Morgunblaðið - 22.04.2010, Qupperneq 28
28 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. APRÍL 2010
✝ Friðgeir FjalarVíðisson fædd-
ist á Stöðvarfirði
22. apríl 1955.
Hann lést af slys-
förum 6. apríl
2010. Foreldrar
Fjalars voru Nanna
Ingólfsdóttir og
Sveinn Víðir Frið-
geirsson sem lést
árið 2004. Systkini
Fjalars eru Þröstur
Ingólfur, Bjarnþór
Elís og Elsa Kristín
sem lést árið 1974.
Fjalar var kvæntur Önnu Stef-
ánsdóttur og átti með henni einn
son, Hjörvar Friðgeirsson, f.
1973. Þau slitu samvistir. Seinni
eiginkona Fjalars var Siobhan
Hansen sem búsett er í Banda-
ríkjunum.
Fjalar ólst upp á Stöðvarfirði,
fluttist til Fáskrúðsfjarðar um
12 ára aldur og
þaðan til Reykja-
víkur tveimur ár-
um síðar. Hann
stundaði verka-
mannastörf alla
ævi. Í mörg ár
vann hann við
blikksmíði og síðan
við ýmis störf
tengd sjávarútvegi
og sjómennsku.
Hann var handlag-
inn, ósérhlífinn og
duglegur. Hann
þótti úrvals flakari
og góður beitningamaður. Fjalar
var fróður og víðlesinn og
áhugamaður um útivist. Hann
var listhneigður og málaði og
teiknaði í frístundum. Hann hélt
nokkrar einkasýningar á verk-
um sínum.
Útför Fjalars fór fram í kyrr-
þey hinn 14. apríl 2010.
Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel,
í fjallinu dunar, en komið er él,
snjóskýin þjóta svo ótt og svo ótt.
Auganu hverfur um heldimma nótt
vegur á klakanum kalda.
(Jónas Hallgrímsson)
Fjalar frændi minn og systurson-
ur er látinn. Hann varð úti ásamt
vinkonu sinni, Kristínu Rósu, um
páskahelgina fyrir norðan Mýrdals-
jökul. Þau fóru til að horfa á eld-
gosið, það gerði vonskuveður og þau
villtust af slóð. Mig setur hljóða af
hryggð, vegna þessa hörmulega
slyss og vegna þess að mér þótti af-
ar vænt um Fjalar.
Í hugann koma fram margar hlýj-
ar og góðar minningar. Ég sé fyrir
mér litla, ljóshærða hnokkann sem
horfði athugulum og einlægum
barnsaugum. Ég var oft hjá Nönnu
og Víði, foreldrum hans, og með
börnum þeirra á Stöðvarfirði í
bernsku og var tengd þeim enda var
Nanna uppeldissystir mín. Fjalar
var mildur og ljúfur og ef til vill of
viðkvæmur fyrir harðneskjulegan
heiminn.
Fjalar var eins og orðað er á
ensku „free spirit“. Hann fór sínar
eigin leiðir. Á fullorðinsárunum bjó
Fjalar í mörg ár á Stöðvarfirði og
hafði þá mikið samband við foreldra
mína og það var væntumþykja á
milli þeirra. Fjalar var vel gefinn og
fjölfróður. Hann var listamaður og
til eru eftir hann margar fallegar
myndir sem hann teiknaði og mál-
aði. Hann var duglegur verkmaður
og laginn. Hann átti létt með að
kynnast fólki og var glaður og
skemmtilegur. Seinni árin settist
hann á skólabekk og las upp það
sem hann hafði lagt til hliðar sem
ungur maður. Hann sagði mér frá,
hversu mikinn áhuga og gleði hann
hefði af náminu. Fjalar gat verið úr-
ræðagóður og viðbragðsfljótur þeg-
ar mikið lá á. Eitt sinn er hann vann
við fiskvinnslu varð starfsstúlku það
á að skera af sér fingur. Fjalar
brást við með snarræði, sótti ís og
plastpoka og lagði þar í hinn af-
skorna fingur. Stúlkan fór með
sjúkrabíl á spítala og fingurinn var
græddur á með góðum árangri.
Í Fjalari bjó góður drengur, sem
vildi hjálpa þeim sem áttu erfitt.
