Hafnarfjörður - Garðabær - 09.08.2013, Page 8

Hafnarfjörður - Garðabær - 09.08.2013, Page 8
8 9. ágúst 2013 Félag íslenskra bifreiðaeigenda FÍB: „Við stofnun voru fyrst og fremst hestvagnaslóðar” segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri félagsins Vart verður á móti því mælt að þeir hafi verið framsýnir þeir aðilar, um 100 talsins, sem komu saman föstudaginn 6. maí 1932 til að stofna Félag íslenskra bifreiða- eigenda, FÍB. Margir hafa eflaust verið nokkuð hissa, heimskreppan mikla í algleymingi og við hér á Íslandi rétt að sjá fyrir endann á hestvagnatímabil- inu. En sennilega má færa fyrir því rök að áðurnefndir þættir hafi eflaust líka orðið til þess að hvetja menn til þess að stofna félag eins og FÍB, Fé- lag íslenskra bifreiðaeigenda, til að gæta hagsmuna bíleigenda enda menn sannfærðir um að bíllinn væri kominn til að vera. Þegar félagið var stofnað var 1561 bifreið í landinu eða einn bíll á hverja 80 íbúa. Til samanburðar eru bifreiðar í dag um 200.000 eða 1,6 manneskja um hvern bíl. Mörg baráttumálin þættu sjálfsögð í dag „Á þeim tíma sem FÍB var stofnað höfðu bifreiðaeigendafélög verið stofnuð í flestum löndum heims og samstaða bifreiðaeigenda að byrja að skila sér með betri og aukinni þjónustu og í auknu aðhaldi við ríkisstjórnir viðkomandi landa. Markmið félagsins var skýrt skilgreint strax frá upphafi, þ. e. að sameina bifreiðaeigendur um hagsmunamál sem tengdust eign og rekstri bifreiða“ segir Runólfur Ólafs- son framkvæmdastjóri FÍB. „Menn átta sig kannski ekki alltaf á því að hlutverkið í árdaga félagsins var nokkuð sem okkur þykir sjálfsagt í dag“ segir Runólfur. „Þá voru bar- áttumálin m. a. að tryggja ferðafrelsi á bílum sínum í víðum skilningi þess orðs. Vegir og slóðar voru þegar best lét fyrir hestakerrur en ekki bíla og bílar voru þá ekki almenningseign“ segir Runólfur. Stofnendur félagsins voru mjög framsýnir, þeir sáu fyrir sér það frelsi sem bíllinn veitir til hvers konar athafna; vinnu, ferðalaga og skemmtunar. „Svo fyrstu baráttumálin voru m. a. að lagðir yrðu akfærir vegir um landið og að sómasamlegt vega- samband kæmist á milli allra helstu þéttbýlisstaða og byggða í landinu. Jafnframt að bíleigendur gætu gengið að þjónustu við bílinn sem víðast og að eldsneyti yrði fáanlegt um allt land svo hægt væri að komast til baka. Þá var ein krafan að sett yrðu upp um- ferðarmerki á þeim vegum sem þó voru komnir. Þetta var landslagið þá“ segir Runólfur Stofnendur hugsuðu stórt Runólfur bendir á að það sé athyglis- vert að í stofnskrá hins nýja félags stóð – árið 1932 – að félagið vildi stuðla að því að bifreiðaeigendur ættu þess kost að ferðast um á bílum sínum erlendis. Það skyldi gert með því að sækja um aðild að alþjóðasamtökum bifreiða- eigenda sem þá höfðu fengið alþjóðlega heimild til að gefa út svokallað Carné du Passage. Með því að framvísa því plaggi við landamæri fékkst undan- þága frá ákvæðum þess tíma um að tollafgreiða þyrfti alla erlenda bíla inn og út úr hverju landi um sig. Runólfur brosir og segir svo: „Já menn hugsuðu stórt og það var ekki alltaf létt verk að vinna en mjakaðist. Og þegar eitthvað ávannst þá kom bara eitthvað annað upp, aðrir hlutir, og ný verkefni tóku við. Hér getum við nefnt atriði eins og niðurfellingu útvarps- gjalds af bifreiðaútvörpum, niðurfell- ingu söluskatts af tryggingum. Á þessu má sjá að félagið hefur og er í sífelldri þróun þessi ríflega 80 ár sem það hefur verið til.“ Erfitt að ferðast um Ísland Blaðamaður hefur aflað sér sagna frá eldri Íslendingum um hvernig ferða- lög gengu fyrir sig hér á árum áður og margar þær sögur eru ótrúlegar. Eða eins og einn orðaði það að þegar hann hóf að aka um vegina á árunum þegar malarvegir voru allsráðandi brá mönnum ekkert mikið þó hjólbarðar eyðilögðust í ferðalaginu eða á þá kom gat og það tíðkaðist stundum að menn fengju lánuð varadekk hjá veg- farendum ef áfangastaðurinn var hinn sami til að getað skila varadekkinu. Í þessu tilviki hafði hjólbarði númer 2 sprungið í ferðinni og þá var ekkert að gera annað en sýna þolinmæði og treysta á góðvild annara bílstjóra. Þá var miserfitt fyrir bílana að þola holurnar og þvottabrettin og það var ekki alltaf auðvelt að halda bílunum á vegunum, enda útafakstur algengur. Þetta voru aðstæður þær sem ferða- langar á bílum upplifðu á Íslandi á árum áður. Var þetta virkilega svona Runólfur? „Já vegirnir voru stórt hagsmunamál og eru það enn. Það sem gerðist á sjötta áratugnum var að systursamtök okkar í Bretlandi, AA gáfu okkur eina sex Land Rover jeppa og þá hófst þessi vegaþjón- usta sem fræg varð“ segir Runólfur. „Þetta var nú að mestu sjálfboðavinna sem ungir menn sóttust í, enda fylgdi þessu einkennisföt og kaskeiti og menn voru mjög reffilegir til fara á merktum bílum.