Morgunblaðið - 29.06.2012, Blaðsíða 28

Morgunblaðið - 29.06.2012, Blaðsíða 28
28 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 29. JÚNÍ 2012 ✝ Sveinn MikaelÁrnason fædd- ist í Reykjavík 23. janúar 1952. Hann andaðist á líkn- ardeild Landspít- alans í Kópavogi 24. júní 2012. Foreldrar: Árni Rafn Kristbjörns- son, f. 11. ágúst 1920, d. 27. júlí 1990, og Guðrún Sveinsdóttir, f. 29. mars 1923. Maki síðan 6. júlí 1974: María Gréta Guðjónsdóttir, f. 3. febr- úar 1955. Foreldrar hennar: Guðjón Guðnason, f. 2. sept- ember 1930, d. 10. maí 2005, og Steinunn Gunnlaugsdóttir, f. 27. júní 1933. Börn Sveins og Maríu eru: 1) Guðrún Halla Sveins- dóttir, f. 10. desember 1976. Maki hennar er Sturla Hall- dórsson, f. 25. júní 1978, og eiga þau tvær dætur, Ásgerði og Gunnhildi. 2) Guðjón Már Sveinsson, f. 19. mars 1982. Eig- inkona hans er Hulda Hrafn- kelsdóttir, f. 15. desember 1983. 3) Arna Gréta Sveinsdóttir, f. 31. mars 1990. Sveinn og María hófu búskap árið 1974 í Hlíð- unum en frá árinu 1980 hafa þau búið í Kópavoginum, fyrst í Engihjalla 17, en þar bjuggu þau frá árinu 1980 til ársins 1992 þeg- ar þau fluttu í Lin- dasmára 46. Sveinn varð stúdent frá MH árið 1972 og hóf þá um haustið nám í íslenskum fræðum og sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk BA-námi 1977 og síð- ar námi í uppeldis- og kennslu- fræði. Samhliða námi kenndi hann í framhaldsdeild Lind- argötuskóla og í Menntskól- anum við Tjörnina, síðar Menntaskólanum við Sund, en þar kenndi hann þar til hann veiktist í byrjun febrúar 2010. Sveinn var áhugamaður um íþróttir og eftir að fjölskyldan fluttist í Kópavoginn varð hann stuðningsmaður Breiðabliks og sinnti ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagið um árabil. Útför Sveins fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 29. júní 2012, kl. 13. Það er alltaf undarleg tilfinn- ing þegar manneskja sem maður hefur þekkt næstum svo lengi sem maður man hverfur á braut. Þegar undirritaður flutti í Hlíð- arnar bara átta ára, var Sveinn einn af stóru strákunum í hverf- inu sem við pjakkarnir litum upp til og vildum líkjast. Svo liðu árin og við þekktumst alltaf en kynnt- umst upp á nýtt þegar sauma- klúbbur konunnar minnar reynd- ist vera allt saman gamlar skólasystur úr Hlíðaskóla og ein af þeim María sem hafði þá yf- irtekið kjallarameistarann í Norðurkjallaranum í MH, hann Svein. Það var alltaf gott að hitta Svein, hann var alltaf glaður og hress og þannig var hann fram að því síðasta. Ég hef aldrei hitt neinn sem hefur tekið örlögum sínum og því að fá erfiðan og and- styggilegan sjúkdóm af meiri yf- irvegun og æðruleysi. Það er svo undarlegt að hér fyrr á árum hafði Sveinn oft áhyggjur af heils- unni, kvefi og allskonar pestum og talaði gjarnan um þetta með áhyggjusvip, en þegar þessi stóri og ólæknandi sjúkdómur hafði hafið göngu sína, sýndi hann ekk- ert nema æðruleysi og yfirvegun. Þetta lýsir Sveini vel, hann átti það til að vera dyntóttur og taka í sig hluti sem enginn skildi al- mennilega, en alltaf þegar á reyndi og þegar hlutir eða at- burðir voru alvarlegir stóð hann eins og klettur og gaf sig hvergi. Hann sýndi vinum sínum um- hyggju þegar eitthvað var að og reyndist mér og mínum eins góð- ur vinur og hægt er að hugsa sér. Það er því með söknuði að við kveðjum hann núna, allt of snemma, en minningin um góðan vin og félaga hverfur aldrei. Með innilegustu samúðar- kveðjum til Maríu og allrar fjöl- skyldunnar. Júlíus K. Björnsson. „Samvisku ei særðu/sannleikann virtu/og kom til góðs sem máttu mest.