Morgunblaðið - 11.10.2013, Side 48

Morgunblaðið - 11.10.2013, Side 48
48 MENNING MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. OKTÓBER 2013 Helgi syngur Hauk var yfirskrift tónleikaraðar sem Helgi Björnsson hélt í Salnum í Kópavogi í tilefni af afmæli Hauks Morthens árið 2010. Í kvöld endurtekur hann leikinn á mun umfangsmeiri tónleikum í Eld- borg í Hörpu þar sem þýska stór- sveitin The Capital Dance Orchestra leikur með honum. Flest laganna á efnisskránni eru lög sem Haukur söng en auk þeirra verða flutt þekkt erlend lög á borð við „Mack the Knife“ og „Buona sera“. Hljóm- sveitin mun einnig leika lög að eigin vali. The Capital Dance Orchestra hefur sérhæft sig í að leika „swing“- tónlist frá fjórða, fimmta og sjötta áratug síðustu aldar og er vel þekkt í heimalandi sínu og nágrannalönd- um þar sem slík tónlist er mjög vin- sæl. Meðal þeirra söngvara sem sungið hafa lög frá þessum tíma í tónleikaröð sveitarinnar, Stars go Swing, eru Nina Hagen og Barbara Schönenberger. Hljómsveitinni kynntist Helgi árið 2006 þegar hann stýrði Admiral Pa- lace leikhúsinu í Berlín og fékk hana til að leika við opnun hússins. Félagi hans stakk upp á því að hann tæki eitt eða tvö lög með hljómsveitinni sem hann og gerði. Og nú er komin út plata með lögum Hauks sem Helgi og hljómsveitin flytja. Tón- leikunum í kvöld stýrir söngvari og fiðluleikari hljómsveitarinnar, Meta Hüper og Helgi fær góða gesti til liðs við sig, söngvarana Sigríði Thorlacius, Bogomil Font og Björg- vin Halldórsson. Blaðamaður ræddi við framkvæmdastjóra og einn liðs- mann hljómsveitarinnar, Robert Mudrinic og spurði hann fyrst hvort hljómsveitin hefði þekkt til laga Hauks áður en samstarfið við Helga hófst. Hlýja, depurð og hamingja „Árið 2011 kynnti Helgi mér lög Hauks og spurði hvort við vildum taka upp plötu með þessari dásam- legu tónlist. Fram að því þekkti ég ekkert til Hauks en varð mjög hrif- inn. Þessi tónlist er hlýleg, stundum dapurleg en líka full hamingju. Stundum virkar hún ítölsk, dálítið í anda Sinatra og bandarísku sveifl- unnar. Hún hefur sinn eigin stíl,“ segir Mudrinic. „Þessa tónlist verð- ur að flytja í Þýskalandi, við verðum að kynna hana þýskum áheyr- endum.“ – Þið hafið leikið með þekktum söngvurum á borð við Ninu Hagen en hvernig er að spila með hinum goðsagnakennda Helga Björnssyni? „Helgi er afslappaður og öruggur, lætur kylfu ráða kasti en er um leið afar mikill fagmaður,“ segir Mudri- nic. Eins og jafnan einkenni Íslend- inga sé Helgi bundinn náttúrunni sterkum böndum, yfirvegaður og sæki orku sína þangað. Glys og töfrar – Hvernig myndirðu lýsa hljóm- sveitinni tónlistarlega? „Í upphaflegri mynd, undir stjórn David Canisius fiðluleikara, býður hún upp á glys og töfra hinna þekktu danshalla Berlínarborgar. Þessi frábæra hljómsveit á heima á hvers konar dansstað, hún er fjölhæf og með mikla nærveru á sviði. Með- limir hennar eru atvinnumenn sem hafa fullkomna stjórn á hvers konar blæbrigðum og breytilegum styrk tónlistar, leysa úr læðingi taumlaus- an kraft og heilla fólk með sviðs- framkomu sinni með geðþekkum söngvurum sínum, Metu Hüper og Simon Marlow,“ segir Mudrinic. Hljómsveitin leiki tónlist úr ýmsum áttum, m.a. þýska, enska og rúss- neska og í henni endurspeglist hin mikla, listræna fjölbreytni suðu- pottsins Berlínar. – Við hverju mega gestir Hörpu búast á tónleikum ykkar Helga? „Ég held að gestum Hörpu verði boðið upp á stórkostlega tónleika og mikla skemmtun.