Bæjarins besta - 24.02.2011, Side 10
10 FIMMTUDAGUR 24. FEBRÚAR 2011
Mannlegi
þátturinn mikilvægur
Finnbogi Oddur Karlsson hef-
ur farið býsna ótroðnar slóðir og
fengið að reyna ýmislegt í lífinu.
Þó að hann teljist enn til Grundar-
púkanna í Bolungarvík hefur
hann lengst af alið manninn sunn-
an heiða og fyrir vestan – það er
að segja í Bandaríkjunum. Hann
hefur farið víða frá því að hann
ákvað að hætta í skóla á tíunda
ári; búið í Texas og Arkansas,
ferðast um heim allan til að halda
fyrirlestra og loks snúið aftur á
æskuslóðir. Finnbogi, sem ef-
laust er mörgum kunnugur sé
starfsheitinu læknir skeytt aftan
við nafnið, segir hér frá heims-
hornaflakkinu, goðumlíkum
læknanemum og krókaleiðunum
sem lífið hefur leitt hann um.
Ágætur kuklari
Frá því að Finnbogi kom til
starfa á Heilbrigðisstofnuninni
síðastliðið vor hefur hróður hans
farið vaxandi og aðsókn í tíma
hjá honum er mikil, svo ekki sé
meira sagt. Hann sá sér þó fært
að taka frá stuttan tíma fyrir
blaðamann á febrúarsíðdegi.
„Þú verður að afsaka mig ef ég
lýg mikið að þér, ég er á þrjátíu
og sex tíma vakt og ósofinn,“ byrj-
ar hann og blikkar. Það verður
blaðamanni ljóst innan skamms
að húmorinn er aldrei langt undan
hvað Finnboga varðar. Þeir sem
leitað hafa sér aðstoðar hans bera
honum enda margir þannig sög-
una að hann sé persónutöfrum
gæddur.
„Ég hef nú ekki hugmynd um
af hverju það er svona mikil
ásókn í tíma hjá mér. Jú, jú, ég er
ágætur kuklari. Þetta er meira
kuklarastarf en læknisstarf.
Læknisfræði er svolítil listgrein
og svo eru fræðin auðvitað þarna
á bak við, en þau eru lítill hluti af
þessu,“ segir hann. „Mikill hluti
af því sem maður gerir er mann-
leg samskipti,“ bætir hann við.
Hann getur hins vegar ekki
neitað því að Vestfirðingar sækja
mikið í þjónustu hans. „Það
virðist vera einhver tálsýn um að
ég geti leyst fleira eða kunni
meira en kollegar mínir. Það er
nú kannski öllu flóknara en það -
en það er rétt að það er mikil
ásókn í tíma hjá mér. Við þurftum
að breyta þessu þannig að það
væri ekki opið fram í tímann– nú
er bara bókaður einn dagur í einu.
Ég var orðinn bókaður þrjár, fjór-
ar vikur fram í tímann, sem gekk
svo sem alveg, nema að ég gat
aldrei fengið fólk brátt nema ég
væri á vaktinni. Svo veiktist ég
og þurfti að vera frá í tvær vikur
og þá voru allt í einu tvö hundruð
manns sem þurftu nýja tíma.
Systemið fór alveg úr skorðum
þarna, svo við breyttum því.“
Var „svartur engill“
Finnbogi ber kollegum sínum
á Heilbrigðisstofnuninni vel sög-
una. „Mér finnst gott að vera
hérna. Maður hefur gott lið á bak
við sig. Yfirlæknirinn á skurð-
deildinni er afburðamaður og bú-
inn að vera hérna á vakt í rúm
tuttugu ár. Mjög fær og glöggur.
Örn, sem er yfirlæknir á heilsu-
gæslunni, hefur verið hér í fjögur
ár en yfirlæknir á heilsugæslu í
fimmtán, tuttugu ár. Hann er
mjög fjöl...,“ hann hikar og brosir
við, „...ekki þreifinn, það er víst
eitthvað annað. Fjölhæfur, meina
ég. Hann sér vel í gegnum flókin
mál og er skarpgreindur. Helgi
er líka eldklár, það deyr enginn
sem bjarga má ef hann er nálæg-
ur. Strákarnir hérna ungu eru
líka mjög efnilegir,“ segir hann.