“ (G.G.) Ofangreind orð finnst mér hafa einkennt vin minn Svein Árnason menntaskólakennara, sem nú er látinn langt um aldur fram. Vin- skapur okkar hófst veturinn 1979 er við vorum að vinna fyrir okkar fyrstu íbúðum í Engihjalla 17. Það var gaman að tala við hann, hann var víðlesinn íslenskufræð- ingur; jákvæðnin og hláturinn voru aldrei langt undan. Á haustmánuðum 1988 fór ég í heimsókn til hans á þriðju hæðina í þeim erindagjörðum að fá hann til starfa sem annar umsjónar- maður og fulltrúi foreldra í ung- linganefnd knattspyrnudeildar Breiðabliks, en strákarnir okkar voru þá að stíga þar sín fyrstu spor. Auðvitað gleymdist að segja honum hvað fólst í starfinu, m.a. eilífar fundarsetur, mætingar á nánast allar æfingar, innheimta félagsgjalda, skipulagning móta, þvottur á keppnisfatnaði, útburð- ur blaðaefnis, og aðrar fjáraflanir til þess að standa undir ferða- kostnaði og mótsgjöldum. Sam- starfið í unglinganefndinni gekk frábærlega, Sveinn ávann sér fljótlega virðingu annarra nefnd- armanna. Sveinn var fenginn til starfa í fleiri nefndum á vegum félagsins og svo var hann einn af forseta- klíkunni svonefndri sem stofnaði Stuðblikana, stuðningsklúbb knattspyrnudeildar. Árið 2001 veitti aðalstjórn Breiðabliks hon- um viðurkenningu fyrir dugnað og ósérhlífni við félagsstörf. Það var mikið lán að fá Svein til starfa fyrir knattspyrnudeildina, það fundu félagsmenn, foreldrar og iðkendur. Í honum sló hlýtt og mjúkt hjarta með ríka réttlætis- kennd. Hann var traustur, heið- arlegur og reiðubúinn til að hjálpa. Síðustu mánuði átti Sveinn við mjög erfið veikindi að stríða. Í heimsóknum til hans ræddi hann yfirvegað um sjúkdóminn og lífs- möguleika sína. Hann sýndi mik- ið æðruleysi og sagði frá hve þakklátur hann væri fyrir ástúð og ummönnun sem María eigin- kona hans og fjölskyldan öll veitti honum á þessum erfiðustu tímum hans. Það eru margir árgangarnir af iðkendum innan knattspyrnu- deildar og félagsmenn sem nú hugsa hlýtt til hans og fjölskyld- unnar, Sveinn skilur eftir sig góð- ar minningar í hjörtum þeirra sem voru honum samferða. Ég kveð þig vinur klökkur í lund með þökk fyrir góða samferð. Ég vona og bið þess á bænarstund, þín bíði guðdómleg heimferð. (P.G.H.) Maríu og fjölskyldu Sveins eru sendar innilegustu samúðar- kveðjur. Megi algóður guð styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Hvíl í friði, kæri vinur. Sveinbjörn F. Strandberg. Kynni mín af Sveini hófust um mitt sumar 1976. Þá vorum við saman með konum okkar í saumaklúbbsútilegu í Skorradal. Ég var nýr í þessum stóra og glaðværa hópi og sjálfsagt dálítið eins og utan við til að byrja með. Þá man ég að Sveinn vék sér að mér í miðjum klíðum, sagðist