Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.11.1993, Blaðsíða 42

Læknablaðið - 15.11.1993, Blaðsíða 42
372 LÆKNABLAÐIÐ ásigkomulag tanna stefndu. Verður því að leggja til grundvallar, ... að tjón stefndu sé að rekja til umræddrar vanrækslu, enda þótt með öllu sé ósannað að tönn hafi verið dregin úr stefndu á slysadeildinni.« I þessum dómi leiddi ófullkomin sjúkraskrá til þess að dregið var úr sönnunarkröfunum gagnvart tjónþola. Það er þó vert að minnast á það sem vel er gert og í áðurnefndum fjöltaugabólgudómi (8), fékk Landspítalinn klapp á kollinn og hrós frá Hæstarétti fyrir góða skráningu í sjúkraskrá. I dómnum er tekið sérstaklega fram að af hálfu Landspítalans skorti eigi sjúkraskýrslur eða önnur sönnunargögn um sjúkrahúsvist og meðferð konunnar. SAMÞYKKI 1. Almennt. Því hefur stundum verið haldið fram í dómum að þar sem ekki hafi verið leitað eftir samþykki sjúklings fyrir ákveðnum aðgerðum eða að sjúklingur hafi ekki verið upplýstur um afleiðingar aðgerðar, þá sé bótaskylda fyrir hendi. Þær spurningar hafa því vaknað hvort ástæða sé fyrir íslensk sjúkrahús að taka upp þá reglu að fá skriflegt samþykki frá sjúklingum áður en þeir gangast undir tiltekna meðferð eða aðgerð. Slíkt skriflegt samþykki (informed consent) tíðkast víða erlendis, einkum í Bandaíkjunum. 2. 10. gr. lœknalaga nr. 53/1988. Samkvæmt 10. gr. læknalaga nr. 53/1988 ber lækni að jafnaði að upplýsa sjúkling um ástand, meðferð og horfur. I greinargerð með læknalögunum kemur fram að læknar eigi að leita samþykkis fyrir aðgerðum. Læknir eigi að fræða sjúklinginn um hættur aðgerðarinnar. Skal sjúklingur fræddur um allt sem málið snertir, til dæmis hvernig hann sé andlega og líkamlega búinn undir aðgerð. Einnig verður að leiðbeina sjúklingi um það hvernig hann geti sjálfur sem best búið sig undir aðgerðina, sé sjúklingur á annað borð fær um það. I greinargerðinni með læknalögunum kemur einnig fram að í þeim tilvikum sem sjúklingur heldur því fram að nauðsynlegar forsendur hafi skort fyrir samþykki hans, til dæmis að skort hafi á upplýsingar af hendi læknis, sé það almennt viðurkennt að sjúklingur beri sjálfur halla af skorti á sönnun, það er sönnunarbyrðinni er snúið við (1). Læknirinn þarf ekki að sanna að hann hafi gegnt þessari lögbundnu skyldu sinni, heldur verður sjúklingurinn að sanna að hann hafi ekki fengið allar nauðsynlegar upplýsingar. Það er allur gangur á því hér á landi hversu vel sjúklingar eru upplýstir um áhættur af aðgerðum. Það þykir væntanlega ekki góð latína að hella yfir sjúkling, sem er í þann veginn að leggjast undir hnífinn í einhverja einfalda aðgerð, upplýsingum um að allar aðgerðir séu hættulegar, hann geti fengið blóðtappa og dáið, hann geti lent í hjartastoppi og lamast vegna heilaskemmda, hann geti selt upp í miðri svæfingu og dáið köfnunardauða. Sjúklingurinn væri sjálfsagt orðinn svo skelfingu lostinn að líkurnar á að hann lenti í hjartastoppi myndu margfaldast. 3. Helsinkiyfirlýsingin. 1 svokallaðri Helsinkiyfirlýsingu frá 1964 (endurskoðuð síðast árið 1989), sem hefur að geyma ráðleggingar og leiðbeiningar fyrir lækna um læknisfræðilegar vísindarannsóknir, sem gerðar eru á mönnum (13), kemur fram í grein 1.9. að læknir eigi að afla sér skriflegs samþykkis frá þeim sem taka þátt í slíkum rannsóknum. í lok greinarinnar er tekið fram að viðkomandi eigi að gefa samþykkið af fúsum og frjálsum vilja. Af einhverjum ástæðum hafa höfundar yfirlýsingarinnar séð ástæðu til að tíunda það sérstaklega. 4. Gildi samþykkis í skaðabótarétti. í skaðabótarétti er almennt talið að gilt samþykki hafi þau áhrif að athöfn sú er leitt hefur til tjóns telst lögmæt gagnvart þeim sem bundinn er af samþykkinu. Tjónvaldur ber því ekki bótaábyrgð. Þýðir þá undirritun sjúklings undir svona samþykki það að hann væri firrtur öllum bótakröfum vegna tjóns sem hann yrði fyrir og rekja mætti til aðgerðarinnar? í greinargerð með læknalögum nr. 53/1988 kemur fram að fræðimenn séu almennt sammála um það, að ekki megi leyfa lækni að láta sjúkling skrifa undir yfirlýsingu fyrirfram, þar sem læknir leysir sig undan ábyrgð. Slíkt beri aðeins að taka gilt sé um að ræða ólæknanlega sjúkdóma samkvæmt viðurkenndum fræðum og læknirinn sé að koma með einhverja nýja aðferð, sem hann kynnir hinum sjúka og fyrirsjáanlegt er að árangur sé óviss (1).

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.