“ helgisnaer@mbl.is Sveifla Söngkonan Nina Hagen með The Capital Dance Orchestra. Tónlist sem á erindi við Þjóðverja  The Capital Dance Orchestra leikur með Helga Björns í Hörpu í kvöld Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is „Það er nú alltaf dálítið erfitt fyrir mann að negla niður nákvæmlega hvaðan hlutir spretta en það sem ég tengi við þetta úr mínu eigin lífi er að hafa alist upp í litlu plássi og hlustað á þungarokk,“ segir leik- stjórinn Ragnar Bragason, spurður að því hver hafi verið kveikjan að sögunni sem sögð er í nýjustu kvik- mynd hans, Málmhaus. Í myndinni segir af hjónum sem reka kúabú í ónefndri sveit ásamt tveimur börnum sínum, í byrjun áttunda áratugarins. Eldra barnið, piltur á tánings- aldri, deyr í hörmulegu slysi og sorgin heltek- ur foreldra hans og systur, Heru. Buguð af harmi sökkvir Hera sér í tónlistina sem bróðir hennar hafði dálæti á, þunga- rokk og dreymir um að komast úr sveitinni. Hún reynist foreldrum sín- um afar erfið, uppreisnargjörn og óútreiknanleg og áhugalaus um allt sem ekki snertir þungarokk, nánar tiltekið sk. málmtónlist, „metal“ upp á enskuna. „Mig langaði alltaf að finna sögu til að ná að koma þessari tónlist á framfæri án þess að það væri gert með einhverju gríni eða sprelli. Þetta er tiltölulega einföld saga um fjölskyldu sem er að komast yfir harmleik og hvernig við notum mis- munandi aðferðir við það,“ segir Ragnar en með aðalhlutverk í mynd- inni fara Þorbjörg Helga Þorgils- dóttir sem leikur Heru og Ingvar E. Sigurðsson og Halldóra Geirharðs- dóttir sem leika foreldrana. Baulandi málmur –Það mætast þarna tveir and- stæðir heimar, hinn harði og hraði heimur málmsins og hægagangur og tilbreytingarleysi sveitarinnar. Þetta hefði allt eins getað verið efni í gamanmynd, hvað það varðar? „Já, alveg eins. Það á svo sem við um allar sögur, maður getur farið með þær í hvaða átt sem er. Þetta er nú frekar í alvarlegri kantinum, myndi ég segja, þó það séu kómískir hlutir í myndinni er hún realísk að því leyti að hún er á dramatísku nót- unum.“ – Í myndinni sjást kýr baula við málmtónlist, það er nýstárlegt! Ragnar hlær. „Mér fannst það dá- lítið skemmtilegt því hljóðheimur þessarar tónlistartegundar er frekar víðfeðmur. Þungarokk er vítt hug- tak, nær yfir mjög breiðan skala af tónlist, alveg frá dauðametal yfir í poppmetal, þetta er frekar vítt og breitt. Hljóðheimurinn er frekar ágengur, hljómsveitirnar oft að reyna að ná fram e.k. myrkum áhrif- um. Mér fannst baul sem búið var að hægja á vera einhvern veginn eins satanískt og það gat orðið,“ segir Ragnar kíminn. – Talandi um satanískt þá hefur málmtónlistin stundum verið tengd við djöfladýrkun eða annan djöf- ulgang. „Já, þessi menningarkimi verður oft fyrir dálitlum fordómum. Fólk áttar sig ekki alveg á því hvað þetta er og það er þekkt í gegnum söguna að allt sem er öðruvísi eða einhvers staðar á jaðrinum er fordæmt.