kunna á mér nokkur deili og á honum að skilja að hann vildi vita meir. Forvitnin var gagnkvæm og hófst með því vinátta sem ekki bar skugga á síðan. Við vorum um margt samstiga, báðir kennarar og áttum þar fyrir utan lík áhugamál sem með tíð og tíma fóru þó æ meir að hverfast um börnin og svo barnabörnin. Veiðiferðir á æskuslóðir móður hans norður í Tjörn á Skaga hverfa mér aldrei úr minni. Þegar ég kom þangað alveg ókunnugur kynnti hann mig fyrir sínu fólki og umhverfinu þannig að mér leið eins og ég væri meira en velkom- inn. Pabbi hans átti þar stóran hlut að máli og svo móðurfólkið. Hjá þessu fólki öllu var blíða og vinahót, lítillæti og hvergi remb- ingur. Ætli eftirminnilegasta ferðin hafi ekki verið sú sem við höfðum sinn frumburðinn hvor með í farteskinu. Þá var líka fjör. Tíðir búferlaflutningar ein- kenndu fjölskyldulíf ungs fólks á þessum tíma sem endranær. Þá var gott að eiga vini með hjálpfús- ar hendur. Burðarmenn, smiðir, saumakonur, múrarar, rafvirkj- ar, málarar; við vorum þetta öll saman að vissu marki. Á engan er hallað þó einstakt framlag Sveins sé tíundað. Það var ekki bara það að hann væri alltaf mættur fyrst- ur á vettvang og færi síðastur heldur kom hann gjarnan dagana á eftir til að aðgæta hvort ekki þyrfti meira við. Hjálpfýsi hans og greiðvikni var viðbrugðið. Árin liðu og við komumst á miðjan aldur og rúmlega það. Því fylgdi jafnframt að náðugum dög- um fjölgaði. Þá var það einn góð- an veðurdag að eiginkonum okk- ar þótti nóg um hóglífið og drifu saumaklúbbskarla sína í menn- ingar- og fræðsluferðir til útlanda hverja á fætur annarri. Í þessum ferðum var Sveinn hrókur alls fagnaðar. Og virtist engu skipta þó hann gengi ekki heill til skógar í þeirri síðustu. Þá sem endranær sparaði hann sig hvergi, heldur útdeildi af rausnarskap kátínu og gleði í vinahópnum. Sveinn var íslenskufræðingur að mennt, hafði kennslu að ævi- starfi og starfaði sleitulaust í rúm 37 ár. Segja má að þrjár kynslóðir framhaldsskólanema hafi notið leiðsagnar hans um gróðursprota íslenskrar tungu og menningar. Góðu heilli. Sem vinur og starfs- bróðir naut ég þekkingar hans og reynslu og ófá þáði ég hjá honum hollráðin þegar kom að kennslu- málum. Þó kenndi hann mér hvað mest og best þegar nær dró lok- um og minna rætt um fræðin. Má vera að mesti sársaukinn hafi verið afstaðinn, eða þá að hann var beislaður mjúklega í hlýju og glaðværð heimilis hans, þegar hann hispurslaust og án mála- lenginga greindi mér frá veikind- um sínum. Ég mátti þá skilja að hann mundi ganga sinn veg glað- ur í bragði hér eftir sem hingað til. Það gekk eftir. Megi minning- in um góðan dreng lifa. Innilegar kveðjur og þakkir frá okkur á Akranesi. Leó Jóhannesson. Það er með sorg í hjarta sem við kveðjum í dag kæran vin, Svein M. Árnason, sem fallinn er frá, langt um aldur fram, eftir harða baráttu við óvæginn sjúk- dóm. Baráttu sem aðeins gat lyktað á einn veg. Hann varðist af karlmennsku og hreysti en allt kom fyrir ekki. Örlögum sínum mætti Sveinn með æðruleysi og hugprýði eins og hans var von og vísa. Leiðir okkar lágu saman á menntaskólaárunum í Hamra- hlíðinni. Á