Fréttablaðið - 30.11.2012, Page 68
30. nóvember 2012 FÖSTUDAGUR| MENNING | 40MENNING
TÓNLIST ★★★★ ★
Caput-hópurinn flutti verk
eftir Þorkel Sigurbjörnsson
Kaldalón í Hörpu
SUNNUDAGURINN 25. NÓVEMBER
Tónsmíðar bera oftar en ekki hefð-
bundin nöfn. Svo sem eins og kant-
ata í C-dúr, sónata í D-dúr eða sin-
fónía í E-dúr. „Minniháttar hiksti“
er óvanalegra. Þetta var nafnið á
einu verkanna eftir Þorkel Sigur-
björnsson sem var flutt á tónleik-
um Caput-hópsins á sunnudaginn í
Kaldalóni í Hörpu.
Titillinn er samt dæmigerður
fyrir Þorkel. Húmorinn er sjaldan
langt undan. Sumar tónsmíðarnar
hans eru tækifærisverk, spunnar
út frá bröndurum. Þær hafa elst
misvel. Gallinn við brandara er að
þeir eru bara fyndnir einu sinni.
En það er líka alvara á ferðum hjá
Þorkatli, meira að segja í tónverk-
um sem byrja á gríni. Hvað sem
segja má um upphafshugmyndirn-
ar, þá er framvindan og úrvinnsl-
an í þessum sömu verkum yfirleitt
áhugaverð og grípandi. Þegar best
tekst til er innblásturinn auðfund-
inn. Hann er fáum gefinn.
Tónleikarnir voru þeir fyrstu
í vetur hjá Caput-hópnum. Hann
fagnar aldarfjórðungs afmæli um
þessar mundir. Hópurinn hefur
verið leiðandi í flutningi nýrr-
ar tónlistar á Íslandi. Mörg verk
hafa verið samin sérstaklega fyrir
hann, bæði stærri og minni tón-
smíðar, djarfar tilraunir, en líka
hefðbundnari tónlist. Ef eitthvað
er, má segja að flóra íslenskrar
samtímatónlistar verði sífellt fjöl-
breyttari. Það hefur endurspeglast
í starfi Caput-hópsins.
Það fór vel á að upphafstón-
leikar afmælisvetrarins væru
þverskurður á starfsævi Þorkels,
einu ástsælasta tónskáldi Íslend-
inga. Á efnisskránni voru nokkrar
tónsmíðar sem aldrei hafa heyrst
hér á landi. Sem fyrr segir er sumt
hálfgerður brandari; hið sísta
sennilega Music From the Court
of Thóra. Þar er arfaslök laglína
endurtekin út í það óendanlega
með litlum tilbrigðum. En hikstinn
fyrrnefndi er sniðugri. Verkið er
fyrir slagverk og sembal, rytm-
inn hljómar eins og hiksti – þaðan
er nafnið komið. Svo vindur það
upp á sig og verður að spennandi
frásögn. Á tónleikunum var þessi
tónasaga listilega útfærð af þeim
Guðrúnu Óskarsdóttur og Steef
van Oosterhout.
Hér er ekki pláss til að gera öllu
skil. Það sem stóð upp úr (fyrir
utan hikstann) var einkum tvennt:
Níu lög úr þorpinu og Þrjú and-
lit úr látbragðsleik. Hið fyrra er
flokkur stuttra laga við ljóð eftir
Jón úr Vör. Ingibjörg Guðjónsdótt-
ir sópran söng ákaflega fallega,
af einlægni og raddfegurð. Ekki
skemmdi sérlega mjúkur og blæ-
brigðaríkur píanóleikur Valgerðar
Andrésdóttur.
Síðara verkið er tríó fyrir píanó,
fiðlu og selló. Það fékk nafn sitt
þegar Þorkell sá fyrst andlit hljóð-
færaleikaranna sem frumfluttu
tríóið á sínum tíma. Þau voru
mjög ólík. Þá kviknaði hugmynd-
in að semja tríó þriggja ólíkra
radda. Hér voru það þau Val-
gerður, Zbigniew Dubik og Bryn-
dís Halla Gylfadóttir sem léku.
Raddirnar voru hver upp á kant
við aðra, en runnu saman í lokin
í einkar áhrifamiklum, lýrískum
lokakafla. Það var frábær endir á
athyglisverðum tónleikum.
Jónas Sen
NIÐURSTAÐA: Spennandi þverskurð-
ur á tónsmíðum Þorkels Sigurbjörns-
sonar. Sum verkin voru frábær.
Lítill hiksti, stór músík
ÞORKELL SIGURBJÖRNSSON Það er alvara á ferðum hjá Þorkatli, meira að segja í
tónverkum sem byrja á gríni segir í gagnrýni Jónasar Sen.
Í stuttu máli má segja að Berg-
steinn hafi skrifað um það
skemmtilega og ég það leiðin-
lega,“ segir Björn Þór glottandi.
