Bændablaðið - 03.10.2013, Qupperneq 14

Bændablaðið - 03.10.2013, Qupperneq 14
14 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. október 2013 SS er að hefja byggingu á nýju vöruhúsi á athafnasvæði félagsins í Þorlákshöfn. Vöruhúsið, sem verður 1.500 fermetrar að stærð, verður notað undir innflutning á áburði. Nýja vöruhúsið verður kærkomin viðbót við rúmlega 500 fermetra vöruhús sem fyrir er. Athafnasvæði SS er um 9.000 fermetrar við höfnina í Þorlákshöfn, sem tryggir búvörudeild félagsins gott rými til frekari vaxtar á komandi árum. Búvörudeild SS á sér ekki langa sögu en á árinu 2001 hóf SS skipulegan innflutning á tilbúnum áburði fyrir bændur. SS er í afar farsælu samstarfi við norska stórfyrirtækið YARA um innflutning og sölu á áburði að því er fram kemur í fréttatilkynningu. Brýnt að bæta aðstöðuna í Þorlákshöfn SS skipar upp áburð á 12 höfnum um allt land. Umsvifin eru hins vegar mest í Þorlákshöfn og því er brýnt fyrir SS að bæta enn frekar aðstöðuna í Þorlákshöfn með byggingu á nýju vöruhúsi. SS flytur einnig inn kjarnfóður í samstarfi við DLG í Danmörku en DLG er samvinnufélag bænda. Í dag rekur SS 3 fóðurbíla og eru mikil sóknarfæri fram undan. Búvörudeildin selur einnig bætiefni, rúlluplast og sáðvörur. Með nýja vöruhúsinu í Þorlákshöfn verður SS enn betur í stakk búið að þjónusta bændur. Í tilkynningu frá SS segir enn fremur að afar mikilvægt sé að koma fjárfestingum af stað til að auka atvinnustarfsemi: „Það er því ánægjulegt fyrir SS að hefja framkvæmdir í Þorlákshöfn. Þann 3. september s.l. var samið við Landstólpa um kaup og uppsetningu á nýja vöruhúsinu sem er 1500 fermetra stálgrindahús. Landstólpi hefur mikla reynslu á þessu sviði enda hefur fyrirtækið byggt tugi húsa um allt land á undanförnum árum. Auk Landstólpa koma að verkinu fjöldi góðra verktaka á Suðurlandi. Verkfræðistofan Ferill sem SS hefur átt langt og farsælt samstarf við sér um hönnun, umsjón og eftirlit með byggingarframkvæmdum. Áætlað er að framkvæmdum ljúki fyrir áramót. Nýja vöruhúsið verður eingöngu fjármagnað úr rekstri SS enda fjárhags- og lausafjárstaða félagsins góð.“ Mikilvægt fyrir sveitarfélagið Frekari uppbygging við hafnarsvæðið í Þorlákshöfn hefur mikla þýðingu fyrir Sveitarfélagið Ölfus því að þótt Þorlákshöfn hafi á árum áður verið stór sjávarútvegshöfn á landsvísu og þótt enn sé myndarlegur sjávarútvegur starfræktur í Þorlákshöfn, hefur starfsemin við höfnina breyst í áranna rás. Við höfnina hefur byggst upp aðstaða hjá fyrirtækjum sem flytja vörur til og frá landinu í verulegu magni. Má þar nefna auk SS fyrirtækið Lýsi hf. sem flytur inn ómegalýsi sem dælt er á tanka í Þorlákshöfn og fyrirtækið Jarðefnaiðnaður ehf. sem flytur út vikur sem notaður er til ræktunar og í byggingariðnaði. Fjöldi fyrirtækja er í Sveitar- félaginu Ölfusi og á Suðurlandi öllu sem flytja út og selja hágæða vörur á erlendum mörkuðum. Þessi fyrirtæki hafa fæst kost á því að flytja sínar vörur beint út frá Þorlákshöfn í dag. Mikið hagræði hlýst af fyrir þau fyrirtæki sem geta notað höfnina til inn- og útflutnings þar sem siglingarleiðin frá Evrópu til Íslands styttist verulega sé siglt til Þorlákshafnar í stað Reykjavíkur auk þess sem landleiðin milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur er tiltölulega stutt. Forsvarsmenn sveitarfélagsins segja það því ekki að ástæðulausu sem fyrirtæki eins og SS sjá tækifæri í myndarlegri uppbyggingu í Þorlákshöfn. SS byggir 1.500 fermetra vöruhús í Þorlákshöfn