Ef einhver munur er á nálgun
hans og starfsbræðra hans segist
Finnbogi helst telja það vera vest-
firskan anda; „Það þýðir ekkert
að vera með neinn barlóm á Vest-
fjörðum. Þá ertu bara sendur suð-
ur eða á hreppinn,“ segir hann og
hlær við.
Sjálfur leggur Finnbogi mikla
áherslu á mannleg samskipti.
„Það eina sem gerir mig vinsælan
hér er held ég að ég nenni að kjafta
við fólk. Ég kem eins fram við
alla – sama hvort það ert þú,
bæjarstjórinn eða róninn, þá tala
ég alveg eins. Það er mottóið. Ég
var líka úti í Bandaríkjunum í
tuttugu ár og þar lærir maður
rosalega kurteisi,“ segir Finn-
bogi, sem segir lækna smám sam-
an læra á samskiptaþátt starfsins.
„Þegar við komum út úr lækn-
isfræðideildunum er búið að
segja okkur að við séum eigin-
lega aðeins nær guði en englarnir.
Það rignir í nefið á okkur og við
trúum því að við séum bara alveg
við það að svífa. Svo lærum við
hægt og rólega, sumir reyndar
aldrei, að þetta er ekki alveg rétt,“
segir hann glettinn.
„Þegar ég var ungstúdent á
Landakoti var gamall sérfræð-
ingur þar sem kenndi okkur ansi
vel. Hann sagði að þegar við
kæmum út um dyrnar værum við
orðnir venjulegir borgarar og
hættir að vera læknar. Hann var
mjög virtur læknir sjálfur. Þetta
hlustaði ég svona aðeins á, en
var samt svona svartur engill í
einhvern tíma,“ segir Finnbogi.
Ennþá Grundarpúki
Þegar Finnbogi snéri aftur til
Vestfjarða í vor hafði hann verið
fjarverandi um nokkurn tíma.
Hann á þó ansi sterkar rætur hing-
að.
„Ég er fæddur í Reykjavík, en
kom þriggja mánaða gamall til
Bolungarvíkur og var skírður þar.
Ég kom svo á hverju sumri til
Bolungarvíkur þangað til að ég
var sextán, sautján ára. Ég var
alltaf í Reykjavík um vetur, nema
þegar ég var níu ára reyndar, því
þá hætti ég í skóla. Ég var dálítið
sjálfstæður,“ segir hann frá.
Skólakerfið á sjöunda áratugn-
um var ekki með alveg sama
sniði og í dag og aðhaldið ekki
hið sama. „ Ég hætti bara að
mæta í skólann. Ég fór út með
töskuna á morgnana og svo var
ég bara á bókasafninu eða að
drolla niðri í bæ. Hvorki skólinn
né mamma föttuðu þetta fyrr en
eftir fjóra mánuði, það er náttúru-
lega svo langt síðan, það liggur
við að þetta sé áður en að jóla-
sveinarnir fæddust, og í þá daga
var ekkert hringt heim. Þeir héldu
væntanlega að ég væri veikur
eða hefði verið sendur í sveit,
svona eins og vandræðastrákar.
En svo komst þetta upp og þá
kláraði ég veturinn í Bolungar-
vík,“ segir hann og glottir.
Það er þá ekki laust við að
hann hafi verið prakkari? „Ég
hefði nú sennilega verið settur á
einhver lyf, rítalín eða eitthvað, í
dag. Ég var ofboðslega sjálfstæð-
ur og fannst ég alltaf hafa rétt
fyrir mér – og finnst enn. Það
þarf að minna mig á að ég hafi að
minnsta kosti einu sinni haft rangt
fyrir mér,“ segir Finnbogi.
Hann kveðst líta á sig sem bæði
Reykvíking og Bolvíking. „Í Bol-
ungarvík er ég ennþá talinn vera
Grundarpúki - það vorum við
strákarnir sem vorum inni á
Grundum. Ég fékk viðurnefnið
Bogi litli á Grundunum því
langafi minn hét Bogi á Grund-
unum. Það þekkja mig allir þar
og taka mér eins og ég sé Víkari
ennþá. Þó að Ísfirðingar láti
stundum eins og þeir láta í Vík-
urunum þá þykir þeim samt vænt
um þetta óþekka lið. Maður á
hálfgert heima hérna líka,“ segir
hann.
