Bændablaðið - 13.01.2009, Page 11

Bændablaðið - 13.01.2009, Page 11
11 Bændablaðið | þriðjudagur 13. janúar 2009 Um jólin hitti blaðamaður Bændablaðsins að máli einn þeirra sem koma gjarnan í heim- sókn til Íslands um jólaleytið. Þessi er óvenjulangt að kominn því hann telst til andfætlinga okkar, býr að öllu jöfnu úti í sveit í Narrabri í Nýja Suður- Wales, um sjö tíma keyrslu frá höfuðborginni Sydney. Ástæðan fyrir því að hann leggur leið sína reglulega til Íslands er sú að hann er giftur íslenskri konu, Sólveigu Einarsdóttir (Olgeirssonar). Lindsay O’Brien heitir þessi gestur og hefur unnið við kynbæt- ur á hveiti í 41 ár. Loftslagið á þessum slóðum er svipað og við Miðjarðarhaf og megnið af árs- úrkomunni fellur að vetrarlagi. Hann hefur einnig sinnt ráðgjöf við hveitiræktendur norðar í landinu sem er nær hitabeltinu en þar fell- ur megnið af úrkomunni á sumrin. „Þarna er landbúnaður stundaður með mismunandi hætti og aðstæður kalla á mismunandi hveitiyrki.“ Fyrir nokkrum árum hóf Lindsay að ala upp og kynbæta kálfa. „Þetta var gert til þess að hafa eitthvað við að vera eftir að ég fer á eftir- laun og það er góð tilbreyting frá hveitikynbótunum. Ég nýti mér nýja þekkingu á sviði erfðatækni og reyni að þróa nýja eiginleika hjá Santa Gertrudis kálfum. Það eru holdanaut sem nýta fóðrið mjög vel og henta því vel á harðbýlum svæð- um. Hins vegar er kjötið af þeim fremur gróft og lítið fitusprengt. Þess vegna er ég að reyna að blanda þeim við evrópsk holdakyn sem eru með mjúkt og vel fitusprengt kjöt í því augnamiði að fá þannig kjöt af kálfum sem nýta fóðrið eins vel og Santa Gertrudis kynið gerir. Þetta hefur þegar skilað þeim árangri að kálfarnir halda í fóður- nýtinguna og eru vel á veg komn- ir með að fá hæstu einkunn fyrir mjúkt og vel fitusprengt kjöt. Fimm þurrkaár á sjö árum Í fréttum hefur verið sagt frá við- varandi vandamálum í ástralskri hveitirækt vegna þurrka. Hvernig er staðan núna? „Þurrkar eru hluti af lífi ástr- alskra bænda. Ástralía er þurr álfa og við erum vön því að bjarga okkur með 400 mm meðalárs- úrkomu sem er ansi lítið (til saman- burðar má nefna að meðalúrkoman á Íslandi er um og yfir 1.000 mm). Bændur hafa mætt því með því að vera með stórar jarðir, meðaljörð hveitiræktanda í nágrenni við mig er á bilinu 3-4.000 hektarar. Með því tekst þeim að draga úr hlut- falli breytilegs kostnaðar, svosem af áburði og öðrum efnum, olíu og vélum. Veðurfarið veldur því að miklar sveiflur eru í afkomunni. Meðaluppskeran er um þrjú tonn á hektara en ef við tökum fimm ára tímabil eru kannski rvö ár í með- allagi, eitt ár er uppskeran fimm tonn á hektara og tvö ár ekki nema 1-1,5 tonn. Það segir okkur að það er tap á rekstrinum í tvö ár, tvö ár stendur hann í járnum og eitt ár skilar hagnaði. Staðan er sú að á síðustu sjö árum hafa verið fimm þurrkaár. Þetta hefur haft þau áhrif að fjöldi bænda er það sem kallað er tækni- lega gjaldþrota. Það merkir að eina ástæðan fyrir því að þeir eru enn í rekstri er sú að bankinn þeirra veit að ef hann gerir þá upp situr hann uppi með óseljanlegar jarðir. Þeir gætu kannski selt þær stórfyrirtækj- um í landbúnaði en það þykir ekki pólitískt verjandi. Bankamenn vita eins og aðrir að fjölskyldubúin eru undirstaða þess að byggðin haldist við í strjálbýlinu, án þeirra hrynur félags- og stoðkerfið, skólum og sjúkrahúsum þarf að loka og versl- anir fara á hausinn. Það hefur þegar orðið töluverð grisjun á landsbyggð- inni. Þar sem við búum eru nú um 100 km á milli þéttbýlisstaða. Áður voru minni þorp á milli þeirra en þau eru að heita má horfin.