Mér er efst í huga þakklæti til hans
fyrir hversu góður og hlýr hann var
við móður mína, þá aldraða ekkju,
þegar hún bjó ein á Hóli í Stöðv-
arfirði. Hann var henni nærgætinn
og hjálpsamur og hún sagði mér oft
frá hversu góður hann hefði verið
henni. Foreldrar Fjalars bjuggu
fyrir sunnan og faðir hans var orð-
inn heilsulítill og kominn á hjúkr-
unarheimili. Mamma hans veiktist
og það leið að jólum. Fjalar dreif sig
þá til þeirra og lét til sín taka. Hann
setti ljós í hvern glugga, skraut á
borð og bjó til mat. Fjalar tók að sér
að velja og útbúa sérstaka jólagjöf
handa mér. Það var stór og falleg
hvít stytta af Jesú, sem breiddi út
faðminn á móti mér. Þessi síðustu
jól kynnti hann vinkonu sína fyrir
mömmu sinni og þau þrjú fögnuðu
fæðingarhátíð Frelsarans saman.
Fjalar og Kristín Rósa sofnuðu í
snjófönn fyrir norðan Mýrdalsjökul
á upprisuhátíð Drottins. Hinn líkn-
sami Jesús hefur breitt faðm sinn á
móti þeim og veitt þeim eilífan frið.
Guðbjörg Ólöf Björnsdóttir.
Mig langar minnast Fjalars
frænda míns og vinar í nokkrum
orðum. Ég man að ég leit upp til
þessa frænda míns snemma á lífs-
leiðinni. Fjalar varð snemma mjög
listhneigður og hrifnæmur og fékk
áhuga á listaverkum af ýmsu tagi.
Ég minnist þess sérstaklega að á
unglingsárunum fór hann með mig
á listasöfn hér í borginni og leiddi
mig í allan sannleik um frábær verk
sem þar voru. Ég hreifst með hon-
um og var einnig hrifinn af hæfi-
leikum hans við að teikna og mála.
Einnig eru minningarnar um sam-
veruna með þeim bræðrum Fjalari
og Bjarnþóri ógleymanlegar. Við
spiluðum fótbolta saman löngum
stundum og oft var hörð baráttan.
Fjalari fannst erfitt að sætta sig við
það sem honum fannst óréttlæti á
þeim stundum. Ef við hinir stóðum
saman gegn honum í einhverjum
dómum sem féllu gat komið fyrir að
hann vék af velli og virti okkur ekki
viðlits í fleiri daga. Hins vegar þeg-
ar bráði af honum kom í ljós þvílíkt
gæðablóð hann var og traustur vin-
ur vina sinna. Hann var hins vegar
ekki mikið fyrir að kyngja stoltinu
þegar honum fannst hann órétti
beittur og það gat örugglega reynst
honum erfitt. Fjalar var mjög vel
gefinn og áhugasamur um margt
og mjög gaman var að tala við hann
um menn og málefni. Hann var
óspar á sínar skoðanir og rökfast-
ur.
Fjalar hafði heilmikil samskipti
við móður mína þegar hún bjó fyrir
austan. Hann var mjög góður við
hana og hún við hann og þannig
voru þau hvort öðru mikill og góður
félagsskapur. Ég veit að hann bar
mikla virðingu fyrir henni og ég
vissi til þess að hún naut fé-
lagsskaparins við hann en hafði
stundum áhyggjur af honum. Aldr-
ei man ég til þess að hún hafi látið
styggðaryrði út úr sér varðandi
Fjalar. Fyrir nokkrum vikum, áður
en hann hvarf af sjónarsviðinu,
hittumst við Fjalar og tókum tal
saman. Þá datt mér auðvitað ekki í
hug að þetta yrði í síðasta skiptið
sem við hittumst. Við höfðum þá
ekki hist í mörg ár, aðallega vegna
búsetu minnar í útlöndum. Ég var
að koma út úr verslun og heyrði
mikið bílflaut. Ekki bílflaut sem
kemur til af gremju heldur af gleði.
Ég var hissa og glaður að hitta
Fjalar sem bar sig vel. Hann sagði
mér af áhuga sínum á fjallgöngum
og að hann væri mikið að mála og
væri með sýningu í bígerð. Ég bað
hann endilega að láta mig vita þeg-
ar hún yrði að veruleika. Í miðju
samtalinu, sem við áttum inni í hans
bíl, vatt hann sér skyndilega út úr
bílnum þar sem gamall vinur hans
birtist og faðmaði hann að sér og
var gaman að sjá gleði þeirra
beggja á því augnabliki.
