Kópavogur - 21.11.2014, Page 6
6 21. Nóvember 2014
S y r u s s o n H ö n n u n ar h ú s
Fallegar vörur fyrir heimilið
Hver er stærsti sigur þinn?
Að lifa þannig að börnin mín sæki
í mig styrk. Að finna að sálarbatterí
þeirra hlaða sig í nærveru manns.
Hver eru þín helstu áhugamál?
Bókmenntir og heimspeki.
Hver er þinn helsti kostur?
Að sjá hlutina úr fjarlægð, gæti ég
trúað.
En galli?
Get orðið allt of fjarlægur og týndur í
eigin hugarheimi. Konan mín kannast
við þetta og sendir mig þá gjarnan á
Eyrarbakka þar sem ég hef aðstöðu til
að skrifa.
Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?
Eyrarbakki.
En í Kópavogi?
Kjarrhólmi 2.
Hvað áttu marga „vini“ á Facebook?
Ef ég tel þá sem ég “læka” hjá og “læka”
hjá mér stundum þá svona 200.
Uppáhaldstónlistarmaður eða tón-
listarstefna?
Klassísk tónlist. Jóhannes Brahms og
Sergei Rachmaninoff.
Uppáhaldsmatur og drykkur?
Cappussino og hvítt croissant á kaffi-
húsi, með penna og dagbók á borðinu.
Hvaða bók eða listaverk hefur haft
mest áhrif á þig og hvers vegna?
Histories eftir Herodotus. Fyrir þá
sem ekki kannast við hana en hafa séð
myndina, The English patient, þá er
það bókin sem sjúklingurinn er alltaf
að blaða í þar til hann líður út af. Þetta
er fyrsta sagnfræðiritið, skrifað á 5 öld
fyrir krist. Þetta er líka eitt fyrsta stóra
prósaverkið í bókmenntasögunni, það
er sem sagt ekki kvæði eins og Hó-
merkviðurnar. Það sem heillandi er að
í gegnum textann fær maður innsýn í
fornan, goðsagnakenndan hugarheim,
einmitt þegar grundvöllurinn að vest-
rænni nútímahugsun er að fara að
verða til hjá Grikkjunum. Prósinn
sem höfundurinn leyfir sér gerir að
verkum að það er eins og fornaldar-
hugsun sé að leysa af sér bönd í hverri
setningu og vísir að allskyns fræðum
framtíðarinnar er að finna þarna,
landafræði, mannfræði, félagsfræði,
trúarbragðafræði, og svo framvegis.
Þetta er bókin til að taka með sér á
eyðieyju, því í henni er allur heimur-
inn eins og menn skynjuðu hana á
áhugaverðum tíma í sögunni. Ég las
hana á ensku en íslenska útgáfan sem
ber heitið Rannsóknir, og er í þýðingu
Stefáns Steinssonar, sem einnig þýddi
Gilgameshkviðju eftirminnilega vel,
virðist mér afar vönduð.
Hvert sækirðu afþreyingu?
Sjónvarp, útvarp, bók eða net?
Í bókalestur. Það má segja að ég sé
háður lestri, því ef ég næ ekki að
sökkva mér í texta reglulega þá leys-
ist heimurinn upp fyrir mér, verður
óraunverulegur. Með því að stíga
inn í hliðarveruleika textaheimanna,
þá endurnýjast veruleikaskyn mitt
og umhverfið verður aftur ferskt og
áhugavert.
Hvað vildirðu verða þegar þú yrðir
stór?
Ég hafði aldrei rænu á að velta því
mikið fyrir mér, þótti alltaf eitthvað
vandræðalegt við spurninguna. Eins
og hún fæli í sér undirspruninguna:
hvaða hlutverk ætlarðu að leika í stóra
leikritinu framundan þegar þú hættir
að vera þú sjálfur?
Þegar ég ákvað að gerast rithöfundur
þá var það afþví að ég áttaði mig á að
það sem ég hafði verið að gera í samfellt
tvö ár, var nákvæmlega það sem rithöf-
undar gera. Þannig held ég að það sé
með ýmsa, starfsvalsákvörðunin tekur
þá frekar en öfugt.
Hvert var fyrsta starfið, og hvað
hefurðu tekið þér fyrir hendur fram
að þessu?
Fyrsta alvöru starfið var að vera vinnu-
maður í sveit eitt sumar þegar ég var
15 ára. Síðan vann ég í fiski og var eitt
sumar á sjó á línubáti frá Hornafirði.
Eitt sumar og í afleysingum var ég bíl-
stjóri hjá Kópavogshæli, og svo fyrir
Eymundsson. Ég var þjónn á nokkrum
stöðum, til dæmis Hótel Óðinsvéum og
á Hótel Borg, og svo skúraði ég gólf í
bíóum. Um tíma var ég öskukall. Það
góða við að skúra bíó og vera í öskunni
er að maður er búinn snemma og hefur
daginn fyrir sig.