“ Hafið náð góðum tökum á aðstæðum Þurrkar eru ekki beinlínis sá vandi sem helst stendur íslenskum land- búnaði fyrir þrifum, það væri frekar of mikil úrkoma. „Já, það glímir hver við sinn vanda. En ég fæ nú ekki annað séð en að þið hafið náð ágætum tökum á þeim skilyrðum sem ykkur eru búin. Þið hafið langa reynslu af því að rækta gras og það gengur upp í loftslagi ykkar. Íslenskt lambakjöt er með allra besta kjöti sem fæst í heiminum og það segir mér að hér hefur verið vel staðið að kynbótum um langa hríð. Það sama gildir um mjólkurgæðin.“ Lindsey hefur rætt við íslenska kornræktarfræðinga og hefur áhuga á að koma á samstarfi við þá um kynbætur á korni. „Þið hafið lengi átt í samstarfi við nágrannaþjóðir ykkar með góðum árangri, en það er aldrei að vita nema hjá okkur leynist einhverjir erfðaeiginleikar sem þið gætuð hagnýtt ykkur og öfugt. Það geta allir lært af öllum í þessum efnum eins og öðrum. Vissulega eru aðstæður ólíkar en við höfum talsverða reynslu af því að laga evrópskar korntegundir að loftslagi Ástralíu og Tasmaníu þar sem ekki er eins hlýtt. Þær þurftu að venjast nýju loftslagi, ólíkum árstíðaskiptum og óþekkt- um sjúkdómum og skordýrum. Í þessari sögu urðu oft miklar svipt- ingar og á stundum sveif framtíð landnámsins í Ástralíu í lausu lofti vegna langvarandi þurrka og ann- arra áfalla sem kornræktin þurfti að glíma við.“ Hvert skal halda? Lindsey segir að útlitið í byggrækt hér á landi sé ágætt. Það sé búið að vinna vel að kynbótum og nú sé spurningin hvort bændur séu vilj- ugir til að skipta úr grasrækt yfir í kornrækt. „Mér sýnist þið vera á því stigi að nú þurfi menn að takast á hend- ur töluverðar fjárfestingar ef ætl- unin er að þróa kornræktina áfram og auka hana umfram eigin þarfir ræktendanna. Þar á ég við vélakost til uppskeru og þurrkunar, húsnæði til verkunar og geymslu og þess háttar. Auk þess þarf að huga að því koma upp dreifikerfi og markaði fyrir kornið. Það þarf líka að svara spurningum um frekari vinnslu á bygginu, hvort það á einungis að nota í fóður fyrir kýr, svín og kjúk- linga eða vinna það meira til notk- unar í bjórgerð eða til manneldis. Allt þetta þarf að vega og meta með tilliti til þess hversu hagkvæm íslensk kornrækt er í samanburði við innflutt korn. Það getur hins vegar verið hag- kvæmt fyrir bændur að vera með kornrækt samhliða grasræktinni til þess að auka stöðugleikann í fóður- öfluninni.“ Niðurstaða Lindsey um íslenska kornrækt var sú að sennilega þyrftu Ástralir ekki að óttast mjög íslenska samkeppni á alþjóðamarkaði. Það gilti um íslenskan landbúnað að hann yrði seint samkeppnisfær í magni og þyrfti því að leggja höf- uðáhersluna á gæði og sérstöðu. Áhættumat er nauðsynlegt Í framhaldi af því snerist talið að matvælafrumvarpinu og þeim breytingum sem það boðar fyrir íslenskan landbúnað. „Ísland og Ástralía eiga það sameiginlegt að vera eyríki þar sem hafið hefur verið virkur þröskuldur í vegi fyrir innflutningi á sjúkdóm- um og þar með vörn fyrir landbún- að. Við erum ekki langt frá Asíu þar sem heilbrigðisástand dýra og jurta og eftirlit með því er ekki það sama og í Evrópu. Á báðum stöðum þarf þó að leggja mat á hættuna sem af innflutningi getur stafað, einkum af sjúkdómum sem ekki eru landlægir. Þetta þurfið þið að meta út frá því hversu mikilvægur landbúnaðurinn er fyrir íslensku þjóðina, bæði hvað varðar matvælaöryggi, en ekki síður hvað varðar efnahagslegt og félagslegt hlutverk hans. Í Ástralíu höldum við uppi nokk- uð öflugum vörnum gegn sjúkdóm- um en lendum samt í því af og til að fá yfir okkur sjúkdóma sem valda usla. Eitt dæmi þess er hesta- inflúensan sem barst með erlend- um veðhlaupahestum fyrir tveimur árum. Þá hafði verið við lýði sótt- varnarkerfi sem tekið var upp vegna Ólympíuleikanna í Sydney árið 2000. En þarna gerðist það að hest- ur slapp í gegnum heilbrigðiseftirlit með veikina og smitaði alla hestana sem voru samtímis honum í sóttkví. Þaðan barst veikin um landið og lamaði veðhlaupagreinina í hálft ár. Þeir eru enn ekki búnir að jafna sig á því og nú er í raun búið að stöðva allan innflutning á veðhlaupahest- um og heimsóknir erlendra hesta. Auk þess hefur þátttaka ástralskra hesta í veðhlaupum utanlands verið bundin því skilyrði að hestar sem fara úr landi og koma aftur þurfa að fara í tveggja mánaða sóttkví.