Morgunblaðið - 22.12.2011, Blaðsíða 29

Morgunblaðið - 22.12.2011, Blaðsíða 29
MINNINGAR 29 MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 22. DESEMBER 2011 kynnast Eyjamanni eins og Malla til að skilja Eyjarnar og bestu einkenni fólksins í Eyjum, rækt- arsemi við náungann og fjöl- skylduna og brennandi áhuga fyrir hag samfélagsins alls. Eddi var afi eins og þeir gerast bestir. Reglulega rakst maður á hann með barnavagninn með bros á vör og aldrei var hann flottari en þegar jafnvel öll barnabörnin voru með honum á flandri í Eyjum, í sundi eða á glæsilegu heimili þeirra hjóna. Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast Edda og Siggu og afkomendum þeirra. Við Hall- dóra sendum Siggu og fjölskyld- unni allri okkar innilegustu sam- úðarkveðjur. Megi minningin um merkan og góðan mann lifa. Þór Sigfússon. Með Eyjólfi Martinssyni er genginn vænn maður og góður drengur. Kynni mín af Eyjólfi spanna yfir 40 ár. Þá dvaldi ég um sumartíma í skjóli hjá góðu fólki í Vestmannaeyjum. Þá vann ég hjá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. Á skrifstofunni var Eyjólfur sá er hélt upp aga og reglufestu á með- an Einar Sigurjónsson fylgdist með vinnslu, t.d. með því að at- huga hvernig flökunarvélar unnu á þorskinum. Svo leið áratugur og strax í upphafi seinni vistar- innar eignaðist ég vin í Eyjólfi. Svo kom í ljós að eiginkonur okk- ar voru skyldar í ætt Jóns eld- klerks í gegnum Pál í Arnar- drangi. Eyjólfur helgaði Ísfélagi Vest- mannaeyja hf. lífsstarf sitt. Þar starfaði hann í full 50 ár og var heiðraður fyrir starf sitt í þágu félagsins skömmu fyrir andlát sitt. Eyjólfi var annt um starfs- fólk Ísfélagsins og í raun annt um allt vinnandi fólk í Vestmanna- eyjum. Hann var í forystusveit Lífeyrissjóðs Vestmannaeyja í tæp 40 ár og bar ávallt hag sjóðs- félaga fyrir brjósti. Þar fyrir utan var hann fulltrúi Danadrottning- ar í Vestmannaeyjum í rúm 30 ár. Fyrir þau störf veitti drottningin honum dannebrogsorðuna árið 1994. Í seinni vist minni í Vest- mannaeyjum áttum við Eyjólfur gott og farsælt samstarf. Báðir bárum við hag fyrirtækja okkar fyrir brjósti með fullum skilningi á öllum skyldum. Það var þægi- legt að vera í vinfengi við Eyjólf. Hann hafði skopskyn, sem féll að mínum smekk. Einhverjum kann að finnast skopið kennt við gálga en hann meiddi engan. Sumir sögðu að skopskynið hefði komið frá föðurgarði í Höfn. Eitt sinn áttum við samstarf í skemmti- nefnd fyrir 59. árshátíð í AKO- GES. Við ákváðum að hafa árshá- tíðina lágstemmda en þegar upp var staðið gaf hún þeirri 60. ekk- ert eftir. Eyjólfi var annt um AKOGES, en þar var hann eitt ár formaður og síðar heiðursfélagi. Í íþróttum var Eyjólfur grænn en blár í stjórnmálaskoðunum. Eitt sinn ferðuðumst við í hópi með tvennum öðrum hjónum um Bandaríkin. Þau voru góðir ferðafélagar, þau Eyjólfur og Sigríður Sylvía. Síðustu þrjú árin voru Eyjólfi erfið. Oft hefur höfuðið verið þungt í sjúkdómsstríðinu, stund- um hlé en svo kom óvætturinn aftur. Fyrir hálfum mánuði hitt- umst við á sjúkrahúsinu í Vest- mannaeyjum. Það var verulega af Eyjólfi dregið. Honum var stirt um mál en við vorum sammála um að vera saman og hlusta á þögnina. Við vissum báðir hvað við ætlum að segja, orð voru óþörf. Eyólfur var ekki einn með Sig- ríði Sylvíu konu sinni. Saman áttu þau 45 góð ár. Kurteisi og mann- kostir barnanna, Jóhönnu Maríu og Martins, bera foreldrunum fagurt vitni. Í barnabörnunum komu nýir augasteinar. Hugur okkar hjóna er með fjölskyldunni, móður Eyjólfs og systrum hans. Þegar leiðir okkar Eyjólfs skilur þökkum við