Morgunblaðið - 13.01.2015, Blaðsíða 4
4 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 13. JANÚAR 2015
Ágúst Ingi Jónsson
aij@mbl.is
„Þetta var með alversta móti á
sunnudaginn og í gripahúsunum
sást ekki stafna á milli vegna meng-
unarmisturs,“ segir Sigvaldi H.
Ragnarsson, bóndi á Hákonar-
stöðum á Efra Jökuldal. Mikil
brennisteinsmengun mældist þar á
sunnudaginn og menn sem voru á
ferð í grennd við Kárahnjúka sögðu
að mikil móða hefði verið til landsins
og þeir hefðu nánast keyrt á vegg.
Á sunnudag mældist gildi brenni-
steins, SO2, um 7.800 míkrógrömm í
rúmmetra á handmæli á Eiríks-
stöðum á Jökuldal. Við slíkt ástand
er fólki ráðlagt að halda sig innan-
dyra og loka gluggum. Sigvaldi segir
að kalt hafi verið og stillt en vindur
norðvestlægur við gosstöðvarnar í
Holuhrauni. Við slíkar aðstæður
virtist mengunin verða hvað mest,
en reynt sé að loftræsta húsin. Í gær
var gott veður og bjart eystra.
„Í fjárhúsunum mætir brenni-
steinsmengunin hlýju og röku lofti
og pakkast einhvern veginn saman.
Um tíma á sunnudaginn var eins og
að horfa inn í rými sem væri fullt af
lyktarlausum útblæstri frá dísilvél,“
segir Sigvaldi. Hann segist ekki
gera sér grein fyrir hvaða áhrif
þessar aðstæður hafi á féð, sem allt
er á húsi, en segir að það kæmi sér
ekki á óvart að ungviði sem nú er á
fyrsta vetri gengi hraðar úr sér en
ella vegna lungnavandamála.
Ryðhúð á járni
Þá segir hann að mengunin hafi
greinilega ýmiss konar önnur áhrif
og skapi vandamál sem ekki hafi áð-
ur verið þekkt í sveitinni. „Við erum
langt inni í landi og hér hefur eig-
inlega aldrei ryðgað nokkur skap-
aður hlutur. Hér eru hálfrar aldar
gömul bárujárnsþök sem varla hefur
séð á, en í haust, þegar eldgosið var
búið að malla í rúman mánuð, fórum
við að taka eftir því að farið var að
falla á þau.
Einnig er járn sem áður var
glansandi komið með ryðhúð og þar
sem var smáskemmd á tækjum er
komin útfelling út af brennistein-
inum í loftinu,“ segir Sigvaldi á Há-
konarstöðum.
Ljósmynd/Halla Eiríksdóttir
Vetur Hákonarstaðir í fannferginu í febrúar fyrir ári. Mistur frá eldgosinu lá yfir Jökuldal og Hrafnkelsdal á sunnudag en bjart var í gær.
Sást ekki stafna á milli í húsunum
Mengunarmistur í fjárhúsum á Hákonarstöðum á Efra Jökuldal Fellur á járn á Jökuldal þar sem
aldrei ryðgaði áður Kæmi ekki á óvart að kindur á fyrsta vetri þyrftu að glíma við lungnavandamál
„Það er ekki hægt að segja að smá-
fuglarnir á Jökuldal eigi gleðilegt
ár,“ skrifaði Skarphéðinn Þórisson,
líffræðingur á Náttúrustofu
Austurlands á Egilsstöðum, til
fuglavina á sunnudaginn. Smá-
fuglar hafa fundist dauðir í Hrafn-
kelsdal og telur Skarphéðin að
mengun frá eldgosinu í Holuhrauni
sé líklegasta orsökin eða þá einhver
önnur eitrun.
Gísli Pálsson, bóndi á Aðalbóli í
Hrafnkelsdal, fann tvo dauða
auðnutittlinga við fjárhús sín heima
við bæ rétt fyrir jól og Páll bróðir
hans fann þrjá við Aðalból II hinn 2.
janúar. Aðalból er um 60 kílómetra
austnorðaustan við gosstöðvarnar.
