Fréttablaðið - 07.11.2012, Blaðsíða 30

Fréttablaðið - 07.11.2012, Blaðsíða 30
7. NÓVEMBER 2012 MIÐVIKUDAGUR6 FRÉTTASKÝRING Magnús Þorlákur Lúðvíksson magnusl@frettabladid.is Fjörug umræða hefur farið fram síðustu misseri um framtíðar- ramma fjármálakerfisins í kjöl- far áfalla síðustu ára. Í því sam- hengi hafa margir staðnæmst við spurninguna um hvort skynsam- legt sé að skilja að með lögum við- skiptabanka- og fjárfestingar- bankastarfsemi. Almennt virðist mikill stuðning- ur vera við hugmyndina. Skoðana- könnun sem Capacent Gallup gerði á málinu í september leiddi í ljós að ríflega fjórir af hverjum fimm svarenda voru fylgjandi að- skilnaði. Þá er einnig mikill stuðn- ingur við hugmyndina á Alþingi en sautján þingmenn úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki hafa lagt fram þingsályktunar- tillögu um málið. Þar að auki er það einn liður í efnahagstillög- um Sjálfstæðisflokksins sem allir þingmenn flokksins mæltu fyrir á síðasta þingi. ERFITT AÐ FINNA LÍNUNA Í greinargerð sem fylgir þings- ályktunartillögunni segir að inn- lán viðskiptabanka, sem hafa bakábyrgð frá ríkinu, hafi í að- draganda bankahrunsins verið notuð í óarðbærar og glæfra legar fjárfestingar, meðal annars í fyr- irtækjum nátengdum viðkomandi fjármálastofnunum. Vegna þeirr- ar sérstöku tryggingar sem inn- lán njóta sé rík ástæða til að að- skilja hefðbundna bankastarfsemi frá áhættusækinni fjárfestingar- starfsemi. Þetta er kjarninn í þeim rök- semdum sem færðar hafa verið fyrir aðskilnaði; að ekki sé boð- legt að fjármálastofnanir stundi áhættusama stöðutöku með fjár- muni sem njóta ábyrgðar skatt- greiðenda. Á móti er aðskilnað- ur talinn geta dregið úr stærðar- hagræði í fjármálakerfinu og þar með aukið kostnað við fjármála- lega milligöngu. Fjallað var um þetta í skýrslu um framtíðarskipan fjármála- kerfisins hér á landi sem kom út á vegum efnahags- og viðskipta- ráðuneytisins í mars. Þar segir að ekki leiki vafi á því að óheppi- leg tengsl milli innlánsstarfsemi og fjárfestingarstarfsemi hafi átt snaran þátt í rótum kreppunn- ar árið 2008. Og enn fremur að ráða megi bót á vandanum með lagaákvæðum sem banna rekst- ur venjulegrar viðskiptabanka- starfsemi og fjárfestinga fyrir eigin reikning í sama félagi. Í skýrslunni er þó einnig bent á að afar erfitt geti verið að setja einföld lög um aðskilnað. Í fyrsta lagi sé erfitt að afmarka með einföldum hætti muninn á þess- um tveimur kimum bankastarf- semi þar sem mörkin milli ólíkra skuldaskjala séu fljótandi. Auk þess sé líklegt að með tíð og tíma finnist leiðir fram hjá þeim skil- greiningum sem lagðar yrðu til grundvallar í slíkum lögum. Þá er einnig bent á í skýrslunni að það voru ekki einungis alhliða bankar sem komu við sögu í að- draganda alþjóðlegu fjármála- kreppunnar heldur einnig hrein- ir viðskiptabankar og sparisjóðir. Þá geti tveir ólíkir bankar, annar fjárfestingarbanki og hinn við- skiptabanki, hafið samstarf sem sé alveg jafn óæskilegt og sama starfsemi innan sama bankans. Af þessum ástæðum meðal ann- ars taldi sérfræðinganefndin sem vann skýrsluna ótímabært að taka ákvarðanir um róttækar breyting- ar á skipulagi banka hér á landi. Nær væri að fylgjast með þróun mála á alþjóðavettvangi. Í svipaðan streng hefur Fjár- málaeftirlitið (FME) og þá hefur Arion banki hefur gengið enn lengra en greiningardeild bank- ans mælir gegn aðskilnaði í skýrslu sem kom út á vegum bankans í apríl. Í skýrslunni segir meðal ann- ars að aðskilnaður myndi leiða til hærri fjármagnskostnaðar hér á landi og lægri ávöxtunar fjár- magnseigenda. Þá gætu einstakir bankar orðið viðkvæmari en ella vegna