Ég minnist með gleði allra stunda
sem við Fjalar áttum saman og kveð
þennan frænda minn með söknuði.
Ég votta Nönnu, Þresti og Bjarn-
þóri og öðrum af hans nánustu fjöl-
skyldu innilega samúð.
Einar S. Björnsson.
Vertu sæll kæri vinur ég kveð þig nú
með sorg í hjarta og tár á kinn
þótt fenni í sporin þín þá lifir lag þitt
enn
þú löngum spannst þín draumaljóð
á hverjum morgni rís sólin
og stafar geislum inn til mín
hún lýsir upp daginn
og þerrar öll mín tár
breiðir úr sér um bæinn
og heilar öll mín sár
(Þorsteinn Einarsson)
Elsku Fjalar, það er sárt að
kveðja þig.
Vinum og ættingjum sendi ég
samúðarkveðjur.
Þín vinkona,
Lilja.
Okkur hjá Hringsjá náms- og
starfsendurhæfingu langar með ör-
fáum orðum að kveðja góðan félaga
og vin, Friðgeir Fjalar Víðisson.
Fjalar stundaði náms- og starfsend-
urhæfingu við Hringsjá undanfarin
tvö ár. Fjalar var ákveðinn í því að
snúa lífi sínu til betri vegar, mennta
sig og efla, ná tökum á heilsu sinni
og finna hæfileikum sínum nýjan
farveg. Mikið er ánægjulegt að fá að
fylgjast með slíkum breytingum í
lífi manns. Það fór heldur ekki á
milli mála að Fjalar var hæfileika-
ríkur; hann var fróður um margt og
vildi svo gjarnan læra enn meira.
Hann hafði mikinn áhuga á flestum
greinum, en samfélagsumræðan
skipti hann miklu máli. Aðaláhuga-
mál og hæfileikar Fjalars lágu þó án
efa á sviði listgreina og vilji hans og
löngun lágu til þess að leggja mynd-
listina alfarið fyrir sig. Fjalari
fylgdi einlægni og hlýja. Hann var
mannvinur og hafði sterka réttlæt-
iskennd.
Það sló þögn á hópinn í Hringsjá
að heyra af sviplegu andláti Fjalars
og það hryggir okkur að hann skuli
ekki hafa náð takmörkum sínum.
Eftir standa minningar og þakklæti
fyrir að hafa fengið að kynnast góð-
um dreng. Við sendum fjölskyldu og
ástvinum Fjalars okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Fyrir hönd samnemenda og
kennara Hringsjár,
Ragnheiður Linda Skúladóttir,
forstöðumaður Hringsjár.
Ég sá fréttina í blaðinu. Ég sagði
stundarhátt við morgunverðarborð-
ið að ég þættist viss um að þekkja
þann sem hafði orðið úti á fjallinu.
Fékk það staðfest síðar. Nokkrum
dögum áður hafði ég farið með góð-
um hópi fólks gangandi upp frá
Skógum að eldstöðvunum við
Fimmvörðuháls. 11 tíma ganga
fram og til baka með góðan búnað.
Það var ánægjuleg ferð sem reyndi
vissulega á og ekki hefði ég viljað
missa af því fyrir nokkurn mun. Ég
sneri til baka úr minni ferð en ekki
Fjalar úr sinni.
Fjalar hét fullu nafni Friðgeir
Fjalar Víðisson og við krakkarnir í
klíkunni hlógum þessi lifandi býsn
þegar vitnaðist að hann héti líka
Friðgeir. Hann kom inn í hópinn
okkar í gaggó, nýfluttur að austan.
Uppfullur af kankvísum tilsvörum
með heimspekilega frasa á hrað-
bergi. Mér þótti hann óttaleg písl og
skildi eiginlega ekkert í því hvað
stelpurnar sáu við hann en þegar ég
fór að kynnast honum fór ég að
skilja það betur. Við áttum góðan
tíma saman. Alltaf eitthvað að
bralla. Horfa á lög. Hlusta á Frank
Zappa. Setja saman raftæki, búa til
músík, rölta hús úr húsi í leit að
gleðskap þegar sá gállinn var á okk-
ur. Alltaf eitthvað um að vera.
Kæri gamli vinur og félagi – þótt
við höfum ekkert mikið verið að
þvælast hvor fyrir öðrum síðustu
árin var alltaf tenging til staðar.