Nokkuð sem menn
muna ekki eftir
Óljósar fréttir voru um dauða
fugla nærri gosstöðvunum í haust
en Skarphéðinn sagðist í gær ekki
hafa upplýsingar um fjölda fugla
eða tegundir. Þá rifjaði hann upp
að í haust fundust dauðar mýs úti í
haganum bæði í Nesjum og í Lóni
um svipað leyti og mikil mengun
mældist á Höfn í Hornafirði.
„Að finna smáfugla dauða úti um
hvippinn og hvappinn er nokkuð
sem menn muna ekki eftir og miðað
við fyrri ár hefur ekkert verið að
veðri,“ segir Skarphéðinn. „Mér
finnst líklegt að fleiri dauðir fuglar
séu lengra frá bæjum, því þeir
hverfa fljótt í fönnina ef snjóar eða
hreyfir vind. Mér finnst full ástæða
til að hafa áhyggjur af þessu því
menn vita ekki hversu mikil meng-
un er í þessum dölum, sem liggja
inn að hálendinu og mengunin get-
ur auðveldlega sigið niður í þá,“
segir Skarphéðinn.
Sjálfvirkir mælar til að mæla
mengunina eru á Egilsstöðum og
Vopnafirði og reyndist mengun þar
margfalt minni heldur en á hand-
virka mælinum á Eiríksstöðum á
Jökuldal á sunnudaginn. Skarphéð-
inn segist hafa heyrt á bændum að
þeir hafi áhyggjur af skepnum sín-
um og brýnt sé að fylgjast vel með
framvindunni.
Hann segir að á náttúrustofunni
sé reynt að safna upplýsingum, en
að náttúrustofurnar séu ekki með
skilgreind verkefni í þessu sam-
bandi. aij@mbl.is
Ekki gleðilegt ár hjá smáfuglum
Auðnutittlingar finnast dauðir í Hrafnkelsdal Gosmengun líkleg skýring
Andri Steinn Hilmarsson
ash@mbl.is
„Um áraraðir hefur verið vísir að sér-
námi í læknisfræði á Íslandi. Við sam-
einingu sjúkrahúsanna í Reykjavík
skapaðist grundvöllur fyrir að efla
sérnám í nokkr-
um greinum, með-
al annars lyflækn-
ingum,“ segir
Friðbjörn Sig-
urðsson, fram-
haldsmenntunar-
stjóri í lyflækn-
ingum á Land-
spítala. Hann
segir sérnáms-
lækna, sem eru nú
um 25 talsins á
lyflækningasviði, ákaflega mikilvæga
starfskrafta á öllum sjúkrahúsum.
„Hvað lyflækningar á Landspítala
varðar, þá voru viss vandamál. Hús-
næðið var afar óhentugt, lyflækning-
ar á þremur stöðum í Reykjavík,
bráðamóttökur í tveimur húsum og
ekkert almennilegt göngudeildarhús.
Þá var ef til vill viss skortur á skiln-
ingi á vanda lyflækninga, sem alls
staðar í heiminum hafa átt við vanda
að etja vegna aukinna verkefna og
fjölgunar aldraðra,“ segir Friðbjörn.
Eftir bankakreppuna jókst vandinn
hins vegar hratt og sumarið 2013
náðu lyflækningar Landspítalans
botninum.
„Það verður eiginlega hrun og svið-
ið er forsíðufrétt í öllum fjölmiðlum,“
segir Friðbjörn. Þá gekk erfiðlega að
fá unglækna og aðra til starfa á sviði
lyflækninga.
Í september 2013 gáfu þeir Björn
Zoëga, þáverandi forstjóri Landspít-
alans, og Kristján Þór Júlíusson, heil-
brigðisráðherra, út yfirlýsingu sem
sneri að því að endurreisa lyflækn-
ingasvið Landspítalans. Var ákveðið
að setja framhaldsmenntun ung-
lækna í lyflækningum í forgang. Það
reyndist vera heillaríkt spor.