Ein albesta fjárfesting mín í gegnum tíðina var þegar ég keypti mér frystikistu. Í gegnum árin hafði ég búið við það ófremdarástand að eiga bara ísskáp með litlu frystihólfi sem dugði rétt svo til að geyma í því frostpinna fyrir börnin og klakabox til að eiga klaka í kokkteilinn. Þær voru margar stundirnar sem ég stóð og endurraðaði í frystihólfið með það að markmiði að sjá hvort ég gæti nú ekki komið nokkrum lærissneiðum efst til hægri, við hliðina á rúgbrauðshleifnum og kæfunni sem hún mamma mín blessunin hafði gaukað að mér. En eftir að ég eignaðist frystikistuna mína er þetta vandamál úr sögunni. Nú get ég fyllt hana af alls konar gúmmelaði og kræsingum sem síðan er hægt að tína upp hægt og rólega og hafa í matinn. Það hefur ekki verið ónýtt að eiga pláss í frysti fyrir ýmsa matvöru síðustu fimm ár, eða frá því að fjármálakerfi landsins hrundi með brauki og bramli. Á meðan dæmi voru um að fólk bæði guð að blessa Ísland blessaði ég frystikistuna mína. Mér þykir slátur gott, eins svið og sperðlar, innmatur og aðrar afurðir sauðkindarinnar. Ég hef glaðst óskaplega yfir vel birgri frystikistunni síðustu ár, ekki síst þegar styst hefur í mánaðamót. Helsta áhyggjuefni mitt er raunar að missa yfirsýn yfir hvað er til í kistunni. Á dögunum sá ég meira að segja á Facebook hvar góð vinkona mín, bóndi á Austurlandi, var að barma sér yfir leiðinlegustu verkum haustsins. Ein uppá stungan um hver þau verk gætu verið var tiltekt í frystikistunni. Ég skildi þá afstöðu mæta vel. Þegar líður að hausti kemur sá tími að ég fer að orða það að nú þurfi að fara að klára úr frystikistunni. Konan mín hefur þá gjarnan að orði, með mæðusvip, að það sé merkilegt að þegar þurfi að klára úr frystikistunni virðist það alltaf vera sperðlar, slátur og lifur sem liggur á að klára. Það liggi hins vegar ekki jafn mikið á að klára lambalærin og hryggina sem hún viti að séu þarna ofan í kistunni. Við þessi orðaskipti verð ég jafnan heyrnardaufur, þarf jafnvel að skreppa eitthvert. Og nú er sláturtíð komin á fullt skrið og frystikistur landsmanna fyllast af ýmsu kjötmeti. Fyrir allmörgum árum hefði ekki hvarflað að mér að ég ætti eftir að standa og hræra í blóði, rúgmjöli, haframjöli, heilhveiti og mör með glöðu geði. Kannski er skýringin sú að kostnaðarvitundin mín hafi aukist með því að flytja úr foreldrahúsum, rétt eins og kostnaðarvitund sjúklinga á víst að aukast með því að þurfa að borga gistináttagjald á sjúkrahúsin. Hver veit? Hvað sem því líður eru þessi haustverk orðin fastur liður í lífi minnar fjölskyldu. Ég nýt þess auðvitað að hafa hamhleypuna hana móður mína með mér í þessum verkum (í raun gerir hún meira og minna allt sem þarf að gera, ég hlýði henni bara). Það gleður mig síðan innilega þegar ofan í frystikistuna staflast öskjur með lifrarpylsu, blóðmör, sperðlum og hakki auk súpukjöts, læra og hryggja. Þá er nú fagurt yfir að líta í gegnum frostmóðuna sem stígur upp úr kistunni. Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnar Íslands var kynnt nú á dögunum. Ég held ég muni passa upp á að fylla frystikistuna mína upp í topp þetta haustið. STEKKUR Frystikistulagið Íslenska forystuféð er einstakt á heimsvísu og er meðal þeirra verðmætu erfðaauðlinda sem ber að varðveita í samræmi við alþjóð- lega sáttmála og skuldbindingar. Umfjöllun á alþjóðlegri ráðstefnu Í síðasta Bændablaði var greint frá því að flutt hafi verið erindi um forystuféð á ársþingi Búfjárræktarsambands Evrópu í Nantes í Frakklandi (bls. 