Sterk væntumþykja og þessi ein-
lægi samhugur sem einkennir þá
sem velja sér torsóttari leiðir en
aðrir í lífinu í leit sinni að hamingj-
unni. Þú fórst þínar eigin leiðir á
þínum eigin forsendum og úr síð-
ustu ferð áttirðu ekki afturkvæmt
en við náðum samt að hittast og
faðmast aðeins eftir að þú komst úr
síðustu meðferð. Við ætluðum á
fund saman og taka stöðuna á lífinu
því seinni hálfleikur var jú hafinn og
óvíst hve lengi maður fær að njóta
samvista með því samferðafólki sem
okkur hefur verið úthlutað. En það
átti ekki að verða svo, þetta var okk-
ar hinsta kveðjustund.
Nú ertu kominn á þinn stað. Ég
verð áfram hér um sinn en hve lengi
veit jú enginn. Þú varst drengur
góður og þótt sjúkdómurinn okkar
leiki margan manninn grátt og
dragi því miður alltof marga til
dauða þá er til lausn sem gefur okk-
ur tækifæri á að jafna metin og end-
urheimta lífið.
Þú náðir ágætis tímabilum inni á
milli en svo tók Bakkus völdin og
lagði þig að velli að lokum eins og
margan góðan dreng sem ég hef
þurft að kveðja. Mér var það bæði
ljúft og skylt að spila yfir þér og
kveð með þessum ljóðlínum:
Þú tími eins og lækur áfram líður
um lífisins kröppu bugður alltof fljótt.
Markar okkur mjög svo undan svíður
minnir á þig gengur títt og ótt.
Það er gott að taka ráð í tíma
því tíminn ráð öll ber í hendi sér
á endanum er úti þessi glíma
sjálf eilífðin nú tekur móti þér.
Samt linar þú og læknar hjartasárin
og leggur við þau smyrsl þín sér-
hvern dag
svo tínast eitt og eitt í burtu árin
eins og dægrin björt um sólarlag.
(Valgeir Skagfjörð.)
Ættingjum þínum og venslafólki
færi ég mína dýpstu samúð.
Valgeir Skagfjörð.
Mig langar í nokkrum orðum að
kveðja skólabróður minn úr
Hringsjá. Ég man fyrst eftir þér við
nafnakall á sal, að þegar lesið var
Friðgeir kallaðir þú Fjalar og undir
því nafni þekktum við bekkjarsyst-
kinin þig.
Þú varst vinur okkar allra frá
fyrstu stundu, sögurnar sem þú
sagðir okkur í frímínútum voru
skemmtilegar og stjórnamálaskoð-
anir þínar skemmtilega kryddaðar.
Ég undirrituð lenti með þér í verk-
efni í myndlist sem var mér ómet-
anlegt, þú vissir allt og gast allt. Þú
sýndir okkur hinum áhuga og gerðir
okkur að meiri manneskjum. Ég
man hvað þú varst uppveðraður yfir
menntun minni og varst alltaf að
tala um að koma í heimsókn með
myndbandspólur sem þú vildir að
ég sæi, en af því verður ekki úr
þessu.
Elsku Fjalar, blikið sem kom í
augu þín þegar þú talaðir um æsku-
stöðvarnar á Stöðvarfirði. Hug-
myndirnar sem þú hafðir um að
gera upp hús fjölskyldunnar og vera
með ferðaþjónustu, leyfa öðrum að
njóta þeirrar náttúruperlu sem
Austfirðirnir eru.
Elsku karlinn, þegar þú kvaddir
þennan heim hafðir þú lagt upp í
ferð til að skoða umbrot eldgoss, sjá
hvernig eldur og ís takast á úr iðr-
um jarðar. Þannig var líka líf þitt
átök við sjúkdóm sem er illviðráð-
anlegur.
Í sumar sem leið varstu með
myndlistarsýningu á Kaffi Rót sem
sýndi vel hvað hæfileikar þínar
spönnuðu stórt skeið á sviði listar-
innar. Takk, kæri vinur, fyrir kynn-
in í þessu lífi. Ég veit að þú ert á
góðum stað núna og líður betur.
Ég sendi móður, bræðrum, syni
og öðrum ættingjum samúðarkveðj-
ur og þökk fyrir að fá að taka þátt í
útförinni.
Elín Svava Elíasdóttir.
