Dagfari - 01.12.1961, Side 19
þeirra tveggja stórvelda, sem nú
berjast um sál og sannfæring
smárra þjóða og ausa fjármun-
um og varningi út um allan
heim í því skyni að kaupa sér
vináttu og vild?
„Við erum nefnilega gamalt
óperufólk og könnumst við sitt
af hverju,‘‘ segir söngprófessor-
inn. Þegar hann í leikslok gerir
fulltrúa Andans gylliboð í kapp
við Hausana tvo, svarar sá hon-
um til: „í yðar sporum mundi
ég hafa búið áfram í skugganum
af þessum stóru húsum þar sem
lífið og listin er ekta.“
Hvort mætti í þessum orðum
leynast harmur skálds, sem er
mikill vinur evrópskrar menn-
ingar og harmar að sjá ör-
þreytta, blóðsogna, gamla Evrópu
taka þátt í kapphlaupi ungæð-
islegra stórvelda?
★
Strompleikurinn er magnþrung-
in ádeila og jafnframt djúp-
ur harmleikur fólks, sem lifir á
glæp.
Hver einstök persóna þessa
leiks er svo einsteypt að eðli,
að örðugt myndi að kalla fram
tragiskt áhrifamagn. Einlyndar
Persónur fara vel í kómisku
verki, en verða átakanlegar og
ósannfærandi í tragisku um-
hverfi. Sá á kvölina, sem á völ-
ina. Tragiskt hlutverk krefst tví-
hyggju. Þarna eru allir einlynd-
ir.
Hér hygg ég, að Laxness
bregði á merkilegt listarbragð í
því skyni að skapa svipaða
spennu og sálarkvöl kleyfhuga
myndi valda.
Hvert er hlutverk Lamba?
Mér virðist hann raunar þjóna
þeim tilgangi einum að vera eins
konar annar þáttur af eðli
Ljónu. Hún á frá upphafi hlut
að glæpnum. Mönnum býður í
grun, að hún sé sér meðvitandi
um verk móður sinnar, en hana
skortir allt þrek og eðli til að
rísa gegn. Lambi stendur fjær
glæpnum, en gerist að lokum
einnig þátttakandi. Andspænis
líkinu ríkir svipuð spenna milli
Lamba og Ljónu og verða
myndi með tvíhuga. Hann guggn-
ar einnig, og hvorugt bjargast.
Letta er svipað bragð og Laxness
beitti í Brekkukotsannál, þar
sem Álfgrímur og Garðar eru í
raun og veru sama persóna.
¥
Strompleikurinn er hlaðinn
bölsýni harms og ádeilu undir
yfirborði farsa. Fyrir nærri 1000
árum sat skáld á íslandi og
kvað af þungum móði um tor-
tíming guða og manna. Er ragn-
®rök nálgast, boðar höfundur
Völuspár þau með ógnarlegu
stefi;
Geyr Garmr mjök
fyr Gnipahelli.
Óhugnanlegt gól hundsins
kveður enn í hlustum, þá sól
hefur sortnað og jörð sökkzt í
mar.
Þegar tjald lyftist frá þriðja
þætti Strompleiksins, gapir við
augum koldimmt gímald kamín-
unnar og frammi fyrir því út-
troðinn óskapnaður, morauður
rakki dauður; beggja vegna
hundsins tuskublóm. Uppi í
strompinum bíður líkið þess að
falla niður. Það er eins og þess-
um Gnipahelli sé það eitt ætlað
að gleypa hvern lífsneista, og
umbúnaðurinn minnir á gröf.
Að þessum váboða safnast all-
ar persónur leiksins, einnig gos-
karlinn Kúnstner Hansen. Hann
er sú persóna leiksins ein, sem
er óbundin af glæp. Sjálfum sér
lýsir hann svo: „Ég var aumíngi
sem ekki dugði til annars en
halda ögn í höndina á þeim sem
voru enn meiri aumíngjar."
Hér er sleginn sá strengur,
sem gerzt hefur æ áleitnari í
bókum Laxness og vakað hefur
undir í öllum verkum hans allt
frá brotinu Heiman eg fór; sú
lífsskoðun, sem honum ungum
var innrætt og hann hefur eitt
sinn lýst svofelldum orðum:
„Ástin og virðíngin fyrir að-
þreingdu lífi var það siðferðis-
boðorð sem í heimahögum mín-
um eitt bar í sér veruleika.“.
Hér er kominn skilgetinn bróðir
gömlu hjónanna í Gljúfrum í
Fegurð himinsins, organleikarans
í Atómstöðinni og Björns í
Brekkukoti.
Hansen er aðgerðarlaus per-
sóna í leiknum, hljóður þolandi
og áhorfandi. Hann geymir þó
drjúgan hlut mannhugsjónar
Laxness — hinn einstæði, vamm-
lausi, hlýhugaði maður, sem
stendur fullur góðeiks gagnvart
aðþrengdu mannlífi. Hann einn
bjargast.
¥
Höfundur Völuspár lýsti ógn-
þrunginni skáldsýn, hruni al-
heims, tortíming guða og manna.
Hann trúði samt á undursamleg-
ar, gullnar töflur, er í grasi
myndu finnast, að dyggvar
dróttir myndu byggja Gimlé.
Laxness virðist líkt farið. Ef
Strompleikurinn er tákn um
hrun þeirrar menningar og þess
samfélags, er um hríð hefur
þróazt með þjóðum á norður-
hveli jarðar, virðist höfundur
hans og trúa því, að meðal
þeirra leynist þær eigindir, er
rísa muni úr ösku „þann dag
sem afgángurinn af veröldinni
er fallinn á sínum illverkum.“
Menn vilja kannski heldur líkja
þessari daufu von við hið
græna lauf Becketts, sem eitt vex
út úr kolsvörtum stofni gamals
trés. Menn gætu líka ugglaust
fundið enn fleiri hliðstæður við
symbólík hins írska Fransmanns.
