Bændablaðið - 03.10.2013, Blaðsíða 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 3. október 2013
Kaffihúsið Gísli, Eiríkur, Helgi opnað á Dalvík:
Unnið að uppsetningu sýningar um bræðurna
þjóðþekktu frá Bakka í Svarfaðardal
Gísli, Eiríkur og Helgi, bræðurnir
geðþekku sem kenndir eru við
Bakka í Svarfaðardal, eru mættir
galvaskir til Dalvíkur. Kaffihús
sem ber nafn bræðranna var
opnað á besta stað í bænum
síðla sumars og það er bara
byrjunin. Til stendur að vinna í
vetur að því að koma upp fyrsta
hluta Bakkabræðraseturs í sama
húsnæði og er hún þegar hafin.
Það eru hjónin Kristín
Aðalheiður Símonardóttir og Bjarni
Gunnarsson sem reka kaffihúsið
Gísli, Eiríkur, Helgi og hyggja á
opnun Bakkabræðraseturs. Fyrir
reka þau öfluga ferðaþjónustu að
Vegamótum á Dalvík og eru með
um 70 gistirými. Sá rekstur hefur
gengið vel, enda hefur ferðaþjónusta
í Dalvíkurbyggð vaxið hröðum
skrefum líkt og gildir um marga
aðra staði á landinu.
„Við höfum verið að velta þessu
fyrir okkur lengi, en hugmyndin
kviknaði árið 2008 þegar við
fórum að huga að því hvað hægt
væri að gera til að byggja upp og
auka afþreyingu hér á svæðinu. Þá
fórum við að skoða hvað það væri
sem við ættum hér í Dalvíkurbyggð
sem hægt væri að nýta í þessu skyni,
til að efla ferðaþjónustuna,“ segir
Kristín Aðalheiður, Heiða eins og
hún er jafnan kölluð.
Hafði augastað á gömlum
fjárhúsum
Fljótlega skutu Bakkabræður upp
kollinum og þau fóru að skoða hvort
ekki væri hægt að nýta sér þessar
þekktu þjóðsögur af bræðrunum
og tengja saman menningu og
ferðaþjónustu. „Landsmenn þekkja
allir sögurnar af Bakkabræðrum og
okkur fannst vera tími til kominn að
festa þá betur í sessi hér í héraðinu,“
segir hún, en fyrsta skrefið var að
leita að húsnæði undir eins konar
sýningu. Heiða hafði lengi haft
augastað á gömlum fjárhúsum sem
stóðu skammt sunnan við Dalvík og
höfðu lengi verið tóm. M.a. hafði
hún staðið fyrir undirskriftasöfnun
þess efnis að ekki yrði hróflað við
húsunum, þau ekki rifin eða fjarlægð.
Komu sér fyrir í Siggabúð
„Ég fór að vinna á fullu í þessu
verkefni, gerði viðskiptaáætlun
og fór að huga að endurbyggingu
fjárhúsanna með það að markmiði
að setja þar upp Bakkabræðrasetur.
Fljótt kom í ljós að verkefnið
var viðamikið og endurbygging
yrði kostnaðarsöm, áætlað var að
kostnaður yrði um 30 milljónir
króna og þetta var að gerast svona
um það bil korteri fyrir kreppu. Það
var því ekki um auðugan garð að
gresja þegar leita átti eftir fjármagni
til uppbyggingarinnar. Við notuðum
hins vegar tímann vel og unnum
að margvíslegum öðrum störfum,
hugmyndavinnu, búningahönnun og
búningasaumi svo dæmi séu nefnd,“
segir Heiða, en þau hlutu nokkra
styrki til að vinna að verkefninu á
þeim tíma.
„Það fór svo að fólk nefndi
við mig hvort ekki væri betra að
færa setrið inn í bæinn og leggja
fjárhúsahugmyndina á hilluna og
það varð úr að sú hugmynd varð
ofan á,“ segir hún. Þau fengu fínasta
húsnæði, hús sem nefnist Sigtún
og er sambyggt húsæði Leikfélags
Dalvíkur, Ungó. Þar rak Sigurður P.