Það var óhjákvæmilegt að veita
Fjalari strax athygli í frystihúsinu á
Stöðvarfirði.
Hann var meðalmaður á hæð,
mjög grannvaxinn, kvikur í hreyf-
ingum, með hár langleiðina niður á
axlir og það næstum algrátt, þó að-
eins liðlega fertugur.
Það var samt ekki þetta. Það var
svipurinn – hann var eins og teikn-
aður í andlitið og jafnvel svolítið
harkalegur. Augun reyndu að vera
stingandi og glottið þóttist vera
kaldhæðið, en hvort tveggja var of
hlýlegt til að takast það rétt vel.
Fasið allt gaf til kynna að þessi
væri ekki eins og hinir.
Ekki minnkaði forvitni gamals
blaðamanns þegar Fjalar festi upp á
korktöflu í kaffistofunni opið bréf til
samstarfsmanna.
Hann baðst þar undan slúðri og
baknagi um það sem hann gerði ut-
an vinnutíma og fór fram á að aðrir
en hinir vammlausu í þorpinu stilltu
sig um sleggjudóma um samferða-
menn sína.
Ekki var laust við að einhverjir
góðþorparar roðnuðu við lesturinn.
Bréfið var skrifað af allnokkurri
ákefð, sem spratt af réttlætiskennd
þess sem var misboðið, en stílbrögð-
in gerðu lesturinn að hreinni
ánægju.
---
Engum duldist að Fjalar var
óreglumaður, en það er hin ein-
feldningslegasta lýsing á þessum
flókna manni.
Ekki þurfti löng kynni til að kom-
ast að því, að hann var víðmennt-
aður í bezta skilningi. Vel að sér um
bókmenntir, sögu, tónlist og alþýðu-
menningu. Í lánsbókadílum við
hann var vöruskiptajöfnuðurinn
alltaf jákvæður.
Hitt geymdi hann kannske bezt
leyndarmála sinna, hversu flinkur
listamaður hann var.
Hér uppi á vegg eru tvær myndir.
Önnur er tússpennateikning og
heitir Stígvél. Línurnar eru fíngerð-
ar og ótrúlega nosturslega dregnar.
Myndin er samt eitt kaos og læti, en
heildin eins og þar hefði aldrei neitt
getað verið öðruvísi.
Hin er nafnlaus blýants- og kola-
teikning af gamaldags tekatli og
upp af honum stígur gufa. Frá öðr-
um sjónarhóli er hún samt manns-
andlit, sem lítil stúlka lýsti svo:
„Svona er pabbi minn þegar hann er
skrýtinn á svipinn.“
Fjalari hefði trúlega þótt það
sannferðug lýsing.
---
Það var fátt sem Fjalar gerði
ekki. Hann tók törnina í frystihús-
inu, hann saltaði, beitti, málaði og
smíðaði. Gerði það sem þurfti.
En það var bara vinna. Lífið var
honum svo miklu meira en vinna.
Það þýddi að vísu líka, að líf hans
féll ekki alltaf að annarra manna
klukkum og dagatali.
Í kringum aldamótin varð Fjalari
og fleirum ofaukið á Stöðvarfirði.
Samherja þótti hagkvæmt að flytja
togarann norður og loka frystihús-
inu.
Skömmu síðar fóru trillurnar inn
í kvótakerfið líka, þeim snarfækkaði
og störfunum samhliða. Það var
eins og að horfa á dauðann nálgast.
Vorið 2001 fórum við eina „loka-
ferð“ í eggjatínslu, dágóðan spöl út
fyrir Lönd. Markmiðið var máfsegg,
uppi í efstu klettum.
Við sögðum ekki margt á uppleið-
inni, langmóðir reykingamenn báð-
ir. En á þröngri klettasyllunni, með
nógu mörg egg í skjattanum, og á
niðurleiðinni, þar sem lífið lá við að
fara varlega, þar hitti ég Fjalar
glaðastan og skemmtilegastan.
Þar kunni hann lífinu bezt í ein-
lægri gleði. Hann fær ævarandi
þakklæti fyrir að veita mér örlitla
hlutdeild í því.
Karl Th. Birgisson.
Friðgeir Fjalar
Víðisson
HINSTA KVEÐJA
Þú varst minn kæri vinur.
Þú gafst mér fallegan óska-
stein.
Verndaðu mig og mína fjöl-
skyldu.
Kveðja,
Bríet Eva.