Auður María og dætur okkar þeim hjón- um vináttu og tryggð. Farðu vel, vinur. Guð geymi Eyjólf Martinsson. Vilhjálmur Bjarnason. Gull af manni, góðviljaður, glaðbeittur og hittinn, ráðagóður með afbrigðum, dýrgripur sem maður myndi aldrei skipta á fyrir neitt annað. Hann Eddi Malla var samnefnari fyrir svo margt, hann var eins og stórfljótið sem tekur við mörgum lænum og rennur síðan í vísum farvegi, magnað en milt. Allir gleðjast í góðu veðri. Eyjólfur Martinsson var gott veður. Það voru alltaf hlunnindi að hitta hann, þægilegt, hvetjandi og gefandi. Hann hafði svo skemmtilega stjórn á skapi sínu, léttlyndur að eðlisfari eins og allt hans fólk sem er einn af burðar- ásum trausts samfélags, en þegar hann gagnrýndi var það alltaf í formi spurningar, varfærnislega en markvisst. Eddi Malla var svo dæmigerð- ur Eyjamaður, æðrulaus og fullur af eldmóði, en ekkert að æsa sig yfir hlutunum, náttúrubarn og heimsmaður í senn og hún Sigga hans var punkturinn yfir lífs- leiknum þeirra. Það skiptir öllu að skipaflotinn okkar eigi heima- höfn. Allir sem kynntust Edda og Siggu áttu heimahöfn hjá þeim. Eddi Malla kom aldrei inn á völlinn með gassagangi. Allt í einu var hann mættur, klár í slag- inn og hann kom víða við í þeim efnum, lagðist á árarnar með þessum jöfnu og löngu togum bestu ræðara. Hann var eins og Oddgeirslögin sem komu frá himninum um huga tónskáldsins og slípuðust á safírum Eyjanna. Hvergi annarsstaðar var þessi tegund til, einstakt blóm í eyjum Jarðar. Það er eins og það hafi hrunið úr Heimakletti við brotthvarf Edda langt fyrir aldur fram, en minningarnar eru sterkar og góð- ar og þær fylla í skörðin af því að það er innistæða fyrir þeim, ein- lægni, væntumþykja og virðing. Megi góður Guð fylgja vini okkar á bringi og bekki eilífðar- innar sem brimar undir sjór, en blómvöndurinn, fólkið hans ber merkið áfram, hlýjuna og brosið í augum og allt sem því fylgir í lífs- ins melódí þeirra sem áfram anda þessa heims. Eddi Malla er mættur á völlinn í Guðsranninum og fyrirliðinn gleðst yfir glaðbeittum og ráða- góðum liðsmanni, gulli af manni. Árni Johnsen. Vinur minn Eyjólfur Martins- son eða Eddi Malla, eins og hann var ávallt kallaður, er látinn og hetjulegri baráttu hans við illvíg- an sjúkdóm er lokið. Eddi ólst upp ásamt systrum sínum, Rósu og Emelíu, við ástríki foreldra sinna, þar sem gamlar og góðar dyggðir voru í hávegum hafðar. Að lokinni skólagöngu sinni í Gagnfræðaskólanum fór hann í Verslunarskólann í Reykjavík, þar sem hann naut virðingar kennara og samnemenda sinna fyrir fágaða og góða framkomu og framúrskarandi námsárangur. Hann hóf ungur störf við fyrir- tæki föður síns og afa, en fyrir- tækið sem hét Höfn rak bæði út- gerð og fiskvinnslu ásamt því að vera umboðsaðili fyrir Skeljung í Eyjum. Eddi hóf störf hjá Ís- félagi Vestmannaeyja árið 1961 og starfaði þar í yfir fimmtíu ár sem skrifstofustjóri, og sem framkvæmdastjóri á árunum 1986 til 1991. Hann var um tíma í stjórn Knattspyrnufélagsins Týs og í stjórn ÍBV. Í stjórn Lífeyr- issjóðs Vestmannaeyja, bæði í að- alstjórn og sem varamaður allt frá stofnum 1970 til 2008, þar af formaður árin 1977 til 1981, eða í þrjátíu og átta ár. Þá var hann í stjórn Bátaábyrgðarfélags Vest- mannaeyja um árabil, eða allt þar til það sameinaðist Trygginga- miðstöðinni. Hann var einnig í stjórn Lifrarsamlags Vest- mannaeyja, í stjórn skipafélags- ins Jökla hf. og stjórn Samfrost í Eyjum. Einnig var hann um tíma í stjórn Sölumiðstöðvar Hrað- frystihúsanna og í stjórn Verð- lagsráðs sjávarútvegsins, að ógleymdu í stjórn Ísfélags Vest- mannaeyja