Öll starfsemi sviðsins efldist
„Við töldum að með því að efla ung-
læknana myndum við efla sérfræði-
læknana líka og reyndar alla starf-
semi sviðsins, og sú varð raunin,“
segir Friðbjörn. Hann segir að starfs-
ánægja hafi stóreflst á lyflækninga-
sviðinu með endurreisn sérnámsins.
Sérstök fjárveiting fékkst til sér-
námsins frá heilbrigðisráðherra árið
2013, en hún skipti sköpum fyrir
verkefnið; hægt var að útvega
kennsluefni og leita eftir erlendum
samstarfsaðilum. Umgjörð um sér-
námið var stórefld, m.a. með ráðn-
ingu fimm kennslustjóra í hlutastarf
og ráðinn var skrifstofustjóri.
„Það verður að segjast að þetta
hefur gengið mjög vel. Vissulega er-
um við ekki komin út úr öllum vanda,
en nú erum við komin með fullmann-
að prógramm, námslæknar vilja
vinna hjá okkur og við erum búin að
endurskipuleggja námið frá grunni.“
Þurfti utanaðkomandi aðila
„Okkur var ljóst, verandi svona lítil
þjóð og land, að við þyrftum utanað-
komandi aðila til að horfa yfir öxlina á
okkur,“ segir Friðbjörn en boðið
verður upp á fyrri hluta sérnáms á
spítalanum. Hann segir ástæðu þess
að einungis er boðið upp á fyrri hluta
námsins hérlendis vera mikilvægi
þess að námslæknar haldi utan og
sjái hvernig hlutirnir eru gerðir ann-
ars staðar.
Ýmsum möguleikum um samstarf
var velt upp að sögn Friðbjörns.
Meðal annars í Bandaríkjunum, á
Norðurlöndum og í Bretlandi.
„Við komumst að þeirri niðurstöðu
að það væri best að tengjast Bret-
unum. Þeir eru með mestu hefðina í
kennslu og sérnámi og mikla um-
gjörð í kringum námið,“ segir Frið-
björn en farið var í samstarf við The
Royal College of Physicians sem tók
mjög vel í málaleitan Íslendinganna,
að sögn Friðbjörns.
„Sendinefnd fór á fund í Bretlandi í
október. Það var ákveðið að fylgja
þessu eftir og höfum við átt nokkra
símafundi með þeim,“ segir Frið-
björn en Tómas Þór Ágústsson,
kennslustjóri lyflækninga á Land-
spítalanum, hefur þar sinnt lykilhlut-
verki. Reiknað er með að formlegt
samstarf hefjist nú í sumar en áður
þarf töluverða undibúningsvinnu, t.d.
munu Bretarnir halda námskeið hér,
þar sem leiðbeinendur hljóta sér-
staka þjálfun.
Friðbjörn segir að Bretarnir taki
svo námið út í framhaldinu og veiti
því vonandi vottun. „Við þurfum mik-
ið á því að halda að fá alþjóðlega vott-
un á þetta nám. Þegar okkar náms-
læknar fara utan mun það líta allt
öðruvísi út að einhver utanaðkomandi
aðili votti að þetta sé gott nám sem
við erum að bjóða upp á,“ segir Frið-
björn. Bretarnir eru með sérfræði-
próf sem þeir hafa boðið að tekin
verði að miklu leyti hér á Íslandi, að
sögn Friðbjörns.
Umskipti á lyflækningasviði
Starfsánægja hefur stóreflst frá 2013 á lyflækningasviði Landspítalans með endurreisn sérnámsins
Boðið verður upp á fyrri hluta sérnáms hérlendis í samvinnu við The Royal College of Physicians
Morgunblaðið/ÞÖK
Lyflækningar Bretarnir munu taka
út námið sem fer fram hérlendis.
Friðbjörn
Sigurðsson