Fylkir


Fylkir - 23.12.1978, Side 26

Fylkir - 23.12.1978, Side 26
26 FYLKIR EYJÓLFUR GÍSLASON, frá Bessastöðum: FRANSMANNA- LEIKUR Margt hefur verið rætt og ritáð frá löngum liðnum tímum, og þar á meðal um leiki barna og unglinga. Ekki hefi ég þó heyrt eða séð á prenti nafnið á þeim leik, sem ég ætla að lýsa hér, svo að hann falli ekki al- gjörlega í gleymsku, en senni- lega hefur þessi leikur óvíða eða hvergi verið leikinn eða þekktur hér á landi nema í Vestmannaeyjum, þó er ég ekki grunlaus um, að hann hafi verið þekktur í Vík í Mýrdal. Fransmannaleikur var mikið leikinn í Vestmannaeyjum af drengjum sem ólust upp á síðustu tugum fyrri aldar og talsvert fram á þessa öld. Hinir síðustu, sem ég hefi spurnir af að hafi leikið sér í Frans- mannaleik í Vestmannaeyjum eru frændur mínir, þeir Ási í Bæ og leikfélagar hans, bræðurnir í Sjólyst, Jón og Maggi, Einar á Sælundi og fleiri drengir þarna í nágrenninu. Þetta var um og eftir 1930. Þeir léku sér á flötinni fyrir austan og norðan Litlabæ, þar sem nýjasti hluti Drífanda stendur nú og var stundum margt manna þar að horfa á þennan sérstæða leik. Ási og félagar hans höfðu lært leikinn af föðurbræðrum sínum og föður, þeim Litlabæjar- bræðrum, Kristni, Valla og Guðmundi, sem brugðu sér eitt sinn í þennan bernskuleik, þar sem þeir biðu eftir að komast út í skip inni á Eiði. Þeir voru þá orðnir harðfullorðnir menn, en Ási og leikfélagar hans 15 til 16 ára gamlir. Hefi ég þetta eftir Ása sjálfum. Ætla ég þá að lýsa leiknum eftir minni og þeim upplýs- ingum, sem ég hefi fengið hjá mínum jafnöldrum og leik- félögum, þeim Guðjóni Tómassyni, Magnúsi heitnum Tómassyni frá Gerði, Kristni á Miðhúsum, svo að einhverjir séu nefndir. Vil ég þannig forða því að leikurinn falli í algjöra gleymsku, því að hann var í senn skemmtilegur og þrosk- andi. Fransmannaleikur var tví- menningsleikur. Leikurinn var þannig undirbúinn, að skorin var ílöng, sporöskjulaga hola í jarðveginn, 15-20 sentimetra löng, 10-12 sm. djúp með á- völum framhallandi endum. Holumar voru einna líkastar agnarlitlu líkani af gömlu ára- skipunum með íslenska laginu, sem öll voru með lotastefnum. Venjulega var hplan gerð með sjálfskeiðingnum, sem ávallt var nærtækastur í buxnavas- anum hjá drengjum á þeim árum. Leikvöllurinn var oftast á bæjarhlaðinu eða sléttri flöt á túni eða utan túngarða. Sendnir kálgarðar, sem voru við tómthúsin „niður í sandi” voru líka oft notaðir til leikja eftir að tekið hafði verið upp úr þeim á haustin. Urðu þeir því oft svo hart troðnir eftir haust- og vetrarleikina, að mjög erfitt gat reynst að pæla þá upp á vorin. Við leikinn varð að nota „spýtu” og „prik”. Albest þótti að hafa brot af heyhrífuskafti eða króarkústa, þó að oft yrði að notast við eitthvað annað, svo sem sauðarlegg í stað spýtu. Það þótti þó ekki gott, því að leggurinn gat meitt, ef hann lenti í leikfélaga eða áhorfanda og svo gat verið æði sárt að grípa hann á lofti eins og ein leikreglan og vinningsatriðið var. Spýtan mun venjulega hafa verið 15-25 sm. að lengd, en aldrei lengri en fet, en prikið var 60-90 sm. Leikurinn byrjaði þannig, að spýtan var lögð yfir miðja holu. Ánnar leikmaðurinn stóð fyrir aftan holuna og hélt báðum höndum um prikið, setti síðan hinn endan niður í holuna, aftan við spýtuna og undir hana miðja. Síðan lyfti hann spýt- unni á prikendanum, eins hátt og langt sem orka og leikni leyfðu fram á leikvöllinn, þar