Morgunblaðið - 26.01.2015, Blaðsíða 4
4 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 26. JANÚAR 2015
Morgunblaðið/Þórður
Geymt við -150°C Ólafur Eysteinn Sigurjónsson, forstöðumaður stofn-
frumuvinnslu Blóðbankans, tekur stofnfrumur sjúklings úr frysti.
SVIÐSLJÓS
Anna Lilja Þórisdóttir
annalilja@mbl.is
Um 1.200 eru á skrá Blóðbankans
yfir stofnfrumugjafa hér á landi og
átta Íslendingar hafa farið úr landi
undanfarin ár til að gefa stofn-
frumur, en þörf er á því að fleiri
skrái sig sem gjafa. Í Blóðbank-
anum eru gerðar tilraunir með
stofnfrumur, sem tengjast m.a. því
að smíða líffæri. Forstöðumaður
rannsókna og nýsköpunar þar segir
að ýmsar goðsagnir séu á kreiki um
lækningamátt stofnfruma.
Allir skráðir stofnfrumugjafar
hér á landi koma úr röðum blóð-
gjafa Blóðbankans og er skilyrði að
þeir hafi gefið blóð a.m.k. fimm
sinnum og séu á aldrinum 18–40 ára
þegar þeir eru skráðir. Þegar blóð-
gjafi ákveður að verða stofn-
frumugjafi er gerð vefjaflokkun
með því að taka blóðsýni og nið-
urstaðan síðan geymd í stofn-
frumugjafaskrá, en Blóðbankinn er
í samstarfi við norsku stofn-
frumugjafaskrána. Þeir sem þurfa á
stofnfrumum að halda eru oftast
með illkynja blóðsjúkdóma eða
eitlaæxli. Ef hentugur stofn-
frumugjafi finnst ekki innan fjöl-
skyldu er leitað í skránni að ein-
staklingi sem er með sömu vefja-
flokkun. Fyrst er leitað í því landi
sem sjúklingurinn býr í; beri það
ekki árangur er gerð leit á heims-
vísu, þ.m.t. í norsku skránni. Sé ein-
hver á skrá með sama eða mjög lík-
an vefjaflokk og sjúklingurinn er
þess farið á leit að hann gefi stofn-
frumur.
Hér á landi eru ekki fram-
kvæmdar stofnfrumugjafir á milli
einstaklinga. Þeir Íslendingar sem
þurfa á stofnfrumugjöf að halda
fara því utan.
Þegar einstaklingur gefur stofn-
frumur er honum gefið lyf sem rek-
ur stofnfrumurnar út úr beinmergn-
um út í blóðrásina og þannig er
hægt að safna þeim með blóðskilju.
„Stofnfrumurnar endurnýja sig og
það er engin hætta á að sá sem þær
gefur verði uppiskroppa með þær,“
segir Jórunn Ósk Frímannsdóttir
Jensen, forstöðumaður blóðsöfn-
unar Blóðbankans. Hún segir að
þörf sé á fleiri stofnfrumugjöfum
hér á landi, hugsanlega séu ekki all-
ir meðvitaðir um þennan möguleika.
Blóðbankinn verði vefjabanki
„Tilgangur okkar með því að
vinna með stofnfrumur er tvíþætt-
ur,“ segir Ólafur Eysteinn Sigur-
jónsson forstöðumaður stofnfrumu-
vinnslu Blóðbankans. „Annars
vegar í rannsóknarskyni þar sem
við rannsökum stofnfrumur sem
mynda bein og brjósk. Vonandi get-
um við í framtíðinni búið það til úr
frumunum, þannig að Blóðbankinn
verði líka vefjabanki með bein og
brjósk á lager, vonandi síðar taugar
eða líffæri.“ Þetta er kallað vefj-
averkfræði að sögn Ólafs og er unn-
ið í samstarfi lækna, verkfræðinga,
líffræðinga og fleiri fagstétta.
Hinn tilgangurinn með stofn-
frumuvinnslunni er í lækningaskyni,
en talsvert er um að teknar séu
stofnfrumur úr krabbameinssjúkl-
ingum áður en þeir hefja lyfja-
meðferð. Þær eru geymdar í Blóð-
bankanum við -150°C og síðan
notaðar við meðferð þeirra. „Þá er
fólk að fá sínar eigin frumur,“ segir
Jórunn. „Þetta er kallað há-
skammtalyfjameðferð með stofn-
frumustuðningi.“
Víða erlendis eru reknir stofn-
frumubankar þar sem einstak-
lingum gefst kostur á að geyma eig-
in stofnfrumur til hugsanlegra
lækninga. Spurður um hvort mögu-
leiki sé á að láta taka úr sér stofn-
frumur og geyma þær í Blóðbank-
anum ef á þyrfti að halda í framtíð-
inni segir Ólafur svo ekki vera.
Fáið þið aldrei fyrirspurnir um
hvort þið bjóðið upp á svona þjón-
ustu? „Jú, margar á ári,“ segir Ólaf-
ur. „En af siðferðilegum ástæðum
myndi Blóðbankinn ekki gera það.
