Fréttablaðið - 29.05.2014, Page 10
29. maí 2014 FIMMTUDAGUR| FRÉTTIR | 10
EFNAHAGSMÁL „Ísland myndi vissulega glata
sjálfstjórn í peningamálum, og það út af
fyrir sig gæti orðið vandamál vegna þess
hve mikil sérhæfing er í íslensku atvinnu-
lífi,“ segir hollenski hagfræðingurinn Roel
Beetsma, sem telur engu að síður nauðsyn-
legt að Íslendingar stefni af alvöru að því að
ganga í Evrópusambandið til þess að geta í
framhaldinu tekið upp evru.
Kostirnir væru þeir að Ísland myndi losna
út úr vítahring verðbólgu og gengisfelling-
ar, sem löngum hefur fylgt íslensku krón-
unni. Þá myndu viðskipti við útlönd aukast
og vextir á húsnæðislánum lækka, svo nokk-
uð sé nefnt.
„En þetta er kannski frekar langtímasjón-
armið,“ segir hann. „Þið þurfið náttúrlega
fyrst að losna við gjaldeyrishöftin.“
Beetsma er hagfræðiprófessor við Háskól-
ann í Amsterdam. Hann flutti í gær fyrirlest-
ur á ráðstefnu sem Evrópustofa skipulagði í
samvinnu við Alþýðusamband Íslands, Sam-
tök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Á
ráðstefnunni var rætt um krónuna, evruna
og höftin, en Beetsma fjallaði meðal ann-
ars um þann lærdóm sem Íslendingar geta
dregið af kreppunni í Evrópu. Evruríkin hafa
þegar dregið margvíslegan lærdóm af krepp-
unni og eru í óða önn að innleiða ýmiss konar
breytingar á fjármálaumhverfi sínu.
„Það sem mikilvægast er hér á landi er að
finna leið til að koma í veg fyrir að launa-
kostnaður hækki stöðugt,“ segir Beetsma.
Hann segir að fyrir kreppuna hafi launa-
kostnaður hækkað mun meira á Íslandi en í
öðrum löndum, sem þýddi að Ísland varð til-
tölulega ósamkeppnishæft.
„Og hvernig leysti Ísland þetta? Lausnin
hér fólst í gríðarmiklu gengisfalli, um 50 pró-
sent. En þegar Ísland væri komið inn í Evr-
ópusambandið og inn á evrusvæðið, þá yrði
gjaldmiðillinn aðeins einn og þess vegna ekki
hægt að fella gengið. Þannig að áður en þið
gangið inn þá þurfið þið fyrst að tryggja að
markaðir verði orðnir nægilega sveigjanlegir
til að geta tekist á við erfið áföll.“
Þetta er að hans mati mikilvægasti lær-
dómurinn sem Ísland getur dregið af evru-
kreppunni. Hann segir ástæðulaust að hafa
áhyggjur af því að aukið atvinnuleysi geti
fylgt evrunni.
„Ég held að það sé misskilningur. Ef mark-
aðir virka nógu vel þá hefur það engin áhrif
á atvinnustig. Sjáðu til, rétt eins og í öðrum
löndum þá eru íbúar á Íslandi að eldast.
Þannig að í framtíðinni held ég að vanda-
málið verði frekar skortur á vinnuafli en
offramboð.“
Hann segir Íslendinga óhjákvæmilega
lenda í blindgötu, ætli þeir sér að halda fast
í krónuna. „Að vera með eigin gjaldmiðil í
svona litlu landi er eins konar undankomuleið
fyrir stjórnmálamenn. Það gerir þeim kleift
að sleppa við að taka óvinsælar ákvarðanir.
Nauðsynlegar markaðsumbætur eru yfir-
leitt óvinsælar vegna þeirra hagsmuna sem
í húfi eru. Við höfum séð það í löndum á borð
við Grikkland, Frakkland, Ítalíu og Portúgal
að þar voru menn fastir í þessum sama víta-
hring hárrar verðbólgu og stórtækra gengis-
fellinga áður en þessi lönd gengu í ERM-sam-
starfið og tóku síðan upp evruna. Menn komu
sér hjá því að gera nauðsynlegar umbætur
og sátu uppi með lélega samkeppnishæfni.
Þannig að til lengri tíma litið tel ég að það
yrði blindgata fyrir Íslendinga að halda fast
í eigin gjaldmiðil.
Hann viðurkennir að umbætur af þessu
tagi geti bitnað illa á almenningi, enda sé það
einmitt þess vegna sem stjórnmálamenn hika
við að ráðast í þær.