þeim tíma voru þau Sveinn og María að kynnast og tókst fljótt með okkur góð vinátta þótt ólík værum. Eftir stúdents- próf fluttum við til Danmerkur. Það voru miklar gleðistundir þeg- ar við komum heim í fríum og hittum þau aftur, fyrst í Skafta- hlíðinni og síðan á Víðimelnum, og þegar þau heimsóttu okkur. Þá var löngum setið við fram und- ir morgun, hlustað á góða tónlist og lífsgátan leyst. Eftir að við fluttum aftur heim og fjölskyld- urnar stækkuðu voru samveru- stundirnar margar, bæði heima og heiman. Börnin okkar urðu góðir vinir og í mörg ár nutu fjöl- skyldurnar áramótanna saman. Það voru einstaklega ánægjuleg- ar stundir. Það skiptust á skin og skúrir og upplifðum við mikla sorg þegar Árni faðir Sveins varð bráðkvaddur við laxveiðar með okkur í Soginu. Eins og oft gerist í lífinu þá minnkuðu samskiptin með árun- um og það fennti í sporin um stund. Okkur er það mikils virði að hafa átt með Sveini og Maríu ljúfar samverustundir meðan á hörðum veikindum hans stóð og upplifa aftur gamla og einlæga vináttu. Vináttu sem hafði staðið áratugum saman og ekki borið skugga á. Vináttu sem er okkur öllum mjög dýrmæt og kær. Það fundum við glöggt þegar við kvöddum hann á líknardeildinni. Sveinn kenndi íslensku við Menntaskólann við Sund. Hann var mjög farsæll í starfi og ein- staklega vel liðinn af bæði sam- kennurum og nemendum. Sveinn var vinur vina sinna og sérlega greiðvikinn. Traustur og áreiðan- legur eins og hann átti kyn til. Róttækur var hann í þjóðmálum en mildaðist með árunum eins og flestir gera, sama á hvorum kant- inum þeir eru. Sveinn hafði til að bera sterka réttlætiskennd og bar farsæld annarra fyrir brjósti. Hann var einnig mjög lánsamur í einkalífi sínu. Góður eiginmaður, faðir og mikill fjölskyldumaður. Á kveðjustundu skortir alla orð og margs er að minnast. Um hugann flæðir hafsjór dýrmætra minninga um kæran vin sem nú er allur. Megi hann hvíla í guðs friði. Að leiðarlokum er okkur efst í huga þakklæti fyrir einlæga vináttu og allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Við og börnin okkar, Sessý og Magnús, vottum Maríu og börn- um þeirra Sveins, Guðrúnu Höllu, Guðjóni og Örnu Grétu, mökum þeirra og börnum, Guðrúnu móð- ur Sveins og Steinunni tengda- móður innilega samúð okkar. Minningin um góðan dreng og kæran vin lifir með okkur. Svo er því farið: Sá er eftir lifir deyr þeim sem deyr en hinn dáni lifir í hjarta og minni manna er hans sakna. Þeir eru himnarnir honum yfir. (Hannes Pétursson) Sigurður og Dröfn. Sveinn Árnason var góður fé- lagi, hreinn og beinn. Sálarflækj- ur þvældust ekki fyrir honum né hirðsiðir á mannamótum. Hann var bara alltaf hann sjálfur, eins og hann átti að sér að vera, og vildi ekkert vesen með sig. Hann hefði t.d. ekki gefið mikið fyrir þessa minningargrein. Þannig var eðli hans og upplag og þannig var hann líka upp alinn hjá því al- þýðufólki sem að honum stóð. Það var bjart yfir Sveini, ekki bara svipurinn, hárafarið og aug- un, heldur var allt fas hans glað- legt og jafnan farin stysta leið í boðskiptum; engar málalenging- ar. Og svo hló gjarnan við. Það fór Sveini vel að