Málfríður - 15.10.2008, Blaðsíða 16

Málfríður - 15.10.2008, Blaðsíða 16
1 MÁLFRÍÐUR Í  júnímánuði  hélt  hópur  frönskukennara  til  Vichy  í  Frakklandi  þar  sem  sumarnámskeið  félagsins  var  haldið  að  þessu  sinni.  Fyrir  þá  sem  ekki  vita  er  Vichy  lítil  borg  í  norðurhluta  Auvergne-héraðs  í miðju Frakklandi. Þegar minnst er á Vichy dettur  líklega flestum í hug hin illræmda Vichy-stjórn, sem  var leppstjórn nasista í hernumdu Frakklandi seinni  heimstyrjaldar. Vichy er líka fræg fyrir heilsulindir  sínar því að allt frá tímum Loðvíks XIV hefur borg- in verið vinsæll áfangastaður  franska aðalsins sem  þangað hefur leitað til að fá lækningu við alls kyns  kvillum, með vatnsþambi og böðum. Vichy  er  líka  aðsetur  CAVILAM  (Centre  d’App- roches  Vivantes  de  Langues  et  des  Médias)  og  það  var  einmitt  þess  vegna  sem  frönskukennarar  ákváðu að halda þangað. CAVILAM er stofnun sem  rekin  er  í  samvinnu  Vichy-borgar  og  háskólans  í  Clermont-Ferrand.  Hún  býður  upp  á  margvísleg  tungumálanámskeið en þó fyrst og fremst námskeið  í  frönsku  sem  erlendu  máli  og  endurmenntunar- námskeið fyrir frönskukennara.  Námskeiðið sem íslenskir frönskukennarar sóttu  bar  yfirskriftina  „Actualisation  des  connaissances  en civilisation française“ og eins og nafnið ber með  sér, hugsað sem eins konar „uppfærsla“ á þekkingu  frönskukennara á franskri menningu í dag. Þátttaka  var með afbrigðum góð því að frá okkar litla félagi  héldu  15  félagar  utan.  Námskeiðið  var  niðurgreitt  með styrk frá EHÍ og þátttakendur fengu auk þess  styrk  frá  Alþjóðaskrifstofu  háskólastigsins  til  þess  að greiða niður ferðakostnað.  Námskeiðið stóð í fimm daga frá 9. til 13. júní og  var  víða  komið  við  í  franskri  nútímamenningu  og  lögðu  leiðbeinendur áherslu á þær breytingar  sem  hafa orðið á frönsku samfélagi á undanförnum árum  og áratugum. Meðal þeirra atriða sem tekin voru til  umfjöllunar má nefna frönsk stjórnmál og hlutverk  Frakklands  í ESB, hinn frönskumælandi heim (þ.e.  menningu  og  tungu  í  frönskumælandi  samfélög- um  utan  Frakklands),  þróun  talmáls  í  Frakklandi,  málefni  innflytjenda  og  aðlögun  þeirra  að  frönsku  samfélagi, menntamál, bókmenntir, kvikmyndir og  tónlist.  Leiðbeinendur  voru  þau  Michèle  Albero,  Martine Vidal og Christian Rodier og lögðu þau sig  fram  um  að  skapa  umræður  um  þau  málefni  sem  voru  til  umfjöllunar,  t.a.m.  með  því  að  kalla  eftir  samanburði við íslenskt samfélag og aðstæður þar.  Leiðbeinendur studdust við ýmiss konar gögn, s.s.  ljósrit, vefsíður og myndefni og reyndu eftir fremsta  megni að benda þátttakendum á gögn sem þeir geta  nýtt í eigin kennslu. Enn fremur fengu þátttakendur  þjálfun  í  notkun  raunefnis  í  frönskukennslu,  svo  sem vefsíðna.  Þátttakendur  voru  sammála  um  að  námskeið- ið  hefði  verið  mjög  áhugavert  og  allt  skipulag  til  fyrirmyndar.  Þrátt  fyrir  að  flest  okkar  hafi  búið  til  lengri  eða  skemmri  tíma  í  Frakklandi  eða  öðrum  frönskumælandi  löndum  kom  í  ljós  á  þessu  nám- skeiði  hversu  erfitt  það  getur  verið  að  viðhalda  tengslum við menningu viðkomandi landa. Jafnvel  þó að upplýsingatæknin geri okkur auðveldara en  áður  að  fylgjast  með,  breytast  samfélög  svo  ört  að  erfitt er að halda  í við þær breytingar. Það sama á  við um tungumálið sjálft sem er auðvitað í sífelldri  þróun. Þetta kom glögglega í ljós á þessu námskeiði  enda var ýmislegt sem kom okkur í opna skjöldu. Þrátt  fyrir  langa  dagskrá  á  námskeiðinu  gafst  þátttakendum  tækifæri  til  þess  að  kynnast  sjálfri  borginni  Vichy  en  margir  höfðu  ekki  komið  áður  á þessar slóðir  í Frakklandi. Auvergne-hérað hefur  upp á ýmislegt að bjóða og borgin sjálf er virkilega  falleg. Það var svo ekki síður mikilvægt að þátttak- endum gafst kostur á að kynnast betur, ræða ýmis  málefni  er  varða  frönskukennslu  á  Íslandi  og  bera  saman bækur sínar. Það má því segja að þetta nám- skeið hafi verið ákaflega gagnlegt bæði  faglega og  félagslega. Eyjólfur Már Sigurðsson Tungumálamiðstöð HÍ. Eyjólfur Már Sigurðsson Eyjólfur Már Sigurðsson Sumarnámskeið frönskukennara í Vichy 2008

x

Málfríður

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Málfríður
https://timarit.is/publication/1081

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.