Húnavaka - 01.05.2010, Blaðsíða 106
H Ú N A V A K A 104
RAGNHEIÐUR BLÖNDAL, Brúsastöðum:
Kynlegir kvistir
Mér datt í hug að skrifa undir þessari fyrirsögn, máske kæmu fleiri af svipuðum toga og
eins gætu þá aðrir rifjað upp eitthvað af samskonar efni.
Þegar ég var að alast upp sem krakki og unglingur á heimili foreldra minna á
Brúsastöðum í Vatnsdal var stundum á heimilinu gömul kona, Steinunn
Sigurðardóttir að nafni. Ég segi ,,stundum“ því hún var ,,á sveitinni“ sem
kallað var og oft ekki mjög lengi í stað. Steinunn var satt að segja enginn
aufúsugestur orðin á bæjunum, sérvitur og dálítið örg í skapi. Ef hún hefði
verið kind hefði eflaust verið sagt að hún ,,rækist illa“ og var það oft fyrir
þrábeiðni hreppsnefndarinnar, svo og meðlagið, að hún var tekin einhvern
tíma á bæina. Hún var þó í rauninni besta manneskja og ákaflega barngóð,
það er að segja við lítil börn.
Steina átti heima á Bakka í Vatnsdal og var, þegar þessi saga gerðist, á
nokkuð góðum aldri. Oft var hún nefnd ,,Steina fótalausa“ en þá nafngift
hlaut hún vegna þess að það vantaði á hana báða fætur frá miðjum legg.
Þannig vildi til að einn vetur milli jóla og nýárs lagði hún af stað í ferðalag,
auðvitað fótgangandi, ásamt manni þar í sveitinni. Ætlunin var að fara vestur
í Víðidal og hitta þar kunningja og skyldmenni. Þau lögðu leið sína vestur yfir
hálsa, frá Flögu og ætluðu að koma niður hjá Melrakkadal eða þar um slóðir
en margt fer öðruvísi en ætlað er. Þau lentu í norðan stórhríð með frosti og
urðu að grafa sig í fönn, vestur á hálsunum, að því talið er, að vísu fór hann
víst fljótlega af stað til að leita byggða en hún treysti sér ekki lengra.
Mér er til efs að nokkur núlifandi viti glöggt hve vistin í snjónum var löng
en fullvíst er að líðanin hefur ekki verið góð því þau kól bæði á fótum. Taka
varð af henni báða fætur um mjóalegg en hann missti tær af báðum fótum.
Hefði þetta gerst nú til dags myndi eflaust ekki hafa farið svona illa þegar hver
manneskja gengur með síma í vasanum og björgunarsveitir ætíð reiðubúnar að
leita ef einhvers er saknað.
Lengi lágu þau á sjúkrahúsinu á Blönduósi og var þá haft eftir einhverjum
þar að þau hefðu sífellt jagast og kennt hvoru öðru um ófarirnar.
Steina hafði, áður en hún varð svona fötluð, unnið töluvert fyrir sér með
saumaskap bæði hér nyrðra og eins í Reykjavík. Þar hafði hún unnið lengi og
lært hjá klæðskerameistara, þótti mjög vandvirk og myndarleg í verkum og
saumaði jafnvel jakkaföt á karla. Nú varð erfiðara um vik eftir þetta hræðilega
óhapp, hún var áfram í Vatnsdalnum og vann í höndunum fyrir fólk eftir mætti