“ Vegaþjónusta FÍB var rekin á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og fyrst og fremst um stórar ferðahelgar landsmanna. Til dæmis var þjónustan í boði um hvítasunnu og verslunar- mannahelgi en vegir landsins fylltust af bílum með fólki sem var á leið í útilegu á Laugarvatn, í Vaglaskóg, Hallorms- staðaskóg, Þjórsárdal, Landmanna- laugar og Þórsmörk og víðar. Í útvarpinu glumdu tilkynningar frá FÍB um hvar vegaþjónustubílarnir voru nú staddir hver um sig. FÍB 1 var á Laugarvatni á leið að Geysi, FÍB 2 var í Bjarkarlundi á vesturleið og FÍB 3 á Akureyri á leið í Vaglaskóg o. s. frv. Síðar voru keyptir fleiri bílar, m. a. kranabílar. Í bílana voru settar talstöðvar og í gegnum þær gátu bíl- stjórarnir gert vart við sig í gegn um fjarskiptamiðstöð Landssímans í Gufunesi. Dagsdaglega voru aðstoðarbílarnir tiltækir á fjölförnustu vegunum út frá Reykjavík og nokkrum öðrum þétt- býliskjörnum landsins, en um mestu ferðahelgarnar var sérstakur viðbún- aður og fjölmennt varalið kallað út sem að mestu var skipað sjálfboðaliðum. Skipt um heilu vélarnar Að sögn Stefáns Ásgrímssonar ritstjóra tímarits FÍB, þá var með ólíkindum hve margt menn gátu gert á vegum úti. „Vegaþjónustumennirnir gerðu gjarnan við bilaða bíla úti í vegark- anti. Þeir hengdu upp lafandi púströr og hljóðkúta, komu bremsum í lag á bremsulausum bílum, skiptu um dekk og dæmi höfum við af vegaþjónustu- manni FÍB í Bjarkarlundi sem hrein- lega skipti um vél í bíl á tjaldstæðinu.“ segir hann og hlær. „Vegaþjónustumenn inntu vissa lág- marksþjónustu af hendi fyrir félags- menn FÍB en áttu sjálfir að rukka fyrir allt umfram hana“ segir Stefán og bætir við að „allt var þetta hægt þá, enda bílar miklu einfaldari að allri gerð en nú á tölvuöld. En þessi rekstur var fremur fámennu félagi afskaplega dýr eins og nærri má geta. Land Roverarnir voru þungir í viðhaldi og smátt og smátt lagðist starfsemin af uns hún hætti al- veg upp úr 1970.“ Það var ekki fyrr en löngu síðar, eða á tíunda áratuginum, að FÍB aðstoð var stofnuð á ný. Þá var tölvuöld í bílum gengin í garð og lítt hægt að gera við bíla út í vegakanti eins og í gamla daga. Til að aðstoðin nú yrði félaginu ekki jafn þung í skauti og gamla vegaþjón- ustan var, var ákveðið að takmarka hana við tiltekin þéttbýlissvæði og til- tekna fjarlægð frá þeim. Jafnframt yrði hún takmörkuð við það að koma með eldsneyti til fólks sem orðið hafði elds- neytislaust, aðstoða við hjólbarðaskipti ef dekk hafði sprungið og gefa straum ef bíll var rafmagnslaus. Þessi aðstoð skyldi einungis veitt þeim sem væru skuldlausir félagar í FÍB. Skuldlausir félagsmenn skyldu einnig hafa aðgang að ókeypis þjónustu dráttarbíls einu sinni á ári, og svo er enn. Aðstoð um allt land „Ef bíll FÍB félaga hins vegar stöðvast utan hinna tilteknu þjónustusvæða FÍB, hefur skrifstofa félagsins milligöngu um að kalla til hjálp ef félagsmaður óskar þess“ segir Stefán og nefnir að FÍB reki neyðarsíma 5-112-112. FÍB hefur unnið að því að koma upp nokkuð þéttu neti í flestum þéttbýl- iskjörnum og nú er þjónustuaðila FÍB að finna, auk höfuðborgarsvæðisins, í Reykjanesbæ, Akranesi, Borgarnesi, Í upphafi stríðs voru ríflega 2.000 bílar skráðir á landinu. tíu árum seinna voru þeir 10.500” segir Runólfur Ólafsson framkvæmdastjóri FÍB. Vegirnir voru oft svo holóttir að erfitt var að halda bílgæðingunum á vegunum.

x

Hafnarfjörður - Garðabær

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Hafnarfjörður - Garðabær
https://timarit.is/publication/1080

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.