Eining - 01.02.1957, Blaðsíða 10

Eining - 01.02.1957, Blaðsíða 10
10 EINING HRAFNHILDUR Skáldsaga eftir Ásíríði Torfadóttur. Allt skammdegið var Hrafnhildur lasin og skap hennar nokkuð með öðrum hætti en hún átti venju til. Eitt sinn ætl- aði Pétur að senda Hákon, nýstaðinn upp úr veikindum, til þess að standa yfir fénu í hálf vondu veðri. Hrafnhildur setti sig ákveðið á móti því og sagðist þá heldur fara sjálf með fénu, en láta drenginn fara, sem ekki væri enn vel frískur. Það yrði þá ekki annað, en fyrir sér færi eins og Gunnhildi. Hún hafði ekki fyrr sleppt orðunum en hún dauð sá eftir að hafa sagt þetta. Nú hafði hún hugsað upphátt. Hefði hún hugsað sig um, þá hefði hún stillt sig. Hún hljóp ofan, en varð litið til manns síns um leið og sá hann standa náfölan í sömu sporunum. Hann fór á eftir henni. Hákon litli fór að gráta og gekk út að þakglugganum. Hann sá föður sinn koma út eftir dálitla stund og halda upp að fjárhúsunum. Móður sína sá hann ekki og fór niður. Hann kom að henni liggjandi á legubekknum í kaldri stof- unni. Hún stóð upp og gekk til hans, strauk vanga hans blíðlega, en hvorugt þeirra sagði eitt orð. Þau fóru upp aftur til barnanna. Klukkustundirnar liðu og Pétur kom ekki aftur. Hún tók að óttast um hann. Loks kom hann og var þá ölvíman gersamlega af honum runnin. Hann settist hljóður að mat sínum og yrti ekki á neinn það sem eftir var dagsins. Morguninn eftir fór hann strax til verka sinna og næstu dagar urðu mjög þegjandalegir, og þannig gekk það reyndar fram eftir vetrinum. Hver gekk að sínu verki, en lífið á bænum var þumbaralegt. Svo rann dagurinn upp, er litla, óvelkomna dóttirin sagði til sín, og þá var sem Pétur vaknaði af einhverjum dvala. Hann varð sem annar maður, nærgætinn og hugs- aði um allt á heimilinu af slíkri alúð, að ætla mátti að fæðing litlu dótturinnar mundi nú valda straumhvörfum í lífi hjónanna á Hrauni. En Hrafnhildur, sem þekkti mann sinn svo vel, vissi, að hér var aðeins um stundar hlé að ræða. Hún varð þess vör, hve freistingin tók hann stundum grimmileg- um tökum. Þunglyndið sótti á, og hún fann sárt til með hon- um. Hún tók þó fagnandi allri umhyggju hans og friður ríkti á heimilinu síðasta hluta vetrarins, allt þar til hann um vorið hugði á suðurför. Öllum leizt illa á suðurför Péturs að þessu sinni. Ekki höfðu heimilisástæðurnar batnað. En suður ætlaði Pétur og suður fór hann. Hann kom ekki aftur fyrr en komið var fram á sumar, og kom þá bátlaus, kom með farþegaskipi. Hann var sendur inneftir, illa til reika að vanda, ver á sig kominn en nokkru sinni fyrr. Hrafnhildur kom honum í rúmið og þaðan mátti hún helzt ekki víkja. Taugakerfi hans var þannig, að hann þoldi eiginlega hvorki ónæði né það að vera einn. Vanlíðan hans var mikil. Hrafnhildur varð að koma yngstu börnunum til Bergljótar og stumra svo yfir Pétri dag og nótt og gat næstum aldrei fengið sér væran blund. Pétur var einnig svefnlaus og þjáð- ur. Eldri börnin, Anna Sigrún og Hákon urðu að sjá um öll heimilisstörfin. Allt varð að sigla sinn sjó sem bezt það gat. Eitt sinn er Hákon kom upp, kallaði Pétur til hans, frem- ur hranalega: „Komdu hingað, strákur. Þú átt að fara til Reykjavíkur með fyrstu ferð“. ,'Ég“, spurði Hákon undrandi“. ,,Já, þú. Heyrðurðu ekki, hvað ég sagði. Þú átt að fara suður með fyrstu ferð. Mér er andskotans sama, hvað þið móðir þín segið um það. Þú átt að fara“. Hákon játaði