Jónsson krambúð á sínum tíma, sem
í daglegu tali var nefnd Siggabúð, en
Siggi var langömmubróðir Heiðu.
Hann hóf verslunarrekstur á Dalvík í
kringum árið 1930 og eru innréttingar
og ýmis annar búnaður enn til staðar í
húsnæðinu og í fullri notkun nú þegar
búið er að opna þar kaffihús.
Kjallarinn kjörinn til að
endurskapa þjóðsögurnar
„Málið tók við þessa ákvörðun
algjöra U-beygju, við fengum
húsnæðið í júní og byrjuðum á endur-
bótum og náðum að opna kaffihúsið
skömmu fyrir Fiskidagshelgina
þegar hér var fólk í þúsundatali.
Það var mjög gaman og mikið
um að vera,“ segir Heiða. Húsið
sem um ræðir, Sigtún, er á þremur
hæðum og undir því er kjallari.
Kaffistofan er á jarðhæð þess og
Setri Bakkabræðra verður komið
fyrir á hæðum fyrir ofan og eins í
kjallara, sem Heiða segir að henti
einkar vel til að endurskapa sögur
af bræðrunum. „Við sjáum til dæmis
fyrir okkur að hann sé kjörinn til að
koma þeim þar fyrir í fótabaðinu
fræga og eins sögunni af því þegar
þeir báru myrkrið út úr húsi sínum í
húfum sínum og sólskinið í bæinn,“
segir hún. Unnið verður af kappi við
að setja sýninguna upp á komandi
vetri og stefnt að því að fyrsti hluti
hennar verði tilbúinn vorið 2014.
Samstarf við Leikfélag Dalvíkur
Sem fyrr segir er kaffihúsið við
hlið húsnæðis Leikfélags Dalvíkur,
en félagið fagnar 70 ára afmæli
sínu á næsta ári. Samstarf verður
á milli aðila, en meðal annars
verður veitingasala opin fyrir og
eftir sýningar sem og í hléi þegar
félagið efnir til sýninga. Jafnan
hefur Leikfélag Dalvíkur sýnt tvö
verk á ári, eitt að haustinu og er
það gjarnan fyrir börn og ungmenni
og svo annað eftir áramót. Þann
tíma sem félagið nýtir húsið ekki,
sem er frá því í apríl eða maí og
fram í október, munu þau Heiða
og Bjarni hafa húsið til afnota og
eru þegar farin að huga að ýmsum
uppákomum. „Þetta samstarf styður
hvert annað, nýting á húsinu verður
betri en áður og þá stendur líka til
að fara í nokkuð umfangsmiklar
endurbætur á Ungó á næstu þremur
árum, sem er mjög ánægjulegt,“
segir Heiða.
Spennandi tímar fram undan
Kaffihúsið Gísli, Eiríkur, Helgi
verður opið daglega í allan vetur
frá kl. 11 til 18 en Heiða segir að
viðtökur hafi verið góðar og margir
sem leið eiga um Dalvík hafi staldrað
við, fengið sér kaffisopa og litið
á innanstokksmuni. Haustið og
komandi vetur lofi góðu, en ýmsar
uppákomur eru í farvatninu og þá má
búast við að margt verði um manninn í
bænum, enda skíðasvæði Dalvíkinga
í Böggvisstaða fjalli vinsælt. Hópar
af ýmsu tagi eiga þess kost að panta
utan hefðbundins afgreiðslutíma og
liggja þegar fyrir fjölmargar pantanir
frá t.d. starfsmanna félögum. „Það er
bara spennandi tími fram undan og
hér verður mikið um að vera,“ segir
Heiða. Hægt er að hafa samband utan
opnunartíma ef hópar hafa áhuga á
að koma í heimsókn.
/MÞÞ
Myndir / MÞÞ
-