“ Strangar sjúkdómavarnir Blaðamaður rifjar upp frásagnir Valdimars Einarssonar frá Nýja- Sjálandi af ströngum reglum sem þar gilda um innflutning á búvörum og dýrum. Eru reglurnar svipaðar í Ástralíu? „Já, það má segja að meginregl- an sé sú að innflutningur búvara er bannaður í báðum löndum. En úr því þú nefnir Nýja-Sjáland þá varð sú hugsun ráðandi í landbúnaðar- ráðuneytinu þar í landi á áttunda og níunda áratug síðustu aldar að það væri ekki til neins að halda uppi sjúkdómavörnum og sóttkví vegna þess að allir sjúkdómar myndu hvort eð væri berast til landsins fyrr eða síðar. Þeir opnuðu því allt upp á gátt og uppskáru ýmsa nýja sjúk- dóma. Vissulega blómstruðu við- skipti með búvörur en samt endaði þetta með því að um síðustu alda- mót var farið að setja á sóttkví aftur og nú eru reglurnar um innflutning orðnar jafnstrangar og hjá okkur ef ekki harðari.“ Þessi staða er athyglisverð, ekki síst í ljósi þess að Ástralir og Nýsjálendingar tilheyra þeim ríkja- hópi sem vill ganga lengst í afnámi allra innflutningstolla og stuðnings við landbúnað. Hvernig fer þetta saman? „Jú, það er rétt og við liggjum undir heilmiklu ámæli út af þessu. Til þess að geta haldið uppi sjúk- dómavörnum þurfum við að rök- styðja aðgerðir okkar og sýna fram á að þær styðjist við vísindalegar rannsóknir. Að öðrum kosti erum við sakaðir um að beita sóttkví sem tæknilegri viðskiptahindrun. Nýsjálendingar hafa áratugum saman reynt að selja okkur epli en við höfum ekki heimilað þau við- skipti vegna þess að sjúkdómur sem nefnist „fireblight“ er land- lægur á Nýja-Sjálandi en óþekktur í Ástralíu. Í raun má draga í efa að innflutningur myndi eyðileggja eplarækt í Ástralíu. Hins vegar eru allar líkur á að hann myndi gera hana óarðbæra vegna þess að ef sjúkdómurinn bærist í áströlsk epli þyrftu bændur að sprauta margfalt meiri varnarefnum en þeir gera núna. Nú nægir að sprauta eplin einu sinni en það þyrfti að gera fjór- um eða fimm sinnum ef sjúkdóm- urinn bærist í þau. Við það myndi útflutningur okkar á eplum til Asíu sennilega stöðvast. Kanadamenn hafa án árangurs sóst eftir að fá að flytja inn lax, en okkar mat er að slíkur innflutningur gæti lagt laxeldi okkar á Tasmaníu í rúst. Nýlega urðum við hins vegar að leyfa innflutning á svínakjöti frá Kanada og Danmörku vegna þess að þeim tókst að sýna fram á með óyggjandi hætti að sláturdýrin hefðu verið heilbrigð og að hættu á því að sjúkdómar bærust í kjötið á vinnslu- og flutningsstigi hefði verið útrýmt með ströngu heilbrigð- iseftirliti. Nú eigum við í glímu við Tælendinga sem mega flytja inn soðið kjúklingakjöt en vilja selja okkur ferskt kjöt. Þar erum við að verja innlenda kjúklingaframleiðslu sem hefur vaxið ótrúlega hratt á undanförnum árum.“ Af þessum orðum hins ástralska hveitiræktarfræðings má ráða að það virðist vera hægt að halda uppi virkum sjúkdómavörnum og stunda jafnframt blómleg alþjóðaviðskipti með búvörur. –ÞH Lindsey O'Brien og Sólveig Einarsdóttir við Tjörnina í Reykjavík á milli jóla og nýárs en þar voru þau ásamt barnabörnunum að gefa öndunum. Ástralski hveitiræktarfræðingurinn Lindsey O'Brien er reglulegur gestur hér á landi Viðskipti með búvörur og sjúk- dómavarnir geta vel farið saman

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.