Krosslagði
fingur á fyrsta degi
Þó að skólaferillinn hafi orðið
fyrir smá áfalli þarna á tíunda ári
setti skrópið ekki stærra strik í
reikninginn en svo að Finnbogi
útskrifaðist úr læknisfræðideild
Háskóla Íslands árið 1987. Hann
varði kandídatsári sínu á Akur-
eyri og hélt því næst út í héruð í
eitt ár.
Hann segir það töluvert stökk
út í djúpu laugina þegar námsárin
eru að baki og alvaran tekur við.
„Það er engin aðlögun í læknis-
fræði. Um leið og maður kemur
í læknisstarf, hvort sem það er
sem læknanemi eftir fjórða árið
eða sem kandídat, þá er manni
afhentur sími, eða píptæki í
gamla daga, lyklar, og manni er
sagt – jæja, ég er farinn til Spánar.
Þá situr maður bara uppi með
þetta. Maður er náttúrulega búinn
að læra heilmikið og aðeins búinn
að þreifa fyrir sér, en er samt
auðvitað alveg blankur. Maður
krossleggur bara fingur og biður
til Þórs eða Guðs eða hvers sem
það er. Svo lærir maður bara.
Maður er í þjálfun rosalega
lengi,“ útskýrir Finnbogi.
Meðal þess sem lærist með
árunum er hin mannlega hlið
starfsins og eins að takast á við
þau áföll sem einnig geta fylgt
starfi sem læknir. „ Maður gerir
náttúrulega mistök, einföld mis-
tök, eins og ég gerði bæði á með-
an ég var í læknanáminu og var
að fara út í héruð og eftir að ég
útskrifaðist og þóttist kunna heil-
mikið – þar sem maður var að
skaða fólk. Ég held ég hafi nú
ekki drepið marga, að minnsta
kosti ekki fleiri en má telja á
annarri hendi,“ segir Finnbogi
og brosir skakkt.
„Maður lærir af því. Stundum.
Ekki alltaf og ekki allir læra af
því. Þeir loka bara á það, það er
auðveldara. Ég var heppinn og
lærði af því. Og það er ekkert
sem maður lærir að takast á við
áður en maður fer af stað, heldur
bara á ferðinni,“ segir Finnbogi.
„Maður sér mikið af þungum og
erfiðum hlutum í þessu, en gerir
jafnframt skemmtilega hluti. Það
er gaman þegar maður er að
bjarga mannslífum og lækna
fólk, en svo er erfitt þegar maður
er að láta fólk deyja eða getur
ekkert gert fyrir það. Þess vegna
er maður kannski kaldhæðinn,
svolítið,“ bætir hann við.
Á framabraut í Texas
Eftir héraðslæknastörf hélt
Finnbogi til Texas í lyflæknis-
sérnám. „Ég tók ameríska prófið
og stóðst það með glans og komst
inn í eitt besta prógrammið, í
Houston. Bandaríkjamenn eru
náttúrulega 300 og eitthvað millj-
ónir manns, fimmtíu ríki og pró-
grömmin þar eru jafn misjöfn og
sveitarstjórnin í Súðavík og borg-
arstjórnin í Reykjavík, að stærð
og gæðum og öllu,“ útskýrir Finn-
bogi.
Þegar hann hélt utan var Houst-
on um þriggja milljón manna
borg og við læknamiðstöðina þar
sem hann nam og starfaði unnu
um 60.000 manns. „Þetta var ið-
andi læknamiðstöð og mikið
gaman. Það var svakaleg impres-
sjón fyrir mig að sjá þetta, maður
var bara agndofa. Þetta þótti rosa-
lega flott á sínum tíma,“ segir
Finnbogi, sem dvaldist í borginni
í tólf ár. Eftir að sérnámi hans
lauk var honum boðin prófessors-
staða við stofnunina.
„Venjulega mega erlendir
læknar ekki stoppa svona lengi,
þeir verða að fara frá Bandaríkj-
unum í tvö ár eftir að námi lýkur.
Maður getur fengið undanþágu
ef maður fer eitthvert á bak við
fjöllin og vinnur hjá indjánunum
eða afdalafólkinu, en ég fékk sem
sagt að vera áfram í Houston og
fékk prófessorstöðu í tveimur
deildum. Það gekk bara mjög