og læddist burt. Pétur lá góða stund með afturlukt augu og sagði svo, eins og við sjálfan sig: ,,Já, víst var það andskoti fallega gert, að leggja fimmhundruð á borðið, eins og þá stóð á“. Hann opn- aði augun og leit til konu sinnar „Heyrðurðu það, Hrafnhild- ur? Hákon á að fara til Reykjavíkur með næstu ferð“. ,,Nú, og til hverra“, spurði hún. — ,,Til Jóns, bróður þíns. Hann er enginn skítbuxi, skal ég segja þér. Hann vill fá strákinn og ég læt hann fá hann“. — „Jæja, það verður víst að vera eins og þú vilt“, sagði Hrafnhildur hæglátlega' og það glaðnaði í huga hennar, því að hún var farin að kvíða því, að hann ætlaði að senda dreng- inn eitthvað annað. Allt í einu bylti Pétur sér í rúminu og grét, og var þó slíkt ekki venja hans. „Það er gott að Hákon fer suður“, sagði hann. „Hann hefði aldrei orðið annað en ræfill eins og eg, ef hann hefði átt'að vera áfram hér heima. Já, fari það allt, fari það allt, fari það allt til . . . Nú er bátskríflið farið. — Já, sá mátti nú fara. Hann hefur hvort sem er aldrei verið mér annað en til skaða og skammar frá því, er eg keypti hann“. Hrafnhildur hafði hlustað þögul á þetta tal Péturs en nú laut hún niður að honum, strauk blíðlega um höfuð hans, og var þá sem færðist ró yfir hann. — Urvinda af þreytu og svefnleysi lagðist hún út af fyrir framan hann og sofnaði samstundis. Svefninn miskunnaði sig yfir þau bæði, þreytt og örmagna af baráttunni við lífið, sem hefði getað brosað við þeim, ef skaðvaldurinn mikli, áfengið, hefði hvergi verið á vegum manna. Daginn eftir sagði Pétur konu sinni, að hann hefði ráðið sig sem verkstjóra til N-fjarðar. Hann hefði orðið samskipa Einari, skólabróður sínum, sem væri verkstjóri þar, og hann hefði boðið sér þessa stöðu“. „Heldur þú, góði minn“, spurði Hrafnhildur blíðlega, að þú sért nokkur maður til að sinna slíkri stöðu, eins og þér hef- ur liðið síðustu árin. Og svo held eg líka, að heimilið megi nú illa við því, að missa ykkur Hákon báða frá öllu því, sem er hér ógert“. „Eg held“, sagði Pétur, „að það sé hægt að fá einhvern sveitastrák til þess að snúast í kringum þig, þótt við íörum. Hér er allt komið til fjandans, hvort sem er“. Hrafnhildur andvarpaði og gekk orðlaust frá rúmi hans. Næstu daga var henni undarlega innan brjósts á meðan hún var að búa þá feðgana að heiman, og margt tár feldi hún í einrúmi. — Eftir hálfan mánuð voru þeir báðir farnir og hún sat eftir með 13 ára dreng og börnin til allra verka á óðalinu' Hrauni. Pétur hafði gert ráð fyrir að koma ekki heim aftur fyrr en undir jól. Þegar svo blessuð jólin komu, vildi svo til að veð- ur var hið versta, stórhríðarbylur. Fjallvegurinn á milli N-fjarðar og Hrauns bæði erfiður og á honum villugjarnt. Það var því dapurlegt hjá Hrafnhildi á aðfangadaginn, er barið var að dyrum og boð kom frá Gísla í Gerði, að hann hefði símað og talað við Pétur, og hefði hann sagt, að hann legði ekki upp í þessu veðri, og mundi því ekki koma heim fyrr en eftir hátíðir. Þær Bergljót og Hrafnhildur reyndu að gera sem hátíð- legast fyrir börnin. Fréttir höfðu komið af Hákoni, sem undi sér hið bezta í Reykjavík, og var það Hrafnhildi gleðiefni. Þetta urðu því friðsæl, þótt fremur fátækleg jól á Hrauni. Það er lítilmannlegt að drekka

x

Eining

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Eining
https://timarit.is/publication/833

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.