„Það skiptist að mestu eftir því
hvar áhugasvið okkar liggja og við-
fangsefnum okkar í blaðamennsk-
unni á undanförnum árum. Ég
skrifaði mikið um pólitík, efna-
hagsmál og viðskipti en Bergsteinn
um menningarmál og hann sér-
hæfði sig einnig í glæpum í þess-
ari bók.“
Þetta er gífurlegt verk. Tók þetta
ekki langan tíma? „Þetta tók okkur
um eitt og hálft ár. Við byrjuðum á
því að fara yfir tímabilið, nálgast
þá annála sem til eru, grufluðum
í kollunum á okkur og teiknuðum
þetta upp. Svo þurfti að velja mál
og hafna og það var stundum dálít-
ill hausverkur að velja hvað ætti að
fara inn og hvað ekki. Margt átti
augljóslega að vera í bókinni en
svo var annað smærra sem þurfti
að vega og meta eins og gengur.“
Áratugur öfganna
Hvað bar hæst á þessum ára-
tug? Hvað verður hann kallaður í
sögubókum framtíðarinnar? „Við
köllum hann áratug öfganna. Það
skiptust á skin og skúrir. Í upphafi
áratugarins voru hér dálitlir efna-
hagslegir örðugleikar en í kjölfar
þess að bankarnir voru seldir og
ráðist í virkjanaframkvæmdir fór
allt af stað og hér voru allt í einu
peningar út um allt. Síðan hrundi
sú spilaborg öll, eins og við þekkj-
um, og það er auðvitað það sem
stendur upp úr og áratugarins
verður minnst fyrir. En það eru
mörg önnur stórmál. Mér finnst
til dæmis brottför hersins mjög
merkilegt mál. Hann hafði verið
hér í öll þessi ár og ýmsir barist
hart á móti veru hans, en síðan
bara fór hann, hvarf nánast á einni
nóttu og síðan hefur lítið verið um
það talað. Það reis þessi virkjun
fyrir austan, sem er stórviðburð-
ur, og í tengslum við það braust
umhverfisvakningin, sem hafði
verið í gerjun, út af fullum krafti.
Allt í einu voru það ekki bara ein-
hverjir kverúlantar sem mótmæltu
röskun á ósnortinni náttúru held-
ur bara venjulegt fólk sem gerði
það með miklum látum og mjög
lengi og í kjölfarið er þessi aukna
umhverfisvitund í samfélaginu
komin til að vera.“
Tími uppgjörs
„Á þessum árum var líka áber-
andi að gömul mál voru gerð upp,
þetta var tímabil uppgjörs. Það á
við um mörg ofbeldismál eins og
til dæmis Breiðavíkurmálið, Ólafs
Skúlasonar málið og fleiri væri
hægt að nefna. Það má segja að
ríkt hafi andrúmsloft uppgjörs.
Það var mikill vilji til að gera upp
mál og margir sögðu sögu sína með
ýmsum hætti. Fólk sem hafði orðið
fyrir misnotkun eða einhverju
slíku var tilbúið til að koma fram
og segja frá og stjórnvöld voru
opin fyrir því að málin væru gerð
upp.“
Heldurðu að netvæðingin hafi átt
þátt í þessari opnun? „Netvæðing-
in var náttúrulega ótrúleg á þess-
um áratug, nánast bylting. Það
fóru allir að tjá sig um allt, fyrst í
bloggi og síðan á Facebook og það
hefur náttúrulega gríðarleg áhrif á
samfélagið. Teygir anga sína með
verulegum hætti inn í stjórnmála-
umræðuna og út um allt.“
Glæpirnir,
femínistahreyfingin, menningin
Fleiri mál sem einkenna áratug-
inn? „Já, fjölmörg. Til dæmis verða
glæpir mun stórfelldari, menn eru
að flytja inn fíkniefni í ótrúlegu
magni og hljóta fyrir það mjög
þunga dóma. Glæpaheimurinn
verður skipulegri og harkalegri,
handrukkanir voru til dæmis ekki
mjög þekktar fyrir þetta tímabil. Á
jákvæðari nótum er að jafnréttis-
málin fengu byr undir báða vængi,
femínistahreyfingin sprettur upp
þar sem ungar konur láta virkilega
til sín taka og hafa mikil áhrif. Þær
beina sjónum að þessum miður
skemmtilegu málum eins og vændi,
mansali og kynferðisofbeldi, sem
menn voru ekkert mikið að horfa á
áður. Það endar með því að nektar-
dans er bannaður, sem stútar öllum
nektarbúllum og síðan er vændi
bannað með lögum. Launamun-
ur kynjanna er hins vegar enn til
staðar og það hlýtur að vera næsta
verkefni femínistahreyfingarinnar
að berjast gegn því.
Auk þess einkennist áratugurinn
af sigrum Íslendinga á sviði íþrótta
og menningar. Listir og menning
nutu góðs af öllum peningunum
sem voru í umferð, en ég held þó
fyrst og fremst að útrásinni í við-
skiptum hafi fylgt að fólk sá mögu-
leika á öllum sviðum og að það
væri hægt að hasla sér völl á hvaða
sviði sem er alls staðar í heimin-
um. Björk ruddi brautina og aðrir
fylgdu á eftir. Og í íþróttunum er
það auðvitað með ólíkindum að við
vinnum til silfurverðlauna í hand-
bolta á Ólympíuleikum og að Eiður
Smári spili með bestu fótboltaliðum
í Evrópu svo dæmi séu tekin. Þann-
ig að það voru unnir miklir sigrar
víða.“ fridrikab@frettabladid.is
Áratugur öfga,
uppgjörs, taps og sigra
Áratugurinn frá 2001 til 2010 var sveifl ukennt tímabil á Íslandi eins og fram
kemur í bókinni Ísland í aldanna rás fyrir þann áratug. Höfundar bókarinnar eru
blaðamennirnir Björn Þór Sigbjörnsson og Bergsteinn Sigurðsson. Björn Þór var
spurður hvernig þeir hefðu skipt með sér verkum.
SKIN OG SKÚRIR Björn Þór segir áratuginn 2001 til 2010 hafa einkennst af miklum sveiflum, en ýmislegt jákvætt hafi unnist.
FRÉTTABLAÐIÐ/GVA