Mér verður að líta á Hansen
og fulltrúa Bræðralags Andans
í Japan sem tákn þeirra hug-
sjóna, er skáldið vonar, að
bjargast muni úr bálinu mikla
Fulltrúi Andans býður Hansen
að fylgja sér í „þann stað þar
sem öll heimsins gæði saman-
standa af einum daufum lampa
— og voninni um gimstein sem
kanski aldrei finst.“ Til farai
með sér kveður hann þann aum-
ingja, sem ekki hafði dugað til
annars en halda í hönd þeirra,
er voru enn meiri aumingjar.
Má vera, að það sé glám-
skyggni að telja þetta tákn
þeirrar auðmjúku þjónustu og ó-
eigingjörnu, endalausu leitar,
sem veitt geti lífi gildi.
¥
Því hefur verið varpað hér
fram, hvort braggi þeirra
mæðgna geti verið tákn þess
menningarumhverfis, er hér (eða
annars staðar á norðurhveli
jarðar) getur að líta eftir brim-
rót síðustu ára.
Hver var þá Gunna frænka?
Hverja nauðsyn bar til að drepa
þetta karlæga gamalmenni?
Lambi spyr Kúnstner Hansen,
hversu honum hafi geðjazt þessi
kona. Og Hansen svarar: „Æ
þetta var skelfileg ærhorna-
rispa . . . Það var ekki þarmeð
sagt hún hafi ekki haft sína
mannsparta. Var ósmeyk að
lemja stráka þó tvífættir væru,
hvað þá einfættan djöful einsog
mig. Þángaðtil hún lagðist á
bakið þarna inni og gapti uppí
loftið í sirka tíu ár og gat
aungan lamið meir.“
Undir lok síðustu aldar gekk
Ibsen fram undir merkjum
hinnar raunsæju ádeilu. Ódeig-
ur lét hann svipu sína glymja
yfir höfðum norrænna manna.
Hann sagði um kynslóð sína:
Jeg tror vi sejler med et lig i
lasten.
Enn kveður mikið skáld um
lík.
Getur Gunna frænka verið
tákn deyjandi menningar, sem
að lokum er myrt af spilltri
kynslóð? Það má vera auðið um
hríð að lifa á líki fornrar menn-
ingar, en að lokum hlýtur sú
kynslóð, er bruggað hefur henni
banaráð, einnig að farast og
hverfa inn í strompinn með ná
sínum, hennar bíður Gnipahellir
tortímingarinnar einn. Víst var
sú tíð, að vestræn menning
(Orðið hér notað í ópólitískri
merkingu. Menn vilja kannski
heldur kalla hana evrópska eða
norðurhvelska) var ósmeyk að
lemja stráka.
¥
Þá fyrst verður mér Stromp-
leikurinn skiljanlegur, ef litið
er á hann sem symbólska ádeilu.
Raunar er þá heldur höfundur-
inn hvergi myrkur í máli. Mér
segir svo hugur, að hann vilji
freista þess að bregða upp mynd
þess ógnvekjandi, siðlausa villi-
dýrasamfélags, er togast á um
tætlur heimsbyggðarinnar.
Viðurstyggilegastar kjötætur
eru þær, sem á náttarþeli læðast
að hræjum til að gófla þar fylli
sína.
Hvort eru okkur sýnd í verki
þessu siðalögmál hýenunnar?
Að leikslokum læðist hver per-
sónugervingur þessa samfélags
brott með það, sem hann getur
hirt af menningarlegu vogreki
braggans. Mætti jafnvel ekki
vera drjúg symbólík í því at-
riði? Fiskhaus & Co. (sá, sem jós
fjármunum í Ljónu) stelur spila-
dósinni, tákni hins falskasta í
list og mennt. Sjálflýsandi katt-
arhaus tekur aftur gýligjafir
sínar og stelur útvarpinu, sym-
bóli tækninnar, en söngprófess-
orinn grípur hundinn; kald-
hæðni, að þetta útslitna menn-
ingarfyrirtæki skuli að lokum
hafa sjálfan váboðann sér að
augnayndi.
Ef litið er á Ljónu (Lamba
líkt og annan þátt hennar), sem
tákn þeirrar æsku eða þess hluta
mannkyns (eða einstakrar þjóð-
ar), sem sé sér meðvitandi um
glæp hverfandi kynslóðar, virð-
ist sem skáldið telji þrátt fyr-
ir allt, að sá hluti eigi þess
kost að snúa við á braut og
hverfa undir merki mannlegri
lífsskoðunar.
„Má vera að hún sé sú sem
á eftir að finna maní-gimstein-
inn“, segir fulltrúi Andans.
Hitt eru rökrétt leikslok —
hversu miskunnarlaus sem sú
staðreynd er — að Ljóna hverfi
á eftir móður sinni. Hana hefur
skort siðferðilegt þrek til að rísa
gegn glæpnum, aðeins átt draum
sinn um þann, er fljúga myndi
til hennar.
Sá einn bjargast úr þessum
ragnarökum hýena, sem fullur
góðvildar hefur lifað, án tilætl-
unar um laun veraldar, auð-
mjúkur smiður þeirrar hljóð-
pípu, sem aldrei verður fullgerð,
leitandi þess gimsteins, sem ef
til vill mun aldrei finnast.
Strompeikurinn er rökrétt fram-
hald fyrri verka skáldsins, sam-
felldur óður til þess húmanisma,
sem helzt má til bjargar verða í
hörðum heimi.
Sveinn Skorri Höskuldsson.
dagfari
19