um árabil. Hann var meðlimur í Rótary í Eyjum og Agóges, þar sem hann hafði gegnt stjórnunarstörfum um ára- bil og var þar heiðursfélagi. Að framansögðu má sjá að Eddi naut ávallt trausts og virðingar samferðamanna sinna fyrir heið- arleika, trúnað og tryggð við það sem honum var falið. Hann var ræðismaður Dana um árabil, tók við því af föður sínum, sem lést árið 1976. Vinátta okkar Edda hefur staðið í áratugi. Eddi var mikill fjölskyldufaðir og sinnti fjöl- skyldu sinni af mikilli alúð. Jafn- framt var hann í góðu sambandi við frændfólk sitt og vini. Við Eddi ferðuðumst mikið saman, bæði heima og þó sérstaklega er- lendis, en saman fórum við til Evrópulanda, Ameríku, Japans, Taílands og Hong Kong. Ávallt var hann jafn tryggur og góður ferðafélagi. En leiðir okkar lágu líka saman á heimavelli, þar sem við störfuðum báðir við sjávarút- veg og fiskvinnslu hjá sitthvoru fyrirtækinu. Aldrei bar þar nokk- urn skugga á, enda bjó hann yfir miklu og góðu jafnaðargeði. Að eignast góðan vin er dýrmæt gjöf og til þess fallin að rækta hið góða í manninum og þegar ég lít til baka finnst mér að óeigingjörn vinátta hljóti að vera systir kær- leikans. Eddi kynntist konunni sinni Siggu á árinu 1963. Þau gengu í hjónaband 1966. Eignuð- ust þau hjón tvö börn, Jóhönnu Maríu og Martin. Með söknuði og trega kveð ég góðan vin og félaga en mestur er þó söknuðurinn hjá eiginkonu hans, börnum og barnabörnum og aldraðri móður hans og systr- um og fjölskyldum þeirra. Við Helga sendum ykkur inni- legar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu um góðan dreng. Stefán Runólfsson. Við kveðjum heiðursmanninn Eyjólf Martinsson. Hann gengur nú um grundir þar sem grænt er grænna en nokkurs staðar, eins og hann gekk svo oft um Heima- ey, eyjuna grænu sem honum þótti svo vænt um. Ekki það að hann hafi verið tilbúinn að fara, alls ekki, honum fannst hann eiga mikið eftir ógert. Í byrjun desem- ber varð Ísfélagið 110 ára og Eddi var heiðraður fyrir langt og farsælt starf, ævistarf. Þarna er samofin merkileg saga, saga ætt- ernis og atvinnusögu. Eddi starf- aði fyrir þetta félag í 50 ár, og kom að flestum þáttum, sem starfsmaður og stjórnandi, jafn- framt stjórnarsetu í fjöldamörg ár, og trúnaðarstörfum öðrum. Þetta segir mikið, hann var traustur og traustsins verður. En umfram allt var hann svo mikill heiðursmaður, sem er það orð sem lýsir honum best finnst mér. Það er margs að minnast eftir samvinnu við frænda og vin í Ís- félaginu í yfir 30 ár. Ég þakka fyrir þann tíma. Aldrei nokkurn tímann, aldrei, heyrði ég Edda tala illa um menn eða hallmæla fólki, það segir meira en margt. Hvernig er það hægt? En þannig var hann. Þetta er þrátt fyrir allt ótímabært, Edda langaði svo að fylgja börnum og barnabörnum betur eftir og miklu lengur. En við ráðum ekki alltaf för. Elsku karlinn minn, ég og svo margir aðrir munu sakna vinar í stað, en það sem við höfum eru allar þessar góðu minningar. Fjölskyldan og barnabörnin eiga um sárt að binda, það er enginn tilbúinn að kveðja öðlinginn. Minningin lifir um góðan dreng. Tómas Jóhannesson. Vinir fara fjöld og nú er fjórði félaginn úr stjórn Knattspyrnu- félagsins Týs frá 1958-1964 fall- inn frá. Fyrst kvöddum við formann- inn Eggert Sigurlásson, þá Guð- jón Magnússon varaformann og síðan Adolf Óskarsson með- stjórnanda. Nú er það vinur og félagi í hálfa öld, Eyjólfur Martinsson, eða Eddi Malla, eins og við fé- lagarnir nefndum hann ávallt. Með tilkomu Edda í stöðu gjaldkera urðu umskipti til hins betra í fjármálum félagsins og allt fyrirkomulag peningamála á