tapaðrar áhættudreifing- ar þótt líkurnar á því að þrot eins hefði áhrif á aðra myndu minnka. Er það niðurstaða greiningar- deildar Arion banka að aðskiln- aður skili ekki tilætluðum árangri auk þess sem hann feli í sér um- talsverðan kostnað fyrir lántak- endur og fjármagnseigendur. Sé vilji til þess að gera bankastarf- semi öruggari sé skynsamlegra að hækka kröfur um eigið fé fjár- málastofnana og setja reglur um hámarksvogun, svo eitthvað sé nefnt. FRJÓ UMRÆÐA Á ALÞJÓÐAVÍSU Umræðan um mögulegan að- skilnað viðskipta- og fjárfest- ingarbanka hefur verið áberandi víðar en á Íslandi. Í Bretlandi var fyrir um ári gefin út skýrsla um framtíð bankastarfsemi þar í landi sem unnin var af nefnd undir forystu John Vickers, fyrrum forstjóra breska samkeppniseftirlitsins. Í skýrslunni er mælt með því að fjármálastofnunum verði áfram heimilt að sinna bæði viðskipta- banka- og fjárfestingarbanka- starfsemi en þó aðeins með því skilyrði að viðskiptabankastarf- semin verði stunduð í sjálfstæðu dótturfélagi sem lúti sérkröfum um eiginfjárhlutfall. Því má segja að Vickers-nefndin mæli með eins konar aðskilnaði innan banka. Nýverið kynnti nefnd á vegum Evrópusambandsins (ESB) til- lögur um framtíð bankamála í Evrópu. Erkki Liikanen, finnski seðlabankastjórinn, veitti nefnd- inni forstöðu en hún komst að svipaðri niðurstöðu og Vickers- nefndin. Liikanen-nefndin mælir sem sagt með því að áhættusöm fjárfestingarbankastarfsemi, svo sem eigin viðskipti, eigi sér stað innan sérstaks félags innan bankasamsteypu. Í Bandaríkjun- um voru á árunum 1933 til 1999 í gildi svokölluð Glass-Steagall lög sem tryggðu aðskilnað við- skipta- og fjárfestingarbanka. Á síðari hluta 20. aldarinnar minnkuðu áhrif laganna nokk- uð þar sem heimildir þeirra voru smám saman túlkaðar rúmar en þau voru svo endanlega felld úr gildi 1999.Árið 2010 var svo ný fjármálaeftirlitslöggjöf svo lög- fest þar í landi sem tryggir ekki aðskilnað en takmarkar þó veru- lega heimildir innlánsstofnana til stöðutöku. Aðskilnaður banka vinsæll en flókinn Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga um aðskilnað fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi. Erfitt gæti hins vegar reynst að setja einföld og áhrifarík lög um slíkan aðskilnað. Skiptar skoðanir í bankakerfinu. „Mér hefur fundist umræðan um þetta mál á Íslandi vera á villigötum. Menn hafa forðast eins og heitan eldinn að skilgreina hvað fjárfest- ingarbankastarfsemi er og gleymt því að undir henni geta rúmast mörg ólík hlutverk,“ segir Höskuldur H. Ólafsson, forstjóri Arion banka, og heldur áfram: „Í grunninn má segja að fjárfestingarbankastarfsemi sé einfaldlega að aðstoða fyrirtæki, sveitarfélög og stjórnvöld við útgáfu verðbréfa og hafa milligöngu um miðlun þeirra til fjárfesta. Ég get ekki séð að það sé aðkallandi að aðskilja þetta frá annarri bankastarfsemi.“ Höskuldur segir að í umræðu hér hafi menn gjarnan sleppt því að aðgreina það sem kalla má fjár- festingar eða fjárfestingarstarfsemi, stöðutöku á eigin reikning, og annars konar fjármálalega milligöngu sem fjárfestingar- bankar stunda. „Í sjálfu sér hefur maður ekkert við það að athuga að fjárfestingar- starfsemi verði settar einhverjar skorður eins og reyndar er búið að gera að ákveðnu marki. En mér finnst mikilvægt atriði að menn byrji á byrjuninni og skil- greini þá tilteknu þætti í fjárfestingar- bankastarfsemi sem talið er æskilegt að skilja frá annarri bankastarfsemi. Þessar aðgerðir erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum, hafa enda miðað að því og þar er hvergi verið að tala um algjöran aðskilnað. Hér á Íslandi virðast sumir hins vegar vilja ganga lengra og hafa frumkvæði að ein- hverjum stórkostlegum umbótum á fjármálakerfi heimsins. Ég hélt að við værum komin yfir það að ætla okkur slíkt hlutverk.