Það eru ýmsar goðsagnir varðandi
stofnfrumur og gagnsemi þeirra.“
Stofnfrumuferðamennska
Ólafur segir að það sé ekki að
ástæðulausu að stofnfrumur hafa
verið kallaðar snákaolía 21. aldar-
innar og það er til nokkuð sem kall-
ast stofnfrumuferðamennska. Fólk
fer til landa eins og t.d. Kína eða
Rússlands því að þar er því lofað að
hægt sé að lækna hitt og þetta með
stofnfrumum. En það er bara til
ein viðurkennd klínísk meðferð þar
sem þessar frumur eru notaðar og
það eru meðferðir við krabbameini
í eitla- og mergfrumum. Annað er á
tilraunastigi,“ segir Ólafur.
„Það er ekki þar með sagt að
stofnfrumur séu ekki mikilvægar;
þær hjálpa okkur að skilja hvernig
sjúkdómar myndast og hjálpa okkur
við lyfjaprófanir. Flest annað verð-
ur hugsanlega að veruleika í fram-
tíðinni.“
1.200 vilja gefa stofnfrumur sínar
Þörf á fleiri stofnfrumugjöfum Nýttar við lækningar Margar goðsagnir um frumurnar
Gera tilraunir sem m.a. tengjast líffærasmíð Blóðbankinn geymir stofnfrumur sjúklinga
Morgunblaðið/Þórður
Forstöðumaður Jórunn Ósk Frí-
mannsdóttir Jensen.
Morgunblaðið/Þórður
Blóðgjöf Allir íslenskir stofnfrumugjafar koma úr hópi blóðgjafa. Hér er
einn slíkur með Lilju Jónsdóttur hjúkrunarfræðingi í Blóðbankanum.
Stofnfrumur
» Allir skráðir stofnfrumugjaf-
ar hér á landi koma úr röðum
blóðgjafa Blóðbankans.
» Skilyrði að þeir hafi gefið
blóð a.m.k. fimm sinnum og
séu á aldrinum 18–40 ára þeg-
ar þeir eru skráðir.
» Þeir sem þurfa á stofn-
frumum að halda eru oftast
með illkynja blóðsjúkdóma eða
eitlaæxli.
» Þeir Íslendingar sem þurfa á
stofnfrumugjöf að halda fara
því utan.
Skógarhlíð 18 • Sími 595 1000
www.heimsferdir.is
B
irt
m
eð
fy
rir
va
ra
um
p
re
nt
vi
llu
r.
H
ei
m
sf
er
ð
ir
ás
ki
lja
sé
r
ré
tt
til
le
ið
ré
tt
in
g
a
á
sl
ík
u.
A
th
.a
ð
ve
rð
g
et
ur
b
re
ys
t
án
fy
rir
va
ra
.
Kanarí
Frá kr.107.900
m/allt innifalið
Netverð á mann frá kr. 107.900 á Waikiki m.v. 2 í herbergi.
3. febrúar í 7 nætur
Ísfirðingar fögnuðu því í gær að
hnattstaða jarðar veldur því að sól-
in getur nú kíkt yfir fjallgarðinn
sem umlykur bæinn í fyrsta skipti í
um tvo mánuði.
Hún lét að vísu ekki á sér kræla
heldur faldi sig á bakvið skýjahulu
en engu að síður gerðu heimamenn
sér glaðan dag í Sólarkaffi í Edin-
borgarhúsinu og nutu veitinga.
Kvenfélagið Sýn á Ísafirði og Kven-
félagið Hvöt í Hnífsdal bökuðu og
seldu pönnukökur.
Sólgata ber nafn með rentu
25. janúar hefur jafnan verið sér-
stakur dagur í huga Ísfirðinga og
samkvæmt íbúa í bænum er algengt
að fólk komi saman í heimahúsum
af því tilefni til þess að fagna því að
sólin sé komin svo hátt á loft.
Hins vegar hafa Ísfirðingar ekki
áður komið saman á einn sam-
komustað eins og gert var í Ed-
inborgarhúsinu í gær. Í hugum Ís-
firðinga þykir það marka sérstök
tímamót þegar sólin skín á Sólgötu
sem er efsta gatan á eyrinni en öll
meginumferð á staðnum fer um
götuna. vidar@mbl.is
Ljósmynd/Sigurjón J. Sigurðsson
Sólin komin Matthildur Helgadóttir Jónudóttir kynningarstjóri í Edinborgarhúsinu sporðrennir pönnuköku.
Sólinni fagnað á Ísafirði
Reykjavíkurborg er opin fyrir því
að skoða frekari samvinnu eða sam-
einingar hafna á suðvesturhorninu
með þátttöku Faxaflóahafna. Þar
er Hafnarfjarðarhöfn fyrsti kostur.
Bókun þessa efnis var samþykkt
á síðasta fundi borgarráðs.
„Hugmyndir um sameiningu og
samstarf þurfa að fela í sér hagræð-
ingu í rekstri og fjárfestingu inn-
viða til framtíðar og stuðla að því
að markmiðin með stofnun Faxa-
flóahafna séu höfð í heiðri,“ segir
jafnframt í bókun borgarráðs.
Stjórn Faxaflóahafna hafði áður
samþykkt sameiginlega stefnumót-
un um hafnarmál við Faxaflóa á
fundi sínum 9. janúar s.l.
Sameining hafna við Faxaflóa skoðuð