sem hinn leikmaðurinn stóð. Kallað var, að sá sem var við holuna væri inná, en hinn leik- félaginn, sem var úti á vellinum var útá. Sá sem var útá reyndi að vera þar sem hann hugði spýtuna koma niður hverju sinni og reyndi að grípa hana. Það var því ærið erilsamt og útheimti hlaup, góða athugun og eftirtekt. Ef þeim sem var útá heppnaðist að grípa spýt- una, var hann kominn inná og varð þá hinn leikfélaginn að fara útá. Nákvæmlega frá þeim stað, sem spýtan datt á jörðina, átti að henda henni til baka og inná; og voru hafðar góðar gætur á því, að sá sem kastaði spýtunni inná stæði nákvæm- lega þar sem hún hafði komið niður og færði sig ekki úr stað í rétta afstöðu yið holuna. Spýtunni var kastað með mikilli nákvæmni til baka og var reynt að hitta í prikið, sem hafði nú verið lagt þvert yfir holuna. Tækist þeim sem var útá að hitta prikið yfir holuna var hann kominn inná, en ef spýtan hitti ekki eða ef hún kom niður meira en priklengd frá holunni var fjarlægð spýt- unnar frá holu mæld með prikinu og talið 1, 2, 3, o.s.frv. Ef prikmæling endaði á stakrí tölu, 3, 5, 7, o.s.frv. var spýtan sett upp á endann í holuna, þeim megin sem vissi út að vellinum. Síðan var slegið með prikinu efst á spýtuna og hún þannig slegin á loft með vog- arafli. Þegar spýtan fór á loft var reynt að koma sem flestum höggum á hana, áður en hún var slegin upp og út á völlinn. En fyrir hvert högg, sem hún var slegin upp við holuna, fékkst heill tugur til viðbótar hverri prikmælingu, sem var fjarlægð frá þeim stað, þar sem spýtan kom niður úti á vellinum og að holuenda mæld með prikinu, þar af nafnið prik- mæling. Þegar spýtan var slegin úr holuenda, þ.e. spýtan stóð upp á endann í holunni, var ekki reynt að grípa hana, enda ill- mögulegt, þegar hún þeyttist út á völlinn. Þegar spýtan var slegin úr þverstöðu, þ.e. hún lá þvert yfir holu, var aftur á móti reynt að grípa hana og var þá leitast við að slá hana í aðra átt en mót- spilarinn útá stóð í, en hann hljóp aftur til og reyndi að grípa spýtuna. Prikmæling frá spýtunni þar sem hún lá útá velli að holunni var aðeins framkvæmd, þegar slegið var úr holuenda, en ekki, ef spýtan var slegin úr byrjun- arstöðu, þ.e.a.s. hún lá þvert yfir holu. Spýtan var lögð þvert yfir holuna eins og í upphafi leiksins, ef talning frá spýtu við innkast endaði á sléttri tölu. Þegar spýtan stóð upp á endann í holunni var mun erfiðara og krafðist meiri leikni að slá hana útá. Aðalvinningsatriði Frans- mannaleiks var að fá sem hæsta vinningstölu fyrir slegin högg og svo prikmælingu frá þeim stað, sem spýtan kom niður á útá velli, þegar slegið var úr holuenda. Stundum gat oltið á hundruðum úr „endagatinu” eins og sumir kölluðu það. Iðulega voru drengir svo leiknir að slá spýtuna, að þeir komu fjórum prikhöggum á hana áð- ur en hún var slegin út á völlinn, en sem fyrr segir fékkst tugur á prikmælingu fyrir hvert högg, sem slegið var framyfir fyrsta högg. Ef leikmanni tókst ekki að slá spýtuna upp úr holuenda og koma síðan á hana einu höggi varð hann að fara útá. Aðalatriði Fransmannaleiks voru því: 1. Að geta slegið spýtuna sem lengst útá völlinn, þegar hún lá þvert á holuna og þá í aðra átt, en þar sem mótleikarinn stóð. 2. Leikni í að slá spýtuna sem oftast á lofti, þegar hún stóð upp á endann í holunni og slá hana síðan sem lengst út á völlinn til að fá sem hæsta prikmælingu. 3. Hæfni í að hitta prikið, þegar spýtu var kastað að hol- unni utan af velli. 