Mæðrablaðið - 23.05.1943, Síða 9
MÆÐRABLAÐIÐ
9
Framhald af 5. síðu.
og fer þá í stjórnarráðið, til lögreglu-
stjóra og loks til Barnaverndarnefnd-
ar. Ekkert nema örvæntingin gat
gefið henni djörfung til þess að fara
þessa krossgöngu, en enginn getur
hjálpað henni. Hún fær nokkrar krón-
ur í lófann, fyrir mjólk, hjá fulltrúa
Barnaverndarnefndar og kolapoka
hjá Mæðrastyrksnefnd. Hvorug þess-
ara nefnda hefur peninga til þess að
veita henni nokkra verulega hjálp.
Nú kem ég heim til hennar og sé litla
þrifalega herbei'gið og börnin, sem
eru svo snyrtileg, þrátt fyrir fátækt
móðurinnar. Hún kemur á skrifstofu
Mæðrastyrksnefndar og þar er skrif-
að bréf til framfærslunefndar: “....
Meðlag með börnunum nægir rétt
fyrir þörfum þeirra, en þar sem ég er
alveg bundin við þau, get ég ekki afl-
að mér neinnar atvinnu, svo að ég
geti unnið fyrir sjálfri mér og sé því
engin úrræði önnur en að biðja hátt-
virta framfærslunefnd um styrk til
lífsframfæris."
Framfærslunefnd vísar málinu til
afgreiðslu fátækrafulltrúa og fær
stúlkan 20 kr. bráðabirgðastyrk. En
fátækrastjórnin vill ekki styrkja ó-
giftar, vinnufærar stúlkur til þess að
halda saman heimili. Henni er sagt
að koma öðru barninu fyrir og fara
í vist með hitt. Henni dettur í hug að
gefa ungbarnið, þá mundi fara betur
um það. Hún auglýsir, og tuttugu
manns koma upp í litla herbergið til
þess að líta á barnið. En hún fær sig
ekki til að láta það. Neyðin sverfur
að og henni er ráðlagt að koma barn-
inu á barnaheimili. Þar getur það
verið þangað til að, ef til vill, verði
hægt að finna því heimili Þetta ráð
tekur hún, en eftir sólarhring kemur
hún til mín. Hún biður mig í guðs
bænum að hjálpa sér til þess að ná
barninu af barnaheimilinu, hún hafi
séð að ekki fór vel um það og for-
stöðukonan telji að hún hafi afsalað
sér móðurréttinum um leið og hún
kom með barnið og leyfði að það væii
gefið. En stúlkan gat ekki látið barn-
ið frá sér eins og hlut á útsölu. Hún
kvaðst ekki geta lifað aðra eins nótt
og þá sem liðin var síðan barnið fór.
Ég fór þá með henni og hjálpaði
henni til að fá barnið. Var það auð-
vitað auðvelt, því að hún hafði engum
rétti sleppt, þótt hún hefði beðið um
að barninu væri útvegað heimili, en
snúist hugur. Ég gleymi ekki fegin-
leik hennar þegar hún hjúfraði barn-
ið að sér.
Ef hún gæti komist af til vorsins,
kvaðst hún mundu fara upp í sveit,
þegar vegirnir væru orðnir færir.
Margar voru ferðirnar farnar til fá-
tækrafulltrúans vegna þessarar
stúlku og einhvernveginn treyndist í
henni lífið til vors.
En 6. maí segir dagbók Mæðra-
styrksnefndar frá því að stúlka
þessi hafi skyndilega verið svift
húsaleigunni, sem bærinn hafði
áður greitt. Aftur er skrifað
bréf til framfærslunefndar og beðið
um að stúlkunni sé gert mögulegt að
standa í skilum við húseiganda, sem
hafði látið hana fá húsnæðið vegna
þess ;að hann vissi að leigan yrði
greidd úr bæjarsjóði. „......Ég hefi
leitað fyrir mér um vistir, en hvergi
getað fengið vist þar sem ég gæti haft
börnin með mér. Ég hef hugsað mér
að leita til venzlafólks míns um hjálp,
og vona að mér takizt síðar að ráð-
stafa mér og börnunum á viðunandi
hátt, en að svo stöddu sé ég engin
önnur ráð en að biðja yður að hlut-
ast til um að húsaleigan verði greidd
fyrir mig, þar til eitthvað rætist úr
fyrir mér“. Húsaleigan fæst þó ekki
áfram og um vorið leggur stúlkan á
stað langt upp í sveit.
