árið 1996 og er því ekki úr vegi að byrja á því að forvitnast um hvernig þessi ólíklegi hópur stráka kynntist og ákvað að stofna eina svölustu hljómsveit Íslandssögunnar. Ég las einhvers staðar að þið Ómar hafið hist sem börn á Austurvelli í mótmælum gegn herstöð Bandaríkjanna á Íslandi. Er það satt? Já, auðvitað. Þetta er fín saga og mér finnst hún frábær. Við vorum svona fimm ára en héldum ekkert miklu sambandi eftir þessi kynni. Það má orða það þannig að við viss- um alltaf hvor af öðrum enda báðir kommúnistar. Einn kommúnisti þekkir alltaf annan kommúnista. Í sama viðtali kom fram að þú hafir kynnst Steina í hjólabrettagarði þar sem hann skeitaði meðan þú sinntir samfélagsþjónustu. Hvað var málið? Ég var að sinna samfélagsþjónustu en ekki í þeirri merkingu að einhver hafi skikkað mig til þess. Ég var að vinna á þessu skeitparki sem var þar sem Harpan er núna. Það var frábært dæmi og við vorum að setja upp einhverjar keppnir og svona. Ég veit ekki alveg hvern ég var að vinna fyrir en mig minnir að ég hafi fengið einhvern pening fyrir þetta. Uppruni Quarashi virðist þá vera að smella hjá okkur. Hvernig kynntist þú svo Hössa sem þú stofnaðir hljómsveitina með árið 1996? Ég man nákvæmlega hvar við hittumst fyrst. Við vorum báðir í MR og Hössa vantaði ABBA-plötu því hann ætlaði að syngja Money, Money, Money í Söngkeppni framhaldsskólanna 1994. Hann spurði mig fyrir aftan Menntaskólann í Reykjavík hvort ég ætti diskinn og ég sagði nei. Það var samt allt í lagi því hann fann plötuna annars staðar. Hvað varð um pönksveitina 2001 sem þið Hössi spiluðuð saman í? Hún leystist upp í mjög illu. Einn meðlimurinn stofnaði seinna fyrirtæki í Reykjavík sem heitir CCP og gaf síðan út með mér fyrstu plötu Quarashi. Hvernig týpa varst þú í menntaskóla? Ég var gaur- inn sem fannst allir aðrir geðveikt hallærislegir. Við Barði í Bang Gang vorum saman í bekk í MR og við vorum mikið í að finnast allir hinir mjög hallærisleg- ir. Sumir hafa sagt að ég sé hrokafullur en ég er ekki til í að skrifa upp á það. Hvað varstu að hlusta á sem unglingur? Ég hlustaði mikið á Slayer, Beastie Boys og Red Hot Chili Peppers. Þá voru Red Hot ennþá góð hljómsveit en ekki svona skelfilegir eins og þeir urðu seinna. Svo hlustaði ég líka á ABBA og sensaði mikið ABBA í sjálfum mér því ég á sænska ömmu. Ég fann strax að það var eitt- hvert sænskt poppskrímsli sem bjó innra með mér. Hefur þú lært mikið í tónlist? Ég lærði á þrennt. Fyrst lærði ég lengi á selló en heima hjá sellókennaranum mínum var ísbjarnarskinn og ég fékk eiginlega miklu meiri áhuga á ísbjörnum. Ég varð því að hætta að læra á selló og fór að æfa á píanó. Það gekk ekki held- ur upp því að píanókennarann minn vantaði pössun fyrir börnin sín og þetta þróaðist einhvern veginn þannig að ég var farinn að passa börnin hennar í staðinn. Þetta er í fyrsta og eina skiptið á ævinni sem ég hef passað börn. Svo kom pabbi einn daginn til mín og sagði mér að hlusta á lagið Moby Dick með Led Zeppelin og mér fannst það geðveikt. Í laginu er flott trommusóló svo ég ákvað að fara að læra á trommur. Það entist stutt, ég held ég hafi lært í tvö ár og hætt svo. Ég hafði í sjálfum sér engan áhuga á að verða geðveikt góður trommuleikari en ég var samt ógeðslega góður og hef fengið verðlaun og allt. Mig langaði til að stofna hljómsveit svo einhverjar gellur myndu sjá hvað ég væri mikill töffari. Það var ekki neitt dýpra á bak við það en hafandi sagt það fékk ég seinna rosalega mikinn listrænan metnað (hlær). Það virðist sem engum hafi enn tekist að skilgreina tónlist Quarashi almennilega og í greinum um hljómsveitina hafa næstum því allar tónlistarstefn- ur verið nefndar. Hvernig tónlist spilar Quarashi að þínu mati? Tónlistina sem kemur