“ Loks segir Höskuldur ástæðu myndunar alhliða bankar þá að ábati sé fólginn í því að samnýta innviði þeirrar ólíku starfsemi sem bankar standi fyrir. Það auki hagkvæmni og þjónustuframboð sem sé til hags- bóta fyrir viðskiptavini. „Í þessari umræðu er enginn að tala um hagsmuni viðskiptavinanna. Ef að til kemur þá verður þjónustan einfald- lega fábrotnari og samkeppni minni.“ HVERGI ANNARS STAÐAR TALAÐ UM ALGJÖRAN AÐSKILNAÐ HÖSKULDUR H. ÓLAFSSON Attentus - mannauður og ráðgjöf stendur fyrir ráðstefnu fimmtudaginn 8. nóvember kl. 8.30 - 10.30 í Turninum, Kópavogi. Frummælandi er Paul Kearns höfundur bókarinnar HR Strategy - Creating business strategy with human capital. Aðrir fyrirlesarar: Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, og Ragnar Þór Jónsson, forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar. Ráðstefnustjóri er Hulda Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri FKA. Skráning og frekari upplýsingar á Attentus.is Yfir hverju eru stjórnendur andvaka? Hvernig geta stjórnendur aukið rekstrarárangur með stefnumiðaðri mannauðsstjórnun? ALHLIÐA BANKAR Á ÍSLANDI Verði þingsályktunartillaga um aðskilnað viðskipta- og fjárfestingarbankastarfsemi samþykkt verður nauðsynlegt að skipta upp stóru viðskiptabönkunum þremur í tvær einingar hver. FRÉTTABLAÐIÐ/VILHELM „Í raun má segja að þangað til mjög nýlega hafi verið aðskilnaður milli viðskiptabanka og fjárfestingarbanka á Íslandi. Það var ekki fyrr en Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahags- svæðinu og ríkið seldi hluti sína í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og síðar í Landsbankanum og Búnaðar- bankanum sem alhliða bankar urðu til hér á landi. Í kjölfarið stækkaði bankakerfið margfalt á fimm árum og það sem gerist raunverulega er að sjónarmið og hagsmunir fjárfestingarbankans taka yfir við- skiptabankann. Til þess að búa til tekjur er allur efnahagurinn lagður að veði og innlán almennings og lánsfé, sem hvoru tveggja er aflað á forsendu ríkis ryggingar, notuð til veðmála,“ segir Pétur Einarsson, forstjóri Straums fjárfestingarbanka, og heldur áfram: „Þannig að þjónustan verður verðbréfamiðlun sem þrífst á því að gíra upp verðbréfin og lána fyrir þeim, eigin viðskipti sem þrífast á því að halda uppi gengi bréfanna með eigin kaupum og fyrirtækjaráðgjöf sem þrífst á því að búa til tekjur og samninga sem bankinn lánar fyrir. Þetta er reynslan; fjárfestingarbankinn notar viðskipta- bankann til að búa til óeðlilegan hagnað sem byggir á mjög mikilli og vaxandi áhættu. Þetta þarf að koma í veg fyrir.“ Pétur segir að Íslendingar eigi að drífa í aðskilnaði nú þegar banka- kerfið er tiltölulega lítið. „Þetta er nefnilega svo einfalt núna og hefði kannski ekki svo mikil áhrif fyrst um sinn. Upp á framtíðina að gera þurfum við hins vegar að gera þetta svo að við lærum eitthvað af þessu hruni í stað þess að benda bara á þá sem voru þátttakendur.“ Að lokum segir Pétur ekki standast að kostnaður í banka- kerfinu aukist verði aðskilnaður að veruleika. „Við sjáum að Straumur kemur inn sem nýr fjárfestingarbanki fyrir ári síðan án þess að hafa neina samlegð með viðskiptabanka. Samt sem áður erum við samkeppnishæf í verði að öllu leyti og höfum náð okkar markmiði um að vera með 15 til 20% af markaðnum auk þess sem við erum að skila hagnaði.“ TÆKIFÆRIÐ TIL AÐSKILNAÐAR ER NÚNA PÉTUR EINARSSON

x

Fréttablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.