Ég bjóst við því að hún mundi ef
til vill koma suður aftur með annað
barnið. Um næstu jól leitaði Mæðra-
styrksnefndin að stúlkunni til þess að
gefa henni jólagjöf. En hún fannst
hvergi.
Seinna um veturinn bar það við að
kona nokkur hafði gleymt einhverj-
um hlut heima hjá mér og sendi
stúlkuna sína eftir þessu. Mér brá í
brún þegar ég sá þarna komna stúlk-
una sem ég hafði leitað að. Hún sagði
mér nú af högum sínum. Annað barn-
ið væri kyrrt í sveitinni, en hún hefði
ekki getað komið sér þar fyrir með
minna barnið. Um haustið hefði hún
komið suður og hvergi getað fengið
vist eða herbergi fyrir sig og barnið.
Hún hefði verið á flækingi mánaðar-
tíma og loksins hefði hún orðið að
gefa barnið. En hún sagðist vita að
það hefði eignast gott heimili.
Eg get ekki með orðum lýst hve
snauð hún var og slokknuð, eftir allan
baráttuhuginn sem hún hafði sýnt
veturinn áður. Allur sá sársauki, sem
hún hafði reynt, kom snöggvast fram
þegar hún sagði lágt og þungt: ,,Eg
get ekki skilið að það sé rétt að pína
fátækar stúlkur til þess að láta börn-
in sín.“
Oft hefi ég hugsað um þessa stúlku
síðan og loksins sá ég hana aftur.
Einn dag kom hún til mín til þess
að leita einhverra upplýsinga við-
víkjandi meðlagi eldra barnsins, sem
hún sagði að væri enn í sveitinni.
„En yngra barnið?“ spurði ég. „Já,
því líður vel“, sagði hún og varð hýr
á svipinn. „Hafið þér aldrei séð það“.
spurði ég. „Nei — hann var svo ung-
ur“. Hún þagði dálítið og sagði svo:
„En það hefur sent mér mynd af hon-
um. Þetta er gott fólk.“ Hún brosti
að einhverju með sjálfri sér. kyrlát-
lega, svo sagði hún: „Eg hef revndar
oft séð hann — vera að leika sér fyrir
utan húsið. Eg veit að honum líður
vel.“ ,,Og hinum drengnum", spurði
ég. Þá ljómaði af henni: ,Já, ég fer
alltaf að sjá hann einu sinni á ári.“
Margar mæður hafa haft svip-
aða reynslu og þessa. Eg get ekki
gleymt orðum þessarar móður: „Eg'
get ekki skilið að það sé rétt að pína
fátækar mæður til þess að láta börnin
sín.“ Það er aðkallandi nauðsyn á
heimili fyrir mæður, þar sem þær
gætu dvalið með börnum sínum
fyrstu erfiðustu árin.
Laufey Valdimarsdóttir.
Skrifstofa Mæðrastyrksnefndar er í Þing
holtsstræti 18. Eru þar gefnar lögfræði-
legar upplýsingar og aðstoð til að skrifa
bréf og umsóknir til ýmissa stjórnarvalda.
Geta konur leitað þangað gagnvart ýmsum
vandamálum, svo sem þarnsfaðernismál-
um, meðlagsúrskurðum og innheimtu með-
laga, hjónaskilnaðarmálum, umsóknum um
meðlög með börnum ekkna o. fl.
Skrifstofan er opin alla virka daga nema
laugardaga, kl. 3—5 e. h. og auk þess á
mánudögum og miðvikudögum kl. 8—10 e.
h. og á föstudögum kl. 5—7 e. h. (þann dag
opið frá kl. 3—7 e. h.)