Kraftur - 01.05.2011, Blaðsíða 10

Kraftur - 01.05.2011, Blaðsíða 10
10 KRAFTUR „Í Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins er boðið upp á þjónustu við fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þess. Þegar krabbamein greinist orsakar það óvissu hjá viðkomandi einstaklingi og fjölskyldu hans varðandi framtíðina, bæði hvað varðar heilsu, fjárhag og ýmsa félagslega þætti. Ótal spurningar vakna sem finna þarf svör við. Þetta geta til dæmis verið vandamál sem tengjast velferð barnanna, óvissa tengd vinnu og starfsþreki, heilsunni, áhyggjur af fjármálum, framfærslu og margt, margt fleira. Mikilvægt er að praktísk málefni fjöl– skyldunnar séu í góðum farvegi og það er í raun forsenda þess að sjúklingurinn geti einbeitt sér að læknismeðferðinni og að því að ná bata á nýjan leik. Í þessum aðstæðum er nauðsynlegt að ræða við fagaðila og í Ráðgjafarþjónustunni er hægt að hitta fagaðila en þar starfa félagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingar og fram– kvæmdastjóri Krafts. Við leitumst við að svara spurningum þeirra sem til okkar leita og aðstoðum við að fylla út umsóknir og eyðublöð, t.d. varðandi sjúkradagpeninga og lífeyri og reynum þannig að leggja okkar af mörkum til að létta undir með sjúklingum og aðstandendum þeirra. Okkar þjónusta er veitt án endurgjalds.“ Er eitthvað eitt ferli sem allir þeir sem greinast með krabbamein fara í gegnum eða er misjafnt hvernig fólk tekur á veikindunum? Hvað er það sem brennur helst á fólki? „Það er áfall fyrir flesta að greinast með krabbamein og áfallahjálp getur hjálpað mörgum að komast í gegnum fyrsta skeiðið. Það er misjafnt hvernig fólk upplifir áfallið og það fer áreiðanlega eftir því hvaða skuldbindingar fólk hefur í lífinu. Sumir dofna upp og sýna litlar tilfinningar. Stundum finnst fólki sjúkdómsgreiningin óraunveruleg og tala um að það sé eins og þetta sé að koma fyrir einhvern annan en það sjálft. Mér finnst skelfilegast þegar foreldrar ungra barna greinast og fólk í þeim aðstæðum vill oft fá upplýsingar um hvernig það eigi að segja börnum sínum slík tíðindi á sem sársaukaminnstan hátt. Ég held að erfiðast sé að vera foreldri í þessum aðstæðum.“ Nú er oft talað um afneitun sem eitt stig sorgarferlis og oft ef fólk vill ekki tala um veikindi eða forðast það, þá er það oft stimplað sem í afneitun? Er þetta rétt? „Settar hafa verið fram kenningar um sorgarferli sem fólk gengur í gegnum við þessar aðstæður og að fyrsta stigið eftir greiningu sé tímabil afneitunar og einangrunar (Elísabet Kübler-Ross). Þeir sem hingað leita eru ekki í afneitun. Þeir eru að leita lausna í þeim erfiðu aðstæðum sem þeir eru komnir í. Ég tel að fólk sem ekki vill ræða veikindi sín hafi fullan rétt á því þó sjálfsagt sé að ræða þessa hluti við sína nánustu. Reynslan hefur kennt mér að fólki líður betur ef það ræðir hlutina við aðila sem hafa sambærilega reynslu.“ Hvað með sálrænan stuðning? Er munur á stuðningi þeirra sem hafa sömu reynslu og þeirra sem eru vinir og ættingjar en hafa ekki sjálfir reynslu af krabbameini. „Ég held að það sé lítill munur hvað samkennd varðar. Það kemur ekkert í staðinn fyrir góðan stuðning frá ættingjum og vinum. Hins vegar búa þeir sem hafa greinst með krabbamein og farið í gegnum krabbameinsmeðferð yfir reynslu og þekkingu sem þeir geta deilt með öðrum. Það getur auðveldað hinum nýgreinda að fá upplýsingar um reynslu annarra og taka síðan sjálfur sínar ákvarðanir varðandi þau vandamál sem hann stendur frammi fyrir. Það felst mikil heilun í því fyrir sjúklinginn að ræða við annan einstakling með sambærilega reynslu. Það getur myndast djúp samkennd milli þeirra og er til þess fallið að efla von sjúklingsins um bata. Það er ómetanlegt að hitta einhvern sem lítur vel út og hefur lifað sjúkdóminn.“ Er hægt að tala um að fólk upplifi áfallastreitu þegar það greinist með krabbamein? Hvernig lýsir hún sér? „Margir þeirra sem greinast með krabba– mein hafa upplifað þrekleysi, slappleika eða önnur líkamleg einkenni. Þessum einkennum fylgja oft áhyggjur og kvíði. Þetta getur valdið því að fólk er ekki eins vel í stakk búið til að takast á við áfallið sem sjúkdómsgreiningin veldur. Áfallastreita getur komið í kjölfar áfalls og fólk með skert þrek er ekki eins sterkt fyrir og heilbrigðir einstaklingar. Það hefur ekki eins góðar varnir gegn áfallastreitu. Áfallastreita getur birtst í hugrænum-, tilfinningalegum-, og/ eða líkamlegum einkennum. Einkennin geta falist í minnisleysi, einbeitingarörðugleikum, skapsveiflum, kvíða, ótta eða líkamlegum óþægindum. Besta vörnin gegn áfallastreitu er að hvílast vel, slaka á og hugleiða, hreyfa sig daglega, borða hollan mat og þiggja sálfélagslegan stuðning.“ Annað sem þú vilt koma að? „Ég tel að allir sem greinast með krabbamein eigi að fá alhliða endurhæfingu og þá er ég að tala um sjúkraþjálfun, næringarráðgjöf, iðjuþjálfun og aðstoð frá félagsráðgjafa og sálfræðingi. Á krabbameinsdeild Landspítalans er matstæki sem mælir vanlíðan sjúklinga. Ég myndi vilja að allir sem greinast með krabbamein séu greindir á þessu matstæki og að þeir fái aðstoð í samræmi við niðurstöður þeirra mælinga.“ ÞAÐ ER ÁFALL FYRIR FLESTA AÐ GREINAST MEÐ KRABBAMEIN GUNNJÓNA UNA GUÐMUNDSDÓTTIR FÉLAGSRÁÐGJAFI SEGIR AÐ RÁÐGJAFAÞJÓNUSTA KRABBAMEINSFÉLAGSINS GETI NÝST UNGU FÓLKI SEM NÝLEGA HEFUR GREINST MEÐ KRABBAMEIN EÐA ER Í KRABBAMEINSMEÐFERÐ Á MARGVÍSLEGAN HÁTT. RÁÐGJAFAÞJÓNUSTA Gunnjóna Una Guðmundsdóttir félagsráðgjafi.

x

Kraftur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Kraftur
https://timarit.is/publication/982

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.