kenna ungu fólki. Hann naut sín innan um ungmennin, var forvitinn um fólk og aflaði sér strax vinsælda í starfi, bæði meðal nemenda og kennara, og naut þeirra meðan hann gat sinnt kennslunni. Fundum okkar bar fyrst sam- an haustið 1973. Við urðum sam- ferða í námi og jafnframt ná- grannar í Hlíðunum það haustið svo að bið eftir strætó og seta í fyrirlestrum leiddi okkur saman. Vinátta og samvera okkar var mikil á námsárunum í háskóla, en svo fór að strjálast um samfundi eins og verða vill. Við töluðum þó saman í síma öðru hvoru alveg fram undir það síðasta og aldrei brá hann vana sínum; jafnan hressilegur og vafningalaus þótt grimm örlögin blöstu við í veik- indum hans síðustu mánuði. Sveinn bognaði aldrei. Það var honum líkt. Fyrir tilverknað Sveins Árna- sonar komst ég fyrst í kynni við Alþingi og skrifstofu þess. Hon- um var boðið starf við lestur á þingræðum og skjölum undir árs- lok 1973, en vildi ekki þiggja og benti á mig. Þótt næg verkefni væru í skólanum gat starfið bjargað fjárhag mínum naumum og forðað mér frá námslánum, svo ég sló til. Þannig hófust þau kynni sem drógu langan slóða síð- ar meir. Þetta vinarbragð fannst mér eins og endurgoldið þegar kona Sveins, María Gréta, kom til starfa við útgáfu á ræðum og skjölum Alþingis 1985. Hún kom fyrst til að bjarga málum en var síðan fastráðin við lestur og síðar ritstjórn sem hún sinnir nú af ein- stæðum dugnaði og verkfærni. Þau áttu farsælt hjónaband, Sveinn og María, byrjuðu ung að vera saman, og voru samrýnd. Ekki spillti að Sveinn var „hús- legur“. Margar góðar minningar eigum við saman frá námsárun- um, gegnum BA-próf, í málvís- indum og á kandídats-stigi í ís- lensku. Sveinn hvarf þó úr skóla á lokaspretti í framhaldsnámi því að þá hafði hann tryggt sér fast starf til frambúðar við kennslu í menntaskóla og hann mat meira að forsorga sitt heimili en próf- gráður. Það er hart að sjá á eftir svo góðum dreng á besta aldri, en hrammur krabbans getur verið þungur ef hann hittir viðkvæma staði mannsins, eins og höfuðið. En seint munu fyrnast okkar kynni og sú bjarta minning sem Sveinn Árnason skilur eftir sig. Björt og skær eins og hann var sjálfur. Helgi Bernódusson. Sérðu það sem ég sé? Það sem við sáum fyrir rúmlega fjörutíu árum og okkur þóttu tíðindi, var að við komum auga á vinkonu okkar Maríu og Svein kjallara- meistara Norðurkjallarans hönd í hönd fyrir utan MH. Um svipað leyti töldum við vinkonurnar rétt að rækta áhuga okkar á hannyrð- um og góðu bakkelsi og stofnuð- um saumaklúbb. Frá þeim tíma var Sveinn órjúfanlegur hluti af okkar tilveru. Sveinn og María voru þau fyrstu af vinahópnum sem hófu búskap og eignuðust fyrsta saumaklúbbsbarnið. Heimili þeirra varð miðstöð fyrir okkur sem ekki vorum komin á sama stað í lífinu. Einhvern veg- inn virtust þau vita betur en við hin strax frá upphafi hvert þau vildu stefna. Sveinn hafði næmt auga fyrir litlu spaugilegu hlutunum í fari fólks og var eftirherma af guðs náð, án þess þó að vera niðrandi. Hann hafði sterka nærveru og lag á að skapa stemningu og brydda upp á áhugaverðum sam- ræðum. Skoðanir sínar á mönn- um og málefnum