Skessuhorn


Skessuhorn - 01.05.2013, Blaðsíða 16

Skessuhorn - 01.05.2013, Blaðsíða 16
16 MIÐVIKUDAGUR 1. MAÍ 2013 Gunnar Bragi Sveinsson, Framsóknarflokki: „Hjá mér líkt og framsóknarmönnum öllum ríkir mikil ánægja og þakklæti fyrir stuðninginn sem við fengum á laugardaginn. Það var mikið af fólki sem tók þátt í kosningabaráttunni með okkur og sýndu okkur og stefnumálum flokksins þannig mikið traust. Fyrir þetta er ég þakklátur. Vona ég að við náum að standa okkur vel fyrir kjördæmið sem og alla aðra landsmenn," segir Gunnar Bragi sem þakkar þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem tóku þátt í kosningabaráttunni fyrir þeirra framlag. „Ég tel ljóst að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fái stjórnarmyndunarumboðið og mun hann leiða okkur í þeirri vinnu að mynda nýja ríkisstjórn. Við munum leggja áherslu á að reyna að koma sem flestum stefnumálum okkar í stjórnarsáttmála, náist samkomuleg um stjórnarmyndun, og að fylgja þeim eftir í framkvæmd á kjörtímabilinu sem framundan er," sagði Gunnar Bragi í samtali við Skessuhorn sl. mánudagsmorgun. Einar K. Guðfinnsson, Sjálfstæðisflokki: „Það sem stendur efst í huga okkar sjálfstæðismanna í kjördæminu er að við náðum ekki markmiðum okkar sem var að fá þrjá þingmenn kjörna. Það eru því mikil vonbrigði að Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir verður ekki þingmaður. Aftur á móti má segja að miðað við aðstæður þá getum við ágætlega vel við unað að vera með annan og fjórða þingmann kjördæmisins," segir Einar. „Stærsta niðurstaða kosninganna er hins vegar fullkomið afhroð stjórnarflokkanna. Skilaboð kosninganna eru þau að þessir flokkar eiga ekki heima í næstu ríkisstjórn. Stjórnar­ andstöðuflokkarnir fengu hins vegar mjög góðan stuðning í kosningunum og styðjast nú við ríflegan meirihluta. Ljóst er að vilji kjósenda er sá að þessir flokkar tali saman um myndun næstu ríkisstjórnar." Guðbjartur Hannesson, Samfylkingunni: „Ég vil óska Framsóknarflokknum til hamingju með þeirra árangur í kjördæminu og sömuleiðis öllum nýjum þingmönnum kjördæmisins með þeirra sæti. Ég er auðvitað ánægður með að halda mínu sæti á þingi en er vitaskuld óánægður með að missa góða samstarfskonu af þingi og útkomu flokksins á landinu öllu. Einnig fannst mér vont að sjá að svo mörg atkvæði féllu dauð niður," segir Guðbjartur. Um framhaldið segir Guðbjartur að Framsóknarflokkurinn hljóti að fá umboð til stjórnarmyndunar. „Ég býst við að framsóknarmenn leiti fyrst til Sjálfstæðisflokksins. Á meðan bíðum við á hliðarlínunni. Við munum engu að síður berjast fyrir okkar baráttumálum áfram á þingi og eru fjölmörg mál á döfinni sem við viljum að verði tryggður framgangur." Lilja Rafney Magnúsdóttir, VG: „Ég er mjög ánægð með stuðninginn við flokkinn í kjördæminu og það að stuðningsmenn flokksins hafi staðið með okkur alla leið. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim fyrir þann góða stuðning. Mér fannst flokkurinn ná vopnum sínum á síðustu metrunum í kosningabaráttunni þrátt fyrir að á brattann hafi verið að sækja. Þó voru vonbrigði að fá ekki menn kjörna í öllum kjördæmum. Ég held að heilt yfir þá geti VG verið sátt með árangurinn í kosningunum miðað við það sem á undan er gengið á kjörtímabilinu. Mér sýnist að gömlu hrunflokkarnir muni koma sér saman um myndun næstu ríkisstjórnar og fá þeir í meðgjöf þann góða árangur sem við náðum í síðustu ríkisstjórn, árangur sem hagtölur sýna nú fram á. Þingmenn VG munu vinna áfram fyrir land og þjóð af festu í þinginu og veita nýrri ríkisstjórn nauðsynlegt aðhald ekki síst með það í huga að unnið verði áfram með ábyrgum hætti að stjórn landsins." Framsóknarflokkurinn sigurvegari kosninganna í Norðvesturkjördæmi Alþingiskosningarnar sem fram fóru síðastliðinn laugardag einkenndust af miklum og sögulegum sviptingum í mörgu tilliti. Í Norðvesturkjördæmi varð niðurstaðan sú að Framsóknarflokkur fékk 35,2% atkvæða og fjóra menn á þing, Sjálfstæðisflokkur fékk 24,7% og tvo menn kjörna, Samfylking hlaut 12,2% og einn mann og Vinstri hreyfingin grænt framboð fékk 8,5% atkvæða og hreppti jöfnunarþingsætið. Þingmenn kjördæmisins verða því: Gunnar Bragi Sveinsson, Ásmundur Einar Daðason, Elsa Lára Arnardóttir og Jóhanna María Sigmundsdóttir, allt framsóknarfólk, en sú síðasttalda er jafnframt yngsti kjörni þingmaður Íslandssögunnar. Frá Sjálfstæðisflokki verða Einar K. Guðfinnsson og Haraldur Benediktsson þingmenn, Guðbjartur Hannesson frá Samfylkingu og Lilja Rafney Magnúsdóttir frá VG. Nýir þingmenn kjördæmisins eru þau Elsa, Jóhanna og Haraldur. Í NV kjördæmi hlaut Björt framtíð 4,6% atkvæða, Regnboginn 4,5%, Píratar 3,1% og aðrir flokkar minna. Auð og ógild atkvæði voru 2,7%. Samtals var fylgi flokka sem ekki náðu manni kjörnum í NV kjördæmi 19,5%. Kjörsókn í NV kjördæmi var 83,6%, rúmum 2% minna en í síðustu kosningum, en var engu að síður sú mesta á landinu í þessum kosningum. Að meðaltali varð hún 81,4% á landinu öllu. Á landsvísu fór það svo að Sjálfstæðisflokkur fékk mest fylgi, eða 26,7% atkvæða og 19 þingmenn. Framsóknarflokkur hlaut 24,4% og einnig 19 þingmenn, Samfylking fékk 12,2% og 9 þingmenn og þá fékk VG fékk 10,9% atkvæða og 7 þingmenn. Tveir nýir flokkar náðu loks mönnum inn á þing; Björt framtíð sem fékk 8,2% og 6 menn kjörna og flokkur Pírata sem fékk 5,1% og 3 þingmenn. Aðrir flokkar fengu minna fylgi og komst Dögun næst því að ná inn þingmönnum, með 3,1%, Flokkur heimilanna fékk 3% atkvæða og Lýðræðisvaktin fékk 2,5%. Af þingmönnunum 63 sem nú setjast á þing verða 27 nýir, eða tæplega 43%. Hlutfall kynjanna á þingi breytist aðeins frá síðasta kjörtímabili. Konur eru nú 25 eða tæplega 40% þingmanna og karlar 38 eða um 60%. Viðbrögð oddvita flokka sem náðu mönnum á þing Gunnar Bragi Sveinsson fyrsti þingmaður NV kjördæmis. Einar K. Guðfinnsson. Guðbjartur Hannesson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.