út úr hausnum á mér hverju sinni. Hausinn á mér er yfirleitt í miklu ójafnvægi þannig að tónlist Quarashi er einskonar pönkbræðingur. Ég veit ekki hvað ég hef spilað í mörgum bílskúrshljómsveitum og á mörgum tónleikum þar sem bara tveir mæta og kærasta bassaleikarans. Ég var kominn með nóg af því þegar ég stofnaði Quarashi. Þá fór ég að gera mína eigin pönkbræðingstónlist og hef alltaf kallað Quarashi pönkhljómsveit. Hössi sagði eitt sinn í viðtali að tónlist Quarashi væri eins og ef Chemical Brothers og Prodigy blönduðust við Cypress Hill og Public Enemy. Ertu sammála þessari skilgreiningu? Mér finnst þetta bara frekar vel að orði komist hjá félaga mínum. Við fíluðum þessi bönd, vorum að hlusta á þau og unnum meira að segja seinna með bæði Prodigy og Cypress Hill. Öll 500 eintökin af fyrstu smáskífunni ykkar, Switchstance, seldust upp á einum degi. Hvað gerðist eiginlega? Ég get allavega lofað þér að enginn okkar bjóst við þessu. Við höfðum bara verið í einhverjum bílskúr að gera Quarashi-lögin og Steini og Hössi voru í sjálfum sér óþekktir á þessum tíma. Eins og ég sagði áðan hafði ég spilað á mörg hundruð tónleikum fyrir tvo og kærustu bassaleikarans þannig að þú getur ímyndað þér hvað ég varð hissa þegar plöturnar okkar seldust allar upp á einum degi. Allt í einu var ég kominn í hljómsveit sem var að fara að spila fyrir fleiri. Ég hélt annars vegar að enginn myndi skilja þessa tónlist og hins vegar að enginn myndi fíla hana. Við hittum greinilega á einhverja taug og tónlistin var bara kúl. Það var ekki mikið af kúl tónlist í gangi á þessum tíma. Það var ótrúlega erfitt að alast upp þegar eina tónlistin í útvarpi og sjónvarpi voru lög með Sálinni hans Jóns míns. Þetta eru allt ábyggilega bestu menn en fyrir einhvern sem þráði eitthvað annað var þetta skelfilegt. Sálin var í sjálfum sér allt í lagi miðað við mesta íslenska early 90‘s tónlist sem ég hef aldrei haft þolinmæði fyrir. Á þessum tíma var engin kúl tónlist í útvarpinu á Íslandi. Eiginlega allar plöturnar ykkar hafa selst upp. Eru einhverjar þeirra fáanlegar í plötubúðum í dag? Nei, engar þeirra fást lengur nema kannski mögulega Jinx. Ég er persónulega bombarderaður af fyrirspurn- um frá fólki sem vill kaupa gamlar Quarashi-plötur en ég á þær ekki. Eftir útgáfu fyrstu breiðskífunnar ykkar tók Quar- ashi smáhlé. Hvað fórst þú að gera? Ég hvarf í hálft ár. Ég hafði grætt um það bil nóg til að borga einn flugmiða til Suður-Ameríku. Ég hafði aldrei komið þangað og kunni enga spænsku en hugsaði með mér: „Fokk it, ég er ævintýramaður og ætla bara að fara.“ Ég steig upp í flugvél, lenti í Buenos Aires og lagði af stað berfættur fótgangandi til Bólivíu. Svo dvaldi ég lengi í Mexíkó, talaði ekki við neinn og var eiginlega í einangrun. Lengi sat ég uppi á fjalli, fór síðan í heimsókn í fangelsi og kynntist mjög athyglisverðu fólki þar. Ég lék líka lítið hlutverk í sápuóperu í Mex- íkó sem var rosalega gaman. Ég er búinn að leita að upptökunni lengi og langar mjög mikið að sjá þetta. Þegar ég kom heim vissi ég nákvæmlega hvað ég vildi gera og hóf strax að vinna að annarri Quarashi-plötu sem ég skírði í höfuðið á fótboltaliðinu Bocca Juniors sem Maradona var í áður en hann varð frægur. Stuðningsmenn liðsins kalla sig Xeneisis sem er einmitt nafnið á plötunni. Hvernig byrjaði stóra meikævintýrið? Eftir að við gáfum út Xeneisis sem mér finnst persónulega besta platan okkar kom einhver og bað okkur um að spila á einhverri Airwaves-hátíð. Við vorum beðnir um að spila á einhverri tískusýningu í flugskýlinu sem var ótrúlega fyndið. Þarna voru einhverjar fáklæddar gellur að labba fram og aftur og svo við að spila við hliðina á þeim eins og álfar út úr hól. Einhverjir gaurar frá bandaríska útgáfufyrirtækinu