29) og í sama blaði var einnig kynnt starf- semi viðtæks Evrópusamstarfs um varðveislu erfðaauðlinda (bls. 35). Það er reynsla mín að frásagnir af íslenska forystufénu og eigin- leikum þess vekja alltaf athygli, innanlands sem utan, og þannig var það vissulega í Nantes. Erindið sem byggt var upp með texta, tölum og myndum (sjá „Behavioural studies on Icelandic leadersheep“, Ólafur R. Dýrmundsson, Emma Eythórsdóttir and Jón V. Jónmundsson á www. eaap2013.org) vakti góðar umræður þar sem fram kom spurning um eðli fjárins og erfiðir eiginleika þess til að fara á undan fé í rekstri og sýna sérstaka vitsmuni með ýmsum hætti. Að miklu leyti var byggt á niðurstöðum tilraunar til að mæla forystufjáreiginleika sem gerð var haustið 2007, svo og þeirri víðtæku söfnun ætternisupplýsinga sem dr. Jón Viðar Jónmundsson kynbóta- fræðingur hefur forgöngu um. Þá var vísað í myndband um forystufé sem Guðný Halldórsdóttir og Halldór Þorgeirsson framleiddu og frum- sýndu vorið 2009 en þar eru m.a. sýndir stuttir kaflar úr tilrauninni. Hvernig erfast forystueiginleikarnir? Nú spyrja erfða- og kynbótafræðingar hvernig forystueiginleikarnir erfist en tilraunin haustið 2007 staðfesti að þeir eru arfbundnir. Ekki er vitað hve margir erfðavísar (gen) koma við sögu, allavega fleiri en einn, en með þeirri tækni sem nú er beitt við arfgerðagreiningu ætti að vera hægt að komast nær hinu rétta í framtíðinni. Dr. Jón Hallsteinn Hallsson erfðafræðingur er nú þegar farinn að rannsaka þann þátt. Forystufjárræktarfélag Íslands, sem er landsfélag stofnað um aldamótin, fagnar þeim áhuga sem vísindamenn hér á landi og erlendis sýna forystufénu. Þá skiptir líka megin máli að allstór hópur íslenskra sauðfjárbænda um land allt vill varðveita stofninn með öllum tiltækum ráðum en þar koma sæðingar mikið við sögu og hafa reyndar gert síðan á 6. áratug liðinnar aldar. Við bætist vaxandi áhugi á forystufé erlendis, einkum í Norður- Ameríku. Þar er verið að byggja upp stofn forystufjár með sæðingum en a.m.k. sex kynslóðir þarf til að vera kominn með svo til hreinræktaðað fé með eiginleika forystufjár, miðað við að byrjað sé með 50% blending. Það hafa margir gert hér á landi, þeirra á meðal sá sem þetta ritar. Forystufjársetur í Þistilfirði 2014 Forystufjárræktarfélag Íslands fagnar fyrirhugaðri stofnun Fræðaseturs um forystufé í Þistilfirði (www. forystusetur.is) að ári en þar verður m.a. sett upp sýning með uppstoppuðu forystufé, ljósmyndum og sögum. Stjórn setursins er skipuð fimm Norður-Þingeyingum úr Þistilfirði, og er Daníel Hansen á Svalbarða formaður hennar. Er við hæfi að reisa slíkt setur í Norður-Þingeyjarsýslu þar sem þungamiðja forystufjárræktunar hefur staðið frá fornu fari. Þaðan hafa flestir sæðingahrútarnir komið og á seinni árum hefur verið selt þaðan all margt forystufé á fæti á fjárbú víða um landið. Það er nú til í öllum sýslum en heildarstofninn telur um 1.500 af 480.000 vetrarfóðruðum kindum í landinu. Til nánari upplýsingar má geta þess að auk mín sitja í stjórn Forystufjárræktarfélags Íslands þau Bjarney S. Hermundardóttir, Tunguseli á Langanesi og Tryggvi Ágústsson, Selfossi. Skráðir félagar eru 160, þar af nokkrir erlendis. Allir sem eiga forystufé eða hafa áhuga á því eru velkomnir í félagið. Ólafur R. Dýrmundsson Ph.D. Bændasamtökum Íslands ord@bondi.is Sími 563-0300/0317 Frá Forysturæktarfélagi Íslands: Forystuféð vekur athygli Mynd / Ragnar Þorsteinsson

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.