Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 45
H Ú N A V A K A 43
– Hvernig eru augun?
Lótus var farin að gráta, tárin runnu hljóðlaust niður fallegar kinnarnar.
– Þau eru brún amma, þau eru brún.
Ég neyddi stirðar varirnar til að brosa og brátt sá ég útlínur þeirra sem voru
hjá mér. Dálítið frá hylkinu mínu stóð ráðið. Þau voru þarna öll með tölu og
ég fann óendanlegan kærleik frá þeim. Ég náði augnsambandi við
leiðbeinandann minn til margra lífa, Rean. Hann sendi svo hreinan kærleik af
því að hann skildi hvað ég hafði gengið í gegnum. Hann hafði verið með mér
allan tímann frá því í Egyptalandi, ég fann hvað hann gladdist innilega.
Þarna voru öll börnin, svo falleg og svo glöð og maðurinn sem stóð þarna,
var fjandi myndarlegur. Hann brosti til mín og ég sá að Lótus litla hafði breytt
öllu hjá afa sínum nema augunum. Ég fann hve hann var glaður að ég var
komin og ég vissi í hjarta mínu að samveru okkar var ekki lokið, við myndum
hefja yndislegt tímabil, laus við að hafa áhyggjur af skemmdu baki eða ónýtu
nefi.
Vinkonur mínar voru þarna og ég sá að þær höfðu lagt allt sitt til að koma
mér til baka, ég sendi þeim ást og fékk ást. Ferðafulltrúinn, vinkona mín, hafði
búið sig uppá í einkennisbúning ferðamálaráðsins mér til heiðurs, hún brosti
og þetta bros sendi mér aukinn kraft, tárin í augnkrókunum yljuðu hjartanu
óendanlega mikið. Hinar þrjár nornasystur mínar höfðu líka búið sig uppá,
allar voru þær í rauðum skikkjum með gylltum bryddingum, ég vissi að þetta
voru kraftskikkjur og þær höfðu greinilega ætlað sér að berjast með mér og
gert það. Sú villta fallega vinkona mín var búin sem egypsk drottning, frægi
glasalæknirinn minn var demöntum skreyttur en klæddur eins og indjánar og
fallega kraftaverkakonan mín, ástkona prestsins, var eins og rússnesk keisaraynja.
Þær vinkuðu glaðlega og ég sá að þær grétu eins og ég. Var hægt að eiga svo
góða vini? Ég sendi Uppsprettunni þakklæti mitt og fékk kærleik til baka. Ég
fékk að velja og ég var þakklát öllum sem ég elskaði að hafa hjálpað mér.
– Hvíldu þig, amma, við förum heim í kvöld. Þú sefur núna og vaknar
hressari.
Maðurinn minn elskulegur beygði sig niður að mér, ég var honum ekki
lengur reið.
– Hvernig lít ég út?
Hann brosti.
– Þannig að ég vildi gjarnan vera einn með þér í tjaldi þar sem enginn væri
nærri.
Ég glotti og sá að vinir mínir í ráðinu glottu líka. Lótus hló.
– Ég gerði það sem ég kunni best, bjó til nánast eftirmynd af mér.
Ég lokaði augunum. Veröldin var fullkomin og ég var hissa á sjálfri mér.
Hvers vegna hafði ég verið hrædd? Ég hafði í raun aðeins hræðst sjálfa mig. Ég
var það eina sem gat skaðað mig. Veröldin sjálf var fullkomin og full af ást,
framtíðin var samfelld hamingja, það eina sem þurfti að gera var að velja
hana.