sem ekki fóru endilega alltaf saman við okkar, fór hann ekki leynt með og hvik- aði ekki frá. Þennan eiginleika kunnum við alltaf betur og betur að meta eftir því sem við urðum eldri og öðluðumst skilning á því hversu ómetanlegt það er að eiga litríka vini. Sveinn var hjálpsam- ur með eindæmum. Hann málaði með okkur íbúðir og hjálpaði okkur að flytja og kortlagði á meðan venjur, útlit og einkenni þeirra sem bjuggu í nágrenninu. Eftir því sem saumaklúbbur- inn eltist og þroskaðist urðu eig- inmennirnir virkari meðlimir hópsins. Ákveðið var að leggjast í ferðalög og í fyrstu ferðinni stofnuðu þeir deild innan sauma- klúbbsins, Svejkdrengina. Ferð- irnar voru hver annarri skemmti- legri og var það ekki síst Sveini að þakka sem skipulagði skemmtiatriði og uppákomur. Í þessum ferðum voru vináttu- böndin treyst og í framhaldi af því fjölgaði samverustundunum hér heima líka. Í fyrstu ferðinni líkti hann okkur við útrásarvíkinga, 7GG (sjö geðgóðar gellur)-group, fékk okkur öllum hlutverk og samdi lýsingar í Íslendingasagnastíl sem hæfðu hverjum og einum. Sjálfum sér lýsti hann sem hirð- fífli og textaskýranda, með nokkra kunnáttu í knattleikjum, hokrandi að konu sinni í Kópa- vogi, nafla alheimsins. Ennfrem- ur sagði hann: „Talinn matvand- ur með afbrigðum. Er í árlegu kjöri af lausamönnum sínum gjarnan talinn fremstur meðal jafningja.“ Sveinn lét sig hafa það að koma með okkur út að borða, tilkynnti samt alltaf að hann borðaði ekki eftirrétti og eftirminnileg eru orð hans sem hljómuðu hátt og skýrt þegar við borðuðum á einum af betri stöð- um borgarinnar: „Mér finnst nú lambalærið hjá mömmu miklu betra en þetta.“ Hann ræktaði vini sína, ör- stutt símtal, oftar en ekki um fót- boltaleiki dagsins, litið við til að drekka einn kaffibolla, stutt sam- verustund, skemmtilegt spjall og svo var hann rokinn. Ekki staldr- að við of lengi. Hópurinn okkar verður aldrei samur eftir fráfall Sveins, við hefðum svo viljað njóta fé- lagsskapar hans lengur. Skarð hans verður ekki fyllt, en við er- um þakklát fyrir að hafa átt hann að vini. Blessuð sé minning vinar okk- ar Sveins M. Árnasonar. Elín, Guðlaug, Inga, Margrét, Soffía og Sólveig. Til eru staðir sem ég minnist allt mitt líf, þótt sumt sé breytt um alla framtíð til hins verra einn er horfinn en annar geymst (Lennon & McCartney þýð. HTS) Við kynntumst Sveini, föður bestu vinkonu okkar, á heimili þeirra í Lindasmára fyrir um tveimur áratugum. Sveinn var eldklár karl og oft glettinn við okkur yngri mennina. Hann Sveinn Mikael Árnason ✝ Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma og langamma, HULDA ANNA KRISTJÁNSDÓTTIR, lést á dvalarheimilinu Jaðri, Ólafsvík, miðvikudaginn 27. júní. Jarðarförin auglýst síðar. Kristjana Huldudóttir, Pétur Bogason, Sigurður Kristján Höskuldsson, Guðmunda Wium, Magnús Höskuldsson, Sæunn Jeremíasdóttir, Valur Höskuldsson, Sigfríð Ósk Valdimarsdóttir, Grétar Höskuldsson, Olga Sædís Aðalsteinsdóttir, Bára Höskuldsdóttir, Pétur Sigurðsson, Erla Höskuldsdóttir, Sveinbjörn Benediktsson, barnabörn og barnabarnabörn.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.