Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.03.1988, Page 10

Læknablaðið - 15.03.1988, Page 10
78 LÆKNABLAÐIÐ ýmsa aðra svonefnda áhættuþætti, sem geta rýrt beinvef óháð þessu tvennu, þótt í minna mæli sé. Þar má nefna reykingar, óhóflega áfengisneyslu og mikinn kalkskort, auk ýmissa langvinnra sjúkdóma og lyfjanotkunar. Er unnt að auka hámarksbeinstyrk og viðhalda honum fram að tíðahvörfum? Eins og að framan greinir, er talið að hámarksbeinstyrkur sé að töluverðu leyti bundinn erfðum. Vaxandi áhugi er nú á að rannsaka aðra áhrifsþætti, svo sem líkamshreyfingu, kalkneyslu og hormónastöðu fyrir tíðahvörf. Hvað síðast talda atriðinu viðvíkur, er ljóst að estrógenskortur er ekki síður adrifaríkur á þessu skeiði ævinnar. Lýsandi dæmi um það eru þær keppnisíþróttakonur sem vegna undirmálsþyngdar eða annarra atriða tengd æfingum og keppni skrúfa fyrir framleiðslu gónadótrópína og þar með estrógena. Afleiðingin er veruleg beinþynning, einkum í frauðbeini. Athyglisvert er að þarna bæta íþróttir ekki upp estrógenskort. Auk þessa er rökrétt að álykta, að vægari estrógenskortur en hér greinir frá, geti leitt til ótímabærrar rýrnunar á beinvef. Hvert er samband kalkneyslu og beinstyrks? Því fer fjarri, að búið sé að setja niður deilur um samband kalkneyslu og beinstyrks. Sé reynt að vinsa það bitastæðasta úr aragrúa rannsókna á þessu mætti ef til vill fullyrða eftirfarandi: 1) Ríkuleg kalktekja (a.m.k. 1.200 mg) á vaxtarskeiði er nauðsynleg til þess að tryggja eðlilegan beinstyrk á fullorðinsárum. 2) Rétt er að mæla með kalktekju sem nemur 1.000 mg á dag fyrir fullorðnar konur. 3) Þessi kalkneysla kemur ekki í veg fyrir þá hröðu beinrýrnun, sem verður eftir tíðahvörf. 4) Kalkgjöf, sem nemur allt að 1,5 til 2,5 g á dag hjá konum með brot af völdum beinþynningar, virðist draga nokkuð úr rýrnun beina og jafnvel minnka líkur á frekari brotum. Er hægt að auka og/eða viðhalda beinstyrk með líkamsæfingum? Þessu má ugglaust svara játandi, en þó er tilfinnanlegur skortur á upplýsingum um hve miklar og hvers konar æfingar styrkja helst beinvef. Til dæmis álíta margir, að sund sé ekki heppilegt vegna þyngdarleysis. Þetta er þó enn að miklu leyti ókannað mál. Sýnt hefur verið fram á verulega aukningu á beinstyrk hjá miðaldra og öldruðum konum með beinþyningu eftir hóflegar líkamsæfingar í um það bil klukkustund á viku í fjóra til sex mánuði. Engar óyggjandi rannsóknarniðurstöður liggja fyrir á sambandi hóflegra æfinga og beinstyrks fyrir tíðahvörf. Þó er vitað að keppnisíþróttafólk hefur almennt meiri beinmassa en jafnaldrar þess. Hafa orðið framfarir í meðferð sjúklinga á brotastigi? Vissulega, en þó er það staðreynd, að það er mjög erfitt að auka við beinstyrk þegar þessu stigi er náð. Hér myndi kjörmeðferð verða sú, er leiddi til aukningar á beinmassa (og þar með á beinstyrk). Flest lyf sem gefin eru á þessu stigi virðast þó í besta falli hindra frekari gisnun, oftast með beinum eða óbeinum hemlunaráhrifum á niðurbrot beinvefjar. Það er þó undir hælinn lagt hvort brotum fækkar eða ekki, þar sem beinstyrkur er þegar kominn niður fyrir svonefndan brotaþröskuld (ímyndaðan). í þessum flokki eru til dæmis kalsíum, kalsítónín, dífosfonöt, svo sem ADP og dídrónat og loks estrógen, sem skiljanlega eru þó áhrifaríkari því nær tíðahvörfum sem þau eru gefin. Reyndar er sammerkt með öllum þessum lyfjum, að hægt er að sýna fram á dálitla aukningu á beinmassa í upphafi meðferðar, jafnvel eitt til tvö ár. Þetta skýrist þó sennilega af því, að eftir að niðurbrot er stöðvað, heldur uppbygging áfram óbreytt um nokkra hríð, en hægir síðan á sér fyrir tilverknað þess óþekkta lögmáls, sem stjórnar beinbúskap og lagar uppbyggingu að niðurbroti og öfugt. Af Iyfjum, sem örva nýmyndun beins, hefur natríumflúor vakið mesta eftirtekt hin síðari ár. Vitað er að flúor hefur margvísleg áhrif á bein og má þar nefna útfellingu í beinvef sem flúorapatít og mítógen áhrif á beingerðarfrumur. Árangurinn er aukin beinmyndun, en ekki eru menn á eitt sáttir um gæði þessa beins. Þessi áhrif eru reyndar eingöngu bundin við frauðbein og flúormeðferð takmarkast því við konur, sem hafa endurtekin samfallsbrot í hrygg. Þar virðist flúormeðferð fækka brotum verulega (5), en allhá tíðni aukaverkana og óvissa um áhrif á útlimabein, þar á meðal lærleggsháls, valda því að ekki er hægt að mæla með almennri notkun þess eins og er. Niðurstöður viðamikillar rannsóknar, sem nú stendur yfir í Bandaríkjunum og væntanlegar eru innan tveggja ára, ættu að varpa skýrara ljósi á stöðu flúors í meðferð beinþynningar.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.