Málfríður - 15.10.2011, Side 12
djúpt í efnið, þá sem unnu allt en ekki af jafnmikilli
dýpt og þá sem þurftu mjög á aðstoð kennara að halda.
Með þessu móti gátu kennarar komið til móts við mis-
munandi þarfir nemenda og jafnframt voru dæmi um
að góðir nemendur hjálpuðu samnemendum sínum.
Einnig kom snemma í ljós að oft virtust nemendur
með leshamlanir eiga auðveldara með að lesa af skjá
en af pappír auk þess sem þeir virtust eiga auðveld-
ara með að setja saman texta á rafrænu formi. Þetta er
atriði sem vert væri að rannsaka nánar.
3. Kennslufræðilegur bakgrunnur
Í tímans rás hefur ýmsum aðferðum verið beitt við
tungumálakennslu og ýmsar stefnur náð hylli og
útbreiðslu ekki síður en kenningar um tungumálanám
og tileinkun erlendra tungumála.
Þörf fyrir tungumálakunnáttu og notkunarsvið
þeirrar kunnáttu er annað í heimsþorpi nútímans en
fyrir hundrað árum. Fræðimenn á sviði máltöku og
tungumálakennslu aðhyllast flestir þau viðhorf að
tungumálið sé einkum tæki til tjáskipta og markmiðið
með tjáskiptamiðaðri tungumálakennslu sé að nem-
endur öðlist tjáskiptahæfni sem taki til eftirtalinna
þátta: málhæfni, orðræðu- og textahæfni, málnotkun-
arhæfni, úrræðahæfni, flæðis og félags- og menningar-
hæfni.4
Það er ærið verkefni að skipuleggja nám þar sem lögð
er áhersla á alla þætti tjáskiptahæfninnar og borin von
að eitt námskeið rúmi þetta allt. Einn af grundvallarþátt-
um bættrar tungumálakunnáttu er stöðug þjálfun færni-
þáttanna fjögurra, hlustunar, tals, lesturs og ritunar. Auk
þess er meðvituð og markviss aukning orðaforða mikil-
væg. Miklu máli skiptir að setja þessa þjálfun í raunhæft
samhengi sem gerir nemendum ljóst að hverju er stefnt
og að þeir beri ábyrgð á eigin námi. Í því sambandi er
mikilvægt að læra á tæki og tól sem geta létt kennurum
starfið en ekki síður að nota hugvitið til að þróa aðferðir
og leiðir til að nýta tæknina betur.
Háskóli Íslands hefur enn ekki mótað opinbera fjar-
kennslustefnu en í nokkrum greinum hefur fjarkennsla
tíðkast, t.d. í íslensku, og á Menntavísindasviði Háskóla
Íslands, sem áður var Kennaraháskóli Íslands, er nokk-
uð löng reynsla, bæði hvað varðar hreina fjarnámshópa
og blandaða hópa. Fjarkennsla á háskólastigi hefur
gefið góða raun og m.a. leitt til betri kennaramennt-
unar á landsbyggðinni og til er dæmi um að skólastarf
hafi tekið stakkaskiptum þegar hópur leiðbeinenda úr
sama skóla fór samtímis í fjarnám meðfram kennslu.5
4 Auður Hauksdóttir, „Straumar og stefnur í tungumálakennslu“.
Mál málanna, ritstj. Auður Hauksdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir,
Reykjavík: Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungu-
málum, 2007, bls. 155–199, hér bls. 172–179.
5 Þuríður Jóhannsdóttir. „Mótun stefnu í fjarkennslumálum hins sam-
einaða háskóla – kynning á niðurstöðum verkefnahóps“, fyrirlestur
á Málþingi um fjarkennslu og fjarnám við Háskóla Íslands, 6. mars
2009.
4. Námskeið fyrir grunnskólakennara
Með fyrirhugaðri breytingu á námskrám og tilfærslu á
námsefni frá framhaldsskóla til grunnskóla þótti sýnt
að efla þyrfti menntun grunnskólakennara til þess að
þeir yrðu betur í stakk búnir til að takast á við breyttar
forsendur. Kennurum á unglingastigi var boðið að
bæta við sig 30 eininga6 námi á háskólastigi í nokkrum
námsgreinum og margir þáðu það. Þar sem margir
þeirra störfuðu úti á landi skapaðist eftirspurn eftir
námskeiðum í dönsku í fjarkennslu. Haustið 2007 tóku
kennarar í dönsku við Háskóla Íslands að sér að halda
fjarnámskeið fyrir grunnskólakennara í samstarfi
við Kennaraháskóla Íslands (nú Menntavísindasvið
Háskóla Íslands) og menntamálaráðuneytið og hefur
eitt fjarnámskeið verið í boði á hverju misseri síðan,
einkum ætlað starfandi kennurum en líka opið öðrum.
Hér verður gerð grein fyrir þremur ólíkum nám-
skeiðum sem voru skipulögð hvert í framhaldi af öðru
þrjú misseri í röð, 2007–2008. Ekki var ljóst fyrr en
hvert kennslumisseri var hafið hversu margir þátttak-
endurnir yrðu og á hvaða getustigi en þó mátti ætla að
kennarar sem óskuðu eftir að bæta við sig í greininni
hefðu talsverða kunnáttu og reynslu.
Þegar litið er til baka má sjá að þessi námskeið
mynda ákveðna heild og hafa ákveðinn stíganda.
Í fyrsta námskeiðinu „Dönsk dægurmenning“ var
miðað að því að efla kunnáttu og færni kennaranna í
tungumálinu. Í öðru námskeiðinu „Unglingabækur og
kvikmyndir í dönskukennslu“ var fjallað um kennslu-
fræði tungumála og gerð námsefnis. Þriðja námskeiðið
„Unglingamenning og miðlar“ snerist einkum um
nemendur sem félagsverur og hluta af menningarheild
eða menningarkima af einhverju tagi.
4.1 Dönsk dægurmenning
„Dönsk dægurmenning“ var yfirskriftin á fyrsta nám-
skeiðinu sem samið var síðsumars og kennt á haust-
misseri 2007. Eftirtalin markmið voru höfð að leiðar-
ljósi við skipulagningu þessa fyrsta námskeiðs:
• Þjálfun í tungumálinu.
• Nemendur námskeiðsins áttu með þessum hætti
að efla tungumálakunnáttu sína og auka þekk-
ingu sína á dægurmálum og menningu almennt.
Nemendur nýttu tölvu og net til að vinna með
eigin málfærni, afla upplýsinga og miðla þeim.
Val á verkefnum og útfærsla þeirra byggðist á hug-
myndum um að draga sjálfsmatsramma Evrópuráðsins7
6 Áður en einingakerfinu var breytt til samræmis við ECTS-kerfið voru
þetta 15 einingar.
7 Skilgreind kunnáttustig í færniþáttum tungumáls sett upp í sjálfs-
matsramma með sex kvörðum. Sjá: Evrópsk tungumálamappa fyrir
framhaldsskóla, Reykjavík: Council of Europe/Menntamálaráðuneytið,
2006, bls. 5, http://www.nams.is/pdf/elp_upper_disa_3.pdf [sótt 19.
júní 2009].
12 MÁLFRÍÐUR