4. Leikni í að grípa spýtuna, þegar hún var slegin úr þver- stöðu. Ekki veit ég hvenær var byrjað að leika Fransmanna- leik her í Vestmannaeyjum, en nafnið bendir til að leikurinn hafi komið hingað með frönsk- um sjómönnum, og þá senni- lega strandmönnum, sem urðu stundum að dvelja hér í fleiri vikur meðan þeir biðu eftir skipsferð til heimalands síns. Franskir fiskimenn voru eins og fleiri útlendir sjómenn iðulega settir hér á land vegna veikinda og slysa, en sem kunnugt er byggðu þeir hér sitt eigið sjúkrahús (nú Kirkjuvegur 20) árið 1906, og tók það til starfa árið 1907. Frakkar ráku síðan sjúkrahúsið fyrir sjómenn sína allt fram til 1920, er bæjar- sjóður tók þátt í rekstrinum á móti þeim. Ráku Frakkar sjúkrahúsið á vetrarvertíðinni (fyrri helming ársins), en bæj- arsjóður síðari helming árs og var svo til vors 1928, er nýbyggt sjúkrahús (nú Ráðhús Vest- mannaeyja) tók til starfa. Frakkar hættu þá sjúkrahús- rekstri, enda áttu þeir hér fá skip á miðum eftir 1914, er fyrri heimstyrjöldin skall á. Bæði Eyjamenn og erlendir sjómenn nutu góðs af fram- takssemi Frakka og stórhug. Bygging sjúkrahúss í Vest- mannaeyjum árið 1906, sem var eitt af þremur sjúkrahúsum Frakka hér á landi (hin voru í Reykjavík og á Fáskrúðsfirði) sýnir hvað læknisþjónusta í Vestmannaeyjum var erlend- um fiskimönnum mikilsverð á þessum árum. Á frönsku fiskiskútunum voru oft einn til tveir drengir innan fermingaraldurs, voru þeir þar oftast í skjóli og umsjá feðra sinna, venjulega var þetta sonur skipstjórans, stýrimanns eða mikils metins háseta. Stuttu eftir 1880 dvaldi hér um lengri tíma skipshöfn af franskri skútu, sem hafði verið siglt hér upp í Botninn af ó- félagi um borð. Skipshöfnin dvaldi í Nöjsomhed, nema skipstjórinn og 12 ára gamall sonur hans, sem voru á Verts- húsinu. Þessi drengur eignaðist hér marga leikfélaga, sem urðu vinir hans svo sem Ágúst Gísla- son á Hól, síðar í Valhöll. Ekki er ólíklegt, að þessi drengur hafi kennt þeim Fransmanna- leikinn, en mikil vinátta tókst með drengjunum. Eitt sinn heyrði ég Agúst sjálfan segja frá því, er þeir fornvinirnir hitt- ust löngu síðar. Ágúst var formaður á áraskipinu Lísebet og einn daginn voru þeir á fær- um undir sandi í blíðskapar- veðri. Þar voru þá franskar skútur og flaggaði ein þeirra eins og venja var hjá Frökkum, ef þeir vildu koma bréfum eða öðrum skilaboðum í land. Þeir á Lísebet reru að skútunni og fór Ágúst í Valhöll um borð. Þegar hann steig á skipsfjöl, kom einn Frakkanna fagnandi á móti honum og faðmaði hann innilega að sér sem kærasta bróður; var þar kominn leik- bróðir hans frá æskudögum og var hann nú skipstjóri á skút- unni. Svo sagði Ágúst frá, að sér hefði ekki verið fagnað innilegar í annan tíma. Eitt er víst, að þessi leikur Vestmannaeyjadrengja var þeirra fyrsta reiknisþraut, því að reynt var að leggja rétt saman tölur og draga frá. Hvor hafði gát á hinum að rétt væri gert, því kapp og metnaður var oft mikill að vinna leikinn og hafa hærri tölu. Ég vil svo enda þessi skrif með því að senda öllum Vest- manneyingum innilegustu ósk- ir um gleðileg jól, og farsælt, aflaríkt ár frá mér og minni fjölskyldu. Lifið heil. Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum.

x

Fylkir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fylkir
https://timarit.is/publication/878

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.