“ Lærði á gítar í heilt ár – Þurfti Þorbjörg Helga að fara í einhvers konar málm-þjálfun fyrir myndina? „Þegar ég hringdi í hana og bauð henni hlutverkið spurði ég hana hvort hún spilaði á gítar. Það var nú ekki mjög yfirgripsmikil þekking, hún kunni einhver grip á kassagítar. Hún var í heilt ár í kennslu, var með tvo kennara,“ svarar Ragnar. Þá hafi Þorbjörg fengið að fylgjast með þungarokkssveitinni Angist á æfing- um en í henni eru tvær konur í broddi fylkingar, söngkonur og gít- arleikarar og gat Þorbjörg lært sitt- hvað af þeim. Ragnar segist hafa viljað hafa atriðin þar sem Hera syngur og leikur á gítar eins raun- veruleg og hægt væri. „Við vildum líka að þetta kæmi beint frá henni, að það væri ekki verið að finna ein- hvern góðan söngvara, innan gæsa- lappa. Þetta snýst um tjáninguna og hún náði henni alveg 100%,“ segir Ragnar um frammistöðu Þor- bjargar. Ragnar er nýkominn frá Suður- Kóreu þar sem Málmhaus var sýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Busan. „Það er alltaf ótrúlega skemmtileg að koma á kvik- myndahátíð í Kóreu, allt annar kúlt- úr og virkilega áhugasamt fólk um kvikmyndir og innihald þeirra. Það voru miklar og skemmtilegar um- ræður eftir sýningar og vel á annað þúsund manns sem sáu myndina,“ segir Ragnar. Næst sé förinni heitið til Brasilíu en þar verður myndin sýnd í strandborginni Recife. „Það er heilmikill þvælingur framundan. “ segir Ragnar. Upphæðir sem bera ekki bransann – Þið Þorbjörg eruð komin á samning hjá bandarísku umboðs- skrifstofunni APA. Er stefnan sett á Hollywood? „Það er kannski vænlegra fyrir leikara. Ég er nú meira í mínum eig- in verkefnum og þeir eru meðvitaðir um það, þessir umboðsmenn,“ svar- ar Ragnar. „Þetta er mjög fín um- boðsskrifstofa, Ólafur Darri Ólafs- son leikari er hjá þeim og hefur fengið mikið að gera þannig að ég vona að það glæðist hjá Þorbjörgu í útlöndunum.“ – Og í ljósi fyrirhugaðs nið- urskurðar á framlögum til Kvik- myndasjóðs er kannski betra að vera með allar klær úti? „Já, fyrir utan það nú, það er ágætt að vera með eitthvað í bak- höndinni og þá er ég ekki að grínast. Ef þetta fer eins og útlit er fyrir þá er bara ekki lífvænlegt fyrir kvik- myndagerðarmenn á landinu. Þetta eru alltof litlir peningar og þetta er orðinn alltof stór bransi sem veltir alltof háum upphæðum og alltof margir sem hafa lifibrauð af þessu. Þessar upphæðir bera ekki brans- ann. Síðast þegar niðurskurður var flutti fjölmargt lykilfólk til útlanda,“ segir Ragnar. Sýnt hafi verið fram á hagræn áhrif kvikmyndagerðar og því verði ríkisstjórnin af tekjum, í stað þess að afla þeirra. Beljandi harmur  Kvikmyndin Málmhaus verður frumsýnd í dag  Harm- saga þar sem kýr og þungarokk koma m.a. við sögu Þungarokkari Þorbjörg Helga í hlutverki Heru í Málmhaus. Stilla úr atriði þar sem Hera þenur rafmagnsgítarinn og röddina í hlöðunni heima. Ragnar Bragason

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.