EMI sáu okkur spila þarna og ég veit ekki hvort það var út af gellunum eða okkur að þeir ákváðu að bjóða okkur til Bandaríkjanna þar sem við bjuggum í smá-tíma. Þar spiluðum við á fáránlega mörgum tónleikum, vöktum athygli og hjólin fóru að snúast smám saman. Hvað sáuð þið fyrir ykkur að ná langt í bransanum? Fyrir okkur var ævintýri lífs okkar að fá að búa fimm gaurar saman í 45 fermetra íbúð í New York í nokkra mánuði. Það voru öll heimsyfirráðin okkar. Við bjugg- um við hliðina á Hell‘s Angels og einu sinni hótuðu þeir að drepa okkur, það var nóg til að toppa ferðina fyrir okkur. Síðan þegar við fengum samninginn kom maður í heimsókn, við skrifuðum undir eitthvað og fengum ávísun upp á tugi þúsunda dollara. Okkur fannst það svo óraunverulegt að við héldum að þetta væru feikpeningar og settum ávísunina upp á arinhillu í íbúðinni. Steini er rosa duglegur að þrífa og þurrka af og einn daginn henti hann ávísuninni. Quarashi fór á tónleikaferðalag um allan heim. Hvar fannst þér skemmtilegast að spila? Ég á mér þrenna uppáhaldstónleika. Uppáhaldstónleikar númer eitt voru í Washington D.C. þar sem við hituðum upp fyrir Eminem á 40 þúsund manna tónleikum. Steini hafði snúið sig kvöldið áður og þurfti að vera í hjóla- stól á sviðinu sem reitti Bandaríkjamenn til reiði því þeir héldu að við værum að gera grín að fötluðum. Uppáhaldstónleikar númer tvö voru í Montana sem er frekast afskekkt fylki vestarlega í Bandaríkjunum. Það var alveg geðveikt því allir þrjú þúsund áhorf- endurnir voru eins og þeir höfðu dýrkað Quarashi í mörg ár. Uppáhaldstónleikar númer þrjú voru svo í Tókýó í Japan árið 2002 sem voru alveg brjálæðislega skemmtilegir. Ert þú með einhverjar rokksögur af tónleikaferða- lögum ykkar? Það eru endalausar rokksögur af þessum túrum eins og þú getur ímyndað þér. Þetta er bara einn stór sirkus. Rútubílstjórinn okkar var til dæmis yfirleitt á mjög sterkum efnum en ég hef reyndar aldrei fyrirhitt jafn góðan bílstjóra. Síðan þegar honum var skipt út fyrir edrúmann gat ég aldrei sofið því hann beygði svo asnalega og þá fór ég fyrst að verða hræddur. Svo vorum við með versta tour manager í heimi. Einu sinni ætlaði hann að berja alla hljómsveitina af því að einn okkar tók mjólk út úr ísskápnum og setti hana ekki inn aftur. Fólk verður tæpt á geði á svona tónleikaferðalögum. Hvað áttuð þið margar grúppíur þegar mest var? Örugglega margar, ég reyndi að fylgjast sem minnst með því hjá hinum. Ég er reyndar orðinn feministi eftir að hafa búið úti í Svíþjóð svo ég tala ekki um konur sem grúppíur vegna þess að ég virði þær. Það var Spinal Tap sem gerði útslagið. Hössi vildi meina að Spinal Tap væri feik en ég veit að þessi mynd er ekkert feik. Texti: Sigyn Jónsdóttir sigyn@monitor.is Myndir: Golli golli@mbl.is HRAÐASPURNINGAR Uppáhaldskvikmynd? Taxi Driver. Versta martröð? Að verða rafmagns- laus á tónleikum; það kom einu sinni fyrir mig. Fyndnasti maður í heimi? Gaukur Úlfarsson. Uppáhaldstónlistarmaður? Caribou. Það sjúkasta sem þú hefur séð á netinu? Ég þoli ekki þetta internet og er ekki á því af því að það er sjúkt. Uppáhaldsmatur? Soðin ýsa með kartöflum. Það besta við Ísland? Sundlaugarnar. Það besta við Svíþjóð? Lingon-sulta. Ég veit ekki hvað ég hef spilað í mörgum bílskúrshljómsveitum og á mörgum tónleikum þar sem bara tveir mæta og kærasta bassaleikarans. „Við hittum greinilega á einhverja taug,“ segir Sölvi í Quarashi um fyrstu smáskífu sveitarinnar sem seldist upp á einum degi. Monitor ræddi við hann um Quarashi, meikævintýrið, Hössa, sápuóperu í Mexíkó og allt hitt.

x

Monitor

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Monitor
https://timarit.is/publication/791

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.