Bændablaðið - 13.01.2009, Side 23
23 Bændablaðið | þriðjudagur 13. janúar 2009
„Brottför frá ruslagámnum í
Kollafirði hálfsex“ voru fyr-
irmælin sem fréttaritari fékk frá
Stefáni S. Jónssyni, meðleikara
Karlakórsins Söngbræðra, eftir
að hafa falast eftir að slást í för
með tveimur Strandamönnum
á kóræfingu. Stefán og félagi
hans Viðar Guðmundsson sem er
stjórnandi kórsins láta sig ekki
muna um að aka vikulega úr
Strandasýslu í Borgarfjörð til að
mæta á kóræfingar. Karlakórinn
Söngbræður er gjarnan kennd-
ur við Borgarfjörð, en sam-
anstendur þó af þátttakend-
um úr fjórum sýslum; sem auk
Borgarfjarðar eru Snæfellsnes-
og Hnappadalssýsla, Dalasýsla og
Strandasýsla.
Æfingar fara fram í salnum
Hriflu á Bifröst í Borgarfirði.
Þangað er förinni heitið þegar mætt
er að téðum ruslagámi, skömmu
eftir auglýstan brottfarartíma. Við-
ari er að vísu snúið aftur heim að
Miðhúsum, veskið og farsíminn
ku hafa orðið eftir heima. Það er
nístingskuldi þegar lagt er í hann
þennan síðasta fimmtudag fyrir jól.
Stefán og Viðar láta það ekkert á
sig fá og eru að vanda léttir í bragði
og láta ýmis gamanyrði fjúka á
leiðinni. Og láta sig ekki muna um
að aka suður í Borgarfjörð eftir að
hefðbundnum vinnudegi flestra
annarra er lokið. „Þetta er bara svo
gaman og frábær félagsskapur, við
höfum svo gaman af öðru fólki og
að koma í annað umhverfi,“ segja
þeir og gefa lítið út á hvort eitthvað
sé eftir af laununum þegar búið er
að leggja á sig svo langt ferðalag.
Viðar hefur starfað með söng-
bræðrum í sjö ár, fyrst sem með-
leikari og er þetta annar veturinn
hans sem stjórnandi. Hann er uppal-
inn og bjó lengst af á Kaðalstöðum
í Norðurárdal, en hann flutti fyrir
tveimur árum að Miðhúsum í Kolla-
firði á Ströndum. Viðar er einn-
ig meðleikari með kvennakórnum
Norðurljósum á Ströndum og kenn-
ari við tónlistarskólann á Hólmavík.
Þá eru ýmis tilfallandi verkefni sem
fylgja tónlistinni hér og þar.
Stefán er að mestu sjálfmennt-
aður píanóleikari og auk æfing-
anna með Söngbræðrum ferðast
hann gjarnan vestur á Ísafjörð,
Flateyri eða nærliggjandi staði til
að spila á veitingahúsum og dans-
leikjum. Síðastliðið sumar var hann
ásamt nokkrum félögum við upp-
tökur á frumsömdu efni í tanknum
á Flateyri, en ekki er ljóst hvenær
það efni kemur út. Stefán lék á
sínum tíma með norsku hljóm-
sveitinni Southern train sem hefur
gert garðinn frægan þar í landi. Þá
hefur hann verið undirleikari hjá
Gospelkór Vestfjarða og um þessar
mundir spilar hann með hljómsveit-
inni Kokkteil en meðlimir hennar
koma víða að, eða frá Hólmavík,
Raufarhöfn og Danmörku.
Fyrsti áningarstaður á leið-
inni er Staðarskáli og þar er að
sjálfsögðu snæddur Hrútfirðingur
eða hamborgari að hætti húss-
ins. Svo þarf að bæta bensíni á
„bimmann“ og eftir það er brunað
í Norðurárdalinn. Færðin er góð og
leiðin greið, enda hljóta þeir félagar
að þekkja hana orðið nokkuð vel.
Helst að klakastykki sem hrunið
hafa af flutningabílum séu far-
artálmar á veginum. Einn kórfélagi
hringir og boðar forföll og fær upp-
lýsingar um lagavalið næst þegar
þeir eiga að koma fram og syngja.
Og tilefnið er ekki minna en brúð-
kaup sjálfs stjórnandans, sem ætlar
að ganga í það heilaga í Reykholti í
Borgarfirði 3. janúar.
Þegar rennt er í hlað á Bifröst
eru nokkrir mættir og aðrir rétt
ókomnir. Menn eru hressir og kátir
og hlátrasköll og gamanyrði taka
fljótt að berast um salinn. Einn
er með harðfisk til sölu og annar
býður í nefið. Síðan er hafist handa
við söngskrána. Snorri á Fossum
bætist í hópinn og tekur nokkrar
einsöngsaríur. Menn rifja upp nokk-
ur af fyrri lögum og ákveða end-
anlega hvað á að taka við umrætt
brúðkaup. Viðar stjórnar af mikilli
innlifun og leiðbeinir um leið með-
leikaranum sem er fljótur að læra
nýja takta. Lagavalið er fjölbreytt
og hressilegt. Kaffipásan er ekki
síður hressileg, menn skella sér í
kaffi, anda að sér fersku fjallalofti
af svölunum á efri hæðinni, greiða
í sjóð kórsins og ræða heimsmál-
in. Kunna að vísu engin þjóðráð
við kreppunni en eru helst á því
að reyna að syngja sig frá henni.
Síðan er haldið áfram með sönginn.
Sumt þarf að slípa til, annað virð-
ist þaulæft. Ein æfing milli jóla og
nýárs og þá eru menn klárir í slag-
inn.
Viðar og við ferðafélagarnir
kveðjum kórfélaganna við Hriflu.
Á heimleiðinni er þeginn kaffibolli
hjá Þórhildi og Elfari á Brekku.
Húsfreyjan hefur tekið að sér
veislustjórn og þarf að afla upplýs-
inganna. Væntanlegur brúðgumi
veitir þær fúslega en er sjálfur hinn
rólegasti yfir því sem í vændum er.
Líklega þurfa menn líka að vera
nokkuð afslappaðir til að þeyt-
ast landshluta á milli reglulega
og sinna búskap og annarri vinnu
heimafyrir þess á milli.
kse
Söngbræður úr fjórum sýslum
Það er sungið af sannri innlifun. Á myndinni má þekkja Helga Björn Ólafsson á Hvanneyri og Sigurgeir Þórðarson á Hagamel.
Jón Ásgeir Sigurvinsson í Stafholti,
Grétar Einarsson á Hvanneyri,
Friðbjörn Örn Steingrímsson í
Laugagerði, Þorvaldur Jónsson
í Brekkukoti og Gunnar Örn
Guðmundsson á Hvanneyri.
Viðar Guðmundsson stjórnandi kórsins
og Stefán S. Jónsson meðleikari.
Þórður Stefánsson á Arnheiðarstöðum, Gunnar Örn Guðmundsson, Friðbjörn Örn Steingrímsson í Laugagerði
og Jón Ásgeir Sigurvinsson í Stafholti.
Svo er nauðsynlegt að taka aðeins í nefið! Elvar Ólason á Brekku í Norður-
árdal mundar pontuna.
Jóhannes Björgvinsson lögreglu-
varðstjóri í Búðardal og Kristberg
Jónsson i Litla-Holti.
Ármann Bjarnason á Kjalvararstöð-
um mýkir raddböndin.