„Það verða alltaf einhverjir sem verða
undir. En ég held að það verði að horfa á efna-
hagslífið í heild. Ef hægt er að auka hagvöxt-
inn þá munu flestir hagnast á því, þótt með
ólíkum hætti sé. Meiri hagvöxtur skilar sér
líka fyrr eða síðar til hinna.“
Krónan er hentug undankomuleið
Ætli Íslendingar að halda í krónuna verða þeir áfram fastir í vítahring verðbólgu og gengisfellinga, segir hollenski hagfræðingurinn Roel
Beetsma. Áður en af aðild að evrusvæðinu getur orðið þurfa Íslendingar að gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri og ráðast í markaðsumbætur.
ROEL BEETSMA „Að vera með eigin gjaldmiðil í svona litlu landi er eins konar undankomuleið fyrir
stjórnmálamenn. Það gerir þeim kleift að sleppa við að taka óvinsælar ákvarðanir.“ FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Nauðsynlegar markaðs-
umbætur eru yfirleitt óvinsælar
vegna þeirra hagsmuna sem í húfi
eru.
Roel Beetsma
hagfræðingur
LANDBÚNAÐUR „Við verðum að
láta á það reyna hvort við fáum
dýralækna til að gelda grísi fyrir
okkur. Ef það gengur ekki verða
stjórnvöld að koma að málinu,“
segir Hörður Harðarson, formað-
ur Svínaræktarfélags Íslands.
Svínaræktarfélag Íslands sendi
frá sér yfirlýsingu í gær þess efnis
að það það yrði hætt að gelda grísi
með þeim hætti sem tíðkað hefur
verið. Það er að taka grísina og
gelda þá án deyfingar. Slíkt var
bannað með lögum frá síðustu ára-
mótum.
Þær leiðir sem taldar eru koma
til greina eru að deyfa eða svæfa
dýrin og gelda svo. Samkvæmt
lögum um velferð dýra sem tóku
gildi um áramót eru það dýralækn-
ar sem eiga að gelda dýrin. Talið er
að á hverju ári þurfi að gelda um
30 þúsund grísi hér á landi.
Hörður segir að svínaræktend-
um hafi gengið illa að fá dýra-
lækna til að gelda. Stór svínabú
hafi auglýst eftir dýralæknum
en án árangurs. „Við ætlum hins
vegar að láta á það reyna hvort við
fáum dýralækna til að sinna þessu.
Ef það tekst ekki er það ekki okkar
sök,“ segir Hörður.
Hann segir að til lengri tíma
litið hljóti besta leiðin út frá vel-
ferð dýranna að vera að hætta
geldingum alfarið. Fylgst verði
náið með hvernig þau mál þróist
erlendis. - jme
Svínaræktendur ætla að hætta að gelda grísi með umdeildri aðferð:
Ætla að láta á það reyna hvort
dýralæknar vilji gelda grísina
BJARTEYJARSANDUR - BEINT FRÁ BÝLI- MATVÆLI OG DÝR BÖRNIN EFTIR
ALDRI ELFAR, BJARTEY OG ARNA GRÍSIR OG SVÍN
23.10. 2012
Frumvarp lagt fyrir Alþingi um vel-
ferð dýra. Lagt til að bannað verði að
gelda grísi án deyfingar.
26.03. 2013
Lög um velferð dýra samþykkt frá
Alþingi. Bannað að gelda grísi án
deyfingar. Gefinn er umþóttunartími.
01.01. 2014
Lög um velferð dýra taka gildi.
Bannað að gelda grísi án deyfingar.
23.-28.05. 2014
Fréttastofa RÚV vekur athygli á
að svínabændur hafi ekki farið að
lögum og haldi áfram að gelda grísi
án deyfingar.
24.05. 2014
Yfirdýralæknir lýsir því yfir að hann
ætli að gefa svínabændum frest til
áramóta til að fara að lögum.
25.05. 2014
Landbúnaðarráðherra lýsir því yfir að
hann telji ekki ástæðu til að banna
ólöglegar geldingar strax. Svína-
bændur þurfi lengri aðlögunartíma.
28.05. 2014
Matvælastofnun sendir frá sér yfir-
lýsingu og gefur svínabændum frest
til 10. júní til að skila áætlun um
hvernig þeir hyggist hætta ólöglegum
geldingum á grísum.
28.05. 2014
Svínabændur segjast í yfirlýsingu ætla
að hætta að gelda grísi með þeim
hætti sem það hefur verið framkvæmt.
ÓLÖGLEGAR GELDINGAR Á GRÍSUM
L Í F S M Ö R K
beint í fyrsta sæti á
kiljulista Eymundsson!
„Fantavel skrifuð, ljóðrænar og fallegar lýsingar
má finna víða … Tel þessa bók með því besta sem
ég hefi lesið nýlega eftir íslenskan höfund.“
Hjördís Smith, svæfinga- og gjörgæslulæknir
Metsölulisti
Eymundsson
1.
Kiljur 21.05.–27.05.2014
Guðsteinn
Bjarnason
gudsteinn@frettabladid.is