Þjóðhátíð gjörbreytt. Árið 1961 varð Týr fertugur og metnaður okkar að gera vel. Meðal annars var ráðinn erlend- ur þjálfari fyrir knattspyrnudeild félagsins og 1962 var farin fyrsta keppnisferð Eyjapeyja á erlenda grund, er 2. flokkur Týs fór til Vestur-Berlínar, undir farar- stjórn séra Jóhanns Hlíðar. Þetta voru annasöm ár, skemmtileg og eftirminnileg, sem við félagarnir höfum oft rifjað upp. Árið 1966 göngum við undirrit- aðir í félagið Akóges og Eddi tveimur árum seinna. Skerpti það enn frekar vináttuna, þar sem við höfum átt þroskandi og skemmti- legar samverustundir. Eddi gegndi mörgum trúnaðarstörfum í Akóges og var nýlega kjörinn heiðursfélagi. Eddi var sannur Eyjapeyi sem ólst upp og starfaði alla tíð í nánu sambandi við allt mann- og at- hafnalíf Eyjamanna. Þín er ljúft að minnast og megi góður Guð styðja eftirlifandi eig- inkonu, aðstandendur alla og vini nær og fjær. Garðar Björgvinsson og Hermann Einarsson. Kveðja frá Ísfélagi Vestmannaeyja hf. Eyjólfur Martinsson eða Eddi eins og hann var alltaf kallaður er látinn eftir erfið veikindi. Hann átti að baki 50 ára starfs- aldur hjá Ísfélagi Vestmannaeyja og þar með lengstan samfelldan starfsaldur núverandi starfs- manna hjá félaginu. Hann var viðstaddur 110 ára afmæli Ís- félagsins sem haldið var upp á 4. desember sl. og þar gátum við heiðrað hann fyrir langan og far- sælan starfsferil. Það var honum mikils virði að komast til Eyja þessa helgi og vera á árshátíð AKOGES þar sem hann var heið- ursfélagi og síðan í Ísfélagsaf- mælinu daginn eftir. Það er mikilsvert hverju fyr- irtæki að hafa gott starfsfólk. Eddi vann sín störf af samvisku- semi, skyldurækni og heiðar- leika. Hann var góður félagi og gott að leita til hans. Hann var einstaklega minnugur og gaman að hlusta á hann þegar hann sagði frá mörgum gengnum for- ystumönnum Ísfélagsins, sem hann hafði unnið með og taldi sig hafa lært mikið af. Eddi sagði svo oft að eindrægni og samheldni hefði einkennt starfsemi félags- ins í gegnum árin og slíkt væri ómetanlegt. Við þökkum Edda samfylgdina og störf hans í þágu Ísfélagsins. Guð blessi minningu Edda sem við kveðjum með eftirsjá og virð- ingu. Við sendum eiginkonu, börn- um og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Fyrir hönd Ísfélagsins, Stefán Friðriksson. Mig langar í nokkrum orðum að minnast vinar míns og starfs- félaga Eyjólfs Martinssonar eða Edda Malla eins og hann var æv- inlega nefndur manna á meðal. Edda hef ég þekkt lengi og ég minnist ánægjulegra samskipta við hann þegar ég árið 1977 skrif- aði stúdentsritgerð um Ísfélagið 75 ára. Þá var Eddi skrifstofu- stjóri Ísfélagsins og var gott að leita til hans eftir upplýsingum um málefni Ísfélagsins. Leiðir okkar lágu síðan saman í félaginu Akóges og við sameiningu Ís- félagsins og Hraðfrystistöðvar- innar árið 1992 urðum við vinnu- félagar en þá tók Eddi að sér starf aðalbókara í hinu sameinaða félagi. Það vantaði ekki marga daga upp á að samstarfið næði 20 árum. Einkar ánægjulegt var að vinna með Edda sem var með ein- dæmum samviskusamur og vinnufús. Það er margs að minn- ast eftir öll þessi ár og mun ég sakna þín sárt. Alltaf var Eddi léttur í lund og oft tókum við okk- ur stund á milli stríða til að ræða hin ýmsu mál. Um árabil kom ég við á Brimhólabrautinni á morgn- ana og tók Edda á leið í vinnu og var farinn bryggjurúntur og stað- an við sjávarsíðuna metin áður en haldið var í vinnuna. Eddi var mikill Eyjamaður og undi hag sínum best hér í Eyjum, en jafn- framt var hann iðinn við að fara til Reykjavíkur að hitta börnin og barnabörnin enda mikill fjöl- skyldumaður. Það er mikill miss- ir fyrir okkur Ísfélagsfólkið að missa jafnöflugan liðsmann til 50 ára eins og Eddi var. Mestur er þó missir fjölskyldunnar sem kveður traustan vin og félaga. Elsku Sigga mín, Jóhanna María og Malli. Ykkur og fjöl- skyldum ykkar sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Megi guð vernda ykkur og styrkja í fram- tíðinni. Megi minningin um Eyjólf Martinsson lifa um alla framtíð. Hörður Óskarsson. Góðra manna er gott að minn- ast og á það vel við um Eyjólf Martinsson. Hann var trúr sínum og kom fram við alla sem jafn- ingja. Það segir meira en mörg orð trúnaður hans við vinnuveit- anda sinn, en hann vann hjá Ís- félagi Vestmannaeyja í 50 ár. Geri aðrir betur. Eddi Malla, en það var hann ávallt kallaður, var myndarlegur maður, kvikur í hreyfingum og léttur í lund og alltaf stutt í brosið. Hann var Eyjapeyi af bestu gerð og vildi hvergi annars staðar vera. Ég hitti Edda oft í sundlaug- inni og undantekningarlaust spurði hann: Hvað er frétta af sjónum? Hann vissi jú betur en margur að góðar fréttir af sjón- um voru Eyjunum hans mikil- vægar, hann var með puttana á púlsi lífsins við höfnina. Það er ekki langt síðan að við hittumst á skrifstofu Ísfélagsins, en þar hanga á veggjum ljósmyndir teknar í miklum aflahrotum. Við fórum að rifja upp hvenær þessar myndir hefðu verið teknar og fundum út að trúlega hefði það verið 1964, en þá vertíð var pabbi minn með vélbátinn Stefán Þór og ég þá fjögurra ára man að við mamma löbbuðum niður á bryggju að morgni föstudagsins langa en þá var pabbi að koma í land með fullan bát síðastur allra báta og gat Eddi sagt mér ástæðu þess. Það hafði bilað hjá þeim netaspilið, en á þessum tíma var Eddi að leysa af á vigtinni. Eddi var 23 árum eldri en ég og hafði hann frá miklu að segja þegar rifjaðir voru upp gamlir tímar, t.d. frá því fyrir gos, en hann eins og svo margir missti sitt umhverfi undir hraun og það er sárt að komast aldrei á æsku- stöðvarnar, vegna þess að þær eru ekki til. Eddi kom víða við á sinni leið í gegnum lífið, hann var fé- lagslyndur maður sem hafði góða nærveru. Hann var m.a. félagi í knattspyrnufélaginu Tý og vann þar vel fyrir sitt félag eins og annars staðar þar sem hann gaf kost á sér. Eddi varð félagi í Akó- ges 1968 og sat fjórum sinnum í stjórn félagsins. Ég vil að lokum biðja góðan Guð að styrkja fjölskyldu Edda á þessum erfiðu tímum Fyrir hönd Akóges í Vest- mannaeyjum, Eyjólfur Guðjónsson. ✝ Faðir okkar, RAGNAR ÁGÚSTSSON skipstjóri, lést á dvalarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði mánudaginn 19. desember. Útför hans verður gerð frá Seltjarnarneskirkju fimmtudaginn 29. desember kl. 13.00. Ágúst Aðalsteinn Ragnarsson, Rafn Alexander Ragnarsson, Ragnar Hilmir Ragnarsson og fjölskyldur. ✝ Móðir mín, amma og langamma, ANNA ANITA VALTÝSDÓTTIR, Lindargötu 57, áður Hverfisgötu 112, lést á Landspítalanum Fossvogi laugardag- inn 3. desember. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Rósý Karlsdóttir, Ásta Harðardóttir, Óskar Eiðsson, Guðfinnur Harðarson, Guðný Birgisdóttir, Aníta Harðardóttir og barnabarnabörn. ✝ Ástkær maðurinn minn, pabbi okkar, tengda- pabbi, afi og langafi, GUÐMUNDUR G. GÚSTAFSSON, Kristnibraut 59, Reykjavík, lést mánudaginn 19. desember. Útförin fer fram frá Guðríðarkirkju þriðju- daginn 27. desember kl. 13.00. Else Zimsen, Gunnar Guðmundsson, Ingveldur Finnsdóttir, Kristján Guðmundsson, Sigríður Ólöf Árnadóttir, Gréta Björk Guðmundsdóttir,Terje Almening, barnabörn og barnabarnabarn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.