Ef þú værir ekki rithöfundur, hvað
tækirðu þér fyrir hendur?
Þá mundi akademían toga mig til sín.
Ég hef gaman af rigerðarforminu, og
hef gefið út eitt greinasafn sem heitir
Boðskort í þjóðarveislu, gildi, bók-
menntir og samfélag. Í því held ég því
meðal annars fram að helsti áhrifa-
valdur Halldórs Laxness þegar hann
skrifaði Kristnihald undir Jökli, hafi
verið Drakúla eftir Bram Stoker, og
íslenska útgáfan af henni:
Makt myrkranna.
Áttu þér fyrirmynd í leik eða starfi?
Nei, ég hef aldrei getað gert mér einn
einstakling, eða verk að fyrirmynd,
og heldur ekki hugmynd. En ég fór
nokkuð ungur frá foreldrum mínum,
ellefu frá móður og fjórtán frá föður, og
þurfti því að hugleiða fyrirmyndir. Afi
minn, Pétur Sumarliðason, sem ég bjó
hjá hérna í Kópavogi seinasta árið sem
hann lifði, var mér mikil fyrirmynd
á ýmsan hátt. En það er mergurinn
málsins. Ég fór þá leið að gera góða eig-
inleika í fari fólks að fyrirmynd. Maður
þarf að geta greint það góða í öllum
og sjá það, og gera það að einhverju
eftirsóknarverðu fyrir sjálfan sig.
Hvað varð annars til þess að þú gerð-
ist rithöfundur?
Það gerðist bara, en spurningin er
kannski hversvegna ég hef enst í því.
Ástæðan er sennilega ekkert flóknari
en svo að ég hef gaman af að segja
sögur. Sagnamennska er ennþá lif-
andi á íslandi og liggur nokkuð í fjöl-
skyldum. Þegar maður rekst á fólk sem
segir sögur til að bregða ljósi í tilfinn-
ingar sínar og stöðu sína í lífinu, þá
er maður að hlusta á sagnamennsku.
Í minni móðurætt er fólk gert með
þessum hætti. Þar var aldrei talað um
tilfinningar, en hinsvegar sagði fólk
sögur í tíma og ótíma, oft af sínum nán-
ustu. Smámsaman áttaði maður sig á
að í sögunum voru allar tilfinningarnar
sem fólk bar í brjósti hvert til annars.
Þótt maður temji sér síðan þann grein-
andi hugsunarhátt sem á betur við
samtímann, og nútíma samskipti, þá
er mér, líkt og fjölmörgum íslendingum
eiginlegt að tjá mig í sögum þegar ég á
að segja eitthvað sem skiptir mig máli.
Hvaða stundir í lífinu eru gleðileg-
astar?
Þegar litlu kallarnir vakna á nóttunni
og kalla á mann, vilja láta sækja sig og
kúra uppí hjá mömmu og pabba. Þegar
maður sækir þá í leikskólann, þeir kasta
öllu frá sér og koma hlaupandi. Þegar
öll fjölskyldan, og helst ömmur og afar
líka, fá allt í einu tíma til að sitja saman
við matarborðið og ræða um hvers-
daginn. Þegar konan kemur manni á
óvart með enn einni hugmyndinni um
hvað við getum gert okkur til skemmt-
unar og maður þarf ekki nema að segja,
já, einmitt, gerum það!
Lífsmottó:
Taktu eftir því að allt fólk er áhugavert.
Bjarni Bjarnason:
„Taktu eftir því að allt fólk er áhugavert“
Bjarni Bjarnason rithöfundur er innfæddur Kópavogsbúi en hefur komið
víða við á sínum ferli, meðal annars búið í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum.
Hann segir um samanburðinn að Íslendingar séu fyrirferðarmeiri „og
dálítið klikkaðri en íbúar þeirra landa annarra sem ég hef búið í. Þetta
eru eiginleikar sem fara stundum í taugarnar á manni þegar maður býr
hérna, en þegar ég bý erlendis þá sakna ég þeirra, því eiginleikarnir skapar
dýnamískt og lifandi samfélag sem er áhugavert fyrir rithöfunda.“
Bjarni býr nú í Kópavogi ásamt konu sinni Katínu Júlíusdóttur, alþingis-
manni, og fjórum börnum.
Hann sendi á dögunum frá sér skáldsöguna Hálfsnert stúlka, sem hlotið
hefur góðar viðtökur. Bjarni segist mestan áhuga hafa á bókmenntum og
heimspeki. Hann er fyrst og fremst sjálfmenntaður í gegnum ritstörfin, en
hefur lagt stund á guðfræði og er núna í bókmenntafræðinámi við Háskóla
Íslands. Bjarni Bjarnason er í yfirheyrslunni að þessu sinni.