Bændablaðið - 03.10.2013, Blaðsíða 47
47Bændablaðið | Fimmtudagur 3. október 2013
Bækur
Með útgáfuteiti á Árbæjarsafni
Útgáfufélagið Uppheimar
og Bjarni Guðmundsson á
Hvanneyri héldu í síðustu viku
útgáfuteiti í Árbæjarsafni.
Tilefnið var útkoma bókarinnar
Frá hestum til hestafla eftir
Bjarna.
Þetta er þriðja bók Bjarna um
verkhætti til sveita á tækniöld. Þær
fyrri, … og svo kom Ferguson og
Alltaf er Farmall fremstur, hafa
notið mikillar hylli, enda rekur
höfundur sögu íslensks samfélags
út frá framvindu í landbúnaði á
fróðlegan og bráðskemmtilegan
hátt, að ógleymdu frábæru
myndefni.
Í þessari bók segir Bjarni sögur
af vinnuhestum og hestanotkun við
bústörf, fyrstu dráttarvélinni sem til
Íslands kom, Akranesstraktornum
svonefnda, Lanz-þúfnabananum
og loks af landbúnaðarjeppunum
Willys og Land Rover. Þá rifja átta
einstaklingar upp minningar sínar
frá þessum breytingatímum.
Í tilefni af útkomu þriðju
bókarinnar í þessum flokki hafa
verið sett í sölu 100 tölusett sett af
bókunum árituðum í öskju.
Bjarni lék bókstaflega við hvern
sinn fingur í útgáfuteitinu. Fyrir
utan að lesa upp úr verkinu dró
hann fram gítar og söng ljóð eftir
Guðmund Inga þar sem hann lýsir
heyskap þar sem hestum var beitt
fyrir heyvinnslutækin. Og Bjarni spilaði og söng um heyskapartækni liðinna tíma.
Bjarni við forláta Willys-jeppa sem einn gestana mætti á í fögnuðinn. Myndir / HKr.
Landsmarkaskrá
2013
Landsmarkaskrá 2013, sú fjórða í röðinni, er
til sölu á skrifstofu Bændasamtaka Íslands í
Bændahöllinni við Hagatorg í Reykjavík (s.
563-0338 eða á jl@bondi.is). Verð kr. 9.500,-
kr. m. vsk. Upplag er takmarkað, eingöngu
tölusett eintök.
Fáein eintök eru eftir af 2004 útgáfunni en
hinar tvær eru uppseldar.
Bændasamtök